Þegar manni verður á

Í mér blundar fól. Stundum kem ég illa fram við mína bestu og tryggustu vini. Svo varð að morgni þessa dags er ég nuddaði einum mínum bestu vina, Einari blómasala, upp úr gömlum, meintum ávirðingum, að því marki að honum var svo misboðið að hann rauk á dyr eftir morgunbað án þess að fá sér kaffi með okkur körlunum. Það er illa komið fyrir manni þegar maður veitist svo hart að heiðri þeirra manna sem hafa sýnt manni hvað samfelldasta vináttu og tryggð í gegnum tíðina og hættir til vináttunni og frekari samskiptum. Því er ekki um annað að ræða fyrir þennan blekbera en að biðjast auðmjúklega afsökunar á misgjörðum og vonast eftir fyrirgefningu. 

Að svo mæltu skal vikið að hlaupi dagsins. Væntanlega hefur páskahelgin haft einhver áhrif á mætingu, en þessir mættu: próf. Fróði, Flosi, Benz, skrifari, Pétur og Heiðar. Dr. Jóhanna og Helmut mættu hlaupin í Brottfararsal og kváðust þurfa að sinna fjölskyldumálefnum (hvað skyldi fólki líðast lengi að koma með svona afsakanir?). Tvískipting hópsins var með þeim hætti að þeir Pétur og Heiðar spurðu okkur aumingjana ekki einu sinni hvað við ætluðum að gera. Þeir bræddu með sér sín eigin plön um Kársnes og 15 km tempó. Við hinir sýndum áhuga á Þriggjabrúa. "Ekki styttra," sagði Gústi.

Maður er smám saman að hlaupa sig niður á gamalt form. Ágætis tempó þegar í upphafi, Flosi er með sér prógramm og fer hægar. Við fórum þetta saman, Fróði, Benz og skrifari. Að vísu fór prófessorinn fram úr okkur og tók sveigi og trekanta, en við náðum honum alltaf aftur. Hann hefur tekið upp þann leiða sið eftir Þorvaldi Gunnlaugssyni að hlaupa þvers og kruss rétt fyrir framan næstu hlaupara á eftir og þvælast fyrir þeim. Þetta er óþolandi! Stundum langar mann til þess að bregða fæti fyrir svona hlaupara.

Í Nauthólsvík staldraði Benzinn við og ætlaði að bíða eftir Flosa. Við Gústi héldum áfram austur úr út að Kringlumýrarbraut og svo yfir brú. Þá var Boggabrekkan lögð að velli og tekin í einum rykk. Við sáum Þorvaldi Gunnlaugssyni bregða fyrir akandi um þetta leyti og skýrir væntanlega hvers vegna hann var ekki að hlaupa með okkur. Staldrað stutt við á Bústaðavegi og svo farið yfir hjá RÚV, Kringlu og yfir hjá Fram-heimili. Hér var Ágúst kominn eitthvað fram úr skrifara og var svo það sem eftir lifði hlaups.

Skrifari fann að honum óx þrek og kraftur og hann var að finna fyrir gömlu formi. Hljóp af krafti án þess að hafa nokkuð fyrir því. Niður Kringlumýrarbraut og yfir umferðargötur á ljósum. Sæbrautin steinlá, en við Hörpu var gengið spottakorn, svo var farin Ægisgata og sú leið tilbaka. Vitað var að prófessorinn lengdi út í Ánanaust og fór Grandaveginn til baka og náði 15,5 km, meðan skrifari fór þessa hefðbundnu 13,6 km sem Þriggjabrúaleiðin hefur mælst. Flosi fór 69, 17,3 km. Heiðar og Pétur fóru sumsé á Kársnesið, eina 18 eða 19 km, þar af 15 km á 4:20 tempói.

Næstu hlaup: sumir hafa fyrir venju að hlaupa langt á Föstudaginn langa (þar af nafnið), en þessi hlaupari fer næst frá Laug laugardag kl. 9:30 - gæti orðið Stokkur.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel gert drengir ! Við Pétur hófum tempóið snemma enda ekki annað í boði. Hraðinn ekki svo mikill í byrjun enda kunnuglegur mótvindur við flugvöll. Náðum okkur þó á ágætisskrið eftir fyrstu kílómetrana. Það var svo eftir uþb 11 km tempó að skórnir hjá Pétri fóru að fljúga, að því er virtist ósjálfrátt. Fór svo að ungi maðurinn þurfti að horfa á eftir fjörmjólkurmanninum svo um munaði nokkur hundruð metrum í restina. Allt gekk þetta þó með ágætum og menn sáttir í leikslok, Pétur með 18 km en ég tæpa 21.

Heiðar Halldórsson (IP-tala skráð) 27.3.2013 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband