Útslitinn embættismaður mætir... of seint

Já, nefnið það ekki ógrátandi! Hér er maður uppfullur af góðum ásetningi um að hlaupa, taka á því á mánudegi með þjálfara, taka spretti, erfiða, svitna, djöflast, þreytast - og koma loks uppgefinn til Laugar að nýju. En því var ekki að fagna hvað þennan embættismann varðar. Hann stóð í útréttingum langt fram eftir degi og missti því af félögum sínum, er með bert eldhúsið sitt eins og fram var komið og því í óða önn að reyna að hraða því að þar verði eldaðar gómsætar máltíðir á ný. Kom til Laugar þegar þar stóðu utan dyra dr. Friðrik og Einar blómasali. Læknirinn var lasinn og heyrðist það á mæli hans, undanþeginn hlaupi um sinn. Blómasalinn var vígreifur, hafði frá mörgu að segja og lá margt á hjarta - svo sem kom í ljós þegar lengra kom. Kvaðst hafa farið átta Bakkavarir. Prof. dr. Anna Birna kom úr Laugu og lýsti yfir því að nú ætti að fóðra Dobermanninn (ekki allir náðu þessu).

Ég lét mér nægja þvott og pott. Hitti Helmut sem var uppfullur af skoðunum um embættisfærzlur manna. Blómasalinn rólegur. Ég fór í heitasta pott, sá selshöfuð upp úr barnapotti sem ég kannaðist við en var ekki viss á, virtist þar vera einhver viðundur aðallega. Þorvaldur var í potti og upplýsti um geysilega góða mætingu í hlaupi dagsins, fjöld kvenna. Nú kom eigandi höfuðsins er sást í barnapotti innan um vafagemlinga, prof. dr. Keldensis og var á förum. Að lokum kom blómasalinn til potts og sátu þeir fóstbræður, ritari og blómasali, um stund og ræddu í trúnaði hjartfólgin málefni. Um þetta fjallar frásögn dagsins. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband