Fyrsta Stíbbluhlaup ársins

Sól skein í heiði og logn var á er komið var til Laugar um tíuleytið á Hvítasunnudegi. Þar mættu Jörundur og ritari einir, erfitt er að geta sér til um hvað aðrir hefðbundnir hlauparar hafa verið að aðhafast. En þá var bara að leggja í hann og búa sig undir langt.

Fáir á ferli á þessum tíma, sem má heita merkilegt miðað við þá veðurblíðu sem njóta mátti. Við fórum rólega og ræddum m.a. um 100 km hlaupið í gær. Við Kringlumýrarbraut var kallað til okkar og var þar kominn sjálfur Vilhjálmur Bjarnason á reiðhjóli. Við stoppuðum og spjölluðum við hann í nokkrar mínútur. Hann minnti á það að Hlaupasamtökin héldu enn í þær hlaupaleiðir sem hann hefði innleitt og lægju meðal annars um æskuslóðir hans í Hlíðunum. Mikið held ég að Vilhjálmur sakni okkar.

Áfram í Fossvoginn, hjá Víkingsheimili og yfir í Elliðaárdalinn. Við fórum á rólegu dóli alveg upp að Stíbblu og svo hefðbundna leið niður hjá Rafstöð og tilbaka í Fossvoginn. Þótt búið sé að skrúfa frá vatni í vatnshönum bæjarins er bunan svo lítil að það er varla að maður nái upp vatnsdropa. Þetta er til hreinnar skammar! Við mættum frú Helgu Jónsdóttur frá Melum og spurðum um Formann, hún kvað hann nýhlaupinn í Kirkjugarð.

Í Nauthólsvík gat ég ekki á mér setið að skella mér í sjóinn, hann var kaldur og hressandi. Svo var haldið áfram og lokið við 21 km á hægu 6 mínútna meðaltempói.Fátt kunnuglegra andlita í Laug.

Gott innlegg í undirbúning fyrir Laugaveg. Nú er það Esjan næst hjá þessum hlaupara á þriðjudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband