Átakahlaup á afmælisdegi

20. apríl halda Hlaupasamtök Lýðveldisins hátíðlegt afmæli foringja síns, Vilhjálms Bjarnasonar. Við hæfi þótti að hlaupa svo sem eins og 10 km á slíkri hátíð. Veður var ekki ákjósanlegt til hlaupa, suðaustanstormur og ausandi rigning. En það er við slíkar aðstæður sem reynir á karaktér hlaupara og aldrei fleiri sem mæta en einmitt þegar veður eru sem verst. Þeir hinir sem lýstu með fjarveru sinni eru nefndir Sólskinshlauparar, þ.e.a.s. þeir hlaupa einkum þegar sól skín, vindur er hægur og hiti ekki undir 12 gráðum.

Til aðgreiningar frá Sólskinshlaupurum skulu þeir taldir upp er voru mættir í dag, en það voru Margrét og Rúnar, Flosi, Björn, Birgir, Una, Ósk, Hjálmar, Friðrik kaupmaður, Ólafur ritari, Eiríkur, Benedikt, Snorri og Helmut. Þetta eru naglar!

Bollalagt var um heppilega hlaupaleið, en ætlunin var að taka spretti í Bakkavör. Á endanum var ákveðið að fara upp á Hringbraut og þaðan út á Nes. Tíðindalítið framan af, en farið á nokkuð þéttu tempói vestur úr. Ekkert hlé á rigningu og hlauparar orðnir holdvotir.

Flosi og Friðrik fóru áfram á Nes, Lindarbraut, og eitthvað svipað hafa Benedikt og Eiríkur farið, en þeir eru að fara í Lundúnamaraþon um hæstu helgi og því komnir í hvíld. Aðrir tóku spretti í Bakkavörinni. Þeir urðu á endanum 9. Ansi hressandi. Eftir það var haldið tilbaka og var hlaup dagsins um 10 km.

Teygt við komu. Magnús sást lauma sér úr Laug. Rífandi stemmning í Potti þar sem Kári var mættur ásamt Kjartani syni sínum. Þeir skiptust á að halda ádíens, Kári, Birgir og Björn. Það var hávaði, það var öskrað. Svona á að ljúka vel heppnuðu hlaupi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband