Hestar

Þegar mágkona mín var lítil stúlka átti hún þess kost að sitja hest. Pabbi hennar reiddi undir henni. Hesturinn hafði fengið rúgbrauð að eta. Svo byrjaði hann að freta í hverju spori. Mágkona mín sagði: "Pabbi þó!" Pabbinn bar ekki sitt barr eftir þetta. Hlaup dagsins minnti á hesta. Meira um það seinna.

Þetta var miðvikudagur, fáir mættir. Kári, Þorvaldur, Jörundur, ritari, Dagný, dr. Jóhanna, Jóhanna Ólafs, Albert, Guðmundur Löve, Ragnar, Haraldur og spurning hvort Þorbjörg var, ég man það ekki. Hlauparar leiddir fyrir kort af strætóleiðum í höfuðborginni og beðnir um að benda á stoppustöðina við Moggaprentið. Þar stendur nefnilega: "Hádegismóri." Opinbert kort af strætóleiðum Reykjavíkur.

Furðu vakti að hvorki Flosi né blómasali voru mættir. Fljótlega kviknaði grunur um að þeir ætluðu að hlaupa Miðnæturdraumshlaup á fimmtudegi og ætluðu að gera rósir. Við hinir skynsamari, sem ætlum að hlaupa Laugaveginn í sumar, við stefndum á langt, erfitt, átakahlaup. Í þeim hópi vorum við Jörundur, en Ragnar var eitthvað veikari fyrir svo ágætri hugmynd.

Jörundur er ótrúlegur. Maður getur komið með stuttum fyrirvara með tillögu um langt og hann fylgir manni eins og köttur. Eða hestur. Farið hægt út og dólað þetta, þó ekki á 6 mín. tempói, heldur á 5:20-5:30, óþarflega hratt. En svona er þetta bara þegar hlauparar eru orðnir sprækir og komnir í gott form, þá er erfitt að halda aftur af sér.

Sól skein heitt og maður svitnaði vel, hugur barst að sjósundi, en það var haldið áfram. Áfram í Fossvoginn, mættum fullt af hlaupurum sem voru hraðir, og margir könnuðust við Jörund og heilsuðu honum, sumir hverjir voru í Hamarshlaupi um helgina. Farið hjá Víkingsheimili og niður í Elliðaárdal, þar baða börnin sig í ánum, við til baka og settum stefnuna á menninguna.

Hefðbundið tilbaka um Álfheimana, benzínstöðina, Laugardalinn, hjá Laugarneskirkju og spratt umræða um aldur hennar. Jörundur vildi fara að þvælast upp á brúna, sem er níunda brúin í sixtínæn, en ritari leiðrétti þetta og við fórum niður á Sæbraut. Sæbrautin er leiðinlegasti hlutinn af sixtínæn en við gáfum í og fórum á hröðu tempói, hjá Hörpu og rifjuðum upp að við sem 20 ára gefendur fjár til uppbyggingar Hörpu fengum boð um tónleika 19. ágúst nk. með léttum veitingum.

Hljómskáli, stúdentagarðar, Þjóðminjasafn, við vorum á góðu stími, lukum góðu 17,8 km hlaupi með stæl. Hvar var blómasali, hvar var Flosi? Ég hitti Benzinn foxillan í Útiklefa, erfiðan og illan viðureignar, en tókst að lempa hann til og skildum við þokkalega sáttir. Gott hlaup, góður dagur. Á morgun er Jónsmessuganga á Esju 21:30.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband