Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007 | 15:21
Síðasti pistill 2007 - Gamlárshlaup ÍR
En í dag, gamlársdag, var komið að alvöru lífsins: Gamlárshlaupi ÍR. Mikil stemmning var fyrir þátttöku í föstudagspotti og hvatti þar hver annan að mæta, gott ef menn börðu sér ekki á brjóst í leiðinni, sá það ekki svo vel. Í morgun hitti ég að auki þá Einar og Magnús og lýstu þeir báðir yfir ásetningi um að hlaupa í dag. En þegar til átti að taka vorum við Birgir einir mættir til hlaups, hann ásamt með eiginkonu sinni, og þar fyrir utan voru Una og Þorbjörg sem mega teljast tilheyra periferíunni, Rúnar þjálfari. Á hinn bóginn voru mættir einir tíu hlauparar af Nesi, svo að maður skammaðist sín bara. Eftirtekt vakti miði sem lá á borði í Oddfellowahúsinu (gömlu Tjarnarbúð), skrásetningarblað þar sem á var letrað nafnið "Einar Þór Jónsson" heimilisfastur á Reynimel hér í borg. Var engu líkara en hann hefði byrjað á að skrá nafn sitt, en horfið frá þátttöku af einni af eftirtöldum ástæðum: 1. hann var rukkaður um pééééninga þegar hann ætlaði að skila miðanum; 2. konan hafði gleymt að reima á hann hinn hlaupaskóinn; 3. konan ætlaði honum önnur verk þennan dagspart.
Veður var í raun ekki eins slæmt og ætla mætti, uppstytta meðan á hlaupi stóð, smágjóla í Ánanaustum og svo á Ægisíðu, en annars bara þokkalegt, hlaupaleiðin var nokkurn veginn hrein. Skipulag gott, umferð alveg stöðvuð á mikilvægum punktum. Maður skeiðaði þetta í rólegheitum eins og hvert annað mánudagshlaup og lauk á um 60 mín.
Það olli vonbrigðum að ekkert drykkjarkyns var að hafa á leiðinni, ég taldi það vera vegna ókyrrðar í lofti. Hins vegar er það algjör skandall að ekkert var að hafa eftir hlaup að heldur. Fjöldi manns barðist um að komast að einum vatnsbrúsa sem stóð á borði við Ráðhúsið - engir "drykkir og léttar veitingar" eins og mig minnir hafi verið lofað í kynningu á hlaupinu. Þar stóð að vísu einnig að drykkjarstöðvar yrðu á tilgreindum stöðum. Mér finnst þetta ekki boðlegt og ekki sæmandi íþróttafélagi af þeim kalíber og virðingu sem ÍR er. Hér þarf að gera betur.
Nú,nú! Þetta mun vera síðasti pistill ársins 2007, sem hefur verið gjöfult og gleðilegt hlaupaár. Ég óska öllum hlaupurum gleðilegs nýs árs og allra heilla á nýju ári. Sjáumst kát og hress í miðvikudagshlaupi 2. janúar 2008 - verður farið í sjóinn? kv. ritari.
29.12.2007 | 14:51
Gamlir hlauparar ganga í endurnýjun lífdaga
Nema hvað, mætir ekki sjálfur prófessor Fróði eftir langa fjarveru. Kvaðst vera orðinn heill heilsu og að hann kenndi sér einskis meins. Auk hans voru Magnús, ritari, Denni, Rúna og Brynja. Áfram var kalt í veðri og hált á hlaupaleiðum. Farinn Hlíðarfótur til þess að vera ekki að ofreyna prófessorinn á fyrsta hlaupi. Við piltarnir fórum á undan stúlkunum og fórum nokkuð geyst, óþarflega að sumra mati. Hlaupið var hressandi - en hraðinn kann að hafa ráðist af því að próf. Fróða var bent á þann möguleika að Jörundur hlaupari kynni að vera staddur á heimili hans á hlaupandi stundu, nánar tiltekið í potti, því að fyrirhugað var að hafa árlegt potthlaup að jólum í dag, en var blásið af vegna þátttökuleysis. Hins vegar gleymdist að láta Jörund vita af því... Prófessorinn varð hugsi og sagði: Já, það er líklega bezt að hraða sér heim.
