Tíðindaríkt hlaup fær sögulegan endi

Vesalingur minn var mættur snemma til hlaups. Hafði hitt Gísla fyrr um daginn og ræddum við um hlaup dagsins, eðlilega var ég því spenntur og óþreyjufullur að hitta félaga mína, hafandi vanrækt Hlaupasamtökin nokkur undanfarin hlaup vegna framkvæmda í eldhúsi mínu. Horfur voru góðar, veður gott og lofaði dagurinn góðu um hlaupið. Svo fór fólk að tínast inn: Þorvaldur, Denni, Hjörleifur, Jón, dr. Jóhanna, og svo kom blómasalinn og ætlaði að vera með ádíens en var rekinn út í útiklefa að skipta um, á síðustu stundu kom svo Birgir á hjólfáki sínum. Fleiri komu ekki til hlaups í dag.

Þrátt fyrir að blómasalinn væri með Garmin var farið hægt út og hægast fór Einar sjálfur, hann var varkár. Mér varð hugsað til þess hversu gífurlega þéttur þessi hópur væri, samstaðan alger um vitleysisganginn og galsann, en jafnframt sannfæring um að í heilbrigðum líkama blakti heilbrigð sál. Meira um það seinna, en vissulega voru menn ósáttir við að ekki fleira af Nesi mætti, aðeins Denni einn og fyrirhugaði ekki einu sinni að taka þátt í Fyrsta Föstudegi.

Það var þeyst eftir Sólrúnarbraut í austur og smám saman bætti í vind, það var rætt um átök í borgarstjórn og voru ýmsar kenningar uppi um hvað hefði búið að baki stjórnarskiptum, þó báru menn sig karlmannlega og var engan grát að heyra í hópnum. Rætt um feðranir og hversu áreiðanlegar upplýsingar þar að lútandi væru, tekin dæmi úr Tékkóslóvakíu. Er kom í Skerjafjörð, og þó einkum fyrir flugvallarenda, brast á með stórhríð úr suðaustri, því allra versta sem hugsast getur hér á suðvesturhorninu. Á tímabili virtist sem við stæðum kyrr, þótt við hlypum, svo mikill var hamagangurinn. Í Nauthólsvík fór að rigna, og það bætti í , svo jókst rigningin og á endanum var eins og hellt væri úr fötu. Við fórum upp Hi-Lux og vorum furðu létt. Er hér var komið sögu héldu hópinn Þorvaldur, Hjörleifur, dr. Jóhanna, ritari, Birgir og blómasalinn var einhvers staðar rétt fyrir aftan okkur. Það rigndi og rigndi og hefðin bauð að farið yrði framhjá kirkjugarðinum, um Veðurstofuhálendi, niður hjá menntaskólanum við Harmahlíð, þaðan gegnum hverfið og út á Klambratún. Menn voru misheilir í því að halda vegalengdir, sumir skáru horn og styttu - engin nöfn nefnd af virðingu fyrir eiginkonum og börnum.

Einhver einbeittastur hlaupari í hópi vorum er Þorvaldur, segja má að hann hafi haldið uppi tempói í kveld, og bætti í ef eitthvað er. Þessu tóku menn eftir á Klambratúni, þá var gefið í og farið gizka hratt, téður Þorvaldur fremstur. Sökum óhagstæðra vindátta var farið niður Laugaveg og gefið í ef eitthvað er. Mikið af fyllibyttum dettandi út af búllum við þessa höfuðgötu Höfuðborgarinnar, vertarnir bentu á hlauparana og sögðu: þið ættuð að taka ykkur þessa menn til fyrirmyndar. Við áfram og slógum lítt af. Í Kvos var gefið í, kveikt á túrbóinum og sprett úr spori og ekki slakað á fyrr en á Landakotshæð - en bara stutt - framundan var brekka niður á við og helztu hlauparar duttu niður brekkuna.

Það rigndi mikið í hlaupi dagsins, þessi hlaupari var gersamlega niðurrigndur er tilbaka var komið og gerði ekki greinarmun á svita og regni. Í Brottfararsal var mætt Sif Jónsdóttir, langhlaupari, Sifjar Jónsdóttur í eignarfalli, hún hélt á bol með upprunalegu heiti Hlaupasamtakanna og merki, þá hét hópurinn Hlaupahópur Vesturbæjarins, enda aðeins staddur á sokkabandsárum sínum, áður en menn áttuðu sig á virðing hans og vegferð. Birgir tók bolinn og mun búa til nýtt logo fyrir Samtökin. Þá er þess að geta að dr. Anna Birna var mætt og sat í potti með helztu hlaupurum. Svo var rifjað upp að í dag var Fyrsti Föstudagur, Denni kvaðst vera upptekinn og gæti ekki mætt. 

 Ég mætti á Mimmann á tilsettum tíma, og áður en ég vissi orðið af, var ég umkringdur kvenfólki, og var bara feginn að aðrir skyldu halda sig heima, þær mættu Sif, Jóhanna og Anna Birna og undi ég mér vel í þeim félagsskap þar til kom að því að sinna málefnum fjölskyldunnnar.

Næstu hlaup:
laugardagur kl. 10
sunnudagur kl. 10:10
Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„ …og áður en ég vissi orðið af, var ég umkringdur kvenfólki, og var bara feginn að aðrir skyldu halda sig heima, þær mættu Sif, Jóhanna og Anna Birna og undi ég mér vel í þeim félagsskap þar til kom að því að sinna málefnum fjölskyldunnnar.“

Hugh Hefner ástfanginn

Hugh Hefner, útgefandi Playboy, kveðst loks hafa fundið sanna ást með einni af þremur kærustum sínum og segir þau jafnvel hafa rætt um að stofna fjölskyldu saman. Hefner, sem er áttræður, á fjögur börn með tveimur fyrrum eiginkonum sínum og er elsta dóttir hans 54 ára.

„Ég get ekki sagt að þetta sé ákveðið en þetta hefur sannarlega verið rætt. Ég held að ef ég segði að það ætti líklega eftir að gerast þá væri það of djúpt í árinni tekið en þetta er virkilega raunhæfur möguleiki. Þetta er hugmynd sem varð til sem ósk en er nú rædd í meiri alvöru og þá meina ég af Hollyar hálfu, segir hann í viðtali við blaðið New York Daily News og vísar þar til hinnar 27 ára Holly Madison.

„Hún er sú eina sanna. Þetta er stórkostlegt. Það er kraftaverk að finna eitthvað svona sérstakt eftir öll þessi ár, öll þessi ástarævintýri, hjónaböndin og allt það.”

Birgir Þorsteinn Jóakimsson (IP-tala skráð) 13.10.2007 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband