Menn hoggnir, halda framhjá, menn flytja

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök. Þar fer fram upplýst umræða um allt það er til framfara horfir um sögu og menningu Þjóðar Vorrar. Af þeirri ástæðu fer fram skipuleg skráning viðburða sem á dagskrá Samtakanna eru og tengjast hlaupum í Vesturbænum. Nú var Seinasti Vetrardagur og horfðu menn björtum augum til Framtíðar. Töluverður fjöldi hlaupara mættur til hlaupa og ekki ástæða til að nefna neina öðrum fremur. (Seinasti merkir að það koma fleiri dagar af þessu tagi - hefði ég sagt "Síðasti" - hefði það verið definitívt - ekki væri von fleiri slíkra daga).

Nema Jörund, sem er mikill hlaupari og mikill frumkvöðull, frumlegur náttúruunnandi og nýskapandi hlaupa, sem sést hvað bezt á hinu nýja hlaupi hans, Goldfinger-Shorter. Lúpínu-andstæðingur. Einhver frumlegasti og skemmtilegasti hlaupari sem ritari hleypur með. Það er jafnan fagnaðarefni að fá fylgd Jörundar um Sólrúnarbrautina.

Þjálfarar hafa tekið saman lítið hefti um Hlaupasamtökin sem dreift verður á morgun, Sumardaginn Fyrsta, í Vesturbæjarlaug. Þar eru sett fram fáein grundvallaratriði um hlaup og upplýst um starfsemi Samtaka Vorra. Eiga þjálfarar þakkir skildar fyrir framtakið og má vona að það skili enn fleiri þátttakendum í starfsemi vorri.

Þjálfari átti í mesta basli með að fá fólk til að þegja og hlusta á fyrirmæli. Honum var bent á að stilla sér uppi á tröppu Laugar Vorrar og beina röddu sinni þaðan og yfir mannskapinn. Það breytti litlu, hver kjaftaði í munn á öðrum og var eins og saman væri kominn klúbbur ótilgreindrar gerðar þar sem mas er helzta viðfangsefnið.

Nema hvað, stefnan var á stutt og rólegt vegna hlaupa ýmissrar tegundar á morgun. Í boði er ÍR-hlaup, 5 km, en jafnframt Víkingshlaup í tilefni af 100 ára afmæli félagsins, 8,5 km. Sérstaklega skal vakin athygli á því að þátttökugjald í ÍR hlaupi er 1500 spesíur og fær fólk ekkert fyrir nema ánægjuna En í Víkingshlaupi er ekkert gjald, og fá menn bol, drykki  í gnægðum og auk þess mikla veizlu að hlaupi loknu. Ekki svo að skilja að ritari sé að mæla með einu eða neinu, en vissulega er hann hallur undir sitt gamla félag og frænda sinn og vin, Ó. Þorsteinsson Víking, formann afmælisnefndar Víikings.

Jæja, hlaup fór af stað. Rólega. Ekki þarf að fjölyrða um hreyfingu af þessu tagi, lagt til að farinn yrði Hlíðarfótur, og fóru vissulega sumir hlauparar þá leið. Ritari var hins vegar í kompaníi við Jörund og Bjarna - og þar var ekki tekið í mál að stytta með þessum hætti. Bjarni og ritari fóru Hi-Lux og að Perlu, en Jörundur hélt áfram og stefndi á Þrjárbrýr. Við sáum hópinn á undan okkur, flestir beygðu, en Flosi hélt ótrauður áfram og endaði með að taka 69.

Þegar upp er staðið vekur furðu að blómasalinn skuli ítrekað láta sig vanta frá hlaupum og voru margir sem lýstu áhyggjum af heilsufari hans. En ritari var sem sagt á ferð með Jörundi og Bjarna og var það ótrúlega gefandi lífsreynsla að hlaupa með þessum gæfu og vel gerðu mönnum. Við ræddum um ýmisleg þarfleg málefni, og var ekki að sjá að í brýnu slægi með þeim tveimur þótt aðhylltust ólíkar stjórnmálastefnur svona stuttu fyrir kosningar.

Jörundur hélt áfram, við Bjarni um Öskjuhlíð þar sem ku vera perrar og kanínur. Upp að Perlu og svo vestur úr. Á Hringbraut upphófst mikil umræða um Sturlungu og Íslendingasögur og kvartaði ritari yfir því að listræn brögð vantaði í Sturlungu, en Bjarni taldi að ýmislegt mætti finna í Íslendingasögum sem mætti útskýra sem betrumbætur á samtímasögunni. Í Sturlungu er sagt frá bæjum, fólki, kvennafari, flutningum milli bæja, bændum sem flugust á, og tilefnislausum (að því er virðist) mannvígum. Þó eru perlur innanum. Um þetta ræddum við félagar Bjarni á stíg meðfram Hringbraut á meðan við tókum tempóhlaup undir 5 mín.

Maður skammast sín að segja frá svona hlaupi - þetta var sosum ekki neitt neitt. Enda miðast allt núna við undirbúning þeirra bræðra Eiríks og Benna fyrir Lundúnamaraþon - þeir fara utan á morgun og óskum við þeim alls hins bezta. Munum fylgjast með tímum hér á bloggi. Fólk var eitthvað að myndast við að teygja á Plani - en það var bara til málamynda. Allir voru spenntir að fara í pott.

Þar var góð umræða um hjól, um lyfjafræði, um menningarvita, um þann mannauð sem Hlaupasamtökin búa að á sunnudögum og voru þar engar nafnlausar sögur. Uppskriftir að góðum rækjusalödum, m.a. : rækjur, egg, sýrður rjómi í bland við létt majones, reyktur lax, brakandi fersk steinselja frá Frikka, öllu hrært saman - sett á heppilegt rúgbrauð og sneið af sítrónu með berki stillt ofan á. Delicious! Thailensk fiskisúpa og útskýring með henni á lá Björn.

Svona eru Hlaupasamtökin, aldrei komið að tómum kofanum - ávallt horft til framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband