Einhver sérstæðasti dagur ársins...

Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki annað hægt en taka undir með frænda mínum og vini, orð sem féllu er hann loks reis úr potti að hlaupi loknu og að loknum löngum og ítarlegum samtölum við viðstadda á Þorláksmessu AD 2007: Já, þetta var sannarlega einn sérstæðasti dagur ársins.

Allt byrjaði þetta þó til þess að gera sakleysislega, og allt að því kunnuglega. Samtals voru mættir fimm úrvalshlauparar til hlaups á þessum morgni, allt þekktir afreksmenn og öðlingsdrengir: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Þorvaldur, Jörundur og loks annálaritari og andlegur bókhaldsmaður Hlaupasamtakanna. Nauðsynlegt reyndist að gera hraðsoðna úttekt á ástandi mála í Lýðveldinu, einkum í nágrannabæ er heitir Garðabær. Þar er upp sprottinn mikill vísdómsbrunnur og vonarstjarna þjóðarinnar, eftir því sem Ó. Þorsteinsson segir. Sá heitir Vilhjálmur Bjarnason. Voru tilgreind tvö jarteikn því til sönnunar, en það jafnframt látið fylgja að það væri aðeins toppurinn á ísjakanum. Fjörutíu stiga umsnúningur í spurningakeppni s.l. föstudag, þar sem allt virtist tapað. Og svo viðtal í ríkisfjölmiðlunum um sjöleytið eitthvert kvöldið, þar sem spurt var: Er ekki allt að fara til andskotans? VB svaraði af landsföðurlegri umhyggju: Nei, þetta er tímabundið ástand. Staða mála er að öðru leyti góð, hagvöxtur góður, landsframleiðsla góð - þetta á eftir að lagast. Vart hafði hann sleppt orðunum þegar Laugavegurinn fylltist af kaupóðum og bjartsýnum Íslendingum, allar verzlunarmiðstöðvar voru sneisafullar allt það kvöld, svo mjög hafði glæðst trú manna á framtíðína vegna þessara orða álitsgjafans.

Mikið lof var borið á Vilhjálm og hann talinn afbragð annarra manna, jafnan glaður í bragði þessi missirin, og gleggstu menn töldu sig jafnvel hafa greint bros í andliti hans einhvern daginn. Einna helzt höfðu menn áhyggjur af snerpunni í bjölluspurningunum og líklega athugunarefni hjá honum að koma til hlaupa að nýju og freista þess að bæta viðbragðið til þess að fá alla vega svarréttinn. Svo mjög var lofi hlaðið þarna í Brottfararsal að hlaup tafðist um 6 mínútur - en loks mjökuðust menn af stað. Veður ágætt, hiti við frostmark, föl á jörðu og svolítið hált, einhver norðangjóla. Áfram var rætt um spurningakeppnina, en nú var rætt um skipulagningu, val á spurningaflokkum og framkomu stjórnenda - m.a. til þess tekið hvað annar spyrlanna fullyrti um VB í upphafi þáttar, sem þótti fyrir neðan allar hellur, þótt það hafi hugsanlega átt að vera fyndni. Hún sagði að hann væri kunnur að skepnuskap - nokkuð sem við félagar Vilhjálms könnumst alls ekki við og vísum eindregið til föðurhúsanna. Einnig var það gagnrýnt að vera með spurningar úr Matrix-myndunum sem eru ekki til þess fallnar að vekja áhuga venjulegs fólks - enda stóðu menn almennt á gati. Hér þurfa framleiðendur að hysja ærlega upp um sig buxurnar og velja spurningar sem lúta að almennri þekkingu venjulegs fólks.

Þá tók Jörundur við og fór að fjasa, fjasaði og fjasaði, og ég held satt að segja að það hafi orðið til þess að þeir Ó. Þorsteinsson og Magnús gáfust upp í Skerjafirði, á móts við Skeljungsstöðina, og sneru við - en köstuðu fyrst á okkur kveðju. Mér var það nokkuð ljóst að frændi minn, þótt hann bæri við annríki, gerði þetta ekki til þess að halda til helgra tíða, enda kom hið rétta í ljós í lok hlaups. Jæja, við Þorvaldur og Jörundur héldum áfram hlaupi og fórum hefðbundinn sunnudag, engin stopp nema í tröppunum á leiðinni upp á Veðurstofuhálendið, og svo í Kvosinni á leið upp í Grjótaþorp. Í bænum var verzlun að vakna til lífsins, þó ekki margt á Laugaveginum, en menn þó að leggja drög að Íslandsmeti í innkaupum og víst að lyktin af bráðnu kortaplasti mun hanga yfir bænum í dag, í bland við skötufýluna. Alla jafna var færð ágæt, en stöku hálkublettur sem mátti varast. Á leiðinni sáum við að Þorvaldur er þungavigtarmaður í umferðarmálum, þótt léttur sé að öðru leyti, því jafnan þegar við komum að gatnamótum og bílar voru á ferð þurfti hann ekki annað en lyfta hendinni (með hvítum hanzka á) og þá snarhemluðu bílarnir - þetta gerðist æ ofan í æ, jafnvel þótt við værum strangt til tekið í órétti. Segja má, eins og einhvers staðar stendur, að orðspor hans ferðist á undan honum.

Jæja, margt var skrafað á leiðinni. Jörundur talaði mikið um hvað hann hefði farið illa með þá Gísla og Ágúst ("þennan halta í  Kópavogi") í maraþonhlaupum undangenginna ára, og fylgdu þessu mörg orð og langar lýsingar. "En þeir eru nú eitthvað farnir að slappast núna, greyin!" Þrátt fyrir þetta kvaðst Jörundur eingöngu hlaupa fyrir ánægjuna núna og sig skipti engu máli á hvaða tíma hann lyki hlaupi. Sagði líka að ritari hefði betur fylgt sér í RM núna í ágúst, þá hefði ekki farið svona fyrir honum. Geysast af stað á tempóinu 5:20 með hinum vitleysingunum og sprengja sig eftir 35 km. Þetta er ekki nokkurt vit.

Þetta var góður rúntur hjá okkur, fullt sunnudagshlaup, lítið hvílt og ekki farið neitt of geyst. Í potti sat Ó. Þorsteinsson, kátur og rjóður, í kompaníi við góða menn, þá dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar Pétursson. Þá lá mínum ekki meira á en þetta, sem styður tilgátu mína um ástæður brotthvarfsins. Nema hvað, þarna er setið góða stund og vitanlega urðu margvíslegar umræður - pistill morgunsins um Vilhjálm endurtekinn, og áfram rætt um einstaklinga. Upplýst var að tímar þeirra Ólafs og Baldurs í 10 km hlaupi eru trúnaðarmál og sem slíkir verndaðir af persónuverndarlögum. Eins og menn muna þurfti VB ekki að nýta sér vinarréttinn s.l. föstudag, þ.e. að hringja í vin. Það angraði Baldur eilítiið að hafa látið hafa af sér jólaboð efnafræðiskorar til þess að sitja við símann og bíða eftir símtali. Aðrir bentu á það kauðalega í því að Garðbæingar skyldu þurfa að hringja alla leið til Reykjavíkur í vandræðum sínum þegar komið væri að tómum kofanum hjá þeim.

Eins og menn sjá í hendi sér ætti það ekki að þurfa að koma á óvart þegar Ólafur Þorsteinsson rís að lokum úr potti og segir: Já, þetta var eftir allt saman einhver sérstæðasti dagur ársins!

Næst hlaup: aðfangadagsmorgun kl. 10:10. Svo er samkvæmt hefð hlaupið sunnudagshlaup annan í jólum, miðvikudag, mæting einnig 10:10.

Hugheilar jólakveðjur til allra hlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, með eða án hlaupaskyldu. Njótið jólanna, kyrrðar, friðar, samveru með fjölskyldu, matar, drykkjar, kyrrláts bóklestrar og alls þess bezta sem jólin færa með sér. Í gvuðs friði.

Annálaritari

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband