Síðasti pistill 2007 - Gamlárshlaup ÍR

Svo öllu sé til skila haldið skal þess látið getið hér að í gær, 30. desember 2007, hlupu tveir kappar frá Vesturbæjarlaug kl. 10:10, þeir Þorvaldur og Einar blómasali. Eins og menn rekur minni til var veður alvitlaust og hending ein að þeir skiluðu sér lifandi til baka, bæði var klaki á, hellirigning og aftökuveður og lá við stundum að þeir félagar lægju flatir í látunum. En þeir létu sig hafa það og luku þokkalegu hlaupi, aðallega milli húsa í miðborginni.

En í dag, gamlársdag, var komið að alvöru lífsins: Gamlárshlaupi ÍR. Mikil stemmning var fyrir þátttöku í föstudagspotti og hvatti þar hver annan að mæta, gott ef menn börðu sér ekki á brjóst í leiðinni, sá það ekki svo vel. Í morgun hitti ég að auki þá Einar og Magnús og lýstu þeir báðir yfir ásetningi um að hlaupa í dag. En þegar til átti að taka vorum við Birgir einir mættir til hlaups, hann ásamt með eiginkonu sinni, og þar fyrir utan voru Una og Þorbjörg sem mega teljast tilheyra periferíunni, Rúnar þjálfari. Á hinn bóginn voru mættir einir tíu hlauparar af Nesi, svo að maður skammaðist sín bara. Eftirtekt vakti miði sem lá á borði í Oddfellowahúsinu (gömlu Tjarnarbúð), skrásetningarblað þar sem á var letrað nafnið "Einar Þór Jónsson" heimilisfastur á Reynimel hér í borg. Var engu líkara en hann hefði byrjað á að skrá nafn sitt, en horfið frá þátttöku af einni af eftirtöldum ástæðum: 1. hann var rukkaður um pééééninga þegar hann ætlaði að skila miðanum; 2. konan hafði gleymt að reima á hann hinn hlaupaskóinn; 3. konan ætlaði honum önnur verk þennan dagspart.

Veður var í raun ekki eins slæmt og ætla mætti, uppstytta meðan á hlaupi stóð, smágjóla í Ánanaustum og svo á Ægisíðu, en annars bara þokkalegt, hlaupaleiðin var nokkurn veginn hrein. Skipulag gott, umferð alveg stöðvuð á mikilvægum punktum. Maður skeiðaði þetta í rólegheitum eins og hvert annað mánudagshlaup og lauk á um 60 mín.

Það olli vonbrigðum að ekkert drykkjarkyns var að hafa á leiðinni, ég taldi það vera vegna ókyrrðar í lofti. Hins vegar er það algjör skandall að ekkert var að hafa eftir hlaup að heldur. Fjöldi manns barðist um að komast að einum vatnsbrúsa sem stóð á borði við Ráðhúsið - engir "drykkir og léttar veitingar" eins og mig minnir hafi verið lofað í kynningu á hlaupinu. Þar stóð að vísu einnig að drykkjarstöðvar yrðu á tilgreindum stöðum. Mér finnst þetta ekki boðlegt og ekki sæmandi íþróttafélagi af þeim kalíber og virðingu sem ÍR er. Hér þarf að gera betur.

Nú,nú! Þetta mun vera síðasti pistill ársins 2007, sem hefur verið gjöfult og gleðilegt hlaupaár. Ég óska öllum hlaupurum gleðilegs nýs árs og allra heilla á nýju ári. Sjáumst kát og hress í miðvikudagshlaupi 2. janúar 2008 - verður farið í sjóinn? kv. ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband