Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Annar Föstudagur

Í hlaup dagsins mættu ekki margir. Þeir katólsku trúbræður Denni og Benz, Maggie, Þorvaldur, Rúna og svo eitthvert ungmenni af Nesi. Maggie sagði: "Það var ungur maður af Nesi." Var það Denni, var spurt. "Nei, Denni er ekki ungur," sagði Maggie. Var það Heiðar? var spurt. "Hver er það" spurði Maggie. Þannig var málið þæft í Potti fram og tilbaka án niðurstöðu. Altént er ljóst að helztu hlauparar Vesturbæjarins voru fjarverandi í hlaupi dagsins. Vafalaust með vatnsþétta afsökun. 

Í Útiklefa hélt Hjálmar íþróttakennari ádíens um bjór og bjórdrykkju. Föstudagar eru til þess að efna í þorsta sem verður eingöngu svalað með völdum bjór. Þannig fer maður frá Laug hamstola af þorsta. En nú skyldi haldið heim til Bigga og Unnar og inntekin flatbaka og bjór. Fyrst þurfti skrifari að fara heim til sín og elda ofan í ómegðina. Að því búnu var stefnan sett á Seilugranda.

Þar stóðu þeir í eldahúsi Biggi jógi og Einar blómasali. Aðrir mættir: Rúna og Frikki, Benz, Þorvaldur, Bjössi kokkur, Maggie, Ágúst og Ólöf - og svo kom Pétur Einarsson beint úr kellingaboði KR-skokks. Hann lýsti yfir að sér hefði ekkert litist á úrvalið. Þeir báru fram flatbökur fóstbræður í gríð og erg og voru afköstin slík að menn stóðu á blístri og afgangur var er upp var staðið. Slíkt er óþekkt í Samtökum Vorum. Drukkinn með bjór, síder, ítalskt rauðvín.

Margt skrafað og rætt. M.a. var tæpt á því hve viðfelldinn skrifari væri orðinn í pistlum sínum. Þar gætti ekki lengur umtalsverðrar illkvittni í garð neins nema einna helzt blómasala, en fyrir kæmi þó að honum væri hælt í pistlum, sem væri frágangssök. Kallað var eftir krítískari sýn á starfsemi Samtaka Vorra og frammistöðu hlaupara og nánar væri greint frá sögnum og missögnum hlaupara á hlaupum, eins og var aðal pistla hér fyrr á tíð. Einhver kallaði eftir því að hann Haukur okkar yrði virkjaður á ný.

Um þetta leyti var spurt um árshátíð. Síðasta árshátíð var haldin í Viðey, hún tókst frábærlega. Beinast liggur við að halda næstu árshátíð í Viðey einnig, t.d í apríl komanda. Ágúst var á þeirri árshátíð og fannst hún eftirminnileg. Hann lagði til að árshátíð hæfist á hlaupi um eyna ("hvað má ná mörgum kílómetrum út úr slíku hlaupi?") - en þegar minnst var á þrif eftir hlaup nefndi hann bara "Vatnstankinn" - er ekki vatnstankur í eynni? Hann var búinn að gleyma því að árshátíðin var haldin í "Vatnstankinum" síðast. Öl gerir Ölvi fölvan.

Þá er í öllu falli komin fram hugmynd um árshátíð. Viðey í apríl komandi. Viðeyjarstofa eða Vatnstankur. Finnum heppilega dagsetningu. Í gvuðs friði.  


Eingöngu naglar!

Á þessum degi mættu eingöngu naglar til hlaupa í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, en sólskinshlauparar sátu heima. 6 stiga frost og norðaustan stormur. Mættir: prófessor Fróði, Þorvaldur, Flosi, Bjarni Benz, Helmut og dr. Jóhanna, Heiðar, skrifari og Frikki Meló. Hlauparar fóru kappklæddir út í gjóluna, flestir með balaklövur. 

Það var haldið á Ægisíðu þar sem við höfðum vindinn í bakið. Hópurinn sundraðist fljótlega og röð hlaupara hefðbundin. Við kjöguðum þetta saman Benzinn og Helmut, en svo skildu þeir mig fljótlega eftir. Erfiðast var hlaupið við flugbraut vegna mótvinds, kuldinn var ekki verstur. Í Nauthólsvík var beðið eftir skrifara, þar voru fyrrnefndir hlauparar og vildu fara Hlíðarfót. Flestir munu hafa farið þá leið í dag, nema hvað Jóhanna og Heiðar fóru eitthvað lengra.

Hér var farið að lægja vind og bara nokkuð bærilegt að hlaupa. Farið hjá Gvuðsmönnum og svo vestur úr til Laugar. Teygt í Móttökusal og farið í Pott. Í Potti var svo kalt að hárið á þeim sem höfðu hár fraus. Helst hefði maður þurft að halda höfðinu undir vatnsborðinu, en það er víst ekki gerlegt mjög lengi.

Erfitt hlaup, en góð tilfinning að koma til Laugar og ylja sér í Potti. Meira og verra á miðvikudag.  


Eflum félagsandann!

Félagslíf Samtaka Vorra hefur verið með dapurlegra móti undanfarið, eða allar götur frá því hún Ósk okkar hélt upp á afmælið sitt sællar minningar. Af því tilefni bundu menn miklar vonir við hlaup dagsins og Fyrsta Föstudag í framhaldi af því. Mæting í hlaup heldur dapurleg: Denni og Þorvaldur. Skrifari spurði Denna hvort mikið hefði verið sagt í hlaupi dagsins. Kvaðst hann hafa reynt að halda uppi samræðum og þá helst á þeim nótum sem gætu höfðað til hvalasérfræðingsins. En það var þeim mun erfiðara sem Denni þurfti að stoppa tvisvar í hlaupinu vegna verkja í nára og teygja. Þeir fóru einhverja undarlega leið um skóglendi og hjá Gvuðsmönnum og stystu leið tilbaka. Sem sagt: dapurlegt. 

Það var þeim mun fjörugra í Potti. Þar var mættur skrifari alhress og svo bættust við Benzinn og blómasalinn nýkomnir úr jarðarför, upprifnir og innblásnir, uppfullir af sögum og skemmtilegheitum. Denni á leið á belgjamót KR þar sem menn eta óæti, en þeir hinir að koma úr jarðarför í Hafnarfirði þar sem boðið var upp á konfekt, kaffi og hvítt. Stefnan sett á Ljónið.

Á Ljóninu komu saman Denni, skrifari, Helmut, Benzinn, dr. Jóhanna, Friedrich Kaufmann og var mikið gaman. Málin rædd af hispursleysi og greinilega komin stemmari á félagsleg úrræði. Þegar málið var borið undir fjörkálfinn Bigga Jóga brá hann skjótt við og ákvað að stefna fólki saman til Annars Föstudags að heimili þeirra Unnar í Seilugranda föstudaginn 8. mars og biðja blómasalann að annast matargerð alla, flatbökubakstur. Æskilegt væri að félagsmenn mættu með uppáhaldsálegg sitt, hvort það er pepperoni, ananas, ostur valinnar gerðar eða annað - og svo það ekki gleymist - drykki að eigin vali. Mikið af þeim. Mæting kl. 19:30. 

Mætum öll og eflum félagsandann Samtaka Vorra!  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband