Loksins bærilegt veður...

Ja, svei! Ekki getur maður sagt annað þegar þá forsmán ber fyrir augu sem í dag blasti við í Brottfararsal. Svo er mál með vexti að inir áreiðanlegustu menn voru sem fyrr mættir fyrstir, þeir Þorvaldur og Ólafur ritari. Svo komu þeir hver af öðrum: Magnús, Gísli, Kári, Denni, og loks Birgir. Eingöngu karlar og var kvartað undan kvenmannsleysi. Nema hvað - þegar þeir hittast Birgir og Kári fallast þeir í faðma, og Kári heimtar að fá að kyssa Birgi upp á franskan máta, svo ganga slefurnar á milli þeirra sleitulaust, svo viðstöddum bauð við. Teljum vér við hæfi að setja reglur um með hvaða hætti félagsmönnum er heimilt að heilsa hverir öðrum, með innbyggðum takmörkunum þar á.

Jæja, föstudagar eru einstakir. Þá erum við þjálfaralaus, og þá er veður gott. Svo var og í dag. Menn fóru einbeittir af stað og voru samstilltir um að eiga góða hlaupastund saman. Við héldum sem leið lá niður á Ægisíðu og var venju samkvæmt rætt um mat. Fljótlega tóku þeir forystu, Magnús og Þorvaldur, ég, Gísli og Denni vorum í milliflokki, en fitubollurnar ráku lestina. Svo skildi með mönnum, og ekki dró saman með fólki fyrr en í Nauthólsvík. Þá stöldruðu menn við og ákváðu að eiga samleið um Hlíðarfot, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að fara fullan föstudag og um Laugaveg. Menn voru uppfullir af sögum sem þeir vildu að ritari færði til bókar, en hann hafnaði af meðfæddri smekkvísi að skrá fyrir framtíðina.

Nema þegar komið var í Öskjuhlíðina brast á með rigningu, og þá vorum við orðnir fremstir, Magnús, Denni og ritari. Við héldum þétt tempó, og tókum verulega á því. Eftir á að hyggja sló það mig að ég hefði verið að hlaupa með og halda í við menn sem eru 20 kg léttari en ég. Ég hafði orð á þessu við einhverja, og var svarað: Ja, við höfum náttúrlega ekki sama vöðvamassa og þú. Þetta er nákvæmlega það sem ég hef reynt að segja við konuna mína þegar henni hefur þótt maginn á mér benda of mikið í áttina til Mekka: Þekkirðu ekki muninn á vöðva og fitu?

Jæja, við héldum þétt tempó alla leið og ræddum aðallega um mat. Denni um allar skötuveizlurnar sem hann ýmist sóttti eða stóð fyrir. Nú komum við félagar til Laugar, og hver beið okkar þar, nema Brynja af Nesi, hlaupin og hafði svikið okkur, lagt í hann kl. 16 ásamt með Rúnu með einhverjum einkennilegum skýringum. Þegar hinir seinni hlauparar komu á Móttökuplan heyrði ritari að þar var aðallega rætt um áfengi og áfengisdrykkju, og takmarkanir þar á. Reynt að lýsa muninum á því að drekka í Franz og drekka á Íslandi.

Svo var haldið í pott. Þar kom, auk fyrrnefndra félaga, Teddi og ónefndur blómasali, sem færði ómarktækar skýringar á fjarveru sinni, eitthvað með leigubíla. Teddi lét Einar blómasala strax heyra það og gekk á með ásökunum. En menn héldu almennt friðinn og voru reiðubúnir að sættast á þessari hátíð ljóss og friðar.

Næst er mæting á sunnudag kl. 10:10. Svo þurfum við að velta fyrir okkur aðfangadagsmorgni, þá er opið í VBL til 12:30.

Vér óskum félaga vorum, Vilhjálmi Bjarnasyni, íbúa í Garðabæ, til hamingju með góðan árangur í spurningakeppni sveitarfélaga, og teljum víst að þakka megi árangurinn áratugalangri samveru með hinum vel informéruðu félögum í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband