Alvitlaust veður - enn vitlausari hl..., nei

Enn og aftur mætti maður til hlaups leiðandi í hug sér hvaða viðundur veldu þennan dag til þess að hlaupa, hyldjúp lægð á leið upp að, ef ekki beinlínis yfir, landinu, stormur á suðaustan og öll flögg á fullu. Hellirigning. Þegar þessi hlaupari mætti í Brottfararsal VBL mætti honum einkennileg sjón: fullklæddur hlaupari lá á bekk út við suðurglugga Laugar, að því er virtist í fastasvefni, og rótaði sér ekki þótt fólk kæmi inn í salinn. Ekki sá ég betur en þar lægi sjálfur Þorvaldur hlaupari og var ég ánægður með að hann skyldi sofa hljóðlega.

Aðrir sem mættu til hlaups voru Björn kokkur, dr. Friðrik, Bjarni Benz, ritari, Einar blómasali, Benedikt og Rúnar þjálfari. Menn bræddu það með sér hvaða leið væri heppilegust í dag. Hér voru reyndir hlauparar á ferð sem sáu það í hendi sér að tóm vitleysa væri að gera annað en fara öfugan mánudag. Þjálfarinn vildi að menn færu austur Sólrúnarbraut, og Ægisíðuna tilbaka aftur svo að við næðum þéttingum. Menn andmæltu þessu og töldu ekki nokkurt vit að fara móti storminum. "En hvenær ætlið þið að þétta?" spurði þjálfari. "Það gerum við á bakaleiðinni á Ægisíðu", sagði ritari. Þjálfarinn virtist eitthvað vantrúaður á ásetning manna hér og efndir, en gaf loks eftir og sagði: "Jæja, förum þá um miðbæinn, en þið vitið að Laugavegurinn er fullur af fólki." Eins og það yrði til þess að fæla menn frá því að fara Laugaveginn, menn sem eru haldnir bæði sýniþörf og gjallarhornssýki.

Enn erum við Einar framsettir, belgmiklir og þungir á okkur og þurfum virkilega að taka okkur á til að ná fyrri snerpu. Fórum hægt framan af, en nutum félagsskapar við góða menn, þá Björn og Þorvald, en Benedikt var "gone in 60 seconds" eins og það heitir - sást eiginlega ekki eftir Hringbraut - og fór lengra en við, fór fullan hring. Þjálfarinn fylgdi okkur ofan í miðbæ, upp Laugaveginn og inn á Rauðarárstíg. Veður var gott, lítt varð vart við vind og m.a.s. nokkuð hlýtt, við lá ég tæki niður balaklövuna - en lét það eiga sig og þakkaði mínum sæla fyrir það seinna. Ekki man ég að neitt væri sagt af viti framan af hlaupi, nema hvað ég sagði þjálfaranum sögu Magnúsar af IKEA manninum sem fór inn í skáp að bíða eftir strætó. Ég spurði hvað hæft væri í því að Magnús hefði allar sínar tvíræðu sögur frá sóknanefndarfundum í Neskirkju, og heyrðist á þjálfaranum að það væri ekki með öllu ósennilegt.

Farið um Rauðarárstíg, yfir Klambratún og inn Lönguhlíð, svo Skógarhlíð og undir Bústaðaveg, yfir á Hlíðarfót. Þar var dimmt og blautt og blotnaði maður í fæturna af vatnsaganum. Hér var ég í kompaníi við þá Björn og Þorvald og blés nokkuð á okkur, enda suðaustanátt. En þegar kom í Nauthólsvik leystist þvílíkt veðravíti úr læðingi að ég man vart eftir öðru eins. Hér var aðeins karlmennum stætt! Og tæplega þó. Maður stóð vart í lappirnar, svo mikill var vindstyrkurinn, þegar við fórum fyrir skúrinn þar sem Magnús léttir á sér á sunnudögum, sandstormur gekk yfir okkur slíkur að það var eins og fara gegnum kúlnahríð (einhverjir héldu að þetta hefði verið haglél, en af sandinum á stígnum var ekki um að villast að það var sandur sem lamdi  okkur í framan). Við Björn hlógum upp í bylinn, og hlupum áfram. Björn er mikill hlaupari, harðger, ósérhlífinn, kappsamur og fastur fyrir. Hann er mikill sagnamaður, frásagnir hans eru lausar við orðskrúð eða málalengingar, lausar við dramatíseringar, en þó myndrænar og eftirminnilegar. Hann var dökkklæddur í kvöld að öllu leyti, með bláa hlaupahúfu sem sat furðu fast á hausnum þegar mið er tekið af vindstyrk.

Svo var Björn horfinn og Þorvaldur náði mér einhvers staðar. Ég fór að hafa áhyggjur af þéttingunum sem við höfðum lofað þjálfaranum að taka. En varð svo hugsað til þess að Skógarhlíðin var einn samfelldur þéttingur, það var gefið í út Hlíðarfót og loks var leiðin frá Nauthólsvík og út Ægisíðu tekin í einum þéttingi. Léttur maður eins og Þorvaldur fýkur þetta bara, en feitur maður eins og ritari þarf að nota mótorinn. Enda þegar komið var út fyrir síðustu hús í Skerjafirði og vindi sleppti og Þorvaldur hætti að fjúka og þurfti að fara að ganga fyrir eigin vélarafli, þá náði ég honum. Fram að því þurftu menn aðeins að gæta þess að muna: vinstri-hægri, færa hvorn fót fram fyrir hinn, þá gerðist þetta nánast af sjálfu sér.

Orð var gert á því að hér hefðu gerst slík ævintýri að myndu endast þátttakendum í margar sögur handa börnum og barnabörnum, svo mikið var kappið, karlmennskan og hetjuskapurinn. Að vísu var upplýst að hlaupi loknu að þjálfari (af öllum mönnum!) hefði reynt að sveigja blómasalann til þess að hlaupa í skjóli síðasta spölinn, fara í skjól af húsum í Skerjafirði og þaðan heppilegustu leið til Laugar. En blómasalinn, það mikla karlmenni og afreksmaður, neitaði að stytta og leita skjóls, hann heimtaði að farin yrði Ægisíðan í hávaðaroki. Ritara þótti ótrúlegt að blómasalinn hefði farið sömu leið og aðrir - en þjálfarinn lagði starfsheiður sinn að veði að blómasalinn hefði fylgt í fótspor okkar hinna hetjanna.

Hvað gerist þegar teygt er í Móttökusal? Mætir ekki Magnús Júlíus óhlaupinn og bar við ýmsum atburðum sem hefðu torveldað hlaup, hann hefði verið með hlaupagírið með sér og svona, en þetta var bara einn af þessum dögum, ýmislegt var að útrétta og svona. Ekki tók við betra í potti, birtist ekki Eiríkur með fjölskyldu - með öllu óhlaupinn og hefði maður þó talið hann einhvern helzta kappa Hlaupasamtakanna eftir afrekshlaup s.l. fimmtudag í brjáluðum snjóstormi. En nei, svo bregðast krosstré sem önnur tré...

Á miðvikudag er nýr hlaupadagur - og eins víst að enn ein lægðin lemji okkur eins og verið hefur allt haustið sem við höfum hlaupið með þjálfurum. Við tökum því af karlmennsku, eins og hverju öðru hundsbiti, enda félagar í Hlaupasamtökum Lýðveldisins, sem eru elztu, virðulegustu, en jafnframt hógværustu hlaupasamtök landsins frá landnámi. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband