Færsluflokkur: Pistill Ritara
22.4.2009 | 22:42
Menn hoggnir, halda framhjá, menn flytja
Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök. Þar fer fram upplýst umræða um allt það er til framfara horfir um sögu og menningu Þjóðar Vorrar. Af þeirri ástæðu fer fram skipuleg skráning viðburða sem á dagskrá Samtakanna eru og tengjast hlaupum í Vesturbænum. Nú var Seinasti Vetrardagur og horfðu menn björtum augum til Framtíðar. Töluverður fjöldi hlaupara mættur til hlaupa og ekki ástæða til að nefna neina öðrum fremur. (Seinasti merkir að það koma fleiri dagar af þessu tagi - hefði ég sagt "Síðasti" - hefði það verið definitívt - ekki væri von fleiri slíkra daga).
Nema Jörund, sem er mikill hlaupari og mikill frumkvöðull, frumlegur náttúruunnandi og nýskapandi hlaupa, sem sést hvað bezt á hinu nýja hlaupi hans, Goldfinger-Shorter. Lúpínu-andstæðingur. Einhver frumlegasti og skemmtilegasti hlaupari sem ritari hleypur með. Það er jafnan fagnaðarefni að fá fylgd Jörundar um Sólrúnarbrautina.
Þjálfarar hafa tekið saman lítið hefti um Hlaupasamtökin sem dreift verður á morgun, Sumardaginn Fyrsta, í Vesturbæjarlaug. Þar eru sett fram fáein grundvallaratriði um hlaup og upplýst um starfsemi Samtaka Vorra. Eiga þjálfarar þakkir skildar fyrir framtakið og má vona að það skili enn fleiri þátttakendum í starfsemi vorri.
Þjálfari átti í mesta basli með að fá fólk til að þegja og hlusta á fyrirmæli. Honum var bent á að stilla sér uppi á tröppu Laugar Vorrar og beina röddu sinni þaðan og yfir mannskapinn. Það breytti litlu, hver kjaftaði í munn á öðrum og var eins og saman væri kominn klúbbur ótilgreindrar gerðar þar sem mas er helzta viðfangsefnið.
Nema hvað, stefnan var á stutt og rólegt vegna hlaupa ýmissrar tegundar á morgun. Í boði er ÍR-hlaup, 5 km, en jafnframt Víkingshlaup í tilefni af 100 ára afmæli félagsins, 8,5 km. Sérstaklega skal vakin athygli á því að þátttökugjald í ÍR hlaupi er 1500 spesíur og fær fólk ekkert fyrir nema ánægjuna En í Víkingshlaupi er ekkert gjald, og fá menn bol, drykki í gnægðum og auk þess mikla veizlu að hlaupi loknu. Ekki svo að skilja að ritari sé að mæla með einu eða neinu, en vissulega er hann hallur undir sitt gamla félag og frænda sinn og vin, Ó. Þorsteinsson Víking, formann afmælisnefndar Víikings.
Jæja, hlaup fór af stað. Rólega. Ekki þarf að fjölyrða um hreyfingu af þessu tagi, lagt til að farinn yrði Hlíðarfótur, og fóru vissulega sumir hlauparar þá leið. Ritari var hins vegar í kompaníi við Jörund og Bjarna - og þar var ekki tekið í mál að stytta með þessum hætti. Bjarni og ritari fóru Hi-Lux og að Perlu, en Jörundur hélt áfram og stefndi á Þrjárbrýr. Við sáum hópinn á undan okkur, flestir beygðu, en Flosi hélt ótrauður áfram og endaði með að taka 69.
Þegar upp er staðið vekur furðu að blómasalinn skuli ítrekað láta sig vanta frá hlaupum og voru margir sem lýstu áhyggjum af heilsufari hans. En ritari var sem sagt á ferð með Jörundi og Bjarna og var það ótrúlega gefandi lífsreynsla að hlaupa með þessum gæfu og vel gerðu mönnum. Við ræddum um ýmisleg þarfleg málefni, og var ekki að sjá að í brýnu slægi með þeim tveimur þótt aðhylltust ólíkar stjórnmálastefnur svona stuttu fyrir kosningar.
Jörundur hélt áfram, við Bjarni um Öskjuhlíð þar sem ku vera perrar og kanínur. Upp að Perlu og svo vestur úr. Á Hringbraut upphófst mikil umræða um Sturlungu og Íslendingasögur og kvartaði ritari yfir því að listræn brögð vantaði í Sturlungu, en Bjarni taldi að ýmislegt mætti finna í Íslendingasögum sem mætti útskýra sem betrumbætur á samtímasögunni. Í Sturlungu er sagt frá bæjum, fólki, kvennafari, flutningum milli bæja, bændum sem flugust á, og tilefnislausum (að því er virðist) mannvígum. Þó eru perlur innanum. Um þetta ræddum við félagar Bjarni á stíg meðfram Hringbraut á meðan við tókum tempóhlaup undir 5 mín.
Maður skammast sín að segja frá svona hlaupi - þetta var sosum ekki neitt neitt. Enda miðast allt núna við undirbúning þeirra bræðra Eiríks og Benna fyrir Lundúnamaraþon - þeir fara utan á morgun og óskum við þeim alls hins bezta. Munum fylgjast með tímum hér á bloggi. Fólk var eitthvað að myndast við að teygja á Plani - en það var bara til málamynda. Allir voru spenntir að fara í pott.
Þar var góð umræða um hjól, um lyfjafræði, um menningarvita, um þann mannauð sem Hlaupasamtökin búa að á sunnudögum og voru þar engar nafnlausar sögur. Uppskriftir að góðum rækjusalödum, m.a. : rækjur, egg, sýrður rjómi í bland við létt majones, reyktur lax, brakandi fersk steinselja frá Frikka, öllu hrært saman - sett á heppilegt rúgbrauð og sneið af sítrónu með berki stillt ofan á. Delicious! Thailensk fiskisúpa og útskýring með henni á lá Björn.
Svona eru Hlaupasamtökin, aldrei komið að tómum kofanum - ávallt horft til framtíðar.
20.4.2009 | 21:48
Átakahlaup á afmælisdegi
Til aðgreiningar frá Sólskinshlaupurum skulu þeir taldir upp er voru mættir í dag, en það voru Margrét og Rúnar, Flosi, Björn, Birgir, Una, Ósk, Hjálmar, Friðrik kaupmaður, Ólafur ritari, Eiríkur, Benedikt, Snorri og Helmut. Þetta eru naglar!
Bollalagt var um heppilega hlaupaleið, en ætlunin var að taka spretti í Bakkavör. Á endanum var ákveðið að fara upp á Hringbraut og þaðan út á Nes. Tíðindalítið framan af, en farið á nokkuð þéttu tempói vestur úr. Ekkert hlé á rigningu og hlauparar orðnir holdvotir.
Flosi og Friðrik fóru áfram á Nes, Lindarbraut, og eitthvað svipað hafa Benedikt og Eiríkur farið, en þeir eru að fara í Lundúnamaraþon um hæstu helgi og því komnir í hvíld. Aðrir tóku spretti í Bakkavörinni. Þeir urðu á endanum 9. Ansi hressandi. Eftir það var haldið tilbaka og var hlaup dagsins um 10 km.
Teygt við komu. Magnús sást lauma sér úr Laug. Rífandi stemmning í Potti þar sem Kári var mættur ásamt Kjartani syni sínum. Þeir skiptust á að halda ádíens, Kári, Birgir og Björn. Það var hávaði, það var öskrað. Svona á að ljúka vel heppnuðu hlaupi.
19.4.2009 | 13:58
Þá hlupu hetjur um héruð...
Veður alvitlaust á suðaustan en þó hlýtt. Svo hvasst var sums staðar í Skerjafirði og við flugbraut að við stóðum nánast kyrrir og þurfti að beita afli til þess að hnika sér eitthvað áleiðis. Við létum vindinn sem ... vind um eyru þjóta og héldum uppi samfelldri samræðu um allt það sem mannlegt má teljast, ættir manna, stöðuna í stjórnmálunum og fleira. Ó. Þorsteinsson með kosningaspá sem fróðlegt verður að sjá hvort rætist, 35%, 25%, 15%, 10% og Auður með afganginn og 7 þingsæti. Það var stirðleiki í beinum eftir langt hlaup í gær. Við mættum frú Helgu Jónsdóttur af Kvisthaga í Nauthólsvík og vorum búnir að svissa yfir í göngutempó - þar flugu hefðbundnar glósur um hvort þetta væri orðið að gönguklúbbi.
Sáum Sjúl inni í bifreið á Flókagötunni - mikið hlýtur þeim manni að líða illa svona óhlaupnum. Farið niður á Sæbraut og eftir það var þetta aðeins formsatriði, þar höfðum við vindinn í bakið og þurfti lítið að hafa fyrir því að komast leiðar sinnar.
Við söknuðum vinar í stað í potti: B. Símonarson var fjarstaddur. Aðrir mættir, auk þess mættu blómasalinn og Benni óhlaupnir. Blómasalinn spjaldaður á staðnum fyrir að vanrækja hlaup á sunnudegi. Hann reyndi að bera fyrir sig skyldur heimafyrir og ráðríkt yfirvald, en það var ekki hlustað á slíkt. Setið í potti í klukkutíma í hávaðaroki og fauk allt lauslegt á sundlaugarsvæðinu. Mikil umræða um nöfn og auk- og viðurnefni. Lagt á ráðin um löng hlaup sumars, m.a. Vesturgötuna í júlí.
18.4.2009 | 17:11
Langur laugardagur
17.4.2009 | 22:43
Hér verður sagt frá ævintýralegu hlaupi í Vesturbænum
Þetta leit nógu sakleysislega út til að byrja með. Veður gott og bauð upp á gott hlaup. Fjöldi góðra hlaupara sem voru með magann fullan af góðum ásetningi um afrek, harla vel hafandi í huga afrek hetju Samtaka Vorra, próf. dr. Fróða, í Sahara. Þarna voru Bjarni, ritari, Helmut, Kári, Jón Gauti, Denni, S. Ingvarsson, dr. Jóhanna, Rúna, Þorbjörg - svo drattaðist náttúrlega blómasalinn inn einni og hálfri mínútu í brottför.
Ritari sá Margréti þjálfara hlaupa eina síns liðs á Hringbrautinni um fjegurleytið sama dags og skildi ekki hví hún vildi ekki einfaldlega sameinast Hlaupasamtökunum sem þögulll þátttakandi og hlutlaus observant.
Nema hvað, menn leggja í hann. Helmut fljótur að snúa við og gera eitthvað annað. Aðrir frískir. Jón Gauti, S.Ing., Bjarni og blómasali fremstir. Ég spáði því að þeir myndu sprengja blómasalannn og skilja hann eftir. Spáin rættist við flugvallarenda, þar sem ritari náði gangandi blómasala. Aðspurður kvaðst blómasali hafa nærst á þrimur pylsum í hádeginu með miklu af remolaði. "Ég ætlaði fyrst bara að fá mér eina pylsu, og banana í eftirrétt. En svo, þegar ég sá að sex pylsur voru eftir, þá réð ég ekki við mig og bætti tvimur við fyrra skammt."
Þannig gekk umræðan á Sólrúnarbraut. Þegar hér var komið fór ég að segja blómasalanum frá samskiptum mínum við leigjendur í húsi mínu sem hafa verið mikil harmsaga. Hann gleymdi sorgum sínum og við hlupum um Nauthólsvík. Einhvers staðar um þetta leyti náði dr. Jóhanna okkur. Það var hvalreki.
Þegar komið var á Klambratún náðu okkur Denni og Brynja. Eftir það var hlaup bara yndislegt. Við fórum Sæbrautina á ljúfu skeiði. Denni kom með tillögu um að breyta til. Ekki kom til greina að fara Mýrargötu, farið hjá Stjórnarráði, Austurstræti, Austurvöllur, Túngata og yfir túnið, niður Blómvallagötu og athuguð kirsuberjatré á Sólvallagötu. Ekki meira um það í bili.
Tekin róleg stefna á Laug. Teygt utandyra. Teygt innandyra. Rætt um stjórnmál í útiklefa. Rætt um stjórnmál í Potti. Það stefnir í að Steingrímur J. verði næsti "Frost-roðra" og virtust menn sammála um það, auk evru.
Í útiklefa fór fram '''merkileg næringarfræðileg umræða og flutti Jón Gauti þá kenning að manninum væri eðlilegt að hlaupa, drekka, matast, sofa, njóta ásta (not in so many words) - og ef allt þetta héldist í skynsamlegar hendur væri okkur borgið. Góður rómur var ger að málflutningi Jóns Gauta og hefur hann þegar vaxið að áliti í Samtökum Vorum.
Í fyrramálið er hlaup í boði, 10:00, langt, hægt. Ljúft. Vel mætt! Í gvuðs friði, ritari.
11.4.2009 | 13:57
Er ekki lífið yndislegt?
Nokkrir úrvalshlauparar voru saman komnir til hlaups frá Vesturbæjarlaug í dag, laugardaginn fyrir páska. Þar á meðal voru báðir þjálfarar, Rúnar og Margrét, Flosi, Þorvaldur, Ólafur ritari, Þorbjörg, kona Rúnars, Eiríkur (búinn þá þegar með 5 km) - og svo ungliðahreyfing Samtaka Vorra: Elínborg Ingunn Ólafsdóttir, dósent HÍ, stærðfræðingur, Pawel Bartosiak, Stefán Ingi Valdemarsson líka stærðfræðingur.
Mæting 10, einhver orð um að fara af stað 10.10 - en ákveðið að breyta til og leggja í hann 10:05. Hafi einhver mætt 10:08 og misst af okkur, þá er þetta skýringin: við vorum farin. Það er hlaupið langt á laugardögum og stefndi ritari á 69. Eiríkur ætlaði að taka hálfmaraþon, annað eftir því.
Að öllu samanteknu verður ekki annað sagt en hlaupið hafi gengið eins og bezt verður á kosið og merkilegt hvað maður kemur vel undan vetri. Hafði Powerade meðferðis og það bjargaði mér, enda eitthvað um vökvamissi hjá hlaupara eins og mér á svo langri leið. Það var bara vellíðan og kraftur alla leiðina, hlaupið samfellt, stanzað til að drekka, en svo haldið áfram.
Er komið var á Hofsvallagötu varð manni hugsað: er ekki lífið yndislegt?! Formið er komið og nú bíða nýir áfangar: Goldfinger, Stíbbla, Sundlaug.
Næst hlaupið annan dag páska kl. 10:10.
Pistill Ritara | Breytt 18.4.2009 kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2009 | 21:20
Hlaup á páskum 2009
Nokkru færri mættir á miðvikudegi fyrir páska en alla jafna á venjulegum miðvikudegi. Þetta voru Flosi, Þorvaldur, Bjarni, Eiríkur, Ólafur ritari, Una, Sirrý, Kalli kokkur, báðir þjálfarar og svo longintes sem ég man ekki nafnið á, en mun geysiefnilegur hlaupari. Magnús sást skjótast eins og mús út úr húsi um það bil sem hann hefði átt að vera að mæta til hlaups og fékkst fátt skýringa á framferði hans.
Það var einkennilega létt yfir mannskapnum í kvöld, einhver óútskýranlegur léttleiki, sem sló jafnvel út í kæruleysi, og smitaði út frá sér. Þjálfarar kvörtuðu yfir því að þegar þeir beindu þeim tilmælum til hlaupara í fyrra að fara varlega í að lengja, þá fór enginn eftir þeim tilmælum. Nú væru þeir eilíft að hvetja menn til að fara að lengja - og hvað gerist? Enginn hlustar á þá! Hvað er að gerast?? Er aldrei hlustað á þjálfarana?
Fara hægt út að "Dælustöð". Það var farið hægt af stað út að Dælu. Menn og konur voru róleg. Enginn hraðafantar, þó var Þorvaldur eitthvað að derra sig. Við Dælu var gefin út lína um aukinn hraða. Þessi tilmæli áttu einna helzt við um þjálfarana tvo og Eirík, Bjarni, Una og Flosi voru næst í röð, þar á eftir komu hlauparar eins og ritari sem er orðinn vanur því að vera aftastur og vera einn. Það er allt í lagi, svo lengi sem hann heyrir ekki tiplið í blómasalanum eða Jörundi á eftir sér. Það er vond tilfinning og veldur streitu. Streita er ekki góð tilfinning fyrir hlaupara sem er á millilöngu hlaupi eins og farið var í dag. Ég gleymdi að nefna að það var planið að fara Þriggjabrúahlaup.
Markmið ritara var að ná að fara Three Bridges Run með sóma án þess að springa eða togna á leiðinni. Með "springa" er átt við að gefast upp. Þess vegna var málið að fara hægt fyrstu fimm kílómetrana. Áður en maður vissi af var komið inn að Borgarspítala og brekkan þar upp var erfið eins og ávallt. Ég sá enn hlaupara á undan mér, Flosa, Unu og Bjarna. Í þetta skiptið þurfti ég ekki að stanza til að hvíla míg, hélt áfram yfir Útvarpsstöðvarhálendið og yfir hjá Kringlu. Yfir Brúna hjá ónefndu íþróttafélagi og þannig yfir á Kringlumýrarbraut.
Eftir þetta var hlaup eiginlega hefðbundið, með stoppum við ljós, og við brunn á Sæbraut. Ekki sá ég eða heyrði neinn að baki mér á stígnum, grennslaðist þó fyrir um þetta öðru hverju, enda vont að vita af einhverjum sem er hugsanlega að ná manni.
Komið til Laugar á forsvaranlegum tíma, þótt ég væri á eftir öðrum. Teygt í Móttökusal. Lítið um pottsamveru - líklega vegna þess að menn eru að detta í páskafrí. Nú er orðið albjart á kvöldin eftir hlaup og tilhlökkunarefni að fara að lengja hvað úr hverju.
1.4.2009 | 20:44
Lærir maður aldrei?
Allnokkur fjöldi hlaupara mættir og voru vel stemmndir fyrir langt. Þar á meðal Nestor Samtakanna, Jörundur, nýorðinn 68 ára gamall og slær ekkert af. Aðrir Flosi, Bjössi, Biggi, Ósk, Una, Dagný, Sirrý, Margrét, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Helmut og ritari. Við tíndum Sigurð Ingvarsson upp á leið okkar út Sólrúnarbraut, hann kom hlaupandi úr Grafarvogi, kominn með 14 km á mælinn og tók ekki eftir okkur. Svo var Eiríkur líka með í för, en var í sínu eigin prógrammi, tók spretti fram og aftur Ægisíðuna. Jú, Einar blómasali kom líka, seinn að vanda.
Það mátti velja um Þriggjabrúahlaup eða Stokk fyrir þá sem þurfa að fara að lengja. Það átti að fara hægt út að Skítastöð, eftir brúna yfir Kringlumýrarbraut átti að auka hraðann. Þrátt fyrir tal um rólegheit var allt gleymt við flugvöll og sett á hratt tempó. Liðskönnun við Borgarspítala og beðið eftir eftirlegukindum. Hópurinn fór nokkuð samtímis upp brekkuna. Hún var óvenjuerfið í þetta skiptið. Það fór að draga af þessum hlaupara eftir brekkuna, en svo lagaðist það við Kringlu og ég átti ágætan sprett út að Kringlumýrarbraut og niðureftir. Við ljósin við Suðurlandsbraut náðu Dagný og Sirrý mér - stuttu síðar kom Jörundur skeiðandi framúr og virtist ekki við okkur vilja tala.
Á mótum Borgartúns og Sundlaugavegar fékk ég krampa í læri, varð að stöðva og teygja. Maður nokkur sem ég kannast við úr Útiklefa VBL stöðvaði bíl sinn og bauð mér far tilbaka, en ég afþakkaði og kvaðst geta hlaupið þetta eftir smáhvíld. Áfram um Sæbraut og drukkið kalt vatn á réttum stað. Eftir þetta fór að draga verulega af mér og ég þurfti að fara að ganga smáspeli inn á milli, m.a. upp Ægisgötuna. Skeiðaði svo niður Hofsvallagötuna og tilbaka til Laugar. Þetta var erfitt hlaup, vafalítið vegna þess að ég fór allt of hratt fyrstu 5 km og var búinn eftir 9-10.
Bjarni var í Útiklefa og hafði farið eina 9 km á eigin vegum. En nú er vorið komið og við förum að lengja smásaman, fara í Elliðaárdalinn, Goldfinger, Stíbblu o.s.frv.
30.3.2009 | 21:02
Bakkavörin tekin með látum, aftur og aftur
Farið upp á Hringbraut og þaðan vesturúr, hjá JL-húsi og út á Nes. Hraði nokkuð góður, mér heyrðist einhver nefna tempóið 5:20. Nú er svo komið að jafnvel lökustu hlauparar, eins og ritari, eru farnir að hanga í hinum betri hlaupurum og er þeim samferða alla leið. Það var farið út í Bakkavör og ekki verið að bíða neitt heldur farið beint í sprettina. Margrét, sem stýrði för í dag, lagði til 6-8 Bakkavarir, horfði svo á hlaupara í kringum sig og sagði: Mér sýnist nú menn alveg geta tekið 10.
Þetta endaði á 7 eða 8. Jörundur kvartaði yfir því að menn kynnu að hlaupa upp, en ekki niður. Það er ekki sama hvernig farið er niður brekku. Það er kúnst. Menn halda höndum með síðum, beygja sig eilítið fram á við og taka löng skref, svífa eða láta sig detta eins og sumir kalla það. Þetta kann fólk almennt ekki, sagði Jörundur. Sömuleiðis spurði hann um bílinn Magnúsar: Er búið að fjarlægja hann? Já, það er langt síðan, sagði ritari.
Það tók á að taka sprettina í Vörinni, enda í fyrsta skipti sem ritari tekur sprettina þetta árið. Yngra fólkið fór þetta létt, Eiríkur í sérstöku prógrammi fyrir London. Flosi sprækur og tók vel á því. Þegar þessu var lokið fóru menn sömu leið tilbaka og komið var, nema beygt var inn Grandaveginn og þá leið tilbaka. Farið á góðum spretti og ekkert slegið af. Teygt vel á eftir í Komusal. Helmut kom gangandi tilbaka og kunni frá því að segja að hann hefði tognað í kálfa í hlaupinu og þurft að ganga frá Nesi.
Rætt um ríkisstarfsmenn í potti. Ekki eru allir hrifnir af ríkisstarfsmönnum. Bjössi sagði af myrkvuðu kvöldi á Argentínu, þar sem hann þurfti að nota ljósið frá símanum til að sjá steikina sína, bein með smá tægjum utan á. Þetta minnti viðstadda á blindraveitingastaðinn í Berlín, þar sem allt er myrkvað og menn sjá ekki hvað þeir eta, blindir bera fram matinn.
Frábært hlaup að baki og bara bjartsýni um næstu hlaup. Í gvuðs friði, ritari.
27.3.2009 | 19:27
Er það satt? Getur það verið?
Mættir nokkrir valinkunnir hlauparar þrátt fyrir leiðindaveður. Flosi, Helmut, dr. Jóhanna, Kalli, Magnús, Brynja, Friðrik kaupmaður, Jón Gauti, Kári, Bjarni Benz og fyrrnefndir tveir hlauparar. Kári fór á undan hópnum og var bara frískur fyrsta kílómetrann. Aðrir voru frískir aðeins lengur, sumir allt hlaupið. Ritari var aldrei frískur, byrjaði að kveinka sér og væla þegar í byrjun og leið illa allt hlaupið, sem þó var ekki langt, Hlíðarfótur, 8 km. Aðrir fóru lengra, Klambratún og Blóðbanki, jafnvel Sæbraut.
Nei, það var hlunkast þetta af stað, maður var þungur eftir utanlandsferð og ólifnað. Það situr í manni. Kalt. Blés á norðan. Bærilegt út Ægisíðuna, en svo skall norðankyljan á manni við flugvöll og það var erfitt. Ég ætlaði að láta það koma í ljós í Nauthólsvík hvað ég færi langt, útilokaði sosum ekki hefðbundið - en svo sá maður að það var ekkert vit annað en stytta.
Eðlilega voru menn með hugann við hlauparann í Sahara. Honum fylgja góðar óskir að heiman og verður hugur okkar hjá honum á sunnudag þegar hann sprettir úr spori og lætur gamminn geisa í sandinum. Þó er brýnt fyrir honum að hann gleymi ekki að nefna Hlaupasamtökin á nafn þegar hann kemur fram í fjölmiðlum (t.d. í Fréttablaðinu í morgun).
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)