Flugfreyjudeildin stækkar

Hver segir að Hlaupasamtökin séu ófær um að laða til sín frambærilega kvenkyns hlaupara? Þetta afsannaðist með öllu í hlaupi dagsins og verður sagt frá því síðar. Á fögrum sunnudagsmorgni mættu þessir til hlaups: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Tobba, Flosi og skrifari. Magnús lýsti yfir að hann hlypi stutt vegna Kirkjuráðsfundar. Aðrir settu stefnuna á hefðbundið. Byrjað á langri tölu um stöðu mála hjá ÍRB þar sem ÓÞ tilheyrir innanstokksmunum og líkum leitt að því hver leysir Guðjón Guðmundsson af sem næsti formaður KR. 

Á leið okkar varð Gunnar Gunnarsson fréttamaður og var hann tekinn tali. Svo var komið í Nauthólsvík og þar var gengið um sinn. Loks haldið áfram og ekki stoppað aftur fyrr en í Kirkjugarði og gengið á ný. Veðurstofa og Klambrar. Þar gerðist undrið. Tvær ungar, ljóshærðar konur á bleikum hlaupajökkum hlupu okkur uppi og báðu um að fá að fylgja okkur. Þær höfðu aldrei heyrt minnst á Vilhjálm Bjarnason og vakti það almenna furðu í hópnum. Þær hlupu svo með okkur langleiðina að höfninni, en hurfu á braut eftir það.

Farið um Miðbæ og upp Túngötu og til Laugar. Í Pott mættu Helga Jónsdóttir og Stefán Sigurðsson, nýkomin úr svaðilför til Tenerife, bæði útlítandi eins og kolamolar. Auk þeirra dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Umræðan snerist um hann Vilhjálm okkar og orð eins og "mannasiðir" og "fúkyrðaflaumur" heyrðust falla. Þá hallaði ókunn kona sér að dr. Einari Gunnari og spurði: "Hver er þessi Vilhjálmur?" "Hann er sonur Bjarna Vilhjálmssonar, þjóðskjalavarðar" svaraði dr. Einar Gunnar sannleika samkvæmt. "Er hann svona orðljótur?" spurði konan þá hissa.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband