Hlaup á páskum 2009

Nú eru páskar í aðsigi. Menn eru komnir í frí. Sumir komnir norður á Agureyri, sem er þorp við Eyjafjörð. Aðrir enn á mölinni og stefna á hlaup. Ritari lá uppi í sófa og svaf megnið úr degi, enda kominn í frí eins og aðrir og getur andað léttar eftir erfitt streð í þágu lands og lýðs í Lýðveldinu. Það breytti ekki því að það skyldi hlaupið í dag.

Nokkru færri mættir á miðvikudegi fyrir páska en alla jafna á venjulegum miðvikudegi. Þetta voru Flosi, Þorvaldur, Bjarni, Eiríkur, Ólafur ritari, Una, Sirrý, Kalli kokkur, báðir þjálfarar og svo longintes sem ég man ekki nafnið á, en mun geysiefnilegur hlaupari. Magnús sást skjótast eins og mús út úr húsi um það bil sem hann hefði átt að vera að mæta til hlaups og fékkst fátt skýringa á framferði hans.

Það var einkennilega létt yfir mannskapnum í kvöld, einhver óútskýranlegur léttleiki, sem sló jafnvel út í kæruleysi, og smitaði út frá sér. Þjálfarar kvörtuðu yfir því að þegar þeir beindu þeim tilmælum til hlaupara í fyrra að fara varlega í að lengja, þá fór enginn eftir þeim tilmælum. Nú væru þeir eilíft að hvetja menn til að fara að lengja - og hvað gerist? Enginn hlustar á þá! Hvað er að gerast?? Er aldrei hlustað á þjálfarana?

Fara hægt út að "Dælustöð".  Það var farið hægt af stað út að Dælu. Menn og konur voru róleg. Enginn hraðafantar, þó var Þorvaldur eitthvað að derra sig. Við Dælu var gefin út lína um aukinn hraða. Þessi tilmæli áttu einna helzt við um þjálfarana tvo og Eirík, Bjarni, Una og Flosi voru næst í röð, þar á eftir komu hlauparar eins og ritari sem er orðinn vanur því að vera aftastur og vera einn. Það er allt í lagi, svo lengi sem hann heyrir ekki tiplið í blómasalanum eða Jörundi á eftir sér. Það er vond tilfinning og veldur streitu. Streita er ekki góð tilfinning fyrir hlaupara sem er á millilöngu hlaupi eins og farið var í dag. Ég gleymdi að nefna að það var planið að fara Þriggjabrúahlaup.

Markmið ritara var að ná að fara Three Bridges Run með sóma án þess að springa eða togna á leiðinni. Með "springa" er átt við að gefast upp. Þess vegna var málið að fara hægt fyrstu fimm kílómetrana. Áður en maður vissi af var komið inn að Borgarspítala og brekkan þar upp var erfið eins og ávallt. Ég sá enn hlaupara á undan mér, Flosa, Unu og Bjarna. Í þetta skiptið þurfti ég ekki að stanza til að hvíla míg, hélt áfram yfir Útvarpsstöðvarhálendið og yfir hjá Kringlu. Yfir Brúna hjá ónefndu íþróttafélagi og þannig yfir á Kringlumýrarbraut.

Eftir þetta var hlaup eiginlega hefðbundið, með stoppum við ljós, og við brunn á Sæbraut. Ekki sá ég eða heyrði neinn að baki mér á stígnum, grennslaðist þó fyrir um þetta öðru hverju, enda vont að vita af einhverjum sem er hugsanlega að ná manni.

Komið til Laugar á forsvaranlegum tíma, þótt ég væri á eftir öðrum. Teygt í Móttökusal. Lítið um pottsamveru - líklega vegna þess að menn eru að detta í páskafrí. Nú er orðið albjart á kvöldin eftir hlaup og tilhlökkunarefni að fara að lengja hvað úr hverju.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband