Prógrammið heldur áfram, langt framundan

15 km Esjuganga á Jónsmessunótt að baki. Gengið undir styrkri og fagmannlegri stjórn Helmuts, teknir sneiðingar upp á Kistufell, gengið út á yzta odda, snúið við og gengið yfir að niðurgöngustaðnum, Þverfellshorni. Farið upp kl. 21:30, komið niður 3:30, sex klst. ganga. Með í för auk Helmuts: dr. Jóhanna, Ólafur ritari, Þorvaldur, Kári og Jörundur, auk nokkurra kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Magnað ævintýri sem við verðum að gera að árlegum viðburði.

Helmut lá á að komast upp svo að við misstum ekki af sólaruppkomunni. Við sáum sólina nálgast, en aldrei kom hún alveg yfir Esjuna. Á meðan færðumst við neðar og neðar og áður en við vissum af vorum við komin alveg niður að Esjurótum, án þess að hafa séð sólaruppkomuna. Sólina sáum við fyrst er við ókum í bæinn upp úr fjögur. Og þegar ekið var norður Bræðraborgarstíginn frá Hringbraut römmuðu húsin við götuna fagurlega inn gulan hnöttinn með Esjuna í baksýn. Hvílík fegurð, hvílík forréttindi að búa við Bræðraborgarstíg!

Einkennilegur föstudagur, þar sem skiptust á vökur og svefnslitur. Daginn eftir var vaknað snemma og undirbúið Bláskógaskokk. Þangað mættu af hálfu Hlaupasamtakanna: Jörundur, blómasalinn, Helmut, Tumi, dr. Jóhanna, Rúna, Frikki, Dagný, Ólafur ritari, og Kári Steinn Karlsson, sem ólst upp hjá Hlaupasamtökunum. Mannskapnum ekið að Gjábakka, þar sem hlaup var ræst og um þrjátíu hlauparar tóku á rás. Framan af var hlaupið erfitt því hlaupið var á fótinn, maður sá eftir að hafa ekki hitað upp. Þau hin stungu mann bara af, Jörundur hafði ákveðið að gefa strax í, hann dró uppi hvern hlauparann á fætur öðrum og niðurlægði þá.

Þegar komið var framhjá efstu brekku og fór að halla niður á við varð gerbreyting. Ritari nýtti nú Jörundar-aðferðina, að slaka á, láta hendur hanga niður, halla sér fram á við og láta sig detta niður brekkuna. Þannig fór ég fram úr 5 eða 6 hlaupurum, sem stífnuðu upp í brekkunum og héldu á móti.

Góð tilfinning að koma í brekkuna þar sem sér niður að hringtorgi, þá fann maður að það var mikil orka eftir og þá var gefið í. Tók hyllingarhringinn á íþróttavellinum á góðum spretti og kom með reistan makka í markið, en vann ekki til verðlauna. Farið í pott á eftir, en engin grillveizla.

Það var mánudagur. Menn voru skynsamir. Nú þarf að fara að toppa, 30 km á miðvikudag. Þá er nauðsynlegt að vera skynsamur og ég sannfærði Magga um að koma með mér. Aðrir mættir: Flosi, Benzinn, Frikki, Kári, Ragnar, Pétur, Vala, blómasalinn, Kalli, Ósk og Hjálmar. Farið út á brjáluðu fimm mínútna tempói, þrátt fyrir að þetta hafi átt að vera rólegt af hálfu þessa hlaupara.

Það brast á með norðanbeljanda, roki og rigningu og minnti á haustið. Og við á stuttbuxum! Ekki stemmning fyrir að fara í sjóinn, svo að við Kalli og Maggi héldum áfram Hlíðarfót, meðan þau hin stóðu vandræðaleg og voru að reyna að gera upp við sig hvort fara ætti í brekkuspretti í Öskjuhlíð; hér vantaði sárlega Möggu þjálfara til að taka af skarið og segja: "Tíu sprettir."

En við félagar dóluðum þetta rólega, styttum hjá Gvuðsmönnum. Einhver sagði: "Það gengur vel hjá KR-ingum." Jánkað. Haldið áfram. Engar brýr, en farin stytzta leið tilbaka til Laugar. Við vorum skynsamir. Vala dólaði á eftir okkur.

Magnaður pottur. Þar hélt ungur maður ádíens, Kjartan Gunnsteinn, ef ég náði nafninu rétt, á að gizka þriggja vetra, hann bauð viðstöddum í afmæli sitt 5. júlí. Við þessum unga pilti blöstu ásjónur þeirra Kára og Einars blómasala og var rætt um tröllkarla. En þegar við bættist Benzinn þá var málið orðið sýnu alvarlegra og heyrðust raddir um að ástæða væri til að vernda barnið fyrir varanlegum skemmdum á barnæsku.

Menn voru rólegir og það urðu langar viðræður um heilsufar, t.d. illa farnar tær hlaupara, sem taka þyrfti af við öxl ef verst léti. Verður væntanlega lítið hlaupið í framhaldi af því.

Næst: miðvikudagur, langt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband