Færsluflokkur: Pistill Ritara
7.10.2007 | 21:59
Mikil persónufræði á sunnudegi
Lagt í hann á rólegu nótunum, og vorum við frændur þó sýnu rólegri en aðrir, enda um margt að ræða. Ritari er nýbúinn að rífa eldhúsið hjá sér og hefur ekki getað eldað máltíð í tvær vikur, allt stendur autt, ryk yfir öllu, stofan undirlögð af eldhúsáhöldum og drasli. Ekki alveg ástandið sem er til þess fallið að lyfta andanum, þvert á móti, menn eru daufir yfir ástandinu. En það er hressandi að hitta félagana og fá góðan skammt af uppörvandi. Við lentum fyrir bragðið langt fyrir aftan hina, en náðum þeim í Nauthólsvík. Þar var með stuttu millibili skellt á mannskapinn svo níðingslegum vísbendningaspurningum að menn spurðu bara á móti: hver er vísbendingin? Spurt var hvernig fyrrnefndur handboltakappi tengdist fyrrverandi ráðherra í Lýðveldinu - hér glotti VB, en ÓÞ sýndi sama tóma svipinn og síðasta sunnudag. Það beinlínis hlakkaði í álitsgjafanum yfir meintri vankunnáttu þess fyrrnefnda í persónufræðinni. Samtímis var deilt um það hver væri persónufróðasti Íslendingurinn og sýndist sitt hverjum. Minnt var á grein í Viðskiptablaðinu fyrir fáeinum árum, viðtal við ónefndan cand. oecon. af Víkingslækjarætt og ekur bifreiðinni R-158 og hleypti slíku báli í blaðasölu í Höfuðstaðnum að eftir það kom ekki annað til greina en Viðskiptablaðið kæmi út á hverjum degi. En engin svör. Jú, álitsgjafinn upplýsti að téður handboltakappi væri kvæntur Ragnheiði Gröndal, systur Benedikts, fyrrv. utanríkisráðherra. En hann lét ekki þar við sitja: fleiri torskildar vísbendingar sem skiluðu fleiri tómum augum.
Áfram í Garðinn, þar sneru bæði Birgir og Ó. Þorsteinsson við. Aðrir áfram og verður að segjast eins og er að hraði var aukinn og á endanum fóru Magnús, Þorvaldur og ritari á hraða sem er hreint skandalös fyrir sunnudagshlaup. Þetta er ekki skemmtilegt! Ekki orð af viti sagt frá Harmahlíð og það sem eftir lifði hlaups, nema ef vera skyldi ádrepa á lögreglu fyrir hörð viðbrögð við því þegar menn missa kókdós úr lúkunni á sér á götu úti að nóttu til - 10.000 ríkisdalir. Takk fyrir!
Í potti var margt gáfumanna: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur, Sif Jónsdóttir nýkomin úr Berlínarmaraþoni þar sem hún fór fulla porsjón á 3:32:05 og er glæsileg frammistaða. Jörundur mættur líka og blómasalinn, óhlaupinn eins og venjulega. Staldrað stutt við í potti. Blómasali þurfti að hitta fólk. Ritari þurfti að fara heim að flísaleggja eldhúsgólf. Lauk við 15 fm á þremur klukkutímum. Þá rigndi á Bræðraborgarstíg. Rætt um kosningahorfur í Bretlandi, og fyrirætlan hlaupara um þátttöku í Berlínarmaraþoni á næsta ári.
Á morgun: hlaup með þjálfara samkvæmt áætlun.
1.10.2007 | 22:03
Hvert leitar klárinn?
Magnús var mættur, fullur af velviljuðum meiningum í garð íþróttaliðs nokkurs í Fossvoginum, sem fyllir tíunda tuginn á næsta ári. Hann velti fyrir sér hvort ekki væri mikil gæfa að lið þetta hefði ekki fallið alla leið niður í 2. deild, svo hafi fallið verið mikið. Nú hló hann ægilega og var skrýtin tilfinning að sjá þennan prúða tannlækni í þessum ham gegn vini sínum og velunnara hlaupa og framfara í Vesturbænum. En nú var klukkan komin, allir mættir í fullu gíri, einhverjir ekki í alveg hreinum fatnaði, en það mátti sjá gegnum fingur sér með það, þegar konurnar voru svona margar. Líklega segir það meira um stærðfræðikunnáttu mína en nokkuð annað, að ég kom ekki tölu að fjölda kvenna í dag. Úti á stétt gaf þjálfarinn skipanir um hlaup dagsins: farið skyldi hefðbundið út skv. áratugahefð mánudagshlaupa, en þó upp á Víðimel, þaðan út á Suðurgötu og þannig áfram. Síðan voru þarna einhverjir sem fóru hægar og þurftu sérstaka meðferð. Hópurinn lagði í hann.
Svo er ekkert með það, nema þegar við erum stödd á Hofsvallagötu, hvað sjáum við nema blikið af kampavínslitri jeppabifreið með einkennisstafina R-158. Hér braust út brjáluð trylling í hópnum, slík voru fagnaðarlætin þegar við börðum augum Formann Vorn til Lífstíðar, sem að sínu leyti ljómaði eins og tungl í fyllingu með sólgleraugu, og virtist fögnuðurinn ekki vera minni inni í bílnum. Breiddist út almenn sælutilfinning meðal viðstaddra og gaf þessi viðburður fyrirheit um velheppnað hlaup.
Ég hljóp með Einari blómasala, sem hefur ekki hlaupið lengi. Bæði er hann orðinn feitur og þungur, en eitthvað hefur hann verið slæmur í baki. Nú átti að láta reyna á ástandið. Hann fór strax að kvarta yfir að eiga enga stauka af Smarties lengur og bað ritara að bjarga sér. Hér var rætt um hádegisverði: rjómagúllas og pótatismús í Arnarhváli, með miklu af salati; einn banani og hálfur lítri af trópí hjá G. Arasyni. Svona er misskipt mannanna láni. Með okkur hljóp Kalli sem er allur að koma til og fer þó skynsamlega. Við fórum fetið í Skerjafjörðinn, leyfðum hinum að æða áfram eins og þeim sýndist. Þó var Sigurður Ingvarsson rólegur framan af. En svo kom að því að hann vildi vita hvað fremstu menn væru að hugsa og hvarf okkur rólyndismönnunum.
Er kom út að í Skerjafjörð var farið að blása leiðinlega úr óhagstæðri átt og orðið kalt, og við kumpánar aftastir. Dagsskipunin var að taka spretti frá síðasta húsi í Skerjafirði og eina 250 m vestureftir. Fjórum sinnum! Við vorum lítt mótíveraðir að taka spretti hér og Kalli mátti það beinlínis ekki, enda má segja að munurinn á Kalla og sumum, ónefndum hlaupurum sem aldrei læra af vondri reynslu, að hann hlustar vandlega á þau merki sem líkaminn sendir honum. Við fórum því hægt þennan sprett í fullkomnu sólídariteti við Kalla. Sáum hóp fólks sem hljóp fram og tilbaka í algjörri, rómantískri tryllingu. Þeirra á meðal mátti kenna þá Kaupþingskumpána, og var annar þeirra einkennilega tómeygður er hann var spurður um heilsu. Ekki drógu menn af sér. Hér hljóp eitthvert kapp í okkur fóstbræður, ritara og blómasala. Við tókum upp á því að spretta tilbaka eins og við ættum lífið að leysa, var m.a. til þess tekið hvernig ritari þeysti fram úr prófessornum af Keldum og minnti einna helst á Berlínarsprett Haile Gebreselassie, kunningja Jörundar, og frægt er orðið. Nú var sprett fram og tilbaka og voru menn furðu léttir á sér. En það var svo anzi kalt að menn héldu þetta ekki út lengi, áfram Ægisíðu og tilbaka í pott. Hinir harðgerustu héldu áfram á Nes og segir ekki meira af þeim.
Í potti urðu einna helzt umræður um graffiti, veggjakrot, innflutning á spraydósum. Í potti voru Gísli, Helmut, dr. Jóhanna, dr. Anna Birna, og fleira merkilegt fólk. Einnig Björn kokkur og var mikið rætt um matargerð, chili con carne, hvað mætti vera og hvað ekki, Waldorf salat, má setja sellerírót í Waldorf salat? Afródísíaks, svæfa konu eða örva hana, hvað er bezt í matinn? Menn sáust steðja úr potti út í Melabúð eða Hagkaup. Þannig enda hlaup stundum, hvað á að borða? Í gvuðs friði. Pása til sunnudags fyrir þennan hlaupara.
30.9.2007 | 15:12
Það er líf eftir dauðann
Fyrsta vísbendingaspurning kom fljótlega, Ólafur spurði um mann. Ég gat upp á honum í fyrsta - spurt um afburðalögfræðing sem tekið hefði eitthvert hæsta próf sem þekktist í lögfræðinni og væri væntanlegur í pott á eftir. Ég svaraði: Ólafur Jóhannes Einarsson. Rétt! hrópaði nafni minn. Nú var sagt frá brúðkaupi sem téður sonur Einars Gunnars hefði sótt kvöldið áður: dóttursonur afburðakennara sem kenndi í Hagaskóla Lýðveldisins á sjötta og sjöunda áratugnum. Rétt svar: Stefán Pálsson, afinn var Haraldur Steinþórsson. Þá blandaði álitsgjafinn sér í vísbendingaspurningarnar: hvernig tengist fyrrnefndur Stefán Brautarholti á Kjalarnesi og þar með Ólafi Þorsteinssyni. Nú varð frændi minn undirfurðulegur og einkennilega tómur í framan, sem er sjaldgæf sýn. Nei, þetta vissi hann ekki. Var því svarað til að langafi Stefáns hefði verið bróðir ömmu Ólafs, að mig minnir.
Hlaupið í Nauthólsvík og gengið lengi. Fleiri vísbendingaspurningar, áfram í kirkjugarð og skoðuð leiði breskra og kanadískra hermanna sem hér féllu í stríðinu. Ólafur fræddi okkur um gæðastjórnunarmál, en hefði að sögn álitsgjafans mátt beita svolítilli gæðastjórnun í frásögnum sínum, svo rangar og misvísandi væru þær, hann virtist misminna um alla hluti í dag. Hér gáfu þeir Magnús, Guðmundur og Þorvaldur í og hurfu okkur hinum, sem fastheldnari erum á hefðir sunnudagahlaupa með skyldustoppum á völdum stöðum. Ég fór fetið með Jörundi sem fræddi mig á gömlum sögum af langafa mínum á Hreimsstöðum í Borgarfirði, eitthvað um myrkfælni. Við fórum Klambratúnið, Hlemm og niður á Sæbraut.
Í potti fór Ólafur Þorsteinsson með vísbendingaspurninguna sem hann hafði ekki svarið við sjálfur fyrr um daginn yfir dr. Baldri Símonarsyni, dr. Einari Gunnari Péturssyni og Ólafi Jóhannesi Einarssyni. Þeir vissu svarið strax. Rætt meira um ættir manna og ævir og virtist minnisleysi frænda míns kæta Vilhjálm Bjarnason svo mjög að hann ýmist gapti opinmynntur á frænda, eða skellti upp úr, sem hefur ekki áður gerst þar sem ég hef verið nærverandi, að Vilhjálmur Bjarnason hlægi upphátt. Lítið er ungs manns gaman mætti maður e.t.v. segja um þann viðburð. Síðan komu þau mæðgin dr. Jóhanna og Tumi menntaskólanemi. Rætt um kennara í Reykjavíkur Lærða Skóla. Einnig um borgina Brussel sem er sumum okkur kunn.
Ritari er allur að koma til í skrokknum og hlakkar til að hitta félaga sína á ný í hlaupi morgundagsins. Vel mætt! Í gvuðs friði. Ritari.
28.9.2007 | 22:51
Óhlaupinn
Ég er að vona að félagar mínir lesi titil minn sem "Unforgiven" - enda mikill Eastwood aðdáandi hér á ferð. Þannig stóð á hjá þeim er hjér ritar að hann er búinn að rífa eldhúsið sitt og hefur því engan stað til að elda matinn á. Dagurinn fór í að brjóta upp gólf og aka því í Sorpu. Af þeirri ástæðu hentaði ekki að hlaupa, en hugur minn var hjá félögum mínum. Sem ég ek út úr bænum og er að skila kerru sem notuð var til fyrrgreindra hluta sá ég Gísla félaga minn á Hringbrautinni, hann var að hvíla sig, en hélt fljótlega áfram hlaupandi. Næst er ég staddur á mótum Miklubrautar og Lönguhlíðar og verð þá fyrir dejá vu upplifun - sé tvo kunnuglega nóta, Þorvald og Vilhjálm þar sem þeir æða yfir gatnamót gegn rauðu ljósi, og Þorvaldur virðist reyna að henda sér fyrir bíla, en mistekst. Þeir sleppa llifandi yfir gatnamótin eftir því sem ég bezt fæ séð. Held áfram ferð minni og skila kerrunni. Ek sem leið liggur tilbaka í bæinn og mæti til Laugar, sveittur og skítugur. Hitti Inga og Flosa, í potti er Nesverji, Denni, spyr af hverju ég hafi ekki hlaupið. Manni finnst það skrýtið að þarna skuli maður úr öðru sveitarfélagi og öðrum hlaupahópi spyrjast fyrir um hluti sem ekki lúta að iðkun drykkju Fyrsta Föstudags.
Í vorum hópi eru einhverjir beztir flugmenn sem sögur fara af. Ekki einasta eru menn miklir prívat flugmenn, heldur hafa menn demónstrerað mikla hæfileika í hvers kyns hjóla- og annarra tegunda flugum. Er þar skemmst að minnast prófessors Fróða sem er ekki lakari flugmaður en bróðir hans sem ritari hefur flogið með til Köben. Mörgum sinnum hefur prófessorinn tekið flugið á hlaupum, öllum viðstöddum til óblandinnar gleði - en stundum uppskorið skurmsl og meiðsli fyrir vikið. Lærisveinar hafa fylgt í fótspor meistarans og tekið flugið hver á fætur öðrum, ritari og Þorvaldur hafa báðir flogið eftirminnilega.
Vonandi fara flugmenn að mæta að nýju til iðkunar, ásamt þeim fleirum sem erindi eiga á slétturnar við Ægisíðu.
ritari
24.9.2007 | 22:20
Hugleiðing um hlaup
Maður getur velt fyrir sér hlaupum, verið með getgátur um hlaup, pælt í því hver mætir, hvers vegna, hvernig veður er, hver þjálfar, hvernig ástandi mannskapurinn er í, hvert er farið, hvað er sagt. Sumir upplifa herlegheitin, aðrir eru eymingjar og geta ekki hlaupið. Slíkan stimpil hafa í dag undirritaður, opinberlega skipaður annálaritari Hlaupasamtaka Lýðveldisins, og opinber Blómasali Samtakanna. Við vorum svo aumir í dag að við gátum ekki hlaupið, en það gátu ýmsir af helztu máttarstólpum Hlaupasamtakanna: Gísli, Ólafur Þorsteinsson, Vilhjálmur, Magnús tannlæknir, Haukur, Eiríkur, Helmut, Þorbjörg, Anna Birna, og einhverjir fleiri. Ég mætti þeim í inniklefa (þó ekki konunum!), mér var svo kalt að ég treysti mér ekki til að fara út. Ég öfundaði þá af því að eiga hlaup í vændum, en lét vita að ég myndi ekki hlaupa. Fór út í pott og undi mér vel þar.
Furðu snemma þótti mér menn koma tilbaka til laugar, ekki var langt farið. Menn voru hissa að sjá mig í potti. Spurðu hvað hefði hindrað hlaup. Ég sagðist vera meiddur. Gísli horfði á mig, og sagði: "Þú ert með báða fætur áfesta. Hausinn er á sínum stað. Hver eru meiðslin?" Ég hélt mikla ræðu um sjúkdómavæðingu sænsks samfélags, þar sem menn mega ekki lýsa yfir vinnuleiða öðruvísi en að vera stimplaðir aumingjar og settir í förtidspension, "þú átt það skilið að þér líði ekki svona illa" - ég flutti mikið fagnaðarerindi um aðra nálgun íslenskra yfirvalda, og tók dæmi af dr. Friðriki sem hefur trekk í trekk dæmt próf. Fróða heilan heilsu, þegar sá síðarnefndi hefur hóstandi grunnum hósta, reynt að fá menn til þess að fresta sjósundi. Hefir þá téður dr. Friðrik lýst prófessorinn heilan heilsu og talið sjósund til þess fallið að bæta heilsu hans. Þarna er vel lýst muninum á nálgun heilbrigðisyfirvalda í Svíþjóðu og á Íslandi til lýðheilsu.
Ég sýndi þolinmæði og beið eftir mínum bræðrum í pott, komu loks Gísli, Ó. Þorsteinsson, Blómasalinn og fleiri. Þar var löng seta, við sáum VB koma út í handklæði og væntum hins versta, en sem betur fer hvarf hann snögglega inn aftur. Rætt um sjúkdóma, sjúkdómavæðingu, öfgar í hlaupum og fleira því tengt. Nú eru framundan sveitarstjórnarkeppnir í þekkingu, og verandi helztur Öðlingur Reykjavíkur hefur Foringi Vor til Lífstíðar valið keppnislið Vesturbæjarins gegn öðrum sveitarfélögum; mun vera uppi tensjón mikil og reynir á vináttu ónefndra Fóstbræðra. Verður gaman að heyra hvert framhald verður þar á.
Íslenzk tunga er í fyrirrúmi í potti, þar nýtur hún stuðnings og aðhalds, þar er reynt á þanþol tungunnar og ýmis afbrigði reynd. Í potti eru sagðar sögur, þar eru menn leiðréttir miskunnarlaust fari þeir vitlaust með mál Jónasar. Er það enda eitt af yfirlýstum markmiðum Hlaupasamtakanna að bæta málfar og skipulega hugsun hlaupara, sem oftar en ekki eru dæmdir sem hálfvitar sökum áhuga síns á hlaupum. Svo var og í potti í dag - þar var mikil leiðrétting málfars, og er það vel.
Nú hverfur ritari enn á ný til skyldustarfa á erlendri grund, hleypur næst á föstudag. Í gvuðs friði.
23.9.2007 | 21:39
Aumingjar
"Þú ert aumingi!" "Já, ég er aumingi." Þessi orðaskipti fóru milli mín og ónefnds álitsgjafa þegar mætt var í pott í morgun. Ég hafði sofið yfir mig, var slæmur í baki og auk þess illa fyrir kallaður vegna kvöldverðarboðs í gærkvöldi. Af þeim sökum var ekki hlaupið af minni hálfu á þessum góða degi. En hlauparar voru: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Guðmundur og Birgir. Blómasalinn var að snövla í potti, óhlaupinn með öllu. Veittist að ritara sem þar sat, óhlaupinn líka, með óbótaskömmum. Vilhjálmur var bara vinsamlegur, bauð góðan dag, og sýndi fullkominn skilning á bágindum ritara. Það var hvasst í dag, en engu að síður fóru hörðustu hlauparar Hlaupasamtakanna í hefðbundið sunnudagshlaup.
Jörundur var með glýju í augum. Hann hljóp líka í gær, laugardag, með þjálfara. Fjórir karlar og sex konur mættar, allar nýjar að sögn Jörundar. Kvaðst hann mundu hætta að hlaupa með okkur Geirfuglunum, eins og hann orðaði það. Þarna væri saman komið metnaðarfullt fólk sem legði ekki megináherslu á að segja sögur og blaðra um nágrannann, heldur á það að hlaupa og ná árangri, verða betri.
Að sögn viðstaddra var frændi minn, Ó. Þorsteinsson, meiddur og fór bara stutt. Hann hljóp út í kirkjugarð, sneri við þar og stefndi tilbaka. Menn sögðu honum að meiri skynsemi væri að halda áfram, það væri líklega styttra og hægara. Nei, það var ekki hlustað á slíkt. Farið um Veðurstofuhálendið, Klambratún, Laugaveg og í skjóli tilbaka, yfir ælu og hlandpolla skemmtanaglaðra Reykvíkinga. Rifjað upp að Blómasalinn var nær orðinn fyrir spýju Austurstrætisróna í föstudagshlaupi þar sem hann hljóp framhjá Höfuðstöðvum Bjórólfa. Skeiðað upp Túngötu.
Nú skal frá því sagt er ónefndur banki hélt hátíð 100 beztu viðskiptavinum sínum: mat flogið inn frá París og hver rauðvínsflaska kostaði eina milljón. Sama dag ákvað samkeppnisbanki að halda 100 beztu viðskiptavinum sínum enn betri veizlu, þeim var flogið með einkavél til Mílanó, þar var snætt á flottasta veitingastað bæjarins og að því loknu var farið í óperuna. Þessar fréttir voru fluttar í hlaupi Hlaupasamtakanna um daginn, en ekki er vitað hver heimildarmaðurinn er.
Í pott dagsins voru mættir helztu máttarstólpar Sunnudagshlaupa: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir, og svo valinkunnir dáindismenn hlaupnir: Villi, Ólafur Þ., Blómasali, Birgir, Jörundur, Guðmundur, og loks var mættur ritari. Hann lýsti sig þegar vanhæfan til þess að vitna um atburði, samtöl og frásagnir. En menn heimtuðu að atburði yrðu skráðir - og ekki skipti máli þótt ritari væri óhlaupinn. Var lýst fjálglega hlaupi, sögum, ræðum ávörpum, gamansögum, m.a. einni sem Vilhjálmur ku hafa sagt.
Staðfest að bæði Blómasali og Ritari voru farnir að heilsu, slæmir í baki og illa haldnir. Óljóst hvenær þeir geta snúið aftur til heilbrigðra lífshátta og hreyfiingar með félögum. sínum.
kv. ritari
22.9.2007 | 11:19
Sjór og sól
Farið fetið inn í Nauthólsvík, hægt var farið og Vilhjálmur hélt forystunni langleiðina, mættum Jóa sem kom á móti okkur og slóst svo í hópinn. Í Nauthólsvík fórum við Gísli og Flosi í sjóinn, hann var yndislega kaldur og svalandi. Á meðan beið hópurinn uppi á landi og fylgdist með. Við fórum upp úr og hlupum áfram, við Gísli fórum Hlíðarfót, en aðrir fóru hefðbundið. Flosi og Einar blómasali skiptust á að hjóla og hlaupa, báðir eitthvað bilaðir í skrokknum. Er komið var tilbaka var það almenn niðurstaða hlaupara að bezta jólagjöf hlauparans í ár væri göngugrind - það kæmi í veg fyrir að menn væru alltaf dettandi. Efna mætti til göngugrindarhlaups, út að pylsuskúrnum og tilbaka aftur, það tæki svona álíka langan tíma og að fara aumingja.
Í fyrramálið er hefðbundið sunnudagshlaup. Í gvuðs friði. Ritari.
19.9.2007 | 20:09
Þeir síðustu verða fyrstir...
Þjálfari lagði línurnar fyrir hlaup og uppálagði okkur að hvíla kjálkana á leiðinni - lagðist það illa í viðstadda og kom upp kurr í liðinu. Varð þjálfari tilneyddur að hörfa á þessum punkti, en bað menn að gæta þess að hafa ökklana slaka og hlaupa hallandisk ívíð framávið. Kalt og blautt utandyra eins og s.l. mánudag - merkilegt með þessa þjálfara og veðrið sem fylgir þeim! Lagt í hann. Nú var ritari ekki síðastur, hann hljóp fremstur í flokki með þeim Magnúsi og Guðmundi á 5 mín. tempói. Ég reyndi að fiska einhverjar sögur upp úr Magnúsi eftir sóknarnefndarfund, en þær samkomur virðast farnar að vera ansi bragðdaufar, engar safaríkar sögur lengur. Einhvers staðar í Skerjafirði fór Una fram úr okkur og höfðum við á orði hvílíkur hlaupari þar færi, skeiðaði fyrirhafnarlaust áfram og virtist ekkert hafa fyrir því að fara á tempói vel undir 5 mín. En hinir hlunkarnir voru langt fyrir aftan og erfiðuðu, samt heyrðist alltaf í Birgi, hann samkjaftaði ekki.
Búið var að gefa út tvær leiðarlýsingar, 8 km og 10 km. Vitanlega fórum við lengri leiðina, austur Flanir og fyrir neðan kirkjugarð, út að Suðurhlíð. Þar er löng og erfið brekka sem sumir menn dásömuðu á Brottfararplani, hún væri löng og krefjandi og það væri beinlínis yndislegt að hlaupa hana. Sömu menn sáust ekki í þessari brekku. Við Magnús, Jörundur og Haukur fórum brekkuna. Upp hjá Perlu og þaðan niður á Stokk. Upplýst var að hringt hefði verið í próf. Fróða. Hann er tognaður og hefur fengið tilmæli um að hvíla í þrjár vikur, en ætlar að hvíla í átta vikur. Heimildarmaður sagði að prófessorinn væri bugaður, og hefði verið stutt í kjökrið þar sem þeir skiptust á orðum gegnum símalínurnar. Var þá haft á orði að varla væri Karl snúinn tilbaka til hlaupa þegar prófessorinn hyrfi af vettvangi. Menn voru sammála um að þetta væru dæmigerð byrjendamistök, verandi með tilmæli frá lækni um að hvíla í þrjár vikur, mæta til hlaups og segjast ætla bara að hlaupa hvíldarhlaup, enga spretti, en spretta svo úr spori, reka tána í, taka flugið, fá harkalega lendingu og togna í leiðinni. Það væri eitthvað að hjá svona fólki. Eftir á var spurt hvort svona menn fengju ekki sjálfkrafa einkaflugmannsréttindi - "jú," var svarað "og það líka á hjóli; hann ku vera einkar lunkinn á flughjóli".
Er komið var niður að Valsheimili mættum við þjálfaranum og hann lét okkur taka þrjá hálfrar mínútu spretti, það var ágætt. Komum blautir og þrekaðir tilbaka. Hittum fyrir hina styttingana á Stétt. Þar var rætt um grasmaðka, sem eru stórir og afkastamiklir á Norðurlöndunum, Birgir lýsti því þegar hann sá mikla maðkaveitu hafandi nagað upp heilt belti af lúpínu. Hér lyftist Jörundur allur og andlit hans lýsti eins og tungl í fyllingu. Mun þetta hafa verið á Flönum á Sunnmæri. Rætt áfram um nágrannaerjur þeirra Birgis og Jörundar, köttinn Birgis sem ævinlega mígur og skítur undir pallinum hjá Jörundi og hvernig maður gerir út af við ketti. Einhver nefndi edik, Birgir hótaði með smjörsýru á móti. Magnús vildi leggja Birgi lið og bauðst til að skjóta lúpínufræjum yfir á lóð Jörundar...
Þannig lauk þessu hlaupi, áberandi var fjarvera ónefndra fóstbræðra, og var þarafleiðandi mikið rætt um þá, sérkenni þeirra og fyrirætlanir. Gott hlaup. Ritari.
17.9.2007 | 21:22
Vinslit?
Fyrst er frá því að greina að til hlaups mættu Þorvaldur, Ágúst, Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson, Ólafur ritari, Friðrik læknir, Haukur, Una, Þorbjörg, Margrét þjálfari, Jóhanna hlaupari sem ég kann ekki að greina nánar frá (sumsé ekki dr. Jóhanna), Helmut, og svo karlmaður sem ég kann ekki að nefna. Það var náttúrlega arfavitlaust veður og ekki hundi út sigandi, og var þjálfara bent á það að alla daga sem hún hefði þjálfað hefði veður verið með ólíkindum leiðinlegt. Varð fátt um svör hjá þjálfara. Það var kalt og blautt utandyra og ljóst að menn verða að fara að draga upp vetrargírið, húfur og vettlinga og síðbuxur. Eins og menn skilja var ástandið ekki gott hjá þessum hlaupara, nýkominn frá Skotlandi, en skozkir eru gleðimenn og matmenn. Hann sýndi þá hyggni að halda sig með öftustu mönnum, enda var frá nógu að segja. Vildi svo til að þeir frændur og nafnar voru aftastir í hlaupi dagsins og má segja að ekki hafi fallið niður tal allt hlaupið. Var m.a. sagt frá merkilegum kappleik í Edínaborg, Hearts Midlothian gegn Glasgow Rangers, leik sem lyktaði með sigri Hearts, 4-2, og mætti til samanburðar segja, að leik KR og FH hefði lyktað með 6-1 sigri KR, svo söguleg var stundin, og hefur annað eins ekki gerst í samanlagðri sögu Hearts, sem hófst 1875. Þar léku 40 íslenzkir áhorfendur lykilhlutverk, íklæddir litum stuðningsmanna Hearts og öskruðu sig hása af æsingi, og hefði sumum óupplýstum viðstöddum dottið í hug að hér væru sannar fóboltabullur mættar á svæðið.
Það er allt í lagi að hlaupa aftastur. Mikilvægt er að mönnum líði vel á hlaupi og að þeir reyni ekki um of á sig, umfram það sem eðlilegt getur talist. Þannig var okkur nafna farið, lengi hlaups hlupum við með Vilhjálm fyrir framan okkur. Svo kom Helmut, maður sem er svo illa meiddur að kraftaverki er næst að hann skuli fara fetið, hann tætir fram úr okkur, og ætti að vera fjötraður við spítalabörurnar, nei, það er bara sprett úr spori, við á eftir, enn aftastir. Lengi hlaups virtist sem við værum að ná Vilhjálmi, en þá gaf þessi léttfeti úr öðru sveitarfélagi í og skildi okkur eftir. Við áttum í hávaðasamræðum, m.a. um téðan Vilhjálm, en hann lét sem hann yrði ekki var við okkur.
E-s staðar á Nesvegi mættum við Neshópi, hróp voru gerð að Vilhjálmi, líklega til þess að heiðra hann. Hrópin voru eitthvað á þessa leið: "Heill sé þér, ó!, þú mikli álitsgjafi!, Vilhjálmur.. o.s.frv." Okkur brá mikið við þetta og vorum lengi að jafna okkur á eftir. Svo mættum við okkar fólki sem kom hlaupandi á móti okkur - þá var þéttingur í gangi. Faxaskjólsþéttingur. Við fórum Faxaskjólið á hægu tölti, en sameinuðumst svo hinum í þéttingi um Faxaskjól. Þaðan í sund, enda menn þungir og hægir á sér eftir aðgæzluleysi síðustu daga. Við stóðum á tröppum Vesturbæjarlaugar þegar próf. Fróði kom haltrandi tlbaka, líklega búinn að slíta vöðva, að eigin sögn. Hann fékk greiningu læknis á tröppunum: það er ekkert að þér, þú hefðir betur farið í sjóinn s.l. miðvikudag! Ágúst hafði sumsé tekið einn sprettinn, rekið tána í og átt flug í vændum, en kaus að lenda fyrst á eigin forsendum. Þá var eins og eitthvað slitnaði í bakinu á honum.
Í potti urðu geysilega miklar umræður, vísbendingaspurning sem VB mátti glíma lengi dags við, en réð á endanum. Vinslit urðu milli ákveðinna aðila í potti, m.a. voru sumir ásakaðir um að taka ekki hlaup með þjálfurum alvarlega - þá urðum við frændur kyndugir á svipinn, en ekkert meira. Það rifjaðist upp fyrir ritara að Karl var mættur til hlaups í dag og var bara brattur. Næst er hlaupið á miðvikudag. Verður farið langt? Ritari.
12.9.2007 | 22:02
Ungur maður með glæsilega framtíð að baki mætir til hlaups
Það vakti athygli að próf. Fróði var ekki mættur, þótt miðvikudagur væri og kostur ger á sjóbaði. Viðstaddir töldu að líklega væri verið að þvo hlaupagírið hans eins og það leggur sig. Hvaðan þeim kom sú vitneskja er mér hulið. Þegar svo ágætur hlaupari og afreksmaður sem prófessorinn mætir ekki gerbreytist stemmningin í hlaupi, menn verða afslappaðir og tillögur um að fara hægt og stutt fá hljómgrunn án þess að menn þurfi að lýsa yfir því að þeir séu aumingjar. Það var gefið út að farið yrði stutt og á rólegu tempói, sjóbaði sleppt. Ég hafði áhyggjur af því að Gísli og Friðrik myndu ærast, en þeir héldu ró sinni og voru bara heimspekilegir yfir tillögunni. Septemberbaði er enda lokið, og þótt Gísli hafi misst af því gefst enn tími til að bæta úr því.
Það voru farnar bakgarðaleiðir, gamalkunnar leiðir gegnum bakgarða Vesturbæjarins sem yfirleitt eru farnar þegar vindur blæs (sem hann gerði ekki nú) - farið fremur rólega svo að hópurinn tvístraðist ekki. Komið út á Suðurgötu og farið í Fjörðinn. Hér yfirgaf Karl hópinn, og stuttu síðar snöri frændi minn, Ó. Þorsteinsson, við. Það er eins og hann þrjóti örendi þegar VB er ekki með til hlaupa, hann þrífst bezt á umtali og aðfinnslum álitsgjafans. Ég fór þetta bara rólega og var búinn að gefa þá áætlun út að ég færi Aumingja, fékk mér vel að eta í hádeginu og ekki í miklu hlaupastuði, með mér ætluðu Björn kokkur og Birgir jógi. Björn kokkur er öðruvísi kokkur en Kalli kokkur, Björn er í kokkamennsku, en kokkamennska Kalla er annars eðlis. Um þetta var kallsað á hlaupum eins og venjulega og ekki við öðru að búast. Birgir talaði hátt og mikið eins og venjulega, m.a. um org sem stundað er í Vesturbæjarlaug á morgnana. Sagan segir að Birgir hafi átt yndislega æsku í Vestbyen, sem aðeins var trufluð af ástarkalli sem vakti hann á morgnana og hann taldi vera frá óræðri fuglstegund, fuglinn hrópaði í falsettu: Vilb Org. Birgi fannst þetta ljótt org, hann vaknaði á morgnana við orgið og fannst hlutskipti sitt ekki gott. Nú er staðan sú að á morgnana vakna íbúar svæðisins sem markast af Einimel í suðri, Kaplaskjólsvegi í vestri, Hringbraut í norðri, og Birkimel í austri, af miklu orgi í falsettu sem kemur úr hálsi fyrrgreinds Birgis. Svona er Sagan, hún fer í hringi og hefur okkur þátttakendurna að leiksoppi. Höfum við ekkert lært?
Farið í Nauthólsvík og þar stóðumst víð þá freisting að fara í sjó, sem er synd í sjálfu sér, hefði verið gaman að gera prófessornum þá skráveifu að fara án hans í sjó. Sumir vildu fara um Hlíðarfót, Björn beygði af og fór Hlíðarfót, sem var í trássi við fyrirmæli þjálfara, sem einhver kallaði kroppatemjara. Þjálfarinn vildi teygja okkur aðeins lengra, fara um stígana í Öskjuhlíðinni, það væri litlu lengra, en vel þess virði að fara. Hann var upplýstur um merkingu hugtaksins "ágústínsk stytting" og að við værum vön tillögum af þessu tagi, um styttingar sem leiddu til lengingar. Engu að síður var farið að tilmælum þjálfara, farið upp í Hi-Lux og þar inn í skóginn í vesturátt, á skógarstígum og niður á Hlíðarfót. Þar var ég allt í einu orðinn aftastur, en var alveg sama, og lýsir það vel þeirri afslöppuðu stemmningu sem ríkti í dag, enginn asi, engin taugaveiklun yfir tímum - bara reynt að njóta hlaups og þeirrar ununar að vera úti í náttúrunni í fögru haustveðri, úri, 14 stiga hita, í vaskra sveina hópi.
Við Friðrik rákum lestina, af fjórtán manna hópi, og áttum heimspekilegar samræður um það sem gæðir lífið lit og fjörvi. Sett fram kenning um hlaupara, með skírskotun til aldurs og hlaupatíma. Er komið var í pott vék kvenfólk undan og við höfðum pottinn út af fyrir okkur. Upp kom byltingarkennd hugmynd um að leggja af minningagreinaritun í Dödens avis - og virtist oss það ekki einasta vera sneið til Ó. Þorsteinssonar, heldur beinlínis atlaga að helzta áhugamáli hans og því sem heldur sunnudagshlaupum gangandi, áratugum, ef ekki öldum eftir að þau hófust (munið Papeyjarhlaupin!) - þjóðfræði og persónufræði. Á endanum var þessi máttlausa tilraun kveðin í kútinn og staðfest að upplýsingar, fregnir og fróðleikur af náunganum sé einhver traustasta undirstaða í starfsemi Hlaupasamtakanna, hefur sama hlutverki að gegna og vítamínsprauta afreksmanninum (með fyrirvara um að vítamínsprauta sé yfirleitt til, ég hef aldrei séð hana, þaðanafsíður fengið hana, enda er ég ekki afreksmaður í neinum skilningi og vafamál að vítamínsprauta bætti þar úr því sem upp á vantar). Upplýst að Ísland væri einu marki yfir í kappleik við frændur vora N-Íra.
Næstu daga dvelur ritari með frændum vorum, Skotum, og mætir ekki aftur til hlaupa fyrr en n.k. mánudag. Lifið heil á meðan, hlaupið af krafti!