Færsluflokkur: Pistill Ritara
22.3.2009 | 14:40
Útivist og heilbrigðir lífshættir í Vesturbæ
Þrír voru mættir í hlaup dagsins: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur og Ólafur ritari. Við fengum rapport af samtali morgunsins, en brunahringing var upp úr 8. Það var gefinn mætingarfrestur en fleiri bættust ekki í hópinn svo að við lögðum bara af stað. Vindur allnokkur á sunnan, en annars bærilegt.
Hlaup í alla staði hefðbundið en stoppin þó heldur fleiri en alla jafna. Upplýst var um heilbrigðisdaga í akademíunni og um hlaup sem Ó. Þorsteinsson er að undirbúa í því samhengi 2. apríl næstkomandi. Þetta mun vera fimmtudagur og eru hlaupnir 7 km - og hefst hlaup kl. 15. Eins og sést á tímasetningunni er hlaupið einkum ætlað akademíunni, ríkisstarfsmönnum og atvinnulausum. Svo skemmtilega vill til að 2. apríl er hvíldardagur í Saharahlaupi Ágústs og vel við hæfi að spretta úr spori honum til heiðurs og hvatningar. Ekki er verra að sjálfur viðskiptaráðherra mun ræsa hlaupið, alls staðar koma Hlaupasamtökin sínu fólki að!
Nýtt hlaup á morgun kl. 17:30.
18.3.2009 | 21:29
Manni á að líða vel – ekki illa
Miðvikudagur langt. Ekki skemur en inn að Elliðaám var sagt. Mættir heldur færri en s.l. mánudag, en þó margir af máttarstólpum Samtaka Vorra. Má þar nefna próf. Fróða, Flosa, Magnús Júlíus og Jörund. Björn mættur með soninn sem átti að bíða í Lauginni meðan faðirinn hlypi og virtist ekki lítast meira en svo á þá ráðagjörð. Prófessorinn að prófa nýja drykki sem sponsorarnir dæla í hann.
Uppi hugmyndir um Stokk. Aðrir hlynntir Þriggjabrúahlaupi. Kári mættur og bara sprækur fyrstu ca. 50 metrana, en svo fór að draga af honum. Þéttur hópur í góðu veðri á Sólrúnarbraut alla leið inn í Nauthólsvík, þar viku fyrstu af leið og fóru Hlíðarfót. Aðrir áfram og sást Flosi fara fyrir fylkingunni. Það er nú svo merkilegt með það að hlutskipti ritara virðist vera einsemdin. Maður lendir á eftir fremstu hlaupurum, en á undan þeim sem aftar fara. Þannig fór ég einn frá flugvelli eða þar um bil yfir Kringlumýrarbraut og upp hjá Spítala.
Við brúna yfir Miklubraut náði Jörundur mér og var það ágætt. Við ræddum ýmis þörf málefni, svo sem atvinnuástandið, málefni eftirlaunaþega, hlaup og utanlandsferðir. Jörundur masar og masar og maður gleymir stað og stund, sem gerir hlaupið bærilegra. Hann sagðist vel geta náð fremsta fólki með því að bæta aðeins í, en mönnum ætti að líða vel á hlaupum og ekki vera að spenna sig umfram vellíðunarstuðulinn. Fólkinu sem fremst færi liði illa. Ég var sammála Jörundi og var ekkert að spenna mig.
Fórum Mýrargötu og Ægisgötu, sem nú orðið heitir Minningarhlaup Vilhjálms. Maður var orðinn svolítið þrekaður undir lokin, en aðrir hlauparar voru bara léttir, einnig þeir sem fóru Stokk. Blómasalinn mætti í pott og var skömmustulegur. Kannski fer þetta að verða bærilegra, árangur og framfarir að nást og ístra að minnka. Menn höfðu á orði að hér áður fyrr hefðu eingöngu karlar hlaupið með Hlaupasamtökunum, nú væri fullt af ungum og grönnum konum sem hlaupa hratt og ekki nokkur leið er að halda í við. Er eitthvert réttlæti í því?
Dagurinn fullkomnaður með góðum sigri á Makedónum í handbolta.
16.3.2009 | 21:19
Metþátttaka á mánudegi
Einhver taldi 26 þátttakendur í hlaupi dagsins hjá Hlaupasamtökum Lýðveldisins, og þegar þeir eru taldir sem ekki voru með í dag kemur í ljós að hátt í 40 manns hlaupa að staðaldri með Samtökum Vorum. Þarna mátti bera kennzl á gamalkunna hlaupara eins og Jörund og próf. Fróða, dr. Friðrik, Kalla kokk og Sigurð Ingvarss., en svo voru líka yngri hlauparar sem eiga framtíð í hlaupum.
Það var rætt um lögin sem munu fylgja próf. Fróða í Sahara-hlaupinu, fyrir utan Þrjú tonn af sandi. Jörundur mælti með I´m just a lonely boy, lonely and blue, og svo Love letters in the sand (Pat Boone).
Þjálfarar báðir mættir og bara sprækir. Leiðarlýsing gefin út, Skítastöð og eitthvað óvænt eftir það. Mikið hlýtur það að vera tilkomumikil sjón að sjá er Hlaupasamtökin leggja upp í hlaup og eru svo fjölmenn sem í dag! Gaman væri að vera farþegi í bíl á Hofsvallagötunni þegar lagt er upp í hlaup, en samt er skemmtilegra að vera stoltur þátttakandi og hreyfa sig í góða veðrinu í stað þess að sitja á afturendanum í bíl og hugsa um hlaup.
Nú er vorið á næsta leiti og veðrið verður bara betra. Þá fara menn að lengja. Áður en langt um líður fara að skjóta upp kollinum kennileiti í pistlum ritara eins og Stíbbla, Kársnes, Sundlaug, Dalur þá verður gaman!
Það var sumsé farið út að Skítastöð, þar skiptist hópurinn, Magnús og Þorvaldur fóru austurúr ásamt einhverjum fleirum, aðrir fóru á Nesið og tóku kílómetraþéttinga þar. Ritari fór austurúr og lauk við Hliðarfót.
Rætt í potti um Vesturfara og ferðir þeirra á 19du öld, nú eru horfur á endurtekningu. Rifjaðar upp ættir Flosa og Ólafs Grétars í Vesturheimi, en langafi þeirra flutti vestur 1888. Eigið þið sama langafa? spurði Hjálmar. Já, við eigum líka sama pabba og sömu mömmu, svöruðum við. Á, þanninn! Kári átti sem oftar gullkorn dagsins: Verður amma í kvöldmat? spurði sonurinn Kjartan Almar í gær. Nei, lasagna, sagði Kári án þess að blikna. Björn kokkur sá sér leik á borði að vera fyndinn í vinnunni næstu daga.
8.3.2009 | 15:04
Kalt
Ekki var það nú björgulegt þegar ritari vaknaði að morgni þessa sunnudags. Úti blés norðanáttin og við það minnkaði til muna löngunin til þess að fara út að hlaupa. En hafandi í huga það einkenni félaga í Hlaupasamtökunum að eftir því sem veður er verra - þeim mun meiri er löngunin til að mæta á svæðið, reima á sig skóna og fara út að skokka. Ritari harkaði af sér, tók saman gírið og dreif sig af stað. Sem var eins gott, því ekki færri en fjórir hlauparar aðrir mættu: Ólafur Þorsteinsson, Magnús Júlíus, Einar blómasali og Jörundur. Enginn hafði orð á því að veður væri óhagstætt - enda brýnni málefni sem biðu krufningar. Menn mundu að óska foringja sínum til hamingju með afmælið.
Í Brottfararsal áttu tal saman Pétur óháði Þorsteinsson og Jörundur, þó ekki um andleg málefni. Nei, þeir áttu spjall um skatta. Jörundur sagðist borga skattana sína með glöðu geði. Ritari skaut því inn að skattar væru nauðsynlegir til þess að greiða ríkisstarfsmönnum dagpeninga. Hér kom hann inn á viðkvæmt málefni, því að dagpeningar ríkisstarfsmanna eru sameiginlegt áhyggjuefni Jörundar og Péturs. Hins vegar glöddust þeir innilega yfir því að búið væri að lækka dagpeninga ríkisstarfsmanna um 10%. Ritari var ósammála.
Það voru niðurstöður forvala stjórnmálaflokkanna sem einna helzt voru til greiningar, þar sem jafnréttisbaráttan virðist hafa snúist upp í andstæðu sína. Konur raða sér víðast hvar í efstu sæti, en þurfa svo að víkja fyrir karlaræflunum sem enginn vill hafa í efstu sætum. Athygli vekur slök útkoma Kollu hjá VG í Reykjavik, svo og Einars Más Sigurðarsonar hjá Samfó á Austurlandi. Ræddir möguleikar nýrra framboða og hvers væri að vænta af þeim. Spurt var: hvað gerir Vilhjálmur?
Ólafur nýkominn af túndru og lét vel af dvöl sinni þar. Komin ný hlaupabraut nyrðra sem bíður hlaupafúsra fóta.
Hópurinn skokkaði sem leið lá um Sólrúnarbraut út í Nauthólsvík og tók lögbundið stopp þar. Sagðar sögur svo sem hefð er um. Áfram í kirkjugarð og þá leið alla eins og við gerum alltaf á sunnudögum. Ekki var tekið í mál að fara Sæbrautina í þessari átt, enda orðið tímabært að telja aftur tómu verzlunarplássin á Laugaveginum. Þau reyndust vera 29 þegar talið er frá Hlemmi niður á Ingólfstorg, og hefur fjölgað um 5 á tveimur vikum.
Kalt var í potti, svo maður kveið því að fara upp úr. Pottur þó vel mannaður þekktum fræðimönnum í Vesturbæ Lýðveldisins. Umræða úr hlaupi dagsins endurtekin nokkurn veginn orðrétt og í sömu röð. Í gvuðs friði.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2009 | 16:24
Ístra á undanhaldi
Blásið hafði verið til hlaups í Hlaupasamtökum Lýðveldisins föstudaginn 6. marz AD 2009. Margir af þekktustu og bezt látnu hlaupurum Samtakanna mættir, má þar nefna Gísla skólameistara, próf. Dr. Ágúst Kvaran, Flosa, Þorvald o.fl. Sérstaka athygli vakti að blómasalinn var ekki mættur, né heldur Magnús Júlíus. Aðrir sem létu sjá sig að hlaupi voru Rúna og Brynja, dr. Jóhanna, Friðrik í Melabúðinni. Björn, Birgir og ritari. Einnig varð vart við Önnu Birnu, en ekki víst hún hafi hlaupið beinlínis með okkur. Þorvaldur að mæta í fyrsta sinn eftir veikindi og var bara sprækur í hlaupi dagsins. Veður stillt, bjart, sólskin, hiti líklega nálægt 4 stigum, sem er kjörhitastig hlaupara, nei, hugsuða.
Raunar var svo hlýtt í veðri að ritari varð að rífa af sér balaklövu eftir nokkur hundruð metra til þess að soðna ekki og var Gísli jafnframt beðinn að skrúfa aðeins niður í hitanum. Ágúst fór að hafa áhyggjur af hitanum í Sahara og spurði hvað Gísli gæti gert fyrir sig í þeim efnum. Var vel tekið í að skoða kostina í stöðunni. Í tilefni þess að það var föstudagur var ákveðið að fara hægt og njóta hlaups, enda lægi ekkert á. Til þess að undirstrika þessa stefnu tóku Björn og Birgir strikið á undan öllum öðrum og voru horfnir fljótlega. Birgir þessi hefur tekið upp notkun á nýrri tegund af lækningaplástri, sem heitir LifeWire eða eitthvað í þá veruna. Plásturinn er án virkra efna, en hefur reynst honum vel í baráttu hans við feimni og lágan raddstyrk.
Við förum þetta í rólegheitunum og allt lítur þetta vel út, en svo er það segin saga, það er eins og fjandinn hlaupi í Gamalíel og menn eru óðara farnir að þeysa þetta á 5+ tempói. Það voru þessir sömu vandræðamenn sem stóðu fyrir látunum, Friðrik Fyrsti, Ágúst, Bjössi o.fl. Við Nauthólsvík voru þeir horfnir manni, ég fór með Þorvaldi upp Hi-Lux og þar var náttúrlega sami dónaskapur í gangi sem maður hefur vanist gegnum tíðina, menn að reykja sígarettur og annað eftir því. Brekkan var alveg þolanleg og merkilegt hvað maður er sprækur, en þeim mun mikilvægara að hafa einhvern með sér sem keyrir upp hraðann og pískar mann áfram. Mér fannst einkennilegt að sjá ekki til neinna hlaupara í brekkunni upp Öskjuhlíðina, þar hefði alla vega einn nafnkunnur hlaupari átt að vera.
Það er ekki fyrr en á Klambratúni að Flosi dúkkar upp að baki okkur og hafði ætlað að stytta, en óvart lent í því að lengja í staðinn. Því var hann þarna kominn, en hafði verið á undan okkur fram að því. Við héldum síðan áfram hefðbundið um Rauðarárstíg. Hver stendur ekki utan dyra við Galleríið nema sjálfastur Vilhjálmur Bjarnason, hlaupari og listunnandi úr Garðabæ? Hann tekur okkur vel og er hinn vinsamlegasti í viðmóti. Bauð okkur inn á listsýningu, en við báðumst undan menningu í þetta skiptið, e.t.v. seinna.
Svo var tekin stefnan á Sæbraut, annað ekki í myndinni þegar veðrið er svona fallegt. Á móts við gamla útvarpshúsið varð á vegi okkar viðskiptaráðherra, sem skrúfaði niður rúðuna á ráðherrabílnum og kallaði hvatningarorð til okkar. Við horn þess sama húss var svo dómsmálaráðherra rétt búin að keyra yfir okkur, en hún tengist Samtökunum óbeint bæði með búsetu í Vesturbæ og með viðkomu í Hagaskóla, er tengdadóttir Björns Jónssonar, skólastjóra þar um árabil. Við sluppum lífs frá þessum ráðherrum báðum og héldum sem leið lá gegnum bæinn og upp Ægisgötu á góðum hraða. Mér skilst meðaltempó hafi verið 5:30 eða því sem næst.
Er komið var til Brottfararsalar var fólk þá þegar búið að skila sér, Biggi og Jóhanna höfðu lengt gegnum bæinn og meðfram Tjörnum. Ágúst líklega lengt eitthvað enn meira. Í pott mætti svo Kári óhlaupinn, ræntur skynsemi fyrr um daginn með snittum og rauðvíni. Einnig Denni af Nesi, farinn í baki. Pottur svíkur aldrei, mikið rætt um áfengi, kokkteilblöndur og annað uppbyggilegt. Þegar við helztu drengirnir erum svo að klæða okkur í útiklefa rekst þar inn kunnugleg persóna, fyrrnefndur blómasali, einnig óhlaupinn, en ber því við að hann hafi þurft að hesthúsa heila nautalund í hádeginu og drekka kynstrin af rauðvíni með. Hann ætlaði hins vegar að taka sig á og hlaupa á laugardeginum. Sætti hann þungum ummælum af hálfu félaga sinna, einkum þar sem hann hafði ætlað að lauma sér í pott óhlaupinn í trausti þess að við værum farnir. Í lokin var svo stigið á vigt og staðfest að hlaupin eru að skila árangri, ístran á undanhaldi, kílóunum fer fækkandi, en kílómetrunum fer fjölgandi.
Enginn Fyrsti Föstudagur, en athugað verður næsta föstudag með samkomuhald.
Hátíðarhlaup sunnudaginn 8. marz 2009. Vel mætt og stundvíslega kl. 10:10. Ritari
4.3.2009 | 22:44
Alone again, naturally, eða: Aleinn á ný, auðvi-Tað
Þetta byrjaði vel. Það var kalt, en samt voru kátir sveinar mættir í Útiklefa, ritari, Bjarni, Flosi, og svo kom Helmut. Menn höfðu hraðar hendur og klæddust, undirritaður var með balaklövu og sólgleraugu og fékk þá athugasemd í Brottfararsal hvort til stæði að ræna banka. Banka? spurðum við, er eitthvað að sækja þangað? Margrét þjálfari spurði hvar blómasalinn væri, hann er að sinna einhverjum Dönum. (Hér gleymdum við að spyrja hvar Rúnar væri, sennilega höfum við gert okkur ánægða með Margréti eina og sér.)
Gísli skólameistari var mættur og var í vondum málum. Hann og Helmut höfðu lofað nemendum skólans að fara í sjósund. Nú herti frost og það tók að blása af norðri. Ekki beint gæfulegt fyrir sjósund. Þeir reyndu að bera víurnar í ritara, en ritari var einbeittur að taka á því í hlaupum og fara að ná einhverjum árangri, léttast, fara lengra, fara hraðar, o.s. frv. Svo var prófessor Fróði mættur og vildi eiga uppbyggilegt samtal við ritara, en einhverra hluta vegna varð lítið úr samtali - svo spenntir voru menn fyrir hlaupi. Prófessorinn reyndi að troða sér inn á toilet með ónefndum kvenmanni, en hún vísaði honum ákveðið burtu.
Það var bjart og létt yfir mannskapnum í Brottfararsal og á endanum fóru menn út á Stétt. Þar byrjaði einhver óviðkomandi að blaðra eitthvað um sínar prívat og persónulegu hugleiðingar um hlaup. Honum var vinsamlega og kurteislega bent á að hann hefði ekki réttindi. Þar með tók Margrét þjálfari orðið og gaf út skipun um Þriggjabrúahlaup. Nánari lýsing var ekki gefin, en menn vissu það svo sem hvað til þeirra friðar heyrði, ekki sízt þeir sem hyggja á maraþon snemma árs. Þeir fengu að heyra umvandanir um að fara að lengja hvað úr hverju.
Hlaup hófst á því að þeir Helmut og Gísli reyndu að finna sér vitorðsmenn í sjóbaði, en varð ekki kápa úr því klæðinu. Enginn sýndi því áhuga að fara í sjó. Gísli benti á hafið og fór með fögur orð um náttúru Íslands, hafið væri kyrrt og blátt og svalt, hressandi yrði að dýfa sér í svala ölduna og kæla sig, koma upp og finna hægan andvara af suðri leika um vit sín. Ólafur, heldurðu ekki að það verði yndislegt að koma upp úr heitum sjánum og finna norðangoluna gæla við sig?
Hópurinn hélt hópinn framan af. Svo komu þessir sérþarfagæjar, Benni, Eiríkur o.fl. Þeir þurftu að geysast áfram og það var allt í lagi, S. Ingvarsson, Björn, Bjarni, Friedrich aus Melabudensis - allir æddu áfram eins og þeir ættu lífið að leysa. Margrét má eiga það að hún hélt sig við lakari hlaupara, þótt ekki næði miskunnsemi hennar til ritara. Hann dróst aftur úr og var svo heppinn að Sirrý féllst á að hlaupa með honum út í Nauthólsvík. Eftir það var gvuðs miskunn dáin.
Árla hlaups ákvað ég að fylgja hinum. Það var allt í lagi. Ég var í ágætu formi í dag, hafði borðað létt í hádeginu. Það var bara að halda áfram um Flanir, Ristru Flanir, um Lúpínulundir félaga okkar Jörundar. Að baki mér vissi ég af Helmut og Gísla, en var á of góðu rússi til þess að vilja fórna því fyrir hégóma. Hélt því áfram, sá til félaga minna á undan mér. Áfram að Borgarspítala og svo upp brekkuna. Sá þá fólk uppi við Bústaðaveg og var ánægður með mitt framlag, og einkum það að geta haldið áfram upp brekkuna án þess að stoppa. Svo var það Útvarpshæð, Kringla, yfir Miklubraut og svo vesturúr og niður Kringlumýrarbraut.
Er hér var komið sögu voru allir horfnir mér. Hér byrjaði mantran að rúlla í hausnum á mér, Alone again, naturally: hvernig myndi maður þýða þetta? Aleinn á ný - auðvi-Tað! Þetta síðasta fannst mér mjög jóhönnulegur endir. Svo niður úr og alls staðar lenti ég á grænu ljósi svo að ég hafði ekki afsökun til að stoppa eða hvíla mig. Á Sæbraut rennur enn kaldasta vatn í höfuðborginni og þar svalg ég stórum. Áfram vestur úr. Hér hugsaði ég: hvar skyldi prófessor Fróði vera staddur í sínu hlaupi, skyldi hann hafa lengt? Hvað fer hann langt?
Ég hljóp upp Ægisgötu og lauk góðu hlaupi á virðingarverðum tíma. Í Brottfararsal voru nokkrir hlauparar að teygja, of kalt var utandyra til slíks. Gísli skólameistari sagði mér að þeir Helmut hefðu farið í sjó og vakið aðdáun nemenda í skóla sínum, síðan hefðu þeir rekizt á Jörund stórhlaupara, en ég man ekki hvort hann sagði að þeir hefðu hlaupið með Jörundi tilbaka eða hvort Jörundur hefði keyrt þá tilbaka, en það skýrist vonandi á sunnudag, þegar fram fer Hátíðarhlaup.
Pottur er náttúrlega bara ævintýri þegar slíkt mannval safnast saman þar. Bjarni og Friðrik fóru í hláturkeppni, Björn sá sig tilneyddan að biðja fólk í næsta potti afsökunar - þeir væru bara svona og ekkert við því að gera. Svo fylgdu nokkrar góðar sögur. Sagðar sögur af fjarstöddum félögum, eins og fara gerir og við hæfi er. Ekki beinlínis baktal, bara sögur.
Kemur nú að Fyrsta Föstudegi: óljóst er með heimahöfn. Þeir einir geta verið öruggir með réttar upplýsingar sem mæta til hlaupa n.k. föstudag. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt 5.3.2009 kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 21:01
Það losnar um málbeinið...
Af stað og upp á Víðimel. Benedikt hljóp með okkur Einari og fór að tala um bílvélar, sagði sögu af ferðalagi Framsóknar norður á Dalvík á Landcruiser með 200 vél, það gekk nú hratt fyrir sig þótt ekið væri löglega um Húnaþing. Á mótum Birkimels og Hringbrautar urðum við vitni að árekstri, við ályktuðum sem svo að ungri konu hefði svo fipast aksturinn við að sjá okkur að hún hefði séð þann grænstan að aka inn í næsta bíl.
Á Suðurgötu voru Benni og blómasalinn farnir að tala um mat og stóð orðræðan þráðbeint út úr þeim svo óðamála voru þeir. Það var um það leyti sem það sló mig að hér væri ekki hlaupið í kyrrþey, nei það var ekki samkjaftað alla leið út að Skítastöð. Þar var mælt fyrir um 1 mín., 2 mín., 3 mín. og 4 mín. hlaup og svo stytt niður aftur. Mér skilst að þetta hafi gengið alla vega. Undirritaður reyndi sitt bezta framan af - en stytti svo um Hlíðarfót með Bjarna og Þorbjörgu - fyrir framan okkur voru Magnús og Sirrý. Aðrir hafa farið Suðurhlíðar.
Þetta gekk bærilega þótt menn væru þungir. Við Bjarni tókum svo vel á því við flugbrautarendann og fórum langt með að ná þeim sem á undan okkur voru. Gott 8 km hlaup.
Klukkan var langt gengin í átta þegar prófessorinn skilaði sér aftur, líklega búinn að fara eina 20 km. Í potti var rætt um bjór og súkkulaði, þá matvöru sem einna helzt ber að forðast ef menn vilja léttast, sem er viðfangsefni næstu vikna ef árangur á að nást á hlaupum. Það verður erfitt!
1.3.2009 | 14:48
Einsemdin
Mættur tímanlega en sá enga félaga. Það var allt í lagi, klukkan var bara tíu. Komin ný stúlka í afgreiðsluna, ættuð frá Kúbu og talar ágætlega íslenzku eftir aðeins árs dvöl á landinu. Klukkan varð tíu mínútur yfir tíu og enn var enginn hlaupari sjáanlegur, ekki einu sinni Magnús. Hvað er að gerast, hugsaði ritari. Þegar klukkan var svo komin tvær mínútur fram yfir hefðbundinn brottfarartíma ákvað ritari að fara einn af stað, það hefur svo sem gerst áður.
Aðstæður tll hlaupa voru hinar ákjósanlegustu, milt veður og hægt. Fáir á ferli. Hefðbundið stopp í Nauthólsvík, en engar sögur sagðar né heldur vísbendingum varpað fram. Áfram í kirkjugarð og upp á hálendið. Ef þetta var ekki vinalaus aumingi - þá skil ég ekki hugtakið.
Talsvert af túrhestum í bænum, heilu hóparnir. Enn rennur vatn á Sæbrautinni, það svalasta í bænum. Hljóp upp Ægisgötuna til heiðurs Vilhjálmi. Gott hlaup og góður undirbúningur fyrir vikuna.
Í potti var upplýst að Ó. Þorsteinsson væri á Túndru, Flosi í Borgarfirðinum, blómasalinn lasinn og annað eftir því. Sá síðastnefndi mætti að vísu í pott, þar sem fyrir voru Mímir og dr. Baldur. Rætt um sjóferðir og siglingar, svo og frama V. Bjarnasonar innan kirkjunnar. Svo bættust fleiri í hópinn og mikill fróðleikur flaut.
28.2.2009 | 18:35
Hefðbundið á föstudegi
Þar sem þetta var föstudagur lá ekki annað fyrir en fara rólega gegnum hlaup dagsins. Og þar sem Gísli var ekki mættur voru ekki horfur á sjóbaði. Sá var munur á hlaupi nú og alla jafna að hópurinn var sameinaður alllengi og engir sem fóru að derra sig að ráði fyrr en í Nauthólsvik. Þar sem ritari hefur verið að byrja aftur, aftur og aftur, ýmist eftir meiðsli eða veikindi, og auk þess búinn að taka matarhátíðir hátíðlega, þá var hann þungur og var þakklátur þeim sem vildu fylgja honum. Þetta voru þau Rúna, Friðrik, Denni og Kalli. Við héldum hópinn nánast alla leið, Friðrik að vísu eitthvað að ólmast, fór fram og tilbaka, stoppaði til þess að eiga við úrið sitt og lá grunur á að hann væri að dæla inn kílómetrum sem engin innistæða var fyrir.
Ég hafði hugsað mér Hlíðarfót - en þegar til átti að taka lenti ég á kjaftasnakki og gleymdi að beygja, fór Hi-Lux-brekkuna og þá var eiginlega of seint að snúa við, leiðin hvort eð er hálfnuð og ekki annað að gera en þrauka. Þetta gekk gizka vel og var vel haldið áfram.
Mikið óskaplega var það góð tilfinning að ljúka góðu hlaupi á góðum degi, veður yndislegt og vor í lofti. Ekki var verra að Friðrik birtist á tröppu með súkkulaði handa okkur og varð þá mörgum hugsað til blómasalans sem var fjarri góðu gamni í dag. Síðan var setið góða stund í potti, unz við bræður þurftum að hypja okkur heim í sjæn fyrir afmæli kvöldsins, þegar Þorvaldur bróðir okkar fyllti sjötta tuginn. Þar var mikil veizla gjör og hélt ritari þar tölu og kom Hlaupasamtökunum rækilega á framfæri eins og sæmir. Ræddi m.a. skyldleika tveggja bókmenntagreina: afmælisræðna og minningargreina. Meira um það í hlaupi morgundagsins, en hlaupið verður frá Vesturbæjarlaug stundvíslega kl. 10:10 í fyrramálið. Vel mætt!
Pistill Ritara | Breytt 1.3.2009 kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2009 | 14:17
Fallegur sunnudagur
Magnús æddi af stað á undan okkur, átti stefnumót við andleg yfirvöld þessa lands og varð því að stytta hlaup. Aðrir rólegir og fóru hægt yfir. Umræðuefnið var jarðarfarir, allt frá viðnum í kistunni og blómaskreytingunni til sálmavals og útgöngu. Samt var engin jarðarfararstemmning yfir hópnum, enda jarðarfarir sérstakt áhugamál ónefndra félaga.
Það var komið í Nauthólsvík og þar voru ungir menn að spreyta sig á hlaupi í sandi og upp halla. Við hæfi var að gera stanz í kirkjugarði og segja þar sögur af ýmsum mönnum. Þessu næst farið sem leið lá um Veðurstofuhálendi og staðnæmst hvarvetna sem hefðin býður. Áfram um Hlíðar og yfir Miklubraut, lítil umferð þar. Klambratún og Hlemmur, varla sál á ferli. Veður var svo frábært að það var ekki annað tekið í mál en fara Sæbrautina.
Samkomulag var um að spretta úr spori upp Ægisgötuna V. Bjarnasyni til heiðurs, en nú er ég búinn að gleyma því hvort það var vegna þess að Villi hlypi ávallt Ægisgötuna, eða aldrei! En það skiptir ekki máli, við hlupum upp götuna. Yfirleitt eru ekki teygjur á sunnudögum, heldur farið beint í pott. Ég var samt að myndast við að teygja þegar Einar blómasali kom gangandi og sagðist hafa gleymt sér yfir Mogganum og misst af hlaupi! Ég lét hann vita að hann hefði misst af frábæru hlaupi á frábærum degi. Hann kvaðst hafa hlaupið í gær með Eiríki, Melabúðar-Frikka og Rúnari. 69.
Í potti var hefðbundin skipan hlutanna: dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Mímir - og svo kom Kári og slóst í hópinn. Þar voru dregnar nokkurn veginn sömu sögur og voru sagðar í hlaupinu, sem er allt í lagi, þær voru mergjaðar margar, þótt ég muni ekki að segja neina þeirra hér. Áhyggjur af ástandi mála í Hagaskóla Íslands, þar sem framferði sumra nemenda þykir ekki til fyrirmyndar. Rætt um spurningakeppnir sjónvarpsins, sem eru misgott skemmtiefni.
Áréttað að lokað er í VBL á morgun og stemmning fyrir að fara á Nes og hlaupa þaðan og eitthvað áleiðis í Fossvoginn.