Í potti að Laugu var fjörugt að vanda, rætt um Fyrsta Föstudag og möguleika þess að halda hann í dag, þar sem misfarist hefði að halda hann í desember. Eigi að heldur var þreytt sjósund í þessum mánuði, enda bæði Gísli og dr. Friðrik fjarri góðu gamni. Mættur Benedikt og kvartaði yfir því að það vantaði löngu hlaupin; strengdu menn þess heit að hefja fljótlega á næsta ári að fara hinar lengri leiðir, 69, Stíbblu, Goldfinger o.s.frv. Rætt um að fara í Nýárshlaup ÍR og gera sér glaðan dag í aðdraganda áramóta. Er hér með komið á framfæri hvatningu um þátttöku á þeim vettvangi. Góðar kveðjur, ritari.
28.12.2007 | 22:37
Við, þessir vinalausu aumingjar...
Í morgunpotti var flutt motto Hlaupasamtakanna, svohljóðandi:
Við, þessir vinalausu aumingjar, sem alltaf gerum allt eins, og líður bezt illa...
Gullkorn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2007 | 21:08
Kalt, kalt, kalt!
Nema hvað, þarna mætir maður og er fullbúinn til hlaupa kl. 17:15. Brottfararsalur fullur af ungu og efnilegu sundfólki Sunddeildar KR, sem þreytti Stjörnuljósasund í kvöld og er árlegur viðburður. Ég beið og beið og leist satt að segja ekki á horfurnar. Nema hvað, Margrét þjálfari dúkkar upp á réttu augnabliki, svo Rúnar, svo Benedikt inn úr myrkrinu og loks Una. Þarna var fullskipaður flokkur, fleiri komu ekki og við lögðum í hann. Fjarvera Einars blómasala var ærandi, svo mjög stakk hún í stúf við meintan góðan ásetning um átak til eflingar hlaupa í Vesturbænum. Varð nokkur umræða um þann mann fyrir brotttför, m.a. efasemdir um að hann kynni á klukku. Þar fyrir utan að líklega kynni hann ekki að heldur á gemsa, því ritari hefði sent honum sms í dag og ekki fengið svör, reynt að hringja í hann og fengið skilaboð á ensku um að síminn væri lokaður. Rann þá ljós upp fyrir viðstöddum, sem oft hafa séð téðan blómasala koma hlaupandi inn í Brottfararsal stuttu fyrir hlaup með símann límdan við eyrað, líkt og hann væri í óða önn að ganga frá síðustu viðskiptum dagsins. Benedikt rifjaði upp að hann hefði oft furðað sig á því af hverju Einar sneri símanum einatt öfugt. Var það niðurstaðan að hann kynni ekki á símann og líkastil væri slökkt á símanum, og enginn hinum megin á línunni.
Það var kalt í dag, fjögurra eða fimm stiga frost, óhagstæður vindur, snjór yfir og hált mjög víða, víða óruddar leiðir. Við fórum öfugan föstudag, upp Hofsvallagötu, Túngötu, gegnum miðbæinn, upp Laugaveginn. Mér fannst fólk fara óþarflega hratt, en á hitt er að líta, að samhlauparar mínir eru allir töluvert léttari en ég, líklega einum 20 kg. Fóru létt með það, en ég mátti erfiða. En svo aftur þetta, að vöðvamassi þessa hlaupara er þeim mun meiri, eins og áður er fram komið, og túrbóinn bara ræstur á heppilegum augnablikum. Það var mjög hált víða á Laugavegi, heilu svellbunkarnir eins og í gamla daga, á gullaldartímum íhaldsins, þegar gamalt fólk varð að brölta yfir mannháa svellbúnka og endaði oftar en ekki á sjúkradeild fyrir vikið, en annars staðar var autt. Við áttum erfitt með að átta okkur á þessu og vildum meina að Borgin ætti að geta hreinsað allar gangstéttir við helztu verzlunargötu borgarinnar.
Áfram um Snorrabraut, en nú vorum við Rúnar orðnir einir, hin fóru á undan okkur og fóru hratt yfir. Vart er hægt að hugsa sér betri félagsskap á hlaupum en Rúnar, ekki einasta aðhyllist hann þá stefnu Hlaupasamtakanna að skilja engan eftir, ekki einu sinni á heimleið, sem prófessor Fróði þó flaskar oft á, heldur er hann einkar viðræðugóður, og ólíkur þeim Jörundi og Birgi að því leyti, að orðræðan stendur ekki þráðbein út úr honum alla leið, heldur leyfir hann viðstöddum einnig að tjá sig lítillega um sín hugðarefni og er gæddur þeim eiginleika að geta hlustað og jafnframt brugðist við á merkingarfullan hátt, sem er einstakur kostur og ekki öllum gefinn. Af þessum sökum þótti mér einkar gott að fara um Hlíðarfót, Nauthólsvík og svo Ægisíðuna í félagsskap við Rúnar. Við fundum margt sameiginlegt í okkar fortíð, gamlar syndir úr henni Svíþjóð, ekki meira um það. En kaldur var hann á Ægisíðu, og var þessi hlaupari frosinn á lærum er komið var til Laugar.
Teygt í Móttökusal. Svo var haldið til potts, þar var Skerjafjarðarskáld og hélt ádíens. Það var geysilega þéttur og góður hópur sem hljóp í kvöld, hlaupastíll með eindæmum. Þrátt fyrir þetta verður hlaupið af nýju á morgun, föstudag, á hefðbundnum tíma, 16:30 stundvíslega.
26.12.2007 | 17:09
Hlaupið á annan dag jóla
Næst: fimmtudagur kl. 17:30, föstudagur kl. 16:30. Í gvuðs friði. Ritari.
23.12.2007 | 13:36
Einhver sérstæðasti dagur ársins...
Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki annað hægt en taka undir með frænda mínum og vini, orð sem féllu er hann loks reis úr potti að hlaupi loknu og að loknum löngum og ítarlegum samtölum við viðstadda á Þorláksmessu AD 2007: Já, þetta var sannarlega einn sérstæðasti dagur ársins.
Allt byrjaði þetta þó til þess að gera sakleysislega, og allt að því kunnuglega. Samtals voru mættir fimm úrvalshlauparar til hlaups á þessum morgni, allt þekktir afreksmenn og öðlingsdrengir: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Þorvaldur, Jörundur og loks annálaritari og andlegur bókhaldsmaður Hlaupasamtakanna. Nauðsynlegt reyndist að gera hraðsoðna úttekt á ástandi mála í Lýðveldinu, einkum í nágrannabæ er heitir Garðabær. Þar er upp sprottinn mikill vísdómsbrunnur og vonarstjarna þjóðarinnar, eftir því sem Ó. Þorsteinsson segir. Sá heitir Vilhjálmur Bjarnason. Voru tilgreind tvö jarteikn því til sönnunar, en það jafnframt látið fylgja að það væri aðeins toppurinn á ísjakanum. Fjörutíu stiga umsnúningur í spurningakeppni s.l. föstudag, þar sem allt virtist tapað. Og svo viðtal í ríkisfjölmiðlunum um sjöleytið eitthvert kvöldið, þar sem spurt var: Er ekki allt að fara til andskotans? VB svaraði af landsföðurlegri umhyggju: Nei, þetta er tímabundið ástand. Staða mála er að öðru leyti góð, hagvöxtur góður, landsframleiðsla góð - þetta á eftir að lagast. Vart hafði hann sleppt orðunum þegar Laugavegurinn fylltist af kaupóðum og bjartsýnum Íslendingum, allar verzlunarmiðstöðvar voru sneisafullar allt það kvöld, svo mjög hafði glæðst trú manna á framtíðína vegna þessara orða álitsgjafans.
Mikið lof var borið á Vilhjálm og hann talinn afbragð annarra manna, jafnan glaður í bragði þessi missirin, og gleggstu menn töldu sig jafnvel hafa greint bros í andliti hans einhvern daginn. Einna helzt höfðu menn áhyggjur af snerpunni í bjölluspurningunum og líklega athugunarefni hjá honum að koma til hlaupa að nýju og freista þess að bæta viðbragðið til þess að fá alla vega svarréttinn. Svo mjög var lofi hlaðið þarna í Brottfararsal að hlaup tafðist um 6 mínútur - en loks mjökuðust menn af stað. Veður ágætt, hiti við frostmark, föl á jörðu og svolítið hált, einhver norðangjóla. Áfram var rætt um spurningakeppnina, en nú var rætt um skipulagningu, val á spurningaflokkum og framkomu stjórnenda - m.a. til þess tekið hvað annar spyrlanna fullyrti um VB í upphafi þáttar, sem þótti fyrir neðan allar hellur, þótt það hafi hugsanlega átt að vera fyndni. Hún sagði að hann væri kunnur að skepnuskap - nokkuð sem við félagar Vilhjálms könnumst alls ekki við og vísum eindregið til föðurhúsanna. Einnig var það gagnrýnt að vera með spurningar úr Matrix-myndunum sem eru ekki til þess fallnar að vekja áhuga venjulegs fólks - enda stóðu menn almennt á gati. Hér þurfa framleiðendur að hysja ærlega upp um sig buxurnar og velja spurningar sem lúta að almennri þekkingu venjulegs fólks.
Þá tók Jörundur við og fór að fjasa, fjasaði og fjasaði, og ég held satt að segja að það hafi orðið til þess að þeir Ó. Þorsteinsson og Magnús gáfust upp í Skerjafirði, á móts við Skeljungsstöðina, og sneru við - en köstuðu fyrst á okkur kveðju. Mér var það nokkuð ljóst að frændi minn, þótt hann bæri við annríki, gerði þetta ekki til þess að halda til helgra tíða, enda kom hið rétta í ljós í lok hlaups. Jæja, við Þorvaldur og Jörundur héldum áfram hlaupi og fórum hefðbundinn sunnudag, engin stopp nema í tröppunum á leiðinni upp á Veðurstofuhálendið, og svo í Kvosinni á leið upp í Grjótaþorp. Í bænum var verzlun að vakna til lífsins, þó ekki margt á Laugaveginum, en menn þó að leggja drög að Íslandsmeti í innkaupum og víst að lyktin af bráðnu kortaplasti mun hanga yfir bænum í dag, í bland við skötufýluna. Alla jafna var færð ágæt, en stöku hálkublettur sem mátti varast. Á leiðinni sáum við að Þorvaldur er þungavigtarmaður í umferðarmálum, þótt léttur sé að öðru leyti, því jafnan þegar við komum að gatnamótum og bílar voru á ferð þurfti hann ekki annað en lyfta hendinni (með hvítum hanzka á) og þá snarhemluðu bílarnir - þetta gerðist æ ofan í æ, jafnvel þótt við værum strangt til tekið í órétti. Segja má, eins og einhvers staðar stendur, að orðspor hans ferðist á undan honum.
Jæja, margt var skrafað á leiðinni. Jörundur talaði mikið um hvað hann hefði farið illa með þá Gísla og Ágúst ("þennan halta í Kópavogi") í maraþonhlaupum undangenginna ára, og fylgdu þessu mörg orð og langar lýsingar. "En þeir eru nú eitthvað farnir að slappast núna, greyin!" Þrátt fyrir þetta kvaðst Jörundur eingöngu hlaupa fyrir ánægjuna núna og sig skipti engu máli á hvaða tíma hann lyki hlaupi. Sagði líka að ritari hefði betur fylgt sér í RM núna í ágúst, þá hefði ekki farið svona fyrir honum. Geysast af stað á tempóinu 5:20 með hinum vitleysingunum og sprengja sig eftir 35 km. Þetta er ekki nokkurt vit.
Þetta var góður rúntur hjá okkur, fullt sunnudagshlaup, lítið hvílt og ekki farið neitt of geyst. Í potti sat Ó. Þorsteinsson, kátur og rjóður, í kompaníi við góða menn, þá dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar Pétursson. Þá lá mínum ekki meira á en þetta, sem styður tilgátu mína um ástæður brotthvarfsins. Nema hvað, þarna er setið góða stund og vitanlega urðu margvíslegar umræður - pistill morgunsins um Vilhjálm endurtekinn, og áfram rætt um einstaklinga. Upplýst var að tímar þeirra Ólafs og Baldurs í 10 km hlaupi eru trúnaðarmál og sem slíkir verndaðir af persónuverndarlögum. Eins og menn muna þurfti VB ekki að nýta sér vinarréttinn s.l. föstudag, þ.e. að hringja í vin. Það angraði Baldur eilítiið að hafa látið hafa af sér jólaboð efnafræðiskorar til þess að sitja við símann og bíða eftir símtali. Aðrir bentu á það kauðalega í því að Garðbæingar skyldu þurfa að hringja alla leið til Reykjavíkur í vandræðum sínum þegar komið væri að tómum kofanum hjá þeim.
Eins og menn sjá í hendi sér ætti það ekki að þurfa að koma á óvart þegar Ólafur Þorsteinsson rís að lokum úr potti og segir: Já, þetta var eftir allt saman einhver sérstæðasti dagur ársins!
Næst hlaup: aðfangadagsmorgun kl. 10:10. Svo er samkvæmt hefð hlaupið sunnudagshlaup annan í jólum, miðvikudag, mæting einnig 10:10.
Hugheilar jólakveðjur til allra hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, með eða án hlaupaskyldu. Njótið jólanna, kyrrðar, friðar, samveru með fjölskyldu, matar, drykkjar, kyrrláts bóklestrar og alls þess bezta sem jólin færa með sér. Í gvuðs friði.
Annálaritari
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2007 | 21:34
Loksins bærilegt veður...
Ja, svei! Ekki getur maður sagt annað þegar þá forsmán ber fyrir augu sem í dag blasti við í Brottfararsal. Svo er mál með vexti að inir áreiðanlegustu menn voru sem fyrr mættir fyrstir, þeir Þorvaldur og Ólafur ritari. Svo komu þeir hver af öðrum: Magnús, Gísli, Kári, Denni, og loks Birgir. Eingöngu karlar og var kvartað undan kvenmannsleysi. Nema hvað - þegar þeir hittast Birgir og Kári fallast þeir í faðma, og Kári heimtar að fá að kyssa Birgi upp á franskan máta, svo ganga slefurnar á milli þeirra sleitulaust, svo viðstöddum bauð við. Teljum vér við hæfi að setja reglur um með hvaða hætti félagsmönnum er heimilt að heilsa hverir öðrum, með innbyggðum takmörkunum þar á.
Jæja, föstudagar eru einstakir. Þá erum við þjálfaralaus, og þá er veður gott. Svo var og í dag. Menn fóru einbeittir af stað og voru samstilltir um að eiga góða hlaupastund saman. Við héldum sem leið lá niður á Ægisíðu og var venju samkvæmt rætt um mat. Fljótlega tóku þeir forystu, Magnús og Þorvaldur, ég, Gísli og Denni vorum í milliflokki, en fitubollurnar ráku lestina. Svo skildi með mönnum, og ekki dró saman með fólki fyrr en í Nauthólsvík. Þá stöldruðu menn við og ákváðu að eiga samleið um Hlíðarfot, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að fara fullan föstudag og um Laugaveg. Menn voru uppfullir af sögum sem þeir vildu að ritari færði til bókar, en hann hafnaði af meðfæddri smekkvísi að skrá fyrir framtíðina.
Nema þegar komið var í Öskjuhlíðina brast á með rigningu, og þá vorum við orðnir fremstir, Magnús, Denni og ritari. Við héldum þétt tempó, og tókum verulega á því. Eftir á að hyggja sló það mig að ég hefði verið að hlaupa með og halda í við menn sem eru 20 kg léttari en ég. Ég hafði orð á þessu við einhverja, og var svarað: Ja, við höfum náttúrlega ekki sama vöðvamassa og þú. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef reynt að segja við konuna mína þegar henni hefur þótt maginn á mér benda of mikið í áttina til Mekka: Þekkirðu ekki muninn á vöðva og fitu?
Jæja, við héldum þétt tempó alla leið og ræddum aðallega um mat. Denni um allar skötuveizlurnar sem hann ýmist sóttti eða stóð fyrir. Nú komum við félagar til Laugar, og hver beið okkar þar, nema Brynja af Nesi, hlaupin og hafði svikið okkur, lagt í hann kl. 16 ásamt með Rúnu með einhverjum einkennilegum skýringum. Þegar hinir seinni hlauparar komu á Móttökuplan heyrði ritari að þar var aðallega rætt um áfengi og áfengisdrykkju, og takmarkanir þar á. Reynt að lýsa muninum á því að drekka í Franz og drekka á Íslandi.
Svo var haldið í pott. Þar kom, auk fyrrnefndra félaga, Teddi og ónefndur blómasali, sem færði ómarktækar skýringar á fjarveru sinni, eitthvað með leigubíla. Teddi lét Einar blómasala strax heyra það og gekk á með ásökunum. En menn héldu almennt friðinn og voru reiðubúnir að sættast á þessari hátíð ljóss og friðar.
Næst er mæting á sunnudag kl. 10:10. Svo þurfum við að velta fyrir okkur aðfangadagsmorgni, þá er opið í VBL til 12:30.
Vér óskum félaga vorum, Vilhjálmi Bjarnasyni, íbúa í Garðabæ, til hamingju með góðan árangur í spurningakeppni sveitarfélaga, og teljum víst að þakka megi árangurinn áratugalangri samveru með hinum vel informéruðu félögum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Í gvuðs friði, ritari.
19.12.2007 | 22:08
Enn ein lægðin...
Magnús var mættur og var þreyttur og slappur. Friðrik mættur, þreyttur og slappur. Ég hafði orð á því að læknir ættu að vera aðeins uppbyggilegri en þetta: eruð þið ekki læknar, eigið þið ekki að vera öðrum fyrirmynd í heilsusamlegum lifnaðarhátttum og líferni? Aðrir mættir: Einar blómasali, Björn kokkur, Bjarni Benz, samtals níu einstaklingar ef ég hef talið rétt. Hiti 8 stig, rigning, minniháttar vindur. Farið hefðbundið, þjálfari vildi fara Hlíðarfót og taka þéttinga á leiðinni.
Þegar við hlupum hægt niður Hofsvallagötu dúkkaði Benedikt upp eins og persóna í Atómstöðinni; skyndilega var hann bara þarna og hafði engar tiltækar skýringar á nærveru sinni. Það var rætt um mat: blómasalinn hafði fengið þrjá kjúklingabita frá KFC um tvöleytið, franskar með og þrjú kíló af konfekti; hann bar þessar fréttir í þjálfarann líkt og hann væri að leita að meðaumkun eða skilningi á því að hægt yrði farið í kvöld. Þjálfarinn var hins vegar algerlega sneydd meðaumkun með svo óöguðum einstaklingii sem fellur fyrir öllu matarkyns, og það tveimur tímum fyrir hlaup. Einnig rætt um bílainnflutning félagsmanna, sem hefur ekki gengið með öllu áfallalaust fyrir sig, bílar hafa tekið "breytingum" á leiðinni, orðið fyrir skakkaföllum og innflytjendur með böggum hildar af þeim sökum.
Ritari tilheyrir þeim hópi sem skortir sjálfsaga, á erfitt með að neita sér um mat á þessari tíð friðar, kyrrðar, hvíldar, íhugunar og innri skoðunar - matarlystin eykst bara eftir því sem hann hleypur meira. Hann þyngist og þyngist, sama má segja um blómasalann - við verðum þyngri með hverjum degi sem líður og eigum æ erfiðara með að hreyfa okkur. Hnén fara illa þegar svona þungir menn hlaupa - og skrokkurinn almennt, mjaðmir bíða skaða af.
Það var farið hefðbundið út í Nauthólsvík og var ekki hægt að kvarta yfir veðri. Þangað komnir sáum við allan sandinn á göngustígnum sem er sönnunarmerki þess að það var sandstormur, en ekki él, sem við lentum í á mánudaginn. Farið meðfram vesturhlið Öskjuhlíðar og framhjá Guðsmönnum. Þaðan vesturúr. Með mér voru Magnús og Bjarni Benz. Viðræðugóðir menn og skemmtilegir.
Fámennt í potti, þó sást til Kára á svæðinu, óhlaupins. Næst: föstudagur, ekki sá fyrsti. Í gvuðs friði, ritari.
17.12.2007 | 21:46
Alvitlaust veður - enn vitlausari hl..., nei
Aðrir sem mættu til hlaups voru Björn kokkur, dr. Friðrik, Bjarni Benz, ritari, Einar blómasali, Benedikt og Rúnar þjálfari. Menn bræddu það með sér hvaða leið væri heppilegust í dag. Hér voru reyndir hlauparar á ferð sem sáu það í hendi sér að tóm vitleysa væri að gera annað en fara öfugan mánudag. Þjálfarinn vildi að menn færu austur Sólrúnarbraut, og Ægisíðuna tilbaka aftur svo að við næðum þéttingum. Menn andmæltu þessu og töldu ekki nokkurt vit að fara móti storminum. "En hvenær ætlið þið að þétta?" spurði þjálfari. "Það gerum við á bakaleiðinni á Ægisíðu", sagði ritari. Þjálfarinn virtist eitthvað vantrúaður á ásetning manna hér og efndir, en gaf loks eftir og sagði: "Jæja, förum þá um miðbæinn, en þið vitið að Laugavegurinn er fullur af fólki." Eins og það yrði til þess að fæla menn frá því að fara Laugaveginn, menn sem eru haldnir bæði sýniþörf og gjallarhornssýki.
Enn erum við Einar framsettir, belgmiklir og þungir á okkur og þurfum virkilega að taka okkur á til að ná fyrri snerpu. Fórum hægt framan af, en nutum félagsskapar við góða menn, þá Björn og Þorvald, en Benedikt var "gone in 60 seconds" eins og það heitir - sást eiginlega ekki eftir Hringbraut - og fór lengra en við, fór fullan hring. Þjálfarinn fylgdi okkur ofan í miðbæ, upp Laugaveginn og inn á Rauðarárstíg. Veður var gott, lítt varð vart við vind og m.a.s. nokkuð hlýtt, við lá ég tæki niður balaklövuna - en lét það eiga sig og þakkaði mínum sæla fyrir það seinna. Ekki man ég að neitt væri sagt af viti framan af hlaupi, nema hvað ég sagði þjálfaranum sögu Magnúsar af IKEA manninum sem fór inn í skáp að bíða eftir strætó. Ég spurði hvað hæft væri í því að Magnús hefði allar sínar tvíræðu sögur frá sóknanefndarfundum í Neskirkju, og heyrðist á þjálfaranum að það væri ekki með öllu ósennilegt.
Farið um Rauðarárstíg, yfir Klambratún og inn Lönguhlíð, svo Skógarhlíð og undir Bústaðaveg, yfir á Hlíðarfót. Þar var dimmt og blautt og blotnaði maður í fæturna af vatnsaganum. Hér var ég í kompaníi við þá Björn og Þorvald og blés nokkuð á okkur, enda suðaustanátt. En þegar kom í Nauthólsvik leystist þvílíkt veðravíti úr læðingi að ég man vart eftir öðru eins. Hér var aðeins karlmennum stætt! Og tæplega þó. Maður stóð vart í lappirnar, svo mikill var vindstyrkurinn, þegar við fórum fyrir skúrinn þar sem Magnús léttir á sér á sunnudögum, sandstormur gekk yfir okkur slíkur að það var eins og fara gegnum kúlnahríð (einhverjir héldu að þetta hefði verið haglél, en af sandinum á stígnum var ekki um að villast að það var sandur sem lamdi okkur í framan). Við Björn hlógum upp í bylinn, og hlupum áfram. Björn er mikill hlaupari, harðger, ósérhlífinn, kappsamur og fastur fyrir. Hann er mikill sagnamaður, frásagnir hans eru lausar við orðskrúð eða málalengingar, lausar við dramatíseringar, en þó myndrænar og eftirminnilegar. Hann var dökkklæddur í kvöld að öllu leyti, með bláa hlaupahúfu sem sat furðu fast á hausnum þegar mið er tekið af vindstyrk.
Svo var Björn horfinn og Þorvaldur náði mér einhvers staðar. Ég fór að hafa áhyggjur af þéttingunum sem við höfðum lofað þjálfaranum að taka. En varð svo hugsað til þess að Skógarhlíðin var einn samfelldur þéttingur, það var gefið í út Hlíðarfót og loks var leiðin frá Nauthólsvík og út Ægisíðu tekin í einum þéttingi. Léttur maður eins og Þorvaldur fýkur þetta bara, en feitur maður eins og ritari þarf að nota mótorinn. Enda þegar komið var út fyrir síðustu hús í Skerjafirði og vindi sleppti og Þorvaldur hætti að fjúka og þurfti að fara að ganga fyrir eigin vélarafli, þá náði ég honum. Fram að því þurftu menn aðeins að gæta þess að muna: vinstri-hægri, færa hvorn fót fram fyrir hinn, þá gerðist þetta nánast af sjálfu sér.
Orð var gert á því að hér hefðu gerst slík ævintýri að myndu endast þátttakendum í margar sögur handa börnum og barnabörnum, svo mikið var kappið, karlmennskan og hetjuskapurinn. Að vísu var upplýst að hlaupi loknu að þjálfari (af öllum mönnum!) hefði reynt að sveigja blómasalann til þess að hlaupa í skjóli síðasta spölinn, fara í skjól af húsum í Skerjafirði og þaðan heppilegustu leið til Laugar. En blómasalinn, það mikla karlmenni og afreksmaður, neitaði að stytta og leita skjóls, hann heimtaði að farin yrði Ægisíðan í hávaðaroki. Ritara þótti ótrúlegt að blómasalinn hefði farið sömu leið og aðrir - en þjálfarinn lagði starfsheiður sinn að veði að blómasalinn hefði fylgt í fótspor okkar hinna hetjanna.
Hvað gerist þegar teygt er í Móttökusal? Mætir ekki Magnús Júlíus óhlaupinn og bar við ýmsum atburðum sem hefðu torveldað hlaup, hann hefði verið með hlaupagírið með sér og svona, en þetta var bara einn af þessum dögum, ýmislegt var að útrétta og svona. Ekki tók við betra í potti, birtist ekki Eiríkur með fjölskyldu - með öllu óhlaupinn og hefði maður þó talið hann einhvern helzta kappa Hlaupasamtakanna eftir afrekshlaup s.l. fimmtudag í brjáluðum snjóstormi. En nei, svo bregðast krosstré sem önnur tré...
Á miðvikudag er nýr hlaupadagur - og eins víst að enn ein lægðin lemji okkur eins og verið hefur allt haustið sem við höfum hlaupið með þjálfurum. Við tökum því af karlmennsku, eins og hverju öðru hundsbiti, enda félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem eru elztu, virðulegustu, en jafnframt hógværustu hlaupasamtök landsins frá landnámi. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt 18.12.2007 kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2007 | 15:56
Fimm þéttir, traustir hlauparar
Rætt var um stöðu hlutabréfa í FL Group og horfurnar framundan, hvernig bæri að skýra hið mikla verðfall bréfanna, hvers vegna blómasalinn eða VB hefðu ekki varað menn við þessari vá. Eiginlega var öllum í hópnum sama nema blómasalanum, því hann einn á hlutabréf í FL af þeim sem hlupu. Einnig var rætt um nýjan byskup kaþólskra á Íslandi, svissneska varðmenn sem viðstaddir voru vígslu og svo Mölturiddara, þótti þetta athyglisvert.
Mikið var rætt um fjarveru Vilhjálms frá hlaupum. Heyrst hafði að hann væri upptekinn við álitsgjöf út um allt samfélag. Aðrir fullyrtu að honum væri haldið í æfingabúðum fyrir spurningakeppni sveitarfélaga í ríkissjónvarpi, og áherzla lögð á að halda honum fjarri mönnum sem hlypu frá Vesturbæjarlaug og væru vitlausari en allt sem vitlaust er, gætu aldrei sagt satt orð , færu ævinlega með staðlausa stafi eða hagræddu sannleikanum. Slíkur félagsskapur gæti bara orðið til þess að skadda minni Vilhjálms og valda honum erfiðleikum þegar í harðbakka slægi.
Við hlupum hefðbundinn sunnudagshring með nauðsynlegum stoppum til þess að hvíla belgmikla einstaklinga og leyfa hinum að létta á sér. Gerður studdur stanz í Nauthólsvík, en engin kom sagan. Því var haldið áfram í kirkjugarð, en lítið stoppað; áfram upp hjá Veðurstofu og niður í Hlíðar, yfir Miklubraut og á Klambratún. Einar spyr alltaf hver eigi hús við Rauðarárstíg sem hann hefur áhuga á, aðallega vegna bílaeignar viðkomandi. Honum var bent á að fara nú bara og skoða nafnskilti á hurðinni, en hann er of óframfærinn til þess að seðja forvitni sína með þeim hætti. Björn kokkur hjólaði framhjá okkur þarna og spurði hvort við værum gönguklúbbur. Aldeilis ekki, var svarið og skeiðað áfram á Hlemm og þaðan niður á Sæbraut.
Pottur var vel mannaður, bæði Mímir og dr. Einar Gunnar. Menn voru spurulir um hvað ritari væri með í vatnsflösku sinni, ertu með gin í tóníkk, var spurt. Nei, vatn. Hér kom sælusvipur á blómasalann: Nú langar mig í gin og tóníkk! Áfram rætt um áfengi og gizkað á hvenær heppilegt væri fyrir fólk að byrja að drekka. Helst eftir tvítugt var sagt. Einar var með tröllasögur um að hann hefði verið kominn hátt á þrítugsaldurinn þegar hann byrjaði. Hann var spurður hverju hann hefði haft áhuga á. "Bílum" sagði blómasalinn. Við Jörundur horfðum hvor á annan og hristum hausana.
Þegar við höfðum setið góða stund í potti kom kunnugleg fígúra hlaupandi út í pott: sjálfur Ó. Þorsteinsson óhlaupinn og mátti ráða af fyrstu orðum hans að veður hefði haft áhrif á ákvörðun hans um að mæta ekki: Var ekki ægilega vont veður? En svo kom í ljós að þessi einnar messu maður var að framfylgja föðurlegum skyldum sínum í Neskirkju vegna fermingar á næsta vori. Hann sagði að brunahringing morgunsins hefði snúist um veðurhorfur og veðurspá, enda væri Vilhjálmur Bjarnason einhver veðurhræddasti maður sem hann þekkti. Nú var upplýst um helztu kirkjugesti, enda var margt ágætisfólk að kirkju á þessum degi. Hann kvaðst hafa fengið margar fyrirspurnir frá grandvöru fólki um það hvort VB væri kominn með eigin útvarpsstöð. "Nú, hvers vegna...?" Jú, það má ekki opna fyrir útvarp eða skruna milli stöðva, alls staðar er Vilhjálmur í ádíens eða álitsgjöf. Aftur rifjaður upp samanburður milli flugtíma Minister ausser Dienst og útvarpstíma Vilhjálms. Að venju langur persónufræðikafli og skrafað um marga þjóðþekkta einstaklinga, sumir með skrautnefnum.
Kvartað var yfir að Fyrsti Föstudagur féll niður s.l. föstudag, enda hvorki próf. Fróði né ritari viðstaddir. Athuga má næsta föstudag hvort orðið geti af heimsókn á Mimmann.
Nú er ritari kominn í jólafrí og mun mæta samvizkusamlega til hlaupa fram yfir áramót og vinna gegn framgangi bumbunnar. Sjáumst á morgun stundvíslega kl. 17:30. Kveðjur, ritari.