Færsluflokkur: Pistill Ritara
6.7.2011 | 21:49
Aftur Þriggjabrúa - en hvar var blómasalinn?
Ósk kom með tvo kassa af geli í Laug og úthlutaði okkur Ragnari og Bigga, nú er um að gera að fara að venjast þessu efni áður en til alvörunnar kemur. Aðrir mættir: Guðrún, Dagný, Jörundur, Magnús, Þorvaldur, Jóhanna Ólafs, Haraldur og Frikki Meló. Ritari ætlaði bara að rétt hita upp, fara rólega Hlífðarfót, jafnvel stoppa í Nauthólsvík og dýfa sér í saltan sjó. Jörundur talaði um að ótímabært væri að fara að hvíla, það mætti vel fara einhverja vegalengd og taka svolítið á því.
Farið hratt út, 5 mín. tempó þegar á Ægisíðu. Greinilegt var að áhrif 30 km hlaups í síðustu viku voru farin að dvína, enda kraftur í karlinum og hann til í hvað sem var. Er komið var í Nauthólsvík var hann orðinn vel heitur og því ekki um annað ræða en halda áfram, og enn sást til fremstu hlaupara. Er komið var í brekkuna hjá Bogganum sást enn til hraðafanta, en ekki eftir það. Dagný og Þorvaldur settu stefnuna á Suðurhlíð, Jörundur langt að baki.
Útvarpshæð og vegalengdin niður á Sæbraut tekin á 5 mín. tempói. Á Sæbraut tók ritari eftir Jörundi sem nálgaðist óðfluga. Eftir á upplýsti hann að hann hefði farið á 5 mín. tempói frá Útvarpshúsi og að Höfða. Þannig dró hann uppi ritara og náði honum við Hörpu. Þetta er hlaupari sem fór 30 km í gær á innan við þremur klukkustundum! Bara til að gá hvort hann gæti það.
Svo var farið um Miðbæ og Hljómskálagarð og endað á rólegu dóli, meðaltempó í kringum 5:25. Jógaæfing á Flöt þegar komið var tilbaka. Þar voru hlauparar sem voru 10 mín. fyrr á ferð en við. Eftir stutta dvöl í potti var haldið heim til Helmuts og Jóhönnu til þess að ráða ráðum fyrir Laugaveg. Þar dúkkaði óhlaupinn blómasali upp og bar við að hann hefði þurft að sinna útlendingum. Bauð fram Unimog til þess að ferja mannskapinn í Landmannalaugar, en var tekið fremur fálega. Stefndi í að menn pöntuðu sér far með rútunni. Gista í Þórsmörk og taka því rólega fram á sunnudag.
Spenna eykst fyrir stóra daginn. 20 km í boði á laugardag.
3.7.2011 | 13:40
Afmæli
Síðastliðinn miðvikudag var toppað fyrir Laugaveginn með Flosa, blómasalanum, Frikka, Ragnari og Gústa, hlaupið frá Vesturbæjarlaug inn að Kringlumýrarbraut, snúið út á Kársnes, í Kópavogsdalinn, upp úr dalnum og línan milli sveitarfélaga þrædd allt þar til komið var að Elliðavatni, þá fóru Frikki, Ragnar og Flosi kringum vatnið, en við hinir snerum niður í Elliðaárdalinn. Gústi og blómasalinn styttu yfir engið, en ég fór alla leið upp á horn og þaðan niður að Árbæjarlaug. Staldraði við í 5 mín., bætti á brúsa, teygði, en hélt svo áfram niður úr og vestur úr. Ragnar náði mér í brekkunni eftir Fossvoginn og saman héldum við áfram yfir Kringlumýrarbraut. Í Nauthólsvík var ég orðinn ansi þreyttur og varð að ganga í bland við hlaup. Kláraði þó góða 33 km með sóma!
Í dag, sunnudag, voru það þessir hefðbundnu morgunfuglar, Ó. Þorsteinsson, Jörundur, Maggi, Þorvaldur og Ólafur ritari. Nafni minn var í áttræðisafmæli Sigurðar Líndals prof.juris og var það að sjálfsögðu aðalumræðuefni dagsins. Gærdagurinn fór í að hringja í alla þá sem Ólafur vissi að var EKKI boðið í veizluna, ýmist til þess að spyrja ráða um hæfilega afmælisgjöf eða til að biðja viðkomandi um að keyra hann í Bergstaðastrætið. Af þessu hafði nafni minn og frændi mikla ánægju, en ánægjan ku ekki hafa verið gagnkvæm. Síðan voru raktir helztu gestir og samtöl sem fóru manna á milli.
Það var hálf hryssingslegt á Ægisíðunni, suðaustanátt eindregin og sólarlaust. Farið rólega eins og hefð er um. Rætt nokkuð um prestastéttina og vanda Þjóðkirkju og byskupa. Rætt um mönnun á fréttastofu RÚV. Svo var það Laugavegurinn, vöngum velt um hvernig hægt væri að koma sér á staðinn, með rútu eða einkabíl.
Gengið í Nauthólsvík. Kirkjugarður, Veðurstofa, Klambrar, Hlemmur, Sæbraut. Gengið hjá Hörpu og hlaupin ný leið um höfnina. Framhjá verbúðum og upp Ægisgötu.
Pottur óvenju vel mannaður öllum helztu stærðum.
27.6.2011 | 21:56
Prógrammið heldur áfram, langt framundan
15 km Esjuganga á Jónsmessunótt að baki. Gengið undir styrkri og fagmannlegri stjórn Helmuts, teknir sneiðingar upp á Kistufell, gengið út á yzta odda, snúið við og gengið yfir að niðurgöngustaðnum, Þverfellshorni. Farið upp kl. 21:30, komið niður 3:30, sex klst. ganga. Með í för auk Helmuts: dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Þorvaldur, Kári og Jörundur, auk nokkurra kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Magnað ævintýri sem við verðum að gera að árlegum viðburði.
Helmut lá á að komast upp svo að við misstum ekki af sólaruppkomunni. Við sáum sólina nálgast, en aldrei kom hún alveg yfir Esjuna. Á meðan færðumst við neðar og neðar og áður en við vissum af vorum við komin alveg niður að Esjurótum, án þess að hafa séð sólaruppkomuna. Sólina sáum við fyrst er við ókum í bæinn upp úr fjögur. Og þegar ekið var norður Bræðraborgarstíginn frá Hringbraut römmuðu húsin við götuna fagurlega inn gulan hnöttinn með Esjuna í baksýn. Hvílík fegurð, hvílík forréttindi að búa við Bræðraborgarstíg!
Einkennilegur föstudagur, þar sem skiptust á vökur og svefnslitur. Daginn eftir var vaknað snemma og undirbúið Bláskógaskokk. Þangað mættu af hálfu Hlaupasamtakanna: Jörundur, blómasalinn, Helmut, Tumi, dr. Jóhanna, Rúna, Frikki, Dagný, Ólafur ritari, og Kári Steinn Karlsson, sem ólst upp hjá Hlaupasamtökunum. Mannskapnum ekið að Gjábakka, þar sem hlaup var ræst og um þrjátíu hlauparar tóku á rás. Framan af var hlaupið erfitt því hlaupið var á fótinn, maður sá eftir að hafa ekki hitað upp. Þau hin stungu mann bara af, Jörundur hafði ákveðið að gefa strax í, hann dró uppi hvern hlauparann á fætur öðrum og niðurlægði þá.
Þegar komið var framhjá efstu brekku og fór að halla niður á við varð gerbreyting. Ritari nýtti nú Jörundar-aðferðina, að slaka á, láta hendur hanga niður, halla sér fram á við og láta sig detta niður brekkuna. Þannig fór ég fram úr 5 eða 6 hlaupurum, sem stífnuðu upp í brekkunum og héldu á móti.
Góð tilfinning að koma í brekkuna þar sem sér niður að hringtorgi, þá fann maður að það var mikil orka eftir og þá var gefið í. Tók hyllingarhringinn á íþróttavellinum á góðum spretti og kom með reistan makka í markið, en vann ekki til verðlauna. Farið í pott á eftir, en engin grillveizla.
Það var mánudagur. Menn voru skynsamir. Nú þarf að fara að toppa, 30 km á miðvikudag. Þá er nauðsynlegt að vera skynsamur og ég sannfærði Magga um að koma með mér. Aðrir mættir: Flosi, Benzinn, Frikki, Kári, Ragnar, Pétur, Vala, blómasalinn, Kalli, Ósk og Hjálmar. Farið út á brjáluðu fimm mínútna tempói, þrátt fyrir að þetta hafi átt að vera rólegt af hálfu þessa hlaupara.
Það brast á með norðanbeljanda, roki og rigningu og minnti á haustið. Og við á stuttbuxum! Ekki stemmning fyrir að fara í sjóinn, svo að við Kalli og Maggi héldum áfram Hlíðarfót, meðan þau hin stóðu vandræðaleg og voru að reyna að gera upp við sig hvort fara ætti í brekkuspretti í Öskjuhlíð; hér vantaði sárlega Möggu þjálfara til að taka af skarið og segja: "Tíu sprettir."
En við félagar dóluðum þetta rólega, styttum hjá Gvuðsmönnum. Einhver sagði: "Það gengur vel hjá KR-ingum." Jánkað. Haldið áfram. Engar brýr, en farin stytzta leið tilbaka til Laugar. Við vorum skynsamir. Vala dólaði á eftir okkur.
Magnaður pottur. Þar hélt ungur maður ádíens, Kjartan Gunnsteinn, ef ég náði nafninu rétt, á að gizka þriggja vetra, hann bauð viðstöddum í afmæli sitt 5. júlí. Við þessum unga pilti blöstu ásjónur þeirra Kára og Einars blómasala og var rætt um tröllkarla. En þegar við bættist Benzinn þá var málið orðið sýnu alvarlegra og heyrðust raddir um að ástæða væri til að vernda barnið fyrir varanlegum skemmdum á barnæsku.
Menn voru rólegir og það urðu langar viðræður um heilsufar, t.d. illa farnar tær hlaupara, sem taka þyrfti af við öxl ef verst léti. Verður væntanlega lítið hlaupið í framhaldi af því.
Næst: miðvikudagur, langt.
22.6.2011 | 22:52
Hestar
Þegar mágkona mín var lítil stúlka átti hún þess kost að sitja hest. Pabbi hennar reiddi undir henni. Hesturinn hafði fengið rúgbrauð að eta. Svo byrjaði hann að freta í hverju spori. Mágkona mín sagði: "Pabbi þó!" Pabbinn bar ekki sitt barr eftir þetta. Hlaup dagsins minnti á hesta. Meira um það seinna.
Þetta var miðvikudagur, fáir mættir. Kári, Þorvaldur, Jörundur, ritari, Dagný, dr. Jóhanna, Jóhanna Ólafs, Albert, Guðmundur Löve, Ragnar, Haraldur og spurning hvort Þorbjörg var, ég man það ekki. Hlauparar leiddir fyrir kort af strætóleiðum í höfuðborginni og beðnir um að benda á stoppustöðina við Moggaprentið. Þar stendur nefnilega: "Hádegismóri." Opinbert kort af strætóleiðum Reykjavíkur.
Furðu vakti að hvorki Flosi né blómasali voru mættir. Fljótlega kviknaði grunur um að þeir ætluðu að hlaupa Miðnæturdraumshlaup á fimmtudegi og ætluðu að gera rósir. Við hinir skynsamari, sem ætlum að hlaupa Laugaveginn í sumar, við stefndum á langt, erfitt, átakahlaup. Í þeim hópi vorum við Jörundur, en Ragnar var eitthvað veikari fyrir svo ágætri hugmynd.
Jörundur er ótrúlegur. Maður getur komið með stuttum fyrirvara með tillögu um langt og hann fylgir manni eins og köttur. Eða hestur. Farið hægt út og dólað þetta, þó ekki á 6 mín. tempói, heldur á 5:20-5:30, óþarflega hratt. En svona er þetta bara þegar hlauparar eru orðnir sprækir og komnir í gott form, þá er erfitt að halda aftur af sér.
Sól skein heitt og maður svitnaði vel, hugur barst að sjósundi, en það var haldið áfram. Áfram í Fossvoginn, mættum fullt af hlaupurum sem voru hraðir, og margir könnuðust við Jörund og heilsuðu honum, sumir hverjir voru í Hamarshlaupi um helgina. Farið hjá Víkingsheimili og niður í Elliðaárdal, þar baða börnin sig í ánum, við til baka og settum stefnuna á menninguna.
Hefðbundið tilbaka um Álfheimana, benzínstöðina, Laugardalinn, hjá Laugarneskirkju og spratt umræða um aldur hennar. Jörundur vildi fara að þvælast upp á brúna, sem er níunda brúin í sixtínæn, en ritari leiðrétti þetta og við fórum niður á Sæbraut. Sæbrautin er leiðinlegasti hlutinn af sixtínæn en við gáfum í og fórum á hröðu tempói, hjá Hörpu og rifjuðum upp að við sem 20 ára gefendur fjár til uppbyggingar Hörpu fengum boð um tónleika 19. ágúst nk. með léttum veitingum.
Hljómskáli, stúdentagarðar, Þjóðminjasafn, við vorum á góðu stími, lukum góðu 17,8 km hlaupi með stæl. Hvar var blómasali, hvar var Flosi? Ég hitti Benzinn foxillan í Útiklefa, erfiðan og illan viðureignar, en tókst að lempa hann til og skildum við þokkalega sáttir. Gott hlaup, góður dagur. Á morgun er Jónsmessuganga á Esju 21:30.
21.6.2011 | 21:26
Runnum þetta eins og fjallageitur
Jörundur, Flosi, Ólafur ritari, Helmut og dr. Jóhanna mætt í Esjuhlaup í fögru veðri og 14 stiga hita. Það var beðið eftir Bigga og blómasalanum, en sá fyrrnefndi þurfti að flytja mold fyrir hana Unni sína, en bíll þess síðarnefnda bilaði og hann fór með hann í viðgerð í Kópavogi, þar sem honum var sagt að viðgerðin kostaði 75 þús. kr. "Strákar, ég borga ykkur 25 þúsundkall fyrir viðgerðina og málið er dautt!" Næst man hann eftir sér úti á stétt og búið að ýta bílnum út, bifvélavirkjar að dusta hendurnar eins og eftir afstaðið óþrifaverk. Næst lá fyrir að finna bílskúrsfúskara í Grafarvogi sem tæki að sér verkið á viðráðanlegu verði.
Jæja, við lögðum í fjallið og ýmist hlupum eða gengum. Flosi eins og fjallageit og fór í fylkingarbrjósti, á eftir Helmut og Jóhanna, svo ritari, Jörundur rak lestina og kom ekki til af góðu. Jörundur er eins og Matthías Johannessen með það að hann má ekki fara 100 m öðruvísi en taka 25 manns sem hann þekkir tali. Svo var það í fjallinu í dag og því tafðist för hans.
Í Einarsmýri mætti sem bezt koma upp minnisvarða, sbr. orð skáldsins: "Á sumarbljúgum morgni magnast kraftur/í mýrinni þar sem Einar sneri aftur."
Ég sá til Jörundar langt fyrir neðan mig þegar komið var upp að steini. Þá voru þau hin þegar lögð af stað niður, en ég fór hægra megin eins og fyrra skiptið, núna var ég eilítið djarfari að hlaupa niður í grjótinu.
Það var sprett úr spori á sumarsólstöðum, bjart yfir og útsýni frábært af fjallinu. Maður hugsaði til þess hvað félagar okkar væru vitlausir að missa af þessu ágæta hlaupi. Svitnað vel á leiðinni niður. Ég svalaði björtu höfði í himinblámans fagurtærri lind á niðurleið. Hitti fyrir þau hin í teygjum, en eigi var staldrað lengi við. Haldið heim á leið. Í Útiklefa hékk uppi reyfi af blómasala. Slakað á í Potti. Hvað gerist á morgun?
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2011 | 14:44
Fyrsta Hamarshlaup
Jörundur, Biggi, Ósk og Ólafur ritari söfnuðust saman í jeppa og óku sem leið lá austur til Hveragerðis. Þar kom saman um fimmtíu manna hópur sem var staðráðinn í að þreyta fyrsta Hamarshlaupið, á að gizka 25 kílómetra leið. Okkur var lesinn pistillinn áður en lagt var í hann, leiðbeint um leiðina, hótað vondum afdrifum ef við skildum eftir okkur bréf utan af geli og fleira í þeim dúr. Svo vorum við ræst og hópurinn tók á rás.
Hlaupið upp með ánni, að Hamrinum, upp á hann og svo tilbaka niður að íþróttavelli. Þaðan inn dalinn í átt að hesthúsahverfi, yfir á og eftir það var lagt á fjallið. Aðrir kunna betur en ég að skýra frá örnefnum á leið okkur, Jörundur þekkir hverja þúfu á þessum slóðum enda var hann smali þarna á sínum sokkabandsárum. Brekkurnar urðu æ erfiðari, og sú síðasta erfiðust er komið var upp á Ölkelduháls, en þetta var mjög falleg leið með bullandi hverum og öðru sem heyrir til íslenzkri náttúru.
Gekk allar brekkur og því gott að geta hlaupið þegar leiðin fór að liggja niður á við. Þetta voru mest þröngar kindagötur og þær geta verið varasamar. Steinnibbur út um allt, ein kona rak tána í og datt, þá varð okkur hugsað til prófessors Fróða, líklega hefði hann dottið tuttugu sinnum fyrstu fimm kílómetrana.
Ritari tognaði eftir ca. 20 km. hlaup og varð að ganga spöl. Tókst loks að koma mér af stað aftur og gat lokið hlaupi með reisn. Þá voru þau hin þegar komin í mark, Ósk á 2:14, Biggi á 2:24, Jörundur á 3:05, ritari á 3:24. Frábært hlaup sem óhætt er að mæla með og góð innlögn fyrir Laugaveg. Fjölmennum á næsta ári!
Þegar síðustu hlauparar voru komnir í mark var haldin verðlaunaafhending. Öll fengum við eitthvað, Ósk og Jörundur fyrir sigra, en við Biggi fengum útdráttarverðlaun.
14.6.2011 | 21:33
Esjan tekin með látum, grenjað á heimleið
Nokkrar hetjur rifu sig upp að Steini: Flosi, Biggi, Ólafur ritari, Karl Gústaf, Helmut og Jóhanna. Jörundur ætlaði á toppinn, Einar blómasali gafst upp í fyrstu brekku, kvaðst ýmist veikur eða svangur. Svo spurðist til Frikka Meló í brekkunum. Ýmist hlaupið eða gengið upp að Steini, en hlaupið niður. Góð æfing.
Það ríkti gleði í jeppa blómasalans á heimleiðinni. Norðmenn farnir að rekrútera íslenzka hermenn. "Er það Frjálsræðisherinn?" spurði blómasalinn. "Nei, er það ekki Heimatrúboðið?" sagði Biggi. Í ljós kom að það var Den stolte norske her með óperasjón svo langt í burtu sem Afghanistan sem sækist eftir íslenzkum sveitapiltum, þótt þeir kunni bara gamla þúfnakollugöngulagið. Rætt við íslenzkan liðsforingja í norska hernum sem stendur fyrir nýliðuninni og er svo skemmdur á mæli af sex ára veru í landi forfeðra okkar að við grenjuðum af hlátri. Manni varð hugsað sem svo að ef þetta hlutskipti bíður manns við flutning til Noregs er skárra að vera um kjurt á Skerinu og bíta gras.
Stutt og létt á morgun. Á föstudag: Hamarshlaup í Hördígördí.
12.6.2011 | 14:17
Fyrsta Stíbbluhlaup ársins
Sól skein í heiði og logn var á er komið var til Laugar um tíuleytið á Hvítasunnudegi. Þar mættu Jörundur og ritari einir, erfitt er að geta sér til um hvað aðrir hefðbundnir hlauparar hafa verið að aðhafast. En þá var bara að leggja í hann og búa sig undir langt.
Fáir á ferli á þessum tíma, sem má heita merkilegt miðað við þá veðurblíðu sem njóta mátti. Við fórum rólega og ræddum m.a. um 100 km hlaupið í gær. Við Kringlumýrarbraut var kallað til okkar og var þar kominn sjálfur Vilhjálmur Bjarnason á reiðhjóli. Við stoppuðum og spjölluðum við hann í nokkrar mínútur. Hann minnti á það að Hlaupasamtökin héldu enn í þær hlaupaleiðir sem hann hefði innleitt og lægju meðal annars um æskuslóðir hans í Hlíðunum. Mikið held ég að Vilhjálmur sakni okkar.
Áfram í Fossvoginn, hjá Víkingsheimili og yfir í Elliðaárdalinn. Við fórum á rólegu dóli alveg upp að Stíbblu og svo hefðbundna leið niður hjá Rafstöð og tilbaka í Fossvoginn. Þótt búið sé að skrúfa frá vatni í vatnshönum bæjarins er bunan svo lítil að það er varla að maður nái upp vatnsdropa. Þetta er til hreinnar skammar! Við mættum frú Helgu Jónsdóttur frá Melum og spurðum um Formann, hún kvað hann nýhlaupinn í Kirkjugarð.
Í Nauthólsvík gat ég ekki á mér setið að skella mér í sjóinn, hann var kaldur og hressandi. Svo var haldið áfram og lokið við 21 km á hægu 6 mínútna meðaltempói.Fátt kunnuglegra andlita í Laug.
Gott innlegg í undirbúning fyrir Laugaveg. Nú er það Esjan næst hjá þessum hlaupara á þriðjudag.
11.6.2011 | 14:37
Rólegur laugardagur
Það bárust lítil viðbrögð við fyrirspurn ritara um hvort hlaupið yrði í dag, svo hann var bara rólegur, dólaði sér heima við að morgni og kom sér ekki til Laugar fyrr en upp úr 11. Ætlunin var að fara frekar stutt og hægt, en lengja á morgun, Hvítasunnudag. Veður gott, hlýtt og einhver raki í lofti. Hafði með mér fjóra vini mína í æpod sem oft hafa reynst vel þegar sálarháski hefur steðjað að.
Við Lambhól tók ég eftir uppstillingu og borði líkt og um keppni væri að ræða. Þar var drykkjarborð og þar voru menn með hlutverk. Í bakhöfðinu kviknaði óljós minning um að rætt hafi verið um 100 km hlaup og svo mun hafa verið þarna. Mér kom á óvart að ekki allir þátttakendur voru eins og leiðurreimar, sumir voru m.a.s. eins og blómasalar í laginu, þungstígir og þreytulegir. Ég blandaði mér bara í hópinn og hélt hlaupi áfram.
Hitti Jörund og Jóa í Nauthólsvík, en áður hafði ég mætt frú Helgu Jónsdóttur frá Melum sem spurði hvort ég tæki þátt í "þessari vitleysu". Jörundur sagði að það væri álit Formanns Vors til Lífstíðar að 100 km hlauparar kæmu óorði á hlaupin. Ég áfram með æpodinn í eyranu og Kashmir á fullu.
Létt og gott hlaup, hlýtt í veðri og rigningarlegt, það eru beztu hlaupaskilyrðin að mínu mati. Mér varð hugsað til undirbúningsins fyrir Laugaveginn og næstu hlaupa, maður þarf að undirbúa þetta. Föstudaginn 17. júní er Hamarshlaup, 25 km fjallahlaup í Ölfusi, tilvalinn undirbúningur. Þá þarf væntanlega að stilla önnur hlaup vikunnar eitthvað inn á það.
Í Potti hitti ég Bigga og Ósk, heimkomin úr mikilli svaðilför á Vörðuskeggja í Hengli. Farið af stað kl. 9 í morgun um ís og hjarn, í þoku og óveðri, 2 stiga hita, yfir klappir,kletta og eggjar. Þau töldu sig heppin að hafa komizt þetta lifandi. Líka góður undirbúningur fyrir Laugaveg.
En í fyrramálið, Hvítasunnudag, verður haldið frá Laugu kl. 10:10, sumir kunna að vilja taka hefðbundið, en við Jörundur lengjum upp að Stíbblu.
8.6.2011 | 20:45
Minningarhlaup í slyddu
Þriðjudaginn 7. júní 2011 var hlaupið Minningarhlaup í minningu Guðmundar Karls Gíslasonar sem féll frá á þessum degi fyrir 7 árum. Af þessu tilefni höfðu Hlaupasamtökin loks gengið í það verk að láta merkja Guðmundarbikarinn með nöfnum hlaupara á þrítugsaldri (eða undir þrítugu) sem náðu beztum tíma í Reykjavíkurmaraþoni áranna 2006-2010. Að auki voru útbúnir verðlaunapeningar fyrir hvern vinningshafa, en bikarinn er farandbikar.
Nokkur fjöldi hlaupara mættur við Hrafnhóla-afleggjarann stundvíslega kl. 17:30, nema hvað blómasalinn var seinn eins og venjulega, mætti 6 mín. of seint og átti þó eftir að klæða sig í hlaupagallann. Jörundur stóð fyrir verðlaunaafhendingu og myndatöku. Þessir voru verðlaunaðir:
Þórólfur Ingi Þórsson, bikarhafi 2006
Reynir Bjarni Egilsson, bikarhafi 2008,
Arnar Pétursson, bikarhafi 2009,
Garðar Hauksson, bikarhafi 2010.
Af þessum hlupu Garðar og Þórólfur með hópnum. Aðrir mættir: Kári Steinn Karlsson, Helmut Hinrichsen, Jóhanna Arnórsdóttir, Friðrík Ármann Guðmundsson, Rúna Hvannberg Hauksdóttir, Ragnar Hólm Gunnarsson, Ólafur Grétar Kristjánsson, Jörundur S. Guðmundsson, Einar Þór Jónsson, Ágúst Kvaran, Vöggur Magnússon, Sigurður Gunnsteinsson og Birgir Þorsteinn Jóakimsson. Sigurður Ingvarsson á hjóli.
Kalt í veðri, snjór á fjöllum og slydda í upphafi hlaups. Það var hlaupið í norðaustur og á fótinn fyrsta spölinn. Beygt til hægri í áttina að Tröllafossi. Dæmigert utanvegahlaup með brekkum, vöðum, kindagötum, möl og grjóti. Nokkuð erfitt fyrir hlaupara sem var að hlaupa fjórða daginn í röð. Svipað ástatt með suma aðra, sem fóru fetið og gengu jafnvel langa speli.
Veðrið lagaðist smásaman og var orðið þolanlegt hjá Tröllafossi, þar settist ritari niður og orti náttúruljóð. Á meðan tókst öðrum hlaupurum að skjótast fram úr honum og ná forskoti. Kom í ljós að þetta var ekki félagshlaup þrátt fyrir yfirlýsingar þar að lútandi við upphaf hlaups. Mönnum var hlaupið kapp í kinn.
Hefðbundinn hringur og mínútu þögn við Skálafells-afleggjarann. Síðan sprett úr spori tilbaka 5 km leið. Myndataka og vatn í boði Melabúðar. Hlauparar orðnir kaldir og var staldrað stutt við hér, brunað í bæinn. Myndir birtar á facebook-síðu Hlaupasamtakanna.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)