Færsluflokkur: Pistill Ritara

Fagur mánudagur

Einhverjir baðgestir í Útiklefa voru svo ósvífnir að blokkera snaga sem Þorvaldur Gunnlaugsson þurfti að nota. Það eyðilagði ekki áform hans um að nýta snaga Útiklefa. Hann flutti einfaldlega föt ókunnugra saman og losaði þannig um 4-5 samliggjandi snaga sem hann gat nýtt sér að vild. Á þetta horfðum við Magnús tannlæknir furðu lostnir. Einhverjir hefðu kannski sagt að þetta væri dæmigert fyrir frumkvöðla- og útrásaranda íslenzkra víkinga og "you ain´t seen nothing yet" - en við Magnús erum bara einfaldar sálir sem velja sér afskekkta snaga þar sem við erum ekki fyrir neinum.

Auk þeirra sem fyrr eru nefndir og komu við sögu hlaups á þessum mánudegi mættu eftirtaldir: dr. Friðrik Guðbrandsson, próf. dr. Karl Gústaf Kristinsson, próf. dr. Ágúst Kvaran, Bjarni Benz, Flosi, Pétur, Ragnar, Magga, Jóhanna Ólafs, Haraldur, Guðrún, Frikki Meló og ritari. Einstök veðurblíða, sól, einhver vindur og hiti um 18 stig. Nú þurfa menn að fara að ákveða hvað þeir ætla að gera í Reykjavík, sumir ætla heilt, aðrir hálft og enn aðrir 10. Ágúst gat upplýst að hann hefði hlaupið 72 km í sveitinni um helgina og hefði lært að meta kalt kók eftir það.

Lagt upp á brjáluðu tempói, undir 5. Hlaupið þannig út í Nauthólsvík og náði ritari að hanga í fremstu hlaupurum alla þá leið. Tilgangurinn með þessu brjálæði var ritara ekki ljós, en hann sló af hraðanum og skellti sér í sjóinn til að kælast. Indælt! Hélt svo áfram út að Kringlumýrarbraut og upp Suðurhlíð. Var í góðum gír alla leið upp að Perlu og áfram niður Stokk. Fór á góðu tempói um Hringbraut og yfir brýrnar til að lengja. Við Hótel Sögu sá ég þrjá eldri karlmenn GANGANDI án sjáanlegrar ástæðu. Þetta voru Maggi, dr. Friðrik og Benzinn.

Í Potti var margt skrafað og skeggrætt. M.a. vildi prófessor Fróði endurvekja hinar frægu árshátíðir Hlaupasamtakanna, halda þær sameiginlega með TKS í golfskála Ness þar sem Fyrsti Föstudagur ágústmánaðar var haldinn. Þegar hann var beðinn um að útskýra þessa hugmynd vafðist honum tunga um höfuð. Hann var minntur á hina ódauðlegu afmælishátíð Samtaka Vorra 12. nóvember sl. í Safnaðarheimili Neskirkju þar sem Björn kokkur bauð upp á humarveizlu. Prófessorinn brást fálega við enda átti hann ekki heimangengt þann daginn.

Einnig veltu menn fyrir sér hvort Ó. Þorsteinsson hefði verið á KR-vellinum þegar Vesturbæjarstórveldið lagði ónefnt knattspyrnulið úr Austurbænum að velli með marki á 93. mínútu þar sem hendur a.m.k. tveggja leikmanna KR komu með afdrifaríkum hætti að málum. Af því tilefni var rifjað upp þegar þeir félagar Magnús tannlæknir og Ólafur horfðu á leik sömu liða í Víkinni fyrir fáeinum árum og Víkingar lágu í samfelldri sókn allan leikinn, en KR-ingar komust í eina sókn, skoruðu og unnu leikinn 1-0. Á leið út af vellinum vildi Magnús hughreysta vin sinn og sagði vingjarnlega: "En, Óli minn, ertu samt ekki feginn yfir því að KR skyldi ekki vinna með meiri mun?"

Lagt á ráðin um löng hlaup um skógarstíga í nágrenni höfuðborgarinnar, en það verður að bíða þar til eftir Reykjavíkurmaraþon.


Afbrigði

Í löngu bílskúrsspjalli gærdagsins milli ritara og blómasala varð það niðurstaðan að stefna á hlaup í dag, fimmtudag, þar eð báðir höfðu misst af miðvikudegi, af ólíkum ástæðum. Blómasalinn tók að sér að hafa samband við Bjarna Benz og boða hann til hlaups. Hann gleymdi því. Hlaup boðað í netpósti og mættu auk framangreindra Þorvaldur og Jörundur, og höfðu báðir hlaupið miðvikudag.

Stefnan sett á Þriggjabrúa, en Jörundur og Þorvaldur vildu láta sér nægja Suðurhlíð. Við upphaf hlaups var fluttur langur pistill um ófarir Formanns til Lífstíðar í Norðurleiðangrinum, og var sagan nú svo breytt í munnlegri geymd að hliðin fór úr bílnum í heilu lagi, en handlaginn Norðanmaður henti sér á hliðina og pressaði hana í aftur á réttan stað svo hægt væri að aka bílnum suður. Töldu sumir viðstaddra sem höfðu heyrt söguna öðruvísi tímabært að bera þessa útgáfu undir Formann og fá staðfest hvort rétt væri.

Í Skerjafirði byrjaði gamalkunnur barlómur milli þeirra Jörundar og blómasala um harðan atgang innheimtumanns ríkissjóðs, hann hirti allt af þeim, fátækum barnamanni og ellilífeyrisþega, meðan ríkisstarfsmönnum væri haldið uppi á milljónatekjum, utanferðum og dagpeningum. "Og þetta borgum við allt saman," sagði Jörundur. Ritari minnti þá á að ef þeir kæmu bara heiðarlega fram í samskiptum sínum við hið opinbera uppskæru þeir samkvæmt því. En ef þeir reyndu undanskot og svik myndi hinn langi armur réttvísinnar hafa uppi á þeim.

Við Skítastöð heyrðum við öskur. Sjósyndari virtist vera kominn í vandræði og öskraði í land til aðstoðarfólks sem þar var statt með reiðhjól og kassa framan á: "Hvað er langt eftir?" Okkur fannst þetta ekki gæfulegt, vera staddur í miðju sjósundi og spyrja hversu langt væri eftir. Hann var hvattur til að synda í land, en ekki var vitað hvort hann hefði gert það. Þorvaldur upplýsti að kassinn á hjólinu væri ætlaður til þess að taka við sundmanninum svo hægt væri að flytja hann á sjúkrahús. "Oní kassanum?" spurði ritari. "Já, oní kassanum" staðfesti Þorvaldur.

Blómasalinn var er hér var komið farinn að sýna gamalkunn undanbrögð, hægja vísvitandi á sér í þeirri von að vera skilinn eftir svo hann gæti svikist um og stytt hlaup. Við gáfum ekki færi á þessu enda hefur karlinn ekki hlaupið í bráðum þrjár vikur og er orðinn mjög þungur og hægur. Við biðum eftir honum og komum í veg fyrir styttingar. Áfram upp á Flanir þar sem lúpínan er horfin. Blómasalinn upplýsti um hádegisverðinn í smáatriðum og lá við að meðhlauparar hans ældu á staðnum: það var mæjónes, rúgbrauð, róstbiff, remolaði og hellingur af steiktum lauk ofan á. Ekki skrýtið að menn væru hægir á sér.

Leiðir skildu við Kringlumýrarbraut og við blómasalinn héldum áfram yfir brú. Hann var svo aðframkominn í brekkunni að við urðum að ganga upp. Er upp var komið hlupum við beint áfram í stað þess að fara hjá Útvarpshúsi og tókum afbrigði niður að Ormsson um Háaleitisbraut. Þaðan Kringlumýrarbraut niður á Sæbraut. Dóluðum rólega og stoppuðum jafnvel á milli. Gengið hjá Hörpu og rifjað upp að bæði Jörundur og ritari eiga boðsmiða á tónleika hér hinn 19da ágúst n.k. með fullum veitingum, en hvorki Vilhjálmur Bjarnason né Baldur Símonarson. Gott að halda þessu til haga.

Dólað um höfn og horft á finnskt skemmtiferðaskip yfirgefa höfnina með aðstoð hafnsögubáts. Haldið þaðan vestur á Bræðraborgarstíg þar sem blómasalinn múrarasonurinn tók út viðgerð ritara á húsi sínu þar við stíginn. Hún var samþykkt. Áfram til Laugar. Klukka blómasala sýndi grunsamlega stutt hlaup, enda fór það ekki af stað fyrr en við Kirkjugarð, þetta er ódýrt skran keypt í dollarabúð í Boston.

Á morgun er Fyrsti Föstudagur. Ekki hefur heyrst um nein áform á þeim degi. Á laugardag er hlaupið langt frá Vesturbæjarlaug, ekki styttra en 21,1 km.


Fyrsta hlaup í ágúst - Frídagur verzlunarmanna

Mættir til hlaups á mánudegi: Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Þorvaldur og Ólafur ritari. Bílastæði tóm og því valdi Þorvaldur sér tvö stæði frekar en eitt fyrir bíl sinn. Ólafur Þorsteinsson kom akandi á smábíl óræðrar gerðar þar eð jeppabifreið hans er til viðgerðar eftir að ekið var á hurð hennar á Blönduósi fyrir nokkru.

Veður eins og bezt verður kosið til hlaups: logn, þurrt og 14 stiga hiti. Fylgt sunnudagsprógrammi þar eð laug opnaði ekki fyrr en 11, lagt í hann kl. 10:10. Farið út í rólegheitum eins og hefð er um á sunnudögum og rætt um kennaralista í raungreinadeildum Reykjavíkur Lærða Skóla. Þar er valinn maður í hverju rúmi. Ennfremur rætt um gengi knattspyrnuliðs í Austurbænum, en staða þess er ekki nógu vænleg í deildinni.

Héldum tempói inn í Nauthólsvík, en þar var staldrað við og genginn spölur meðan sagðar voru sögur. Er komið var inn í kirkjugarð upplýsti Formaður að hann hefði nýverið renóverað stuepige-herbergi á Kvisthaga, sett þar upp geymsluhillur sem hann höndlaði í Byko og Ikea og raðað þar munum úr geymslu sem hann vildi varðveita. "Hvað segirðu?" sagði Jörundur forviða. "Gerðiru allt þetta sjálfur? Varstu ekki með mann í því?"

Farið áfram um Veðurstofuhálendið, niður í Hlíðar, Klambratún og Hlemm. Á Sæbraut hóf Þorvaldur mikinn reiðilestur um Hörpuna, taldi hana afkáralegan arkítektúr, en Jörundur kom byggingunni til varnar. Á Kæjanum rifjaði Ó. Þorsteinsson kynni sín frá í gær af skipherranum á Dannebrog sem tekinn var tali á morguntúrnum og mátti vart greina á milli hvor væri danskari í málfari.

Í gær komu í Pott dr. Einar Gunnar og dr. Baldur, auk þeirra hjóna Stefáns og Helgu, en í dag var allt annað klíentel, utan hvað dr. Mímir lét svo lítið að kíkja til okkar. Framundan eru stórar ákvarðanir: hverjir ætla í heilt maraþon í Reykjavík? Jörundur er klár, Biggi hefur verið með yfirlýsingar og fleiri finna fyrir þrýstingi.


Gamli barnakennarinn spælir litla bróður sinn og geðþekkan, þýzkan félaga

Fámennt að hlaupi dagsins: Þorvaldur, Flosi, Helmut, Ragnar, Pétur, Ólafur ritari, Guðrún, dr. Jóhanna, en aðrir víðsfjarri. Gott veður, gola, skýjað, 15 stiga hiti. Farið hratt út, ekki undir 5:20. Samt var stefnt að því að fara hægt. Fljótlega mynduðust grúpperingar: Jóhanna, Ragnar og Pétur í fremsta flokki, svo komum við Flosi og Helmut, og einhverjir ráku lestina.

Sama þétta tempó inn í Nauthólsvík og við Helmut flottir, gamli barnakennarinn eitthvað að hiksta er þangað var komið. Áfram að Kringlumýrarbraut, þar mættum við Laugaskokki á gríðarlegu tempói. Yfir brú og upp brekku, hún var erfið að venju, en stutt, og menn andstuttir er upp var komið á Bústaðaveg.

Enn héldum við hópinn við Helmut á tölti yfir Útvarpshæð, en fljótlega í Hvassaleitinu heyrðum við fnæsið í Flosa og hafði hann greinilega lagt nokkuð á sig að ná okkur, því að brekkur eru erfiðar gömlum barnakennurum. En hann lét sér ekki nægja að ná okkur við Kringlu, heldur geystist fram úr okkur og lengdi bara fjarlægðina á milli okkar. Þetta var enginn áburðarjálkur, þetta var fjögra vetra foli!

Á Kringlumýrarbraut er hefðbundið að taka 4 mín. spretti - en þeir létu á sér standa hjá þessum hlaupara. Í mesta lagi að farið væri á 5 mín. spretti niður úr. Við mættumst á ljósum, en það breytti ekki því að Flosi hélt áfram á æðisgengnu tempói og skildi okkur eftir.

Sæbrautin er lengsti og leiðinlegasti hlutinn af Þriggjabrúaleiðinni og þar var kjagað áfram. Drukkið við Fontinn og svo farið hjá Hörpu. Hér sá ritari sér leik á borði og stytti, en þeir hinir fóru hjá Verbúðum. Upp Ægisgötu og allir komum við nokkurn veginn á sama tíma til Laugar. Hratt hlaup og sveitt og góð uppbygging fyrir frekari átök svo sem á laugardag, þegar áhugi er fyrir 20 km hlaupi að morgni.


Sjötugsafmæli, um hvað var rætt?

Ekki er erfitt að geta sér til um hvaða umræðuefni Vilhjálmur Bjarnason hefur fitjað upp á í sjötugsafmæli dr. Einars Gunnars Péturssonar þegar hann hitti aldavin sinn, Ólaf Þorsteinsson, Formann Hlaupasamtaka Lýðveldisins, en Einar Gunnar fyllir sjöunda tuginn í dag, 25. júlí, þessi mæti félagi án hlaupaskyldu. Að líkindum hefur hann fært í tal stórtap tiltekins knattspyrnuliðs í Austurbænum gegn Norðanmönnum um síðastliðna helgi. En svo hafa fróðir menn sagt að sézt hafi til kampavínslitrar jeppabifreiðar bruna úr bænum á föstudag og var stefnan sett á Hvalfjarðargöng, en endastöð ákveðin Akureyri. Þar hefur svo okkar maður þurft að sitja undir miklum óförum síns heimaliðs og er óþarfi að vera að strá salti í sárin með því að nefna markatölur, og hefur trúlega ekki liðið vel. Hver segir líka að fólki eigi að líða vel? Líður ekki sumum bezt illa?

Allt um það var mæting góð í hlaupi dagsins og margir frambærilegir hlauparar mættir, þ.á m. dr. Friðrik Guðbrandsson í fyrsta skipti í sex vikur. Þá sáust Þorvaldur, Flosi, Helmut, Jörundur, ritari, dr. Jóhanna, Magga, Guðrún, Pétur Einarsson og Hjálmar. Sól og kjörið veður til hlaupa, ekki of heitt og einhver gola. Flestir lögðu af stað á töluverðum hraða, 5:20 - við Jörundur fórum hægar og settum stefnuna á 10 km Suðurhlíðarhlaup. Fiskuðum upp Guðrúnu á leið okkar, en vitum ekki hvað varð af þeim hinum, líklega endað á sprettum í Öskjuhlíð.

Fórum neðan garðs og út á Kringlumýrarbraut, upp Suðurhlíðína og reyndist hún lítil fyrirstaða hlaupurum nýsnúnum heim af Laugavegi (þar eru margar brekkurnar. Upp að Perlu og svo niður Stokkinn. Hér jukum við hraðann og fórum greitt á Hringbraut þar sem farið var að blása. Létt og ánægjulegt upphitunarhlaup og boðar gott um það sem á eftir kemur.

Í Pott mættu auk hlaupara, Sif Jónsdóttir langhlaupari og sigurvegari í Vesturgötuhlaupi sl. helgi, og Biggi óhlaupinn. Hlaupasamtökin lögðu undir sig Örlygshöfnina og ruddu öðrum gestum úr potti með kjaftagangi og uppivöðslusemi. Einhverjir ætla að fara heilt í Reykjavíkurmaraþoni og var Biggi helzti hvatamaður þess, sórust menn í fóstbræðralag utan um þetta verkefni í pottinum, en létu eiga sig að opna sér æðar og blanda, guðsélof.

Nú geta menn smásaman farið að bæta við vegalengdir, fara t.d. Þriggjabrúa n.k. miðvikudag. Helmut og ritari sjanghæjaðir í að bera þvottavél fyrir Jörund, en fengum ekkert kalt að drekka á eftir.


Rólegt eftir Laugaveg

Örfáir hlauparar mættir til hlaups á miðvikudegi eftir Laugaveg. Þar á meðal ritari, Jörundur, Kalli, Guðrún og Dagný. Einhverjir fleiri sem kennsl voru ekki borin á. Prófessor Fróði ku hafa haft í frammi flimtan um hlaupara sl. mánudag, þegar rætt var um að allir hlauparar hefðu náð lágmarkstíma í Emstrur. Eftir það hefðu menn farið mishratt, sumir tekið sér góðan tíma að skoða náttúru hálendisins og þarafleiðandi verið lengur en ella að skila sér í mark. Hafði hann þá spurn um frammistöðu téðra hlaupara hvort þeir hefðu skriðið til Þórsmerkur. Þokkalega er talað um afrekshlaupara í röðum vorum!

Ósk var líka mætt en hafði tognað og treysti sér ekki til að hlaupa. Svo að þessi litli hópur lagði í hann. Við Jörundur dóluðum okkur í rólegheitum á eftir hópnum enda meiningin aðeins að hita sig lítillega upp og mýkja vöðva. Vorum í þokkalegu standi. Fórum í síðdegisblíðunni út að Skítastöð, þaðan í Skerjafjörðinn, öfugan hring miðað við mánudaga, og enduðum á 5,9 km.

Í Pott mættu auk framangreindra Flosi, Benni, Helmut og Jóhanna með ómegð. Þar var flutt sú saga að er ritari kom í mark eftir Laugaveg hefði hann horft ráðvilltur í kringum sig og spurt: "Hvar er þessi Húsadalur?" Merkileg lygasaga og óskiljanleg með öllu. Rólegir tímar framundan.


Laugavegurinn lagður að velli með stæl

Níu hlauparar frá Hlaupasamtökum Lýðveldisins tóku þátt í Laugavegshlaupi frá Landmannalaugum inn í Þórsmörk laugardaginn 16. júlí 2011 til heiðurs Jörundi Guðmundssyni prentara og langhlaupara per excellence sjötugum. Þetta voru auk Jörundar sjálfs: Flosi, Helmut, Frikki Meló, Einar blómasali, Ólafur ritari, Ósk, Biggi og Ragnar. Rútan tekin frá Skautahöllinni í Laugardal kl. 4:30 að morgni og var spennan áþreifanleg í hópnum og líklega ekki mikið um svefn um nóttina. Ekið sem leið lá inn í Hrauneyjar og gerður 25 mín. stanz þar, fóru flestir inn í morgunmat.

Þá var haldið áfram og ekið inn í Landmannalaugar. Þar var svalt í veðri og fremur dimmt yfir. Ákváðu flestir að vera á síðbuxum og í jakka yfir hlaupatreyju. Menn höfðu góðan tíma til að liðka sig upp fyrir hlaup og skoða sig um eða fara á náðhús. Þrír hópar voru ræstir með fimm mínútna millibili. Í þeim fyrsta voru Ósk, Frikki og Biggi, Ragnar var í hópi nr. 2, og við hinir lakari hlauparar í hópi númer þrjú. Hóparnir fóru af stað án mikillar dramatíkur og hófst fjallgangan upp í Hrafntinnusker. Það fór fljótlega að hlýna, en samt kulaði öðru hverju svo að líklega var klæðaburðurinn við hæfi.

Við Jörundur héldum hópinn, enda hafði ritari ákveðið að halda sig við þann gamla og gera allt eins og hann, þá hlyti maður að skila sér í Emstrubotna, sem var eiginlega aðalmarkmið dagsins, ná Botnum á innan við 6 klst. Ekki amalegt að hafa félagsskap af Jörundi sem þekkir hvert kennileiti á fjöllum, hann benti á fjallstinda, gil og heitar laugar hvarvetna og vissi nöfnin á öllum hlutum. Ekki fór maður það hratt yfir að hætta væri á að fegurð náttúrunnar færi fram hjá manni. Við höfðum raðað okkur það aftarlega í þriðja hóp að við vorum eiginlega alltaf aftastir, sem skipti okkur engu máli. Flosi og Helmut voru á dóli fyrir framan okkur og við hittumst við drykkjastöðvar, fyrst í Hrafntinnuskeri.

Hér kom glögglega í ljós munurinn á Laugaveginum og venjulegum götuhlaupum: maður byrjar á eins og hálfs tíma fjallgöngu - og bætir svo við einu maraþoni um fjöll og firnindi! Ritara leið bara vel í Hrafntinnuskeri, drakk vel, skellti í sig geli og salttöflum og hélt svo áfram. Er komið var niður Jökultungur á leið til Álftavatns dró frá sólu og það hitnaði verulega í veðri. Hér fór útgufun að gera rækilega vart við sig og varð þessi hlaupari að fara úr jakka, buxur farnar að vera til trafala. Þá var bara að þrauka þar til kæmi að Bláfjallakvísl, þar sem gæfist tækifæri til að skipta um.

Er komið var í Álftavatn var ég orðinn verulega þrekaður, en fékk mér vel að drekka og bætti við geli og salti. En það vildi ekki betur til en svo er ég hélt upp frá áningarstaðnum að ég fékk heiftarlegan krampa í læri innanvert vinstra megin og varð að leggjast niður meðan hann gengi yfir. Tók það nokkrar mínútur og óttaðist ég um tíma að það kæmu skátar upp frá húsinu að sækja mig eins og þeir gerðu við Gústa hér um árið. En það reddaðist og ég staulaðist á fætur og hélt áfram.

Það tók á andlega styrkinn að berjast áfram upp í Hvanngil og þaðan út í Bláfjallakvísl, en hafðist. Ég hafði einsett mér fyrir hlaup að ná ekki eingöngu á innan við 6 tímum í Emstrur, heldur fara það hlaupandi og losna við að ganga. Enn var ég hlaupandi er kom að Bláfjallakvísl og var það léttir. Þar voru fyrir Flosi og Jörundur að endurnýja sig. Ég fór úr skóm og sokkum og fór í hreina, þurra sokka og nýja skó, stuttar hlaupabuxur og stuttermatreyju, setti upp KR derhúfuna. Góð tilfinning og maður endurnýjaði kraftinn. Haldið áfram að Emstrum.

Ég hafði heyrt mann lýsa hörmungum sínum af Laugaveginum og "þessum söndum, þessum endalausum söndum, sem aldrei ætla enda að taka!" - og afskrifað sem kveifarhátt. Ég skildi hvað maðurinn átti við þegar ég lenti á þessum sömu söndum. Spurði á drykkjarstöðvum hversu langt væri í Emstrubotna og var tjáð "6 km" og að ég hefði eina klukkustund til að ná því. Lítið mál. Málið var þó aðeins meira en ég ætlaði, því að það var sama hvað maður kepptist við, alltaf komu nýir tindar og nýir sandar og maður hélt að eftir næstu öxl yrði hlaupið niður að Emstruskálanum, en aldeilis ekki! Það voru áfram sandar og aftur sandar, nýjar fjallsaxlir og meiri sandur. Hér varð mér á að segja eins og Melabúðar-kaupmaður: "Ertu ekki að djóka í mér?"

Mér fannst vera svo áliðið tímans að ég hlyti að vera að missa af tækifærinu og þegar bættist við enn einn sandurinn og ný fjallsöxl í fjarska var ég farinn að halda að ég hefði misst af 6 tímunum, eiginlega búinn að afskrifa þetta og farinn að hugsa um rútusætið á Hvolsvöll og alla niðurlæginguna! Ég ákvað þó að koma með reisn í mark og tók góðan sprett niður brekkuna niður að skálanum. Þar var mér hins vegar tekið með fagnaðarópum og óskað til hamingju með að há inn á tíma. Þvílík hamingja! Þar var Flosi fyrir og dreif í mig salt og orku í formi daðla og sperðla af erlendum toga. Nú var markmiðinu náð og einungis eftir að ljúka hlaupinu í Þórsmörk.

Jörundur náði inn síðastur hlaupara fyrir útilokun og skakkaði aðeins hálfri mínútu að hann dytti út. Við héldum síðan áfram og byrjuðum gangandi. Vegalengdin frá Emstrum í Þórsmörk er sögð 15-16 km og þrátt fyrir að maður væri ánægður með að hafa náð því sem að var stefnt þá var engin skemmtiganga framundan. Mikill hluti leiðarinnar er ýmist á fótinn eða erfiður yfirferðar svo að hlaup voru ekki í boði, maður gekk þetta eða klöngraðist. En við reyndum líka að hlaupa þegar færi gafst. Einhvers staðar við Fauskatorfur neituðu hins vegar fæturnir að taka þátt í frekari afrekum hjá þessum hlaupara og var ekki um annað að ræða en ganga eftir það. Líklega hef ég gengið síðustu 8 km hlaups, og aðeins örsjaldan að ég gat hlaupið, en þá kom alltaf krampi í lærin.

Lokakaflinn um Kápu og birkiskóginn niður í Húsadal var erfiður og maður tönnlaðist endalaust á þessum orðum: "Fer þessu nú ekki að verða lokið?" Mætti upprifnum ferðalöngum á leiðinni gegnum skóginn sem hvöttu mig og sögðu: "Þetta er alveg að verða búið, bara kílómetri eftir!" Ég vona að ég hafi ekki sýnt þeim mikið vanþakklæti fyrir þessar gagnlegu upplýsingar! Loks var komið niður á flöt og ég hljóp í markið. Þar biðu mín félagar mínir og fögnuðu mér eins og sigurvegara, þótt ég væri á rúmum 9 klst. Þarna var líka Magga þjálfari á vegum aðstandenda hlaups.

Vert er að nefna að Ósk okkar varð önnur kvenna í hlaupinu og A-sveit Samtaka Vorra með þau Ósk, Frikka og Ragnar innanborðs náði 9. sætinu í sveitakeppninni, sem er allgóður árangur.

Umgjörð hlaups og aðstaða öll var til stakrar fyrirmyndar í Laugavegshlaupi og verður þeim sem að skipulagningu og undirbúningi komu ekki nógsamlega þakkað fyrir fagmannleg vinnubrögð í alla staði. Björgunarsveit þeirra Árnesinga sem sá um drykkjarstöðvar stóð sig með mikilli prýði og var gott að koma í áningarstaði og finna fyrir umhyggju og stuðningi þessa góða fólks! Það er svakalega góð tilfinning að ljúka Laugavegi og finna að þrátt fyrir að maður væri í tæpara lagi með undirbúning þá hafðist þetta.

Að hlaupi loknu héldu Hlaupasamtökin gleðskap í húsi í Húsadal sem Frikki hafði reddað handa okkur, þar mættu dr. Jóhanna, Unnur, Ragna og Hjálmar með börn og barnabörn og skemmtu menn sér lengi fram eftir við ýmislegar veitingar, sögur og spjall. Frábær dagur að kvöldi kominn og nú er bara að ákveða næstu áskoranir.

Daginn eftir héldu þau Jóhanna og Helmut gangandi tilbaka leiðina til Landmannalauga, ásamt Teiti og bróðurdóttur Helmuts. En við Jörundur, Einar, Ragnar, Frikki létum nægja að rölta yfir í Langadal með þeim Bigga og Unni, Sólborgu og Bjargeyju, en þau voru með bílinn þeim megin og þurftu bara far yfir Krossá. Svo tók við bið eftir áætlunarbílnum í bæinn og við stauluðumst um eins og spýtukarlar fram eftir degi.


Síðasta upphitun, spennan eykst

Nokkrir valinkunnir naglar mættir til upphitunaræfingar frá Laug á miðvikudegi fyrir Laugavegshlaup: Jörundur, Ósk, Flosi, Hjálmar, Þorvaldur, ritari, Frikki, Ragnar, dr. Jóhanna og líklega ekki margir í viðbót. Helmut veikur heima og blómasalinn fjarverandi. Ekki vitað um Bigga. Þetta var rólegheitadól upp á Víðimel, gamalkunna og -reynda leið, út á Suðurgötu, Skerjafjörð og að Skítastöð, dokað við þar og málin rædd. "Málin" eru vitanlega Laugavegsmálin, alltumlykjandi og alls staðar nærverandi þessa dagana, undirbúningur, hvað á að hafa með sér í Bláfjallakvísl, hvað í Þórsmörk, hverju á að klæðast, ekki gleyma vaselíni, íbúfeni, sólarvörn og þannig langt fram eftir fjárgötunum.

Sama dól tilbaka, utan hvað Hjálmar og Þorvaldur voru eitthvað að derra sig og héldu áfram í Skjólin, meðan aðrir fóru til Laugar, hafandi farið tæpa 6 km sem var mátulegt. Í Potti sagði Flosi ferðasögu af Snjáfjallaströnd, þaðan sem hann var nýkominn. Kvaðst hafa komið að Stað í Grunnavík, "... þar sem séra Snorri var EKKI prestur!" gall í Jörundi, sem virðist það mikið kappsmál að halda þessari sögulegu staðreynd til haga, einhverra hluta vegna.

Jæja, þarna höfðum við setið góða stund þegar blómasalinn dúkkaði upp og gerði sér upp helti, en á vitlausum fæti, hann var haltur á hinum fætinum deginum áður. Hann bauð upp á tízkusýningu eftir Pott í Móttökusal Laugar, þar sem hann sýndi nýjustu línuna í hlaupafatnaði á gjafverði miðað við aðrar verzlanir í bænum. Menn pöntuðu sér hægri vinstri. Nú er blómasalinn hinn nýi Daníel.

Átök framundan. Gangi oss öllum allt í haginn!


Síðasta langa hlaup fyrir Laugaveg

Mætt: Helmut, dr. Jóhanna, Biggi, ritari, Ragnar, Frikki, Flóki, en sést hafði til Dagnýjar fyrr um daginn. Veður frábært, glampandi sólskin, hiti 14 stig og hægur andvari þegar bezt lét. En meiningin var að fara bara rólega 20 upp að Stíbblu. Erfitt reyndist að halda aftur af fólki, við vorum iðulega komin í 5:20-5:30, en ætluðum að vera á 6 mín. tempói. Svitinn byrjaði strax að fossa í hitanum og gott að vera með nóg að drekka á brúsum. Prófuðum auk þess gelið hans Gumma Löve sem var dúndurgott og er ég ekki frá því að mér hafi ekki orðið verra af því.

Nú er búið að bæta í bununa á vatnsfontinum í Nauthólsvík og raunverulega hægt að drekka úr honum. Haldið áfram í Fossvoginn og niður að ánum. Farið út í Hólmann og óðum við Biggi árnar til þess að undirbúa okkur fyrir vosbúð efra. Helmut og Jóhanna fóru á brú. Þræddir skógarstígar í það endalausa, komumst loks út á malbikaða stíginn aftur og fórum upp að Stíbblu, hittum þar fyrir Frikka og Ragnar. Bætt á sig geli og drukkið. Skellt sér niður úr.

Í Nauthólsvíkinni var óhjákvæmilegt að skella sér í sjó og var aldan yndisleg! Maður var hálfstirður á eftir og tók tíma að liðka sig upp, en maður var orðinn góður eftir ca. kílómetra. Kláruðum flott hlaup á rólegu nótunum, 21,1 km á 2:06, sem gerir í reynd um 6 mín. tempó. Það komu einhver stopp inn í þetta.

Í potti var deilt um það hvort mynd í Mogga af Jörundi hlaupara sýndi hann í þéttu þykkni af lúpínu eða njóla.


Föstudagur á Nesi, fyrsta sjóbað fyrir suma

Fámennt en góðmennt í hlaupi dagsins frá Vesturbæjarlaug: Jörundur, Helmut, dr. Jóhanna, Biggi, Frikki Meló, ritari, Ragnar og Denni skransali á Nesi. Hlaupið á Nes í bongóblíðu, logn, sól, hiti, sviti. Farið allhratt þrátt fyrir að ekki væri stefnt að neinu ákveðnu. Hlaupið niður í sandinn hjá Gróttu og út alla fjöruna til þess að æfa fyrir Laugavegssandinn. Strippað innanum fjölskyldufólk og skellt sér í sjóinn, yfirborð sjávar heitt af sól, en undir niðri var ögn svalara.

Þegar komið var upp úr var ljúft að halda áfram brautina á hægu tölti. Við slepptum golfvelli og ákváðum að hafa þetta rólega æfingu. Er snúið var tilbaka á stíg birtist lögreglubíll og virtist lögreglumaðurinn skima eftir afbrotamönnum. Í kjölfarið kom fjöldi bifreiða. Það hvarflaði að okkur að blygðunarkennd Nesverja hefði skaddast af athæfi okkar og e-r hefði hringt á lögreglu, auk þess hefði upplýsinganet þeirra Nesverja verið virkjað og almenn úthringing leitt til þess að hver sem vettlingi fékk valdið var ræstur út til að líta herlegheitin augum. Við ákváðum, að ef löggan böggaði okkar eitthvað, myndum við benda á Bigga, það myndi virðast trúlegast að hann væri sá sem þeir hefðu áhuga á, maður vanur slagsmálum við vafasamt fólk á Hlemmi.

Tíðindalaust tilbaka. Pottur. Svo var haldið á Pall hjá Denna og Hrönn á Nesi. Þar var boðið upp á veizlu með nasli og súpu. Mikið mannval og mikil gleði. Einar blómasali mættur með myndir af Unimoginum. Góður undirbúningur fyrir kvöldveizlu í Þórsmörk eftir Laugaveg þegar innilega verður hlegið að afstöðnu afrekshlaupi.

Boðið verður upp á 20 km hlaup í fyrramálið kl. 9:30. Ljúft!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband