Enn ein lægðin...

Það var miðvikudagur og fyrstir vóru mættir til hlaupa ritari og Þovaldur. Enn rigndi, enn blés, þegar Margrét þjálfari mætti fór hún að tala um gott veður á þriðjudögum, eins og það kæmi málinu eitthvað við. Eftir stendur að það er nánast regla að þegar hlaupið er með þjálfara er vitlaust veður, og þannig hefur það verið síðan í september þegar allt byrjaði. Þjálfarar hafa ekki getað komið með trúverðugar skýringar á þessu veðurfyrirbæri.

Magnús var mættur og var þreyttur og slappur. Friðrik mættur, þreyttur og slappur. Ég hafði orð á því að læknir ættu að vera aðeins uppbyggilegri en þetta: eruð þið ekki læknar, eigið þið ekki að vera öðrum fyrirmynd í heilsusamlegum lifnaðarhátttum og líferni? Aðrir mættir: Einar blómasali, Björn kokkur, Bjarni Benz, samtals níu einstaklingar ef ég hef talið rétt. Hiti 8 stig, rigning, minniháttar vindur. Farið hefðbundið, þjálfari vildi fara Hlíðarfót og taka þéttinga á leiðinni.

Þegar við hlupum hægt niður Hofsvallagötu dúkkaði Benedikt upp eins og persóna í Atómstöðinni; skyndilega var hann bara þarna og hafði engar tiltækar skýringar á nærveru sinni. Það var rætt um mat: blómasalinn hafði fengið þrjá kjúklingabita frá KFC um tvöleytið, franskar með og þrjú kíló af konfekti; hann bar þessar fréttir í þjálfarann líkt og hann væri að leita að meðaumkun eða skilningi á því að hægt yrði farið í kvöld. Þjálfarinn var hins vegar algerlega sneydd meðaumkun með svo óöguðum einstaklingii sem fellur fyrir öllu matarkyns, og það tveimur  tímum fyrir hlaup. Einnig rætt um bílainnflutning félagsmanna, sem hefur ekki gengið með öllu áfallalaust fyrir sig, bílar hafa tekið "breytingum" á leiðinni, orðið fyrir skakkaföllum og innflytjendur með böggum hildar af þeim sökum.

Ritari tilheyrir þeim hópi sem skortir sjálfsaga, á erfitt með að neita sér um mat á þessari tíð friðar, kyrrðar, hvíldar, íhugunar og innri skoðunar - matarlystin eykst bara eftir því sem hann hleypur meira. Hann þyngist og þyngist, sama má segja um blómasalann - við verðum þyngri með hverjum degi sem líður og eigum æ erfiðara með að hreyfa okkur. Hnén fara illa þegar svona þungir menn hlaupa - og skrokkurinn almennt, mjaðmir bíða skaða af.

Það var farið hefðbundið út í Nauthólsvík og var ekki hægt að kvarta yfir veðri. Þangað komnir sáum við allan sandinn á göngustígnum sem er sönnunarmerki þess að það var sandstormur, en ekki él, sem við lentum í á mánudaginn. Farið meðfram vesturhlið Öskjuhlíðar og framhjá Guðsmönnum. Þaðan vesturúr. Með mér voru Magnús og Bjarni Benz. Viðræðugóðir menn og skemmtilegir.

Fámennt í potti, þó sást til Kára á svæðinu, óhlaupins. Næst: föstudagur, ekki sá fyrsti. Í gvuðs friði, ritari.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband