Lífsgleði á tréfæti

Er ég mætti til Laugar í dag var enginn kominn í Brottfararsal. Fór út í útiklefa og klæddist hlaupafatnaði. Það var svo hlýtt í dag að engin þörf var fyrir Balaklövu, en hafði þó hanzka til öryggis. Ég rakst fljótlega á Vilhjálm Bjarnason, sem er farinn að sýna af sér skilyrt viðbrögð þegar ritari birtist, og var ekki að spyrja að því, orðastimpingar hófust með það sama, ritari ásakaður um að ausa svívirðingum og ósóma yfir hlaupara, kalla þá geðstirða eða skapvonda: er ég skapvondur, spurði VB. Ég reyndi að gera það bezta úr aðstæðum og sagði eitthvað á þá leið að vissulega kæmi fyrir að hann væri í góðu skapi, en oftar væri hann, með orðum ÓÞ, "önugur og afundinn" - vildi þannig þvo hendur mínar af því að vera að stimpla menn geðvonda. Hann sleppti ekki þessu máli, fullyrti að ritari færi með ósannindi um menn, því til sönnunar réðst hann á Jörund við komu í Sal og spurði: Jörundur, erum við ekki vinir? Jú, sagði Jörundur, við erum ævilangir vinir. Hefur nokkurn tíma fallið skuggi á vináttu okkar? Nei, sagði Jörundur, aldrei. Við erum ekki alltaf sammála, en vinslit eru aldrei inni í myndinni.

Er hér var komið sá ég mann sem ég kannaðist við, en kom ekki alveg fyrir mig; svo rifjaðist upp fyrir mér að hér var kominn maður sá er kallaður var prófessor Fróði meðan hann var og hét, og þótti nokkuð efnilegur um sinn. Ég heilsaði honum vinsamlega en þó ekki kunnuglega, enda verður maður feiminn þegar svo langt líður frá því að menn mæta til hlaupa og fyrnist yfir kunningsskapinn. Samskipti öll voru nokkuð stirð, og í bland varð maður var við fálæti hlaupara gagnvart hinum fjarverandi prófessor. Aðrir hlauparar tíndust í Sal: Gísli, Jón Kári, dr. Jóhanna, VB, Jörundur, Þorvaldur, próf. Fróði, Denni og Hjörleifur. Töluverð umræða spratt í Brottfararsal um Ágúst og ástand hans, sýndist glöggum viðstöddum að hann væri kominn með gervifót, var spurt hvort hann hefði keypt það nýjasta frá Össuri; nei, nei, hann hafði frétt af gamalli kerlingu á Kamtsjatka sem hefði verið á tréfæti og geispað golunni, fékk hann fyrir slikk. Menn véfengdu þetta og töldu að hann myndi aldrei hafa tímt að snara fram stórum upphæðum fyrir fót, líklega væri þetta fótur af norðlenzku hrossi, sjálfdauðu. Þannig gekk umræðan - og voru tilgátur studdar veiklulegum fyrirspurnum prófessorsins um hvort ekki væri örugglega farið hægt og stutt, eða: vill ekki einhver fara hægt og stutt? svo vísað sé beint í hinn fróða mann. Jú, jú, við förum öll hægt og stutt sagði Gísli á Uppsölum.

Veður var gott og tilvalið til hlaupa, smávindur sem átti eftir að koma okkur í vandræði síðar. Ég hafði á orði að allur agi og skipulag væri farið út um þúfur eftir að prófessorinn hætti að mæta, hann væri drifkraftur langra hlaupa, svo sem 69. Nú mætti heita að þau hefðu fallið niður og aðeins væri farið mjög stutt, í mesta lagi 11,3 km. Prófessorinn lifnaði allur við er hann heyrði þetta og varð brattari. "Já, þetta datt mér í hug." Menn voru feimnir er haldið var af stað, ekki vitað hver ætti að taka forystuna, Þorvaldur var mjög framarlega í þessu og teygði okkur áfram. Hefðbundið niður á Ægisíðu, eftir á var skopast með að Ágúst hefði sagt æ-i á Ægisíðu og fengið sting í síðuna. Hann er undir meðhöndlun dansks sjúkraþjálfara sem talar ensku og enginn skilur. Við fórum afar varfærnislega út, enda vorum við undirbúin undir að prófessorinn dytti sundur þá og þegar með sinn tréfót - við fræddum fóthafa fótsins um ýmislega kosti og galla þess að hafa tréfót, rifjuðum meðal annars upp ævisögu Stefáns Jónssonar á löppinni og ævintýri hans á einum fæti. Ágúst fór aumingja allra aumingja, Ægisíðu út að Suðurgötu og þaðan norður Suðurgötu og óskilgreindar leiðir til Laugar, ekki er einu sinni til nafn á svona hlaupaleið! Hann var enn með efasemdir um sjósund síðasta miðvikudags og reyndi að eyða upplýsingum um þá sem þreyttu sjósund í sjö gráðu heitum sjónum, Gísli, Björn kokkur og ritari.

Hlaupið í hægðum (á maður að segja "sínum" eða "okkar" - hvernig skilja menn slíkt?) áfram veginn og var hefðbundinn galsi í gangi. VB upplýsti um sýningu á Terpentínu - menn söknuðu þeirra ÓÞ og Einars blómasala, en fögnuðu Denna skransala sem veigamikilli viðbót við hópinn. Áfram fyrir flugvöll og inn í Nauthólsvík - þar gáfust ónefndir hlauparar upp og fóru Hlíðarfót. Helztu og beztu hlauparar héldu áfram - og hver birtist þarna hlaupandi utan úr dimmunni? Nema sjálfastur Birgir Þorsteinn Jóakimsson, búinn að ná öftustu hlaupurum og vinna sig áfram og upp að fremstu hlaupurum. Hann hafði þá skýringu á seinkomu sinni að honum hefði verið falin forsjá með dóttur sinni veikri heima, og hefði viljað stytta þann tíma sem hún væri ein og grátandi, veik og illa haldin. Menn spurðu: skildirðu hana eftir eina heima, veika og...? Já, já, ég þurfti að fara að hlaupa! Jörundur sagðist hafa heyrt grát frá heimili Birgis síðustu nótt. Hélt að Birgir hefði gleymt að gefa dætrum sínum að borða og þær væru grátandi úti á stétt að biðja um mat. Nei, þá var það kötturinn sem var greinilega búið að svelta um lengri tíma, hann stóð úti á stétt vælandi eins og hann væri krakki. Jörundur, þessi góði maður, tók hann undir sinn verndarvæng og leyfði honum að skríða undir pallinn hjá sér - þar sem hann (kötturinn) er vanur að gera allar sínar þarfir.

Upp Hi_Lux og ekki slegið af: Jörundur, Birgir, dr. Jóhanna, ritari, Hjörleifur og Denni - samstæður hópur hlaupara. Eftir því sem leið á hlaup óx okkur ásmegin og við urðum hressari - enn var rætt um nafnið Miklatún/Klambratún. Birgir kvaðst hafa spurt VB hvernig auka mætti hraða á hlaupi - VB stóð á gati. Svarið var: auka tíðni í færzlu fóta, eða lengja skref. Hér var náttúrlega ekki spurt um persónur, sem er sérsvið VB. Áfram um Harmahlíð og Hlíðar, hér var ritari orðinn verulega frískur og tók þétting á Klömbrum. Hann nam umræður að baki sér um sjálfan sig: "Ég get náð honum hvenær sem er. Spurðu hann, hver var á eftir honum fram að 35 km í RM - og hver fór fram úr honum á 35 km..." og annað eftir þessu. Ég tók þétting á Klambratúni og spretti verulega úr spori - ég heyrði tiplið í Jörundi á eftir mér.

Svo var farið hefðbundið um Sæbraut og tilbaka, á nokkuð góðum hraða og held ég að Ágúst hefði verið ánægður með okkur. Alla vega hugsaði ég að þetta hlaup væri góður undirbúningur fyrir þá tíma er prófessorinn kemur tilbaka og fer að stýra okkur í Bakkavarir og 69. Ekki seinna vænna! Er mætt var í pott voru þar Flosi og Gísli og létu sig hverfa fljótlega, en Ágúst sat áfram með okkur. VB fékk súluna sína, en var bent á að súlan væri í raun I-biti. Við sátum alllengi í potti og spjölluðum saman - svo kom Anna Birna og settist að Laugu. Denni upplýsti um drenginn sinn þrítugan sem enn er í fæði heima - nú þyrmdi yfir Önnu Birnu: Jésús, verður Dobermanninn enn heima eftir 20 ár? Ákveðið var að fresta Fyrsta Föstudegi sem margir telja sig eiga inni eftir miklar fjarverur - en auðvitað geta menn kennt sér sjálfir um fyrir sakir aumingjaskapar.

Gott hlaup að baki í góðra vina hópi - framundan hlaup á laugardag kl. 10 og svo sunnudag kl. 10:10, nóg í bili. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Ég veit að Internetið er eílíf heimild.  Það mun þurfa að skýra hvers vegna Anna Birna talar um Dobermanninn.  Ef ekki fyrir syni mínum þá fyrir afkomendum hans ef gæfan er hliðholl.  Það er eins gott að skýra það hér, þá er það afstaðið og skýringin verður samferða textanum sem vakti spurninguna, inn í framtíðina.

Ég missti einvern tímann út úr mér að sonurinn væri farinn að hafa mjög góða matarlyst enda á þeim aldri þegar hann tæki út vöxtinn og á kafi í íþróttum í þokkabót.   Matarlystin væri álíka og hjá stórum hundi, t.d Doberman, en að samlíkingin væri ekki góð að öðru leyti, því þetta væri þá Doberman sem væri fullfær um að opna ísskápinn sjálfur og tæma hann.  Svo mörg voru þau orð...

Kári Harðarson, 19.10.2007 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband