Gamlir hlauparar ganga í endurnýjun lífdaga

Jú, þannig er að maður er að reyna að halda úti starfsemi í Hlaupasamtökum Lýðveldisins. Ritari er búinn að auglýsa og halda hlaup s.l. þrjá daga, en þátttakan hefur verið afar dræm, svo maður taki vægt til orða. Í dag, föstudaginn 28. desember, voru mættir þrír hlauparar úr Reykjavík, og þrír af Nesi. Slíkt er náttúrlega bara skandall. Og vona ég að menn finni hjá sér skömm til þess að fara inn í skáp og draga eitthvað gamalt yfir hausinn á sér. Taki til sín sem eiga...

Nema hvað, mætir ekki sjálfur prófessor Fróði eftir langa fjarveru. Kvaðst vera orðinn heill heilsu og að hann kenndi sér einskis meins. Auk hans voru Magnús, ritari, Denni, Rúna og Brynja. Áfram var kalt í veðri og hált á hlaupaleiðum. Farinn Hlíðarfótur til þess að vera ekki að ofreyna prófessorinn á fyrsta hlaupi. Við piltarnir fórum á undan stúlkunum og fórum nokkuð geyst, óþarflega að sumra mati. Hlaupið var hressandi - en hraðinn kann að hafa ráðist af því að próf. Fróða var bent á þann möguleika að Jörundur hlaupari kynni að vera staddur á heimili hans á hlaupandi stundu, nánar tiltekið í potti, því að fyrirhugað var að hafa árlegt potthlaup að jólum í dag, en var blásið af vegna þátttökuleysis. Hins vegar gleymdist að láta Jörund vita af því... Prófessorinn varð hugsi og sagði: Já, það er líklega bezt að hraða sér heim.

Í potti að Laugu var fjörugt að vanda, rætt um Fyrsta Föstudag og möguleika þess að halda hann í dag, þar sem misfarist hefði að halda hann í desember. Eigi að heldur var þreytt sjósund í þessum mánuði, enda bæði Gísli og dr. Friðrik fjarri góðu gamni. Mættur Benedikt og kvartaði yfir því að það vantaði löngu hlaupin; strengdu menn þess heit að hefja fljótlega á næsta ári að fara hinar lengri leiðir, 69, Stíbblu, Goldfinger o.s.frv. Rætt um að fara í Nýárshlaup ÍR og gera sér glaðan dag í aðdraganda áramóta. Er hér með komið á framfæri hvatningu um þátttöku á þeim vettvangi. Góðar kveðjur, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband