Lærir maður aldrei?

Sahara-hetjan okkar var mönnum ofarlega í huga þegar safnast var saman til hlaups í dag í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar, og mörg skeyti flogið og lærðir pistlar í kamelfræðum birtir á póstlista. Í dag var lengsta hlaupið þreytt, 91 km, en svo hvílt á morgun, nema þeir sem þurfa að ljúka langa hlaupinu. Hingað til hefur þetta gengið vel, og vonuðu menn að góða gengið héldi áfram.

Allnokkur fjöldi hlaupara mættir og voru vel stemmndir fyrir langt. Þar á meðal Nestor Samtakanna, Jörundur, nýorðinn 68 ára gamall og slær ekkert af. Aðrir Flosi, Bjössi, Biggi, Ósk, Una, Dagný, Sirrý, Margrét, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Helmut og ritari. Við tíndum Sigurð Ingvarsson upp á leið okkar út Sólrúnarbraut, hann kom hlaupandi úr Grafarvogi, kominn með 14 km á mælinn og tók ekki eftir okkur. Svo var Eiríkur líka með í för, en var í sínu eigin prógrammi, tók spretti fram og aftur Ægisíðuna. Jú, Einar blómasali kom líka, seinn að vanda.

Það mátti velja um Þriggjabrúahlaup eða Stokk fyrir þá sem þurfa að fara að lengja. Það átti að fara hægt út að Skítastöð, eftir brúna yfir Kringlumýrarbraut átti að auka hraðann. Þrátt fyrir tal um rólegheit var allt gleymt við flugvöll og sett á hratt tempó. Liðskönnun við Borgarspítala og beðið eftir eftirlegukindum. Hópurinn fór nokkuð samtímis upp brekkuna. Hún var óvenjuerfið í þetta skiptið. Það fór að draga af þessum hlaupara eftir brekkuna, en svo lagaðist það við Kringlu og ég átti ágætan sprett út að Kringlumýrarbraut og niðureftir. Við ljósin við Suðurlandsbraut náðu Dagný og Sirrý mér - stuttu síðar kom Jörundur skeiðandi framúr og virtist ekki við okkur vilja tala.

Á mótum Borgartúns og Sundlaugavegar fékk ég krampa í læri, varð að stöðva og teygja. Maður nokkur sem ég kannast við úr Útiklefa VBL stöðvaði bíl sinn og bauð mér far tilbaka, en ég afþakkaði og kvaðst geta hlaupið þetta eftir smáhvíld. Áfram um Sæbraut og drukkið kalt vatn á réttum stað. Eftir þetta fór að draga verulega af mér og ég þurfti að fara að ganga smáspeli inn á milli, m.a. upp Ægisgötuna. Skeiðaði svo niður Hofsvallagötuna og tilbaka til Laugar. Þetta var erfitt hlaup, vafalítið vegna þess að ég fór allt of hratt fyrstu 5 km og var búinn eftir 9-10.

Bjarni var í Útiklefa og hafði farið eina 9 km á eigin vegum. En nú er vorið komið og við förum að lengja smásaman, fara í Elliðaárdalinn, Goldfinger, Stíbblu o.s.frv.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband