Þá hlupu hetjur um héruð...

Menn slá ekki slöku við. Eftir seytján kílómetrahlaup í gær var mætt af nýju til Laugar með stirða fætur og dreginn fram nýr hlaupagalli. Jörundur fór að vísu lengra í gær, eina 21 km, og fann þar að auki upp nýja hlaupaleið sem hann kýs að kalla "Goldfinger-sjortara". Bezt er að hann útskýri sjálfur þessa nafngift. Aðrir hlauparar: Ólafur Þ., Flosi, Ólafur ritari og loks kom S. Ingvarsson Keldensis.

Veður alvitlaust á suðaustan en þó hlýtt. Svo hvasst var sums staðar í Skerjafirði og við flugbraut að við stóðum nánast kyrrir og þurfti að beita afli til þess að hnika sér eitthvað áleiðis. Við létum vindinn sem ... vind um eyru þjóta og héldum uppi samfelldri samræðu um allt það sem mannlegt má teljast, ættir manna, stöðuna í stjórnmálunum og fleira. Ó. Þorsteinsson með kosningaspá sem fróðlegt verður að sjá hvort rætist, 35%, 25%, 15%, 10% og Auður með afganginn og 7 þingsæti. Það var stirðleiki í beinum eftir langt hlaup í gær. Við mættum frú Helgu Jónsdóttur af Kvisthaga í Nauthólsvík og vorum búnir að svissa yfir í göngutempó - þar flugu hefðbundnar glósur um hvort þetta væri orðið að gönguklúbbi.

Sáum Sjúl inni í bifreið á Flókagötunni - mikið hlýtur þeim manni að líða illa svona óhlaupnum. Farið niður á Sæbraut og eftir það var þetta aðeins formsatriði, þar höfðum við vindinn í bakið og þurfti lítið að hafa fyrir því að komast leiðar sinnar.

Við söknuðum vinar í stað í potti: B. Símonarson var fjarstaddur. Aðrir mættir, auk þess mættu blómasalinn og Benni óhlaupnir. Blómasalinn spjaldaður á staðnum fyrir að vanrækja hlaup á sunnudegi. Hann reyndi að bera fyrir sig skyldur heimafyrir og ráðríkt yfirvald, en það var ekki hlustað á slíkt. Setið í potti í klukkutíma í hávaðaroki og fauk allt lauslegt á sundlaugarsvæðinu. Mikil umræða um nöfn og auk- og viðurnefni. Lagt á ráðin um löng hlaup sumars, m.a. Vesturgötuna í júlí.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband