Færsluflokkur: Pistill Ritara
4.11.2007 | 14:58
Hiksti á Melum
Það hlýtur að hafa gripið um sig mikill hiksti hjá ákveðnum, ónefndum manni að Melum í Hrútafirði, þvottaegta Reykvíkingi og Vesturbæingi, á þessum degi, allt frá því ritari mætti til hlaups um tíuleytið í morgun og þar til yfir lauk. Fyrir á fleti var Vilhjálmur Bjarnason, sem mjög er farinn að mildast í framkomu við ritara í seinni tíð, allur hinn ljúfasti, en vildi ólmur halda áfram greiningu sinni á athyglissýki ónefnds hlaupara. Rifjuð upp greining sálfræðings í Odda og svo áfram um viðbrögð Ó. Þorsteinssonar við viðtali vð VB í viðskiptablaði þar sem Ólafs var í engu getið.
Spáð hafði verið stormi, en harðgerustu hlauparar voru engu síður mættir einbeittir til hlaups, þessir: Einar blómasali, Guðmundur, Þorvaldur, Vilhjálmur og ritari. Þó stefndi í að VB heyktist á hlaupi því að hann hafði gleymt jakka og leit á tíma illa út með þátttöku af hans hálfu, en fyrir hvatningu félaganna lét hann tilleiðast að hlaupa spottakorn með okkur, fyrst ætlaði hann upp á horn, en svo teygðist á þessu, niður fyrir Einimel, út á Ægisíðu og alla leið út að Kvisthaga. Þá kvaddi hann en við hinir héldum áfram. Mikið rætt um næringarfræði og átaksfræði í tilefni af því að Guðmundur hefur létzt um ein tíu kíló síðan í vor, og auk þess bætt sig geysilega í úthaldi og þoli. Við blómasalinn spurðum hvernig farið væri að þessu, fengum fyrirlestur um mataræði og strax þá sáum við tormerki á að geta leikið þetta eftir Guðmundi - en sem kunnugt er erum við Einar báðir matmenn og erfiðustu ákvarðanir hjá okkur lúta að takmörkunum á þeim vettvangi. Það átti að hætta að borða kjöt, hætta í súkkulaði, borða minna... og þar fram eftir götunum. Í staðinn fórum við að rifja upp það sem var í matinn í gærkvöldi.
Guðmundur vildi stytta um Hi-Lux, taldi sig eiga brýnt erindi í eldhús sitt sem er í rúst, líkt og eldhús ritara var fyrir fáeinum vikum. Einar blómasali hrópaði hins vegar: Það er enginn skilinn eftir í þessum hópi, áfram veginn! Þannig að það voru fjórir hlaupafélagar sem skeiðuðu áfram í kirkjugarðinn þar sem við uppgötvuðum að var komið hið besta veður og VB hefði ekki orðið meint af því að fylgja okkur eftir. Við ákváðum að fara Laugaveginn svo að Guðmundur fengi ekki jafnmiklar skammir heimkominn, en jafnframt til þess að rifja upp öll hús við Laugaveginn sem ónefndur velunnari hlaupa og útivistar í Vesturbænum fullyrti að hýstu starfsemi með vafasamt orðspor. Fórum hratt yfir og sáum aðallega fólk af erlendum uppruna eða túrhesta í bænum. Rætt um arkitektúr í miðbæ, og haldið áfram um Kvos og upp Túngötu.
Urðum mjög hissa að hitta Birgi á tröppum Vesturbæjarlaugar, óhlaupinn og líklega óþveginn. Hann virtist tímabundinn og hafði ekki tíma til að spjalla, kvaðst vera á leið í doktorsvörn. Hlaut miklar háðsglósur fyrir vikið. Við Einar teygðum vel að loknu hlaupi, enda snúið við blaðinu í þeim efnum í seinni tíð. Erum báðir að lagast í skrokknum við að teygja vel eftir hvert hlaup.
En í pott mættu auk blómasalans og ritara, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Rætt um barnmargar fjölskyldur á fyrri tíð og fyrirhugaðar breytingar á þjóðleiðinni norður í land, sem mun fara um bæjarhlaðið á Melum í framtíðínni. Það kom mér á óvart að heyra dr. Baldur fullyrða að það væri undanekning ef Ó. Þorsteinsson færi rétt með ættir eða fæðingarár þeirra manna sem persónufræði hans næði til. Hingað til hef ég verið þeirrar skoðunar að frændi minn væri einhver mestur persónufræðíngur þjóðarinnar. Það álit hefur nú beðið hnekki þar til annað breytir þar einhverju um.
Á morgun er lokað að Laugu þegar hlaup á að fara fram. Af þeirri ástæðu verður hlaupið frá Neslaug kl. 17:30 - Hlaupasamtökin eru með formlegt boð upp á vasann frá Trimmklúbbi Seltjarnarness þar að lútandi. Hlaup hefst með grindarbotnsæfingum á grasbala ofan við laug - eru það skylduæfingar og ekki undan þeim vikist, ef einhverjum skyldi hafa dottið það í hug. Vel mætt! Ritari.
2.11.2007 | 22:41
Einkennilegt hlaup
Já, ég segi það og skrifa: þetta var einkennilegt hlaup. Ég saknaði minna beztu félaga: Gísla, Jörundar, Agústs, Magnúsar.... Ekki þar með að vöntun væri á góðum hlaupafélögum: Þorvaldur, Vilhjálmur, Denni, Einar blómasali, Björn kokkur, Hjörleifur, dr. Jóhanna, og svo fólk af Nesi, Brynja og dr. Friðbjörn. Enn og aftur skal áréttað að gestir úr öðrum sóknum eru hjartanlega velkomnir í okkar hóp að hlaupa, þótt aðeins sé á tímabundnum basis. Það gladdi mig innilega að hitta fyrir dr. Sjúl í Brottfararsal, hann hafði myndavél meðferðis og myndaði hlaupara hátt og lágt. Hann hefur ekki hlaupið frá RM sökum beinbrots, en er allur að koma til og mun hefja hlaup að nýju fljótlega. VB tók að sér að kenna Sjúl að taka portrettmyndir, benti honum á hvernig taka mætti myndir af fólki þannig að liti út fyrir að það væri fávitar. Sko!, sjáðu, sagði VB, ég skal taka mynd af fávita, sagði hann og beindi myndavélinni að mér. Ég forðaði mér.
Mér fannst veður válynd, vindur í sókn, kólnandi. Við lögðum í hann að lokinni photoshoot á tröppum VBL - óheppilegt kannski að ávallt þegar einhver mætir með myndavél eru helztu hlauparar fjarverandi, en hins vegar fullt að aðskotafólki af Nesi á vettvangi, sbr. forsíðu bloggsins. Til umhugsunar. Við lögðum hikandi í hann og vorum fremstir, ritari og Þorvaldur, og reyndum að teyma hitt fólkið með okkur. Farið hægt út og af einhverri einkennilegri ástæðu var ég fyrstur, ásamt með Þorvaldi og Hjörleifi. Rætt um margvísleg málefni, eins og oftast á föstudögum eitthvað um áfengi og áfengisbölið, enda Fyrsti Föstudagur. Það var nýbreytni að hafa með okkur fólk af Nesi sem verið er að innleiða í sannleik um hefðir og kúltúr Samtakanna, sumir voru að heyra um Hi-Lux-brekkuna og vildu vita hvar hún væri og hvað hefði gerst þar. Brynja tók að sér í sönnum uppfræðsluanda að fræða viðstadda um hvað þar hefði gerst og hvers vegna þessi brekka væri svona merkileg í sögu Samtakanna. Þá komu gestir af Nesi með sögu sem var, ef ekki hliðstæð, þá alla vega svipuð: hlaupið var eftir Laugavegi og niður Bankastræti, hlaupari vel við vöxt varð fyrir því að kona á BMW renndi niður rúðunni, rétti út höndina, kleip í rasskinnina á viðkomandi og sagði: Ég vil hafa mína menn vel útilátna! eða eitthvað í þeim dúr. Heyrir þetta til sögu TKS.
Það var haldið í hann svolítið fumkennt, en hins vegar reyndist Þorvaldur góður leiðtogi framan af, teygði menn áfram af mikilli einbeitni framan af, en þegar hans leiðsögn þraut tók raunar við Hjörleifur og má segja að hann hafi tekið við hlutverki Ágústs, að halda uppi tempói og hraða. En sumsé, þarna erum við stödd á Ægisíðu, og var einkennileg blanda fólks saman komin, sumir úr Vesturbæ, og sumir af Nesi, en allt fór vel og vinsamlega fram. Eins og verða vill dróst í sundur með fólki, og skiptir ekki máli hvaða leið einstakir hlauparar fóru, en við helztu hlauparar fórum hefðbundið án þess að slá af: Nauthólsvík, Hi-Lux, Veðurstofa, Hliðar, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut og þannig tilbaka, og ef eitthvað var, þá var gefið í, hér sá Hjörleifur um að halda uppi hraðanum, helzt hefði ég viljað hafa blómasalann við hlið mér til þess að hafa afsökun til þess að hvílast eða að ganga, en því var ekki að fagna; og eftir á að hyggja var ég feginn því. Maður hefur gott af að reyna aðeins meira á sig en mann langar til hverju sinni. Þarna fóru sumsé ritari, Hjörleifur, dr. Jóhanna og dr. Friðbjörn og héldu fínum takti alla leið til loka hlaups - en gátu jafnframt átt samtöl.
Á plan mættu ýmsir sem höfðu stytt: blómasali, Denni, Brynja og fleiri í þeirri kategoríu. Gengið til potts. Fórum í Örlygshöfnina og sátum þar góða stund, mættur var Sjúl, óhlaupinn frá RM, en að öðru leyti í góðum gír. Margt spaklegt rætt sem ekki verður haft eftir, m.a. um fjármálaleg málefni, enda hélt VB ádíens í potti og hafði skoðanir í mörgum greinum. Verður fróðlegt að halda áfram greiningu og umfjöllun í morgunhlaupi sunnudags.
Í trúum anda Samtakanna var haldið til drykkju að Mimma, þangað mætti fjöld manns, og verða þeir eigi taldir sem þar voru mættir. En þeir voru eigi færri en tíu. Hlaup að nýju næstkomandi sunnudag. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt 3.11.2007 kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 21:56
Lengi getur vont versnað (og gott bessnað...nei)
Mér leist satt að segja ekki á að hlaupa í dag þegar ég gekk út úr Stjórnarráðinu um hádegisbil, norðangarri og kalt. Fór að rifja upp allar helztu og þekktustu afsakanir sem menn hafa beitt í gegnum tíðina, en ég sá fyrir mér persónu próf. Fróða, þar sem hann segir hæðnisfullur: Sólskinshlaupari! Svo að ég mætti á tilskildum tíma. Gísli hafði lofað prófessornum að fara með honum í sjóinn til þess að tryggja októberbað og -stig. Ég er enn í útiklefa og tek ekki mark á kalendernum, aðeins hitastiginu. Það var svolítið kalt og ég kveikti á hitalampanum og klæddi mig í snatri. Mætti í Brottfararsal, þar var Þorvaldur mættur óvenjusnemma, ég spurði hvort hann hefði verið rekinn (þetta er standardfrasi þegar blómasalinn mætir (of) snemma - hva? er búið að reka þig?). Þorvaldur brást vel við spurningunni og taldi áhyggjuna óþarfa. Svo bættust þeir við hver af öðrum: próf. Ágúst, Magnús, Birgir, blómasalinn, Guðmundur, Benedikt, Þorbjörg, og loks dúkkaði sjálfasti Kári hinn franski upp, gekk um kyssandi hlaupara á báðar eins og sannur Franzmaður. Rúnar þjálfari mættur og gaf fyrirskipanir: taka þétting eftir dælustöðina og alveg út í Nauthólsvík og bannað að tala saman á meðan! Menn horfðu hver á annan: hvernig er þetta hægt? Látum vera þótt menn spretti úr spori, en að hætta að tala saman. Menn klóruðu sér í kollunum og brutu heilana, en voru engu nær. Prófessorinn lyfti varfærnislega hendi og sagði: "ég er með vottorð".
Það var farið rólega út, eða svo taldi ég. Ekki vorum við farin langt þegar grá jeppabifreið varð á vegi okkar og hóf að flauta á okkur af mikilli frekju, en svo kom í ljós að innandyra var konrektor ungdómsakademíunnar við Hagatorg, og eiginkona hans, mágkona ritara. Var þeim fagnað með ágætum af öllum hlaupurum. Haldið áfram á Ægisíðu, og nú brá svo við að veður var með allra bezta móti, vind hafði lægt og það var hrein unun að skeiða skeiðið. Ef frá eru skildar tvær pylsur sem hringluðu í maga ritara og létu vita af sér. Prófessorinn hafði hálfvegis gert sér vonir um sjóbað, en með bæði Gísla og dr. Friðrik fjarverandi, helztu hvatamenn sjóbaða, var lítill metnaður til baða, nema hvað ritari er ávallt til í glapræði og vitleysu ef góðir menn standa þétt að baki. Svo var ekki í dag og virtist prófessornum létt. Ég spurði hann hvort þetta væri ekki slæmt, að missa af októberstigi. "En ég er með októberstig!" sagði prófessorinn - "ég er búinn að baðast í október, það var í október í fyrra!" Þetta fannst mér einkennilegt svar, enda leit ég svo á að menn þyrftu að safna inn stigum ár hvert. En hér upplýsti prófessorinn um nýja reglu: sá maður sem þegar hefur baðast í tilteknum mánuði - er með þann mánuð um alla framtíð! Ég verð að segja að mér finnst þetta harla einkennileg regla: hún beinlínis stuðlar að því að menn baðist einu sinni í mánuði einhvern af helztu mánuðum ársins og svo ekki söguna meira. Þetta finnst manni ekki í anda Hlaupasamtakanna og ekki beinlínis karlmannlegt. Til nánari skoðunar til þess bærra aðila.
Fljótlega kom í ljós hver munur er á hlaupurum þessi misserin, við sáum reykinn eftir Guðmund sem er farinn að leika þann ljóta leik að skilja aðra hlaupara eftir og hlýðir ekki fyrirmælum þjálfara um að fara hægt út og taka þétting eftir dælustöð. Aðrir eins og Magnús, Benedikt og fleiri skildu okkur hina eftir. Einhvers staðar á brautinni dúkkaði Una upp, spræk og frísk. Ég hélt mig við öftustu hlaupara, blómasalann og Þorbjörgu, ég út af pylsunum, Einar orðinn feitur, þungur og bakveikur af baktali sem hleypir bólgum á verstu staði. En hlaup er bara hlaup og engin keppni - þannig að hver gerir sitt bezta. Við skeiðuðum áfram og reyndum hvað við gátum, en fljótlega fóru ýmsir hlauparar að bila, Ágúst fyrstur, gömul meiðsli tóku sig upp; svo blómasalinn, bakið ónýtt; ritara þótti gott að hafa svona bilaða menn með sér sem afsökun fyrir því að þurfa ekki að sperra sig og fara bara stutt.
Við fórum út í Nauthólsvík, en tókum okkur gönguhlé á milli í anda sunnudagshlaupa. Áttum löng trúnaðarsamtöl um okkur hugðnæm málefni, sem ekki verður uppljóstrað um hér. Fengum í bakið hóp af hlaupurum á Hringbraut sem höfðu farið eitthvað lengra en við, létum okkur nægja Hlíðarfót, sem er góð vegalengd og hentug veiku fólki eins og okkur, 8 km. Komum nokkuð jafnsnemma á plan og aðrir hlauparar. Þar var teygt, togað, og skrafað. Loks stefnt á pott. Í potti urðu langar umræður um margvíslegar náttúrur, efnafræði, efnisfræði málmiðna, málmframleiðslu o.s.frv. En þó ber þess að geta að í pott mættu einvörðungu Kári, Einar, Birgir og Ólafur ritari. Og Þorbjörg stutta stund. Rætt um gler sem byggingarefni, tekið dæmi af byggingu í Smáralind sem er nær alfarið úr gleri og þykir mjög hentugt. Hér varð Birgir mjög tómeygður, glíkur frænda mínum Ó. Þorsteinssyni þegar hann fékk svínslegu vísbendingaspurningarnar frá VB, og svo sagði hann: "Já, er það þarna einhvers staðar á landsbyggðinni?" Svona tala bara innfæddir, bona fide Vesturbæingar og ætti að veita sérstök verðlaun fyrir þetta viðhorf til umheimsins.
Hér féllu svo mörg gullkorn að skömm væri að veita öðrum en þeim sem nenna að hlaupa og mæta til potts, en þó þetta: frönsk speki, elsku barnið mitt, et gulrætur, þær bæta sjónina; et fisk, það bætir minnið; en helzt af öllu: et fisk sem borðar gulrætur, því það tryggir að þú munir það sem þú sást. Í gvuðs friði, þar til á föstudag, ritari.
28.10.2007 | 20:27
Köben í þrennum greinum
Rifjað upp samtal þeirra fóstbræðra VB og ÓÞ frá sunnudeginum seinasta og laut að veðurlýsingu fyrir Ísland, þar sem VB dró upp afar dökka mynd af útlitinu og sagði flughræddasta manni landsins að það líti út fyrir mikinn túrbúlans í millilandaflugi þann daginn. Á daginn kom að þetta varð þægilegasta flug Ólafs frá upphafi. Mælst til stofnunar dionýsískra samtaka opinberra starfsmanna er hefðu að markmiði að efla hag þeirra á allan veg þannig að verjast mætti ofsóknum þeim á hendur sem trúarofsóknum.
Það var farið hægt út, einhver hafði á orði að kaupstaðarlykt svifi um loftin, en menn gerðu sér ekki rellu út af því. Er ekki bara virðingarvert að menn skuli hlaupa þrátt fyrir áfengisgufur fyrir vitum. Veður ákjósanlegt til hlaupa, andkalt en stillt, og rosaleg hálka. Kom það enda á daginn að ritari bjargaði ekki færri en tveimur félögum frá falli og beinbrotum - en minnist þess ekki að hafa uppskorið miklar þakkir fyrir. Nei, maður er alltaf einmana og vinalaus. Aðalumræðuefni út í Nauthólsvík var Kaupmannahafnarferð Ó. Þorsteinssonar og var hún honum endalaus uppspretta hnyttilegra frásagna, en jafnframt hneykslanlegra.
VB sagði frá greiningu sinni á flughræðslu Ólafs Þorsteinssonar. Hann hafði varpað fram þessum vanda til greiningar á kaffistofu í Odda þar sem margt sálfræðinga var statt. Nú gekk fram einn sálfræðingur og hafði jafnframt starfað sem flugfreyja og spurði þriggjs spurninga: fylgist viðkomandi með ljósvakamiðlum og hlerar eftir að nafn hans sé nefnt? (Já, sagði VB); les viðkomandi prentmiðla og leitar nafns síns? (Já, sagði VB.); hefur téður aðili yfir að ráða einkanúmeri? (Já, sagði VB). Sjáðu til, þetta er athyglissýki.
Hér voru hlauparar sem þrumu lostnir. Athyglissýki, hjá manni sem búinn er að afhrópa fjölda fólks og greina með gjallarhornssýki. Getur það verið? Hlaupið áfram í kirkjugarð og staldrað við nýlegt leiði í garðinum. Hér tuldraði VB eitthvað um uppáhaldsiðju Ó. Þorsteinssonar. Ekki var hægt að gera löng stopp því að menn kólnuðu hratt niður. Áfram um Veðurstofu og Hlíðar og rætt um fyrirhugaða árshátíð hlaupara. Við Einar og Ólafur lentum á eftir hinum sem voru tiltölulega frískir - en náðum þeim svo á Rauðarárstíg og eftir það var samfylgd nokkuð samfelld. Enn var vatn að hafa úr fonti á Sæbraut og var það ljúft.
Komið til Laugar og allir óbrotnir, sem var kraftaverk miðað við hvernig færðin var. Þar biðu margir fróðir menn, en sumir þrasgjarnir með eindæmum og ekki mjög áheyrilegir af þeim sökum. Hlaupið er á morgun, en þá verður ritari í háloftunum. Í gvuðs friði. Ritari.
Pistill Ritara | Breytt 3.11.2007 kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 21:37
Dapurlegt ástand skrokkanna
Nú var liðin vika frá því að ritari mætti til hlaupa. Frá er talin mæting s.l. miðvikudag er hann mætti til Laugar í þeim tilgangi einum að skola af sér ferðarykið eftir erfiða ferð um Atlanzála - og orsakaðist af brýnum erindum í höfuðstað Evrópu, Brusli. En á miðvikudag hitti hann fyrir kæran félaga, próf. dr. Fróða og hafði hlaupið heila fjóra kílómetra, virtist allur vera að koma til og ljómaði af stolti yfir árangrinum. Ég spurði hverjir hefðu verið að hlaupa, hann varð hugsi og sagði, það var ég, og Magnús, og Reynir og ..., og svo voru einhverjir vesalingar á eftir okkur. Með því vísandi til ekki minni hetja en Einars blómasala, Björns matreiðslumanns og dr. Friðriks. Ég hitti einnig Einar og Björn og átti við þá gott samtal. Einar minnti mig á að sig vantaði MoM.
En í kvöld var annað upp á teningnum. Hér var harðsnúið fólk mætt til hlaupa, fyrstan mátti kenna Gísla Súrsson á Uppsölum, svo hvern af öðrum, Björn kokk, Ágúst, Friðrik, og svo þrennt af Nesi: Rúnu, Brynju og Friðbjörn. Er það ánægjulegt að fólk úr öðrum sóknum skuli sjá sér hag í að mæta til hlaupa með Samtökum Vorum og eru þau ævinlega velkomin.
Nokkuð kunnuglegar kýtur urðu í Brottfararsal, kvörtuðu menn yfir ummælum um sig í pistlum ritara, þeir hefðu glatað góðum starfstækifærum þegar tilvonandi vinnuveitendur hefðu gúgglað nöfn þeirra og lesið ýmislegt misjafnt um þá á veraldarvefnum. Þó var ekki að heyra að fólk vildi að hætt yrði ritun um þá atburði helzta er verða á hlaupum í Samtökunum. Menn veittu athygli að próf. Ágúst virtist óbugaður með fótinn frá Kamtsjatka og virtist einbeittur í að prófa hann enn og aftur.
Fámennur hópurinn hélt af stað út í óvissa tíð. Horfur voru tvísýnar, spá lofaði ekki góðu, veður kólnandi, en samt þolanlegt þegar var lagt í hann. En þegar komið var niður á Ægisíðu kárnaði gamanið, Ágúst byrjaði að kvarta ógurlega yfir ástandi líkamans og var harla svartsýnn á að hann næði að ljúka nokkru hlaupi af viti. Við félagar hans vorum sammála honum um að ástæðulaust væri að vera bjartsýnn á að hann næði að ljúka hlaupi af viti í dag. Samt vorum við Gísli mjög uppbyggilegir og sögðumst mundu fara hægt og stutt með honum af fullkominni meðaumkun með dapurlegu ástandi hans. Aðrir hlauparar skæðir, vildu ólmir hefja hlaupið, spretta úr spori og fara að hlaupa af einhverri alvöru. En þetta var dagur aumingjanna og bara farið hægt.
Þetta var hættulegt hlaup, vindur jókst af suðaustri er kom nær flugvelli og vorum við í strekkingsvindi og hundslappadrífu. Ekki kjörið, en viðunandi. Er hér var komið hófu menn að skyrpa og spýta af miklum móð og mátti maður hafa sig allan við að víkja sér undan slettunum. Á einum tímapunkti lenti sletta frá Ágústi á buxnaskálm minni - og sá ég mitt óvænna, nú yrði ekki hjá því komist að þvo buxurnar, en þær hafa sloppið við þvott í allt haust.
Eins og alltaf á föstudögum var aðalumræðuefnið áfengisdrykkja og áfengisböl - og sýndist sitt hverjum. Einhverjir töldu að enn væri eftir fyrsti föstudagur í október - en dræmlega var tekið í það, við þegar búin að taka þennan dag út tvisvar. Samstaða var um að næst yrði fyrsti föstudagur hinn 2. nóvember næstkomandi. Svo var það sjóbaðið: við nudduðum því inn hjá prófessornum að hann ætti enn eftir októberbaðið og bentum á að hann gæti bjargað sér með sjóbaði hinn 31. október. Hann var heldur vondaufur um að það hefðist, en Uppsala-Gísli reyndi að örva hann til dáða og vekja honum von um að það mætti baðast. Ef ekki verður af baði missir prófessorinn af Október-stigi, sem hefur ekki gerst svo lengi sem elztu menn muna. Ástandið er alvarlegt.
Í Nauthólsvík sveigðum við af braut, fórum um nýmalbikaðar brautir sem eru fjölmargar í Öskjuhlíð, en Nesfólkið fór hefðbundið. Við höfðum allir áhyggjur af Ágústi, að hann færi að reyna um of á veika krafta sína. Fórum um Hlíðarfót gegnum votlendi óhefðbundið og vöknuðum sumir hverjir í fætur, Gísli og Björn styttu, en við Ágúst fórum rétta vegalengd - vorum samt jafnan fremstir. Er hér var komið fór að hlaupa í prófessorinn sú gamla árátta að gefa í og á endanum var farið gizka hratt allt til Háskóla - en hann lét ekki bilbug á sér finna og fór heill í gegnum þessa raun. Er nú bara að takast á við letina - en prófessorinn hefur látið í ljós þá skoðun að hann nenni ekki að hlaupa.
Í potti var mjög rætt um persónufræði og hlaup, en einnig svolítið um hlaup. Við bættist blómasali veikur sem kvaðst hafa bara hugsað um koníak í morgunmat, krafði ritara um MoM. Þó urðu mjög áleitnar umræður um sjúkdóma, veikindi, meiðsli, sjúkraþjálfara, meðferðir og fleira óviðeigandi sem ekki á heima í hlaupahópi. Menn forðuðu sér. Næst: sunnudagshlaup.
19.10.2007 | 21:58
Lífsgleði á tréfæti
Er ég mætti til Laugar í dag var enginn kominn í Brottfararsal. Fór út í útiklefa og klæddist hlaupafatnaði. Það var svo hlýtt í dag að engin þörf var fyrir Balaklövu, en hafði þó hanzka til öryggis. Ég rakst fljótlega á Vilhjálm Bjarnason, sem er farinn að sýna af sér skilyrt viðbrögð þegar ritari birtist, og var ekki að spyrja að því, orðastimpingar hófust með það sama, ritari ásakaður um að ausa svívirðingum og ósóma yfir hlaupara, kalla þá geðstirða eða skapvonda: er ég skapvondur, spurði VB. Ég reyndi að gera það bezta úr aðstæðum og sagði eitthvað á þá leið að vissulega kæmi fyrir að hann væri í góðu skapi, en oftar væri hann, með orðum ÓÞ, "önugur og afundinn" - vildi þannig þvo hendur mínar af því að vera að stimpla menn geðvonda. Hann sleppti ekki þessu máli, fullyrti að ritari færi með ósannindi um menn, því til sönnunar réðst hann á Jörund við komu í Sal og spurði: Jörundur, erum við ekki vinir? Jú, sagði Jörundur, við erum ævilangir vinir. Hefur nokkurn tíma fallið skuggi á vináttu okkar? Nei, sagði Jörundur, aldrei. Við erum ekki alltaf sammála, en vinslit eru aldrei inni í myndinni.
Er hér var komið sá ég mann sem ég kannaðist við, en kom ekki alveg fyrir mig; svo rifjaðist upp fyrir mér að hér var kominn maður sá er kallaður var prófessor Fróði meðan hann var og hét, og þótti nokkuð efnilegur um sinn. Ég heilsaði honum vinsamlega en þó ekki kunnuglega, enda verður maður feiminn þegar svo langt líður frá því að menn mæta til hlaupa og fyrnist yfir kunningsskapinn. Samskipti öll voru nokkuð stirð, og í bland varð maður var við fálæti hlaupara gagnvart hinum fjarverandi prófessor. Aðrir hlauparar tíndust í Sal: Gísli, Jón Kári, dr. Jóhanna, VB, Jörundur, Þorvaldur, próf. Fróði, Denni og Hjörleifur. Töluverð umræða spratt í Brottfararsal um Ágúst og ástand hans, sýndist glöggum viðstöddum að hann væri kominn með gervifót, var spurt hvort hann hefði keypt það nýjasta frá Össuri; nei, nei, hann hafði frétt af gamalli kerlingu á Kamtsjatka sem hefði verið á tréfæti og geispað golunni, fékk hann fyrir slikk. Menn véfengdu þetta og töldu að hann myndi aldrei hafa tímt að snara fram stórum upphæðum fyrir fót, líklega væri þetta fótur af norðlenzku hrossi, sjálfdauðu. Þannig gekk umræðan - og voru tilgátur studdar veiklulegum fyrirspurnum prófessorsins um hvort ekki væri örugglega farið hægt og stutt, eða: vill ekki einhver fara hægt og stutt? svo vísað sé beint í hinn fróða mann. Jú, jú, við förum öll hægt og stutt sagði Gísli á Uppsölum.
Veður var gott og tilvalið til hlaupa, smávindur sem átti eftir að koma okkur í vandræði síðar. Ég hafði á orði að allur agi og skipulag væri farið út um þúfur eftir að prófessorinn hætti að mæta, hann væri drifkraftur langra hlaupa, svo sem 69. Nú mætti heita að þau hefðu fallið niður og aðeins væri farið mjög stutt, í mesta lagi 11,3 km. Prófessorinn lifnaði allur við er hann heyrði þetta og varð brattari. "Já, þetta datt mér í hug." Menn voru feimnir er haldið var af stað, ekki vitað hver ætti að taka forystuna, Þorvaldur var mjög framarlega í þessu og teygði okkur áfram. Hefðbundið niður á Ægisíðu, eftir á var skopast með að Ágúst hefði sagt æ-i á Ægisíðu og fengið sting í síðuna. Hann er undir meðhöndlun dansks sjúkraþjálfara sem talar ensku og enginn skilur. Við fórum afar varfærnislega út, enda vorum við undirbúin undir að prófessorinn dytti sundur þá og þegar með sinn tréfót - við fræddum fóthafa fótsins um ýmislega kosti og galla þess að hafa tréfót, rifjuðum meðal annars upp ævisögu Stefáns Jónssonar á löppinni og ævintýri hans á einum fæti. Ágúst fór aumingja allra aumingja, Ægisíðu út að Suðurgötu og þaðan norður Suðurgötu og óskilgreindar leiðir til Laugar, ekki er einu sinni til nafn á svona hlaupaleið! Hann var enn með efasemdir um sjósund síðasta miðvikudags og reyndi að eyða upplýsingum um þá sem þreyttu sjósund í sjö gráðu heitum sjónum, Gísli, Björn kokkur og ritari.
Hlaupið í hægðum (á maður að segja "sínum" eða "okkar" - hvernig skilja menn slíkt?) áfram veginn og var hefðbundinn galsi í gangi. VB upplýsti um sýningu á Terpentínu - menn söknuðu þeirra ÓÞ og Einars blómasala, en fögnuðu Denna skransala sem veigamikilli viðbót við hópinn. Áfram fyrir flugvöll og inn í Nauthólsvík - þar gáfust ónefndir hlauparar upp og fóru Hlíðarfót. Helztu og beztu hlauparar héldu áfram - og hver birtist þarna hlaupandi utan úr dimmunni? Nema sjálfastur Birgir Þorsteinn Jóakimsson, búinn að ná öftustu hlaupurum og vinna sig áfram og upp að fremstu hlaupurum. Hann hafði þá skýringu á seinkomu sinni að honum hefði verið falin forsjá með dóttur sinni veikri heima, og hefði viljað stytta þann tíma sem hún væri ein og grátandi, veik og illa haldin. Menn spurðu: skildirðu hana eftir eina heima, veika og...? Já, já, ég þurfti að fara að hlaupa! Jörundur sagðist hafa heyrt grát frá heimili Birgis síðustu nótt. Hélt að Birgir hefði gleymt að gefa dætrum sínum að borða og þær væru grátandi úti á stétt að biðja um mat. Nei, þá var það kötturinn sem var greinilega búið að svelta um lengri tíma, hann stóð úti á stétt vælandi eins og hann væri krakki. Jörundur, þessi góði maður, tók hann undir sinn verndarvæng og leyfði honum að skríða undir pallinn hjá sér - þar sem hann (kötturinn) er vanur að gera allar sínar þarfir.
Upp Hi_Lux og ekki slegið af: Jörundur, Birgir, dr. Jóhanna, ritari, Hjörleifur og Denni - samstæður hópur hlaupara. Eftir því sem leið á hlaup óx okkur ásmegin og við urðum hressari - enn var rætt um nafnið Miklatún/Klambratún. Birgir kvaðst hafa spurt VB hvernig auka mætti hraða á hlaupi - VB stóð á gati. Svarið var: auka tíðni í færzlu fóta, eða lengja skref. Hér var náttúrlega ekki spurt um persónur, sem er sérsvið VB. Áfram um Harmahlíð og Hlíðar, hér var ritari orðinn verulega frískur og tók þétting á Klömbrum. Hann nam umræður að baki sér um sjálfan sig: "Ég get náð honum hvenær sem er. Spurðu hann, hver var á eftir honum fram að 35 km í RM - og hver fór fram úr honum á 35 km..." og annað eftir þessu. Ég tók þétting á Klambratúni og spretti verulega úr spori - ég heyrði tiplið í Jörundi á eftir mér.
Svo var farið hefðbundið um Sæbraut og tilbaka, á nokkuð góðum hraða og held ég að Ágúst hefði verið ánægður með okkur. Alla vega hugsaði ég að þetta hlaup væri góður undirbúningur fyrir þá tíma er prófessorinn kemur tilbaka og fer að stýra okkur í Bakkavarir og 69. Ekki seinna vænna! Er mætt var í pott voru þar Flosi og Gísli og létu sig hverfa fljótlega, en Ágúst sat áfram með okkur. VB fékk súluna sína, en var bent á að súlan væri í raun I-biti. Við sátum alllengi í potti og spjölluðum saman - svo kom Anna Birna og settist að Laugu. Denni upplýsti um drenginn sinn þrítugan sem enn er í fæði heima - nú þyrmdi yfir Önnu Birnu: Jésús, verður Dobermanninn enn heima eftir 20 ár? Ákveðið var að fresta Fyrsta Föstudegi sem margir telja sig eiga inni eftir miklar fjarverur - en auðvitað geta menn kennt sér sjálfir um fyrir sakir aumingjaskapar.
Gott hlaup að baki í góðra vina hópi - framundan hlaup á laugardag kl. 10 og svo sunnudag kl. 10:10, nóg í bili. Í gvuðs friði, ritari.
17.10.2007 | 21:10
"Það varðar yður ekki um...!"
Nú var þjálfarinn mættur: Rúnar. Þjálfarar eru á móti fólki sem talar mikið. Þeim finnst að fólk eigi að þegja og hlusta. Það gekk erfiðlega að fá fólk til að þegja og hlusta úti á stétt, en á endanum tókst það að mestu og menn hlýddu á línu dagsins: hlaupa 10 km og taka þéttinga í lokin, fara hægt út. Þetta reyndist sumum um megn, kannski eru menn svona illa gefnir, hlustuðu ekki eða er um megn að fara eftir leiðbeiningum. M.a.s. öðlingur eins og Magnús gaf blankan fjandann í leiðbeiningar þjálfara og setti á fullan kúrs áfram þegar frá byrjun. Ég held raunar það sé vegna þess að Magnús er eins og Flosi, er bara með eina hraðastillingu og heldur henni. Nóg var af fínum hlaupurum að fara með, Eiríkur á leið í New York maraþon eftir þrjár vikur og í miðju prógrammi, Benedikt bættist í hópinn og virtist frískur, aðrir: Gísli, Jörundur, dr. Jóhanna o.fl. Veður gott, nánast enginn vindur og hlýnandi.
Farið í rólegheitum austur Ægisíðu, fremst fóru Magnús, dr. Jóhanna og einhverjir fleiri - en við Ó. Þorsteinsson og VB vorum aftastir og alveg rólegir. Ég upplýsti þá um stöðu mála í eldhúsinu: loks kominn með nýtt eldhús og farinn að elda gómsætar máltíðir. Lýsti herlegheitunum fyrir frænda mínum, og aðstæðum öllum. Svo fóru ákveðnir karaktérar að grúppéra sig saman og varð fljótlega séð í hvað stefndi: í Nauthólsvík fóru Gísli, ritari og Björn matreiðslumaður niður á ramp, dr. Jóhanna á eftir sem vitni, við strippuðum og skelltum okkur í svalandi Atlanzhafsölduna, 7 gráðu heita. Vorum ekki lengi, en það hressti okkur við. Klæddumst á ný og töltum Hlíðarfót - skilst að aðrir hafi farið út að Suðurhlíð, upp Löngubrekku og tilbaka framhjá Perlu. Auglýst er eftir heiti á þessari hlaupaleið. Er við komum út að Hringbraut mættum við Magnúsi Eldibrandi sem fór þar um og leit hvorki til hægri né vinstri. Öskruðum á hann að bíða. Magnús er samvizkusamur maður og hlýðinn, fer eftir því sem honum er sagt, tók þéttinga sem þjálfarinn hafði fyrirskipað, meðan við hin bættum aðeins í frá Valsvelli og út að háskóla.
Gott hlaup og uppfrískandi. Ég missti af mánudagshlaupi vegna tenginga heimafyrir á vaski og uppþvottavél, en ég var hins vegar mættur út á Eiðistorg um sexleytið og sá þar kuldabláar manneskjur hlaupa hjá í norðangarranum, allir í vetrargírinu. "Aumingja fólkið!" hugsaði ég og faldi mig svo ekki sæist að ég væri að skrópa. Ekki vill maður vera stimplaður sólskinshlaupari. En ég hafði, að eigin mati, gilda afsökun fyrir fjarveru.
Í pott söfnuðust valdir einstaklingar og var áfram rætt um uppskriftir að chili con carne, aukaverkanir ýmislegar sem þarf að kolefnisjafna. Upplýst var að próf. Fróði væri að skríða saman og væri væntanlegur á næstu mánuðum, sem er eins gott, aðeins eru tveir sjóbaðsdagar eftir í október til þess að bjarga mánaðarstigi og ég fæ ekki séð að hann hafi tök á að bjarga því, nema svindla; hins vegar má benda á þann möguleika að hann mæti beint í Nauthólsvík og hlaupi tvö skref niður á ramp (sem er lágmarkið - mæta hlaupandi), fari í sjóinn og bjargi stigi. En hvað veit maður, kannski liggur hann undir fiðri og harmar hlutskipti sitt. Blómasalinn í Boston að braska. Ó. Þorsteinsson á leið til Danaveldis, þannig að sunnudagshlaup verður tíðindalítið og dauft. En enn er föstudagshlaup og aldrei að vita nema hlutirnir gerist þar. Nóg sagt um sinn. kv. ritari.
12.10.2007 | 21:50
Tíðindaríkt hlaup fær sögulegan endi
Vesalingur minn var mættur snemma til hlaups. Hafði hitt Gísla fyrr um daginn og ræddum við um hlaup dagsins, eðlilega var ég því spenntur og óþreyjufullur að hitta félaga mína, hafandi vanrækt Hlaupasamtökin nokkur undanfarin hlaup vegna framkvæmda í eldhúsi mínu. Horfur voru góðar, veður gott og lofaði dagurinn góðu um hlaupið. Svo fór fólk að tínast inn: Þorvaldur, Denni, Hjörleifur, Jón, dr. Jóhanna, og svo kom blómasalinn og ætlaði að vera með ádíens en var rekinn út í útiklefa að skipta um, á síðustu stundu kom svo Birgir á hjólfáki sínum. Fleiri komu ekki til hlaups í dag.
Þrátt fyrir að blómasalinn væri með Garmin var farið hægt út og hægast fór Einar sjálfur, hann var varkár. Mér varð hugsað til þess hversu gífurlega þéttur þessi hópur væri, samstaðan alger um vitleysisganginn og galsann, en jafnframt sannfæring um að í heilbrigðum líkama blakti heilbrigð sál. Meira um það seinna, en vissulega voru menn ósáttir við að ekki fleira af Nesi mætti, aðeins Denni einn og fyrirhugaði ekki einu sinni að taka þátt í Fyrsta Föstudegi.
Það var þeyst eftir Sólrúnarbraut í austur og smám saman bætti í vind, það var rætt um átök í borgarstjórn og voru ýmsar kenningar uppi um hvað hefði búið að baki stjórnarskiptum, þó báru menn sig karlmannlega og var engan grát að heyra í hópnum. Rætt um feðranir og hversu áreiðanlegar upplýsingar þar að lútandi væru, tekin dæmi úr Tékkóslóvakíu. Er kom í Skerjafjörð, og þó einkum fyrir flugvallarenda, brast á með stórhríð úr suðaustri, því allra versta sem hugsast getur hér á suðvesturhorninu. Á tímabili virtist sem við stæðum kyrr, þótt við hlypum, svo mikill var hamagangurinn. Í Nauthólsvík fór að rigna, og það bætti í , svo jókst rigningin og á endanum var eins og hellt væri úr fötu. Við fórum upp Hi-Lux og vorum furðu létt. Er hér var komið sögu héldu hópinn Þorvaldur, Hjörleifur, dr. Jóhanna, ritari, Birgir og blómasalinn var einhvers staðar rétt fyrir aftan okkur. Það rigndi og rigndi og hefðin bauð að farið yrði framhjá kirkjugarðinum, um Veðurstofuhálendi, niður hjá menntaskólanum við Harmahlíð, þaðan gegnum hverfið og út á Klambratún. Menn voru misheilir í því að halda vegalengdir, sumir skáru horn og styttu - engin nöfn nefnd af virðingu fyrir eiginkonum og börnum.
Einhver einbeittastur hlaupari í hópi vorum er Þorvaldur, segja má að hann hafi haldið uppi tempói í kveld, og bætti í ef eitthvað er. Þessu tóku menn eftir á Klambratúni, þá var gefið í og farið gizka hratt, téður Þorvaldur fremstur. Sökum óhagstæðra vindátta var farið niður Laugaveg og gefið í ef eitthvað er. Mikið af fyllibyttum dettandi út af búllum við þessa höfuðgötu Höfuðborgarinnar, vertarnir bentu á hlauparana og sögðu: þið ættuð að taka ykkur þessa menn til fyrirmyndar. Við áfram og slógum lítt af. Í Kvos var gefið í, kveikt á túrbóinum og sprett úr spori og ekki slakað á fyrr en á Landakotshæð - en bara stutt - framundan var brekka niður á við og helztu hlauparar duttu niður brekkuna.
Það rigndi mikið í hlaupi dagsins, þessi hlaupari var gersamlega niðurrigndur er tilbaka var komið og gerði ekki greinarmun á svita og regni. Í Brottfararsal var mætt Sif Jónsdóttir, langhlaupari, Sifjar Jónsdóttur í eignarfalli, hún hélt á bol með upprunalegu heiti Hlaupasamtakanna og merki, þá hét hópurinn Hlaupahópur Vesturbæjarins, enda aðeins staddur á sokkabandsárum sínum, áður en menn áttuðu sig á virðing hans og vegferð. Birgir tók bolinn og mun búa til nýtt logo fyrir Samtökin. Þá er þess að geta að dr. Anna Birna var mætt og sat í potti með helztu hlaupurum. Svo var rifjað upp að í dag var Fyrsti Föstudagur, Denni kvaðst vera upptekinn og gæti ekki mætt.
Ég mætti á Mimmann á tilsettum tíma, og áður en ég vissi orðið af, var ég umkringdur kvenfólki, og var bara feginn að aðrir skyldu halda sig heima, þær mættu Sif, Jóhanna og Anna Birna og undi ég mér vel í þeim félagsskap þar til kom að því að sinna málefnum fjölskyldunnnar.
Næstu hlaup:
laugardagur kl. 10
sunnudagur kl. 10:10
Í gvuðs friði, ritari.
10.10.2007 | 21:04
Fjandinn hleypur í Gamalíel
Miðvikudagar eru dagar hinna löngu hlaupa. Ritari var búinn að lofa Gísla góðu, löngu hlaupi og sjóbaði. Mikið hefði nú verið gaman að geta nartað í forskot prófessors Fróða - einkum nú þegar hann er slasaður og fær sér enga björg veitt og ekki væntanlegur til hlaupa næstu þrjá mánuðina. Smátt og smátt má hala inn sjóbaðspunkta og fá ónefndan íbúa í Kópavogi til þess að byrja að svitna af ángist. En af þessu varð ekki, því miður. Ykkar maður var búinn að pakka niður í hlaupatöskuna, gefa síðustu leiðbeiningar um niðurlagningu flísafúgu og stefndi út úr húsi. En þá sló hann sú hugsun að hann hefði skyldum að gegna við fleiri en hlaupafélagana, staldraði við, lagði niður hlaupatösku, sneri við, fór inn í eldhús, á hnén og byrjaði að gluða út fúgujukki. Á því gekk þar til klukkan var langt gengin í sjö - þá loks datt inn hlé og færi gafst á að fara til Laugar.
Á leið í bíl mínum suður Hofsvallagötu tók ég eftir hópi fólks sem hljóp við fót, kannaðist við suma. Ég hraðaði mér í útiklefa og skveraði mér af, gekk til potts. Hitti þar fyrir Gísla og Magnús, þeir sýndu útskýringu minni á fjarvist mikinn skilning og töldu að ég hefði nælt mér í prik í æðra stað. Síðan voru sagðar sögur af mönnum sem fara til vistar í efra, en sæta misjöfnu atlæti. Magnús kann mikið af slíkum sögum, enda vel tengdur. Ég sagði þeim söguna sem prof. dr. Gunnar Helgi Kristinsson kann betur en ég, nefnilega að í helvíti annist Englendingar matargerðina og Norðmenn skemmtiatriðin. Einhverra hluta vegna kætti þessi saga Gísla meira en aðra viðstadda og heimtaði hann skriflega staðfestingu.
Svo birtist fólk í potti sem upphóf leiðindaumræðu um hlaup, vegalengdir, hraða og annað í þeim dúr, ritari gafst upp á leiðindunum og lét sig hverfa af vettvangi. Hann hitti fyrir Birgi jóga og heyrði þar að borist hefði í tal á hlaupum að það þyrfti að koma á framfæri upplýsingum hlaupalegs eðlis. Nefnt var blogg Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Var þá sagt: Nei, er það mögulegt, er nokkur ástæða til að skemma pistla ritara með hlaupaupplýsingum? Af þessu tilefni vill ritari taka fram að hann er auðmjúkur erfiðismaður, þræll og þjón Hlaupasamtakanna og kemur á framfæri öllum þeim upplýsingum er lúta að helztu iðju félagsmanna: hlaupum. Ef menn vilja viðhafa sérstakar ráðstafanir vegna Áramótahlaups þarf ekki annað en senda línu eða setja inn athugasemd við pistil.
Fullyrt er að Neshópur sé að hrynja úr öfund yfir þeim framförum í atgervi og afstöðu sem Hlaupasamtökin hafa sýnt, flótti sé brostinn í liðið og flestir á förum yfir til Hlaupasamtakanna. Deilt er um hvort það er vegna þess að þjálfunarprógrammið er betra í Vesturbænum eða hvort fólkið þar er einfaldlega skemmtilegra. Á föstudaginn kemur í ljós hverjar heimtur verða þegar Fyrsti Föstudagur verður haldinn í fyrsta skipti í langan tíma - gaman væri ef lasburða prófessorar og háls-, nef- og eyrnalæknar létu sjá sig, þeir sem lengi hafa lýst með fjarveru sinni.
Í gvuðs friði, ritari.
8.10.2007 | 22:28
Útslitinn embættismaður mætir... of seint
Ég lét mér nægja þvott og pott. Hitti Helmut sem var uppfullur af skoðunum um embættisfærzlur manna. Blómasalinn rólegur. Ég fór í heitasta pott, sá selshöfuð upp úr barnapotti sem ég kannaðist við en var ekki viss á, virtist þar vera einhver viðundur aðallega. Þorvaldur var í potti og upplýsti um geysilega góða mætingu í hlaupi dagsins, fjöld kvenna. Nú kom eigandi höfuðsins er sást í barnapotti innan um vafagemlinga, prof. dr. Keldensis og var á förum. Að lokum kom blómasalinn til potts og sátu þeir fóstbræður, ritari og blómasali, um stund og ræddu í trúnaði hjartfólgin málefni. Um þetta fjallar frásögn dagsins. Í gvuðs friði, ritari.