Kalt, kalt, kalt!

Svo sem gefið var til kynna í pistli gærdagsins með afar fínlegum hætti gafst kostur á léttu hlaupi í dag, fimmtudag, að loknu hefðbundnu miðvikudagshlaupi frá Laugardalslaug, og fyrir hefðbundið föstudagshlaup frá VBL, og skal strax viðurkennt að ritari nýtti sér þennan möguleika, enda ekki vanþörf á, kominn 1,5 kg upp fyrir eðlilegt aðdráttarafl jarðar. Hann hitti afar einbeittan og agaðan blómasala í morgunpotti og virtist sá sama sinnis, afar einbeittur, hvass og samvizkusamur, algerlega með það á hreinu að taka á því; í gær voru aðeins tvær sneiðar af hamborgarhrygg, lítið eitt af sósu og mikið af grænmeti, um kvöldið hálfur tómatur og hálffyllt vatnsglas. Ritari fann mikinn innblástur af þessum staðfasta blómasala og ákvað að taka aukahlaup í kvöld, fimmtudag. "Kemur þú ekki...?" spurði ég blómasalann. Hann horfði á mig óræðu augnráði: "Ha, ég, jú..., eða, jú, er það ekki málið?" Mér fannst þetta temmilega óljóst, en gerði mér þó vissar vonir um að þetta væri vilyrði um hlaup, því að margsinnis hefur maðurinn komið okkur, félögum sínum, á óvart með óvæntum uppákomum.

Nema hvað, þarna mætir maður og er fullbúinn til hlaupa kl. 17:15. Brottfararsalur fullur af ungu og efnilegu sundfólki Sunddeildar KR, sem þreytti Stjörnuljósasund í kvöld og er árlegur viðburður. Ég beið og beið og leist satt að segja ekki á horfurnar. Nema hvað, Margrét þjálfari dúkkar upp á réttu augnabliki, svo Rúnar, svo Benedikt inn úr myrkrinu og loks Una. Þarna var fullskipaður flokkur, fleiri komu ekki og við lögðum í hann. Fjarvera Einars blómasala var ærandi, svo mjög stakk hún í stúf við meintan góðan ásetning um átak til eflingar hlaupa í Vesturbænum. Varð nokkur umræða um þann mann fyrir brotttför, m.a. efasemdir um að hann kynni á klukku. Þar fyrir utan að líklega kynni hann ekki að heldur á gemsa, því ritari hefði sent honum sms í dag og ekki fengið svör, reynt að hringja í hann og fengið skilaboð á ensku um að síminn væri lokaður. Rann þá ljós upp fyrir viðstöddum, sem oft hafa séð téðan blómasala koma hlaupandi inn í Brottfararsal stuttu fyrir hlaup með símann límdan við eyrað, líkt og hann væri í óða önn að ganga frá síðustu viðskiptum dagsins. Benedikt rifjaði upp að hann hefði oft furðað sig á því af hverju Einar sneri símanum einatt öfugt. Var það niðurstaðan að hann kynni ekki á símann og líkastil væri slökkt á símanum, og enginn hinum megin á línunni.

Það var kalt í dag, fjögurra eða fimm stiga frost, óhagstæður vindur, snjór yfir og hált mjög víða, víða óruddar leiðir. Við fórum öfugan föstudag, upp Hofsvallagötu, Túngötu, gegnum miðbæinn, upp Laugaveginn. Mér fannst fólk fara óþarflega hratt, en á hitt er að líta, að samhlauparar mínir eru allir töluvert léttari en ég, líklega einum 20 kg. Fóru létt með það, en ég mátti erfiða. En svo aftur þetta, að vöðvamassi þessa hlaupara er þeim mun meiri, eins og áður er fram komið, og túrbóinn bara ræstur á heppilegum augnablikum. Það var mjög hált víða á Laugavegi, heilu svellbunkarnir eins og í gamla daga, á gullaldartímum íhaldsins, þegar gamalt fólk varð að brölta yfir mannháa svellbúnka og endaði oftar en ekki á sjúkradeild fyrir vikið, en annars staðar var autt. Við áttum erfitt með að átta okkur á þessu og vildum meina að Borgin ætti að geta hreinsað allar gangstéttir við helztu verzlunargötu borgarinnar.

Áfram um Snorrabraut, en nú vorum við Rúnar orðnir einir, hin fóru á undan okkur og fóru hratt yfir. Vart er hægt að hugsa sér betri félagsskap á hlaupum en Rúnar, ekki einasta aðhyllist hann þá stefnu Hlaupasamtakanna að skilja engan eftir, ekki einu sinni á heimleið, sem prófessor Fróði þó flaskar oft á, heldur er hann einkar viðræðugóður, og ólíkur þeim Jörundi og Birgi að því leyti, að orðræðan stendur ekki þráðbein út úr honum alla leið, heldur leyfir hann viðstöddum einnig að tjá sig lítillega um sín hugðarefni og er gæddur þeim eiginleika að geta hlustað og jafnframt brugðist við á merkingarfullan hátt, sem er einstakur kostur og ekki öllum gefinn. Af þessum sökum þótti mér einkar gott að fara um Hlíðarfót, Nauthólsvík og svo Ægisíðuna í félagsskap við Rúnar. Við fundum margt sameiginlegt í okkar fortíð, gamlar syndir úr henni Svíþjóð, ekki meira um það. En kaldur var hann á Ægisíðu, og var þessi hlaupari frosinn á lærum er komið var til Laugar.

Teygt í Móttökusal. Svo var haldið til potts, þar var Skerjafjarðarskáld og hélt ádíens. Það var geysilega þéttur og góður hópur sem hljóp í kvöld, hlaupastíll með eindæmum. Þrátt fyrir þetta verður hlaupið af nýju á morgun, föstudag, á hefðbundnum tíma, 16:30 stundvíslega.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband