Rólegur laugardagur

Það bárust lítil viðbrögð við fyrirspurn ritara um hvort hlaupið yrði í dag, svo hann var bara rólegur, dólaði sér heima við að morgni og kom sér ekki til Laugar fyrr en upp úr 11. Ætlunin var að fara frekar stutt og hægt, en lengja á morgun, Hvítasunnudag. Veður gott, hlýtt og einhver raki í lofti. Hafði með mér fjóra vini mína í æpod sem oft hafa reynst vel þegar sálarháski hefur steðjað að.

Við Lambhól tók ég eftir uppstillingu og borði líkt og um keppni væri að ræða. Þar var drykkjarborð og þar voru menn með hlutverk. Í bakhöfðinu kviknaði óljós minning um að rætt hafi verið um 100 km hlaup og svo mun hafa verið þarna. Mér kom á óvart að ekki allir þátttakendur voru eins og leiðurreimar, sumir voru m.a.s. eins og blómasalar í laginu, þungstígir og þreytulegir. Ég blandaði mér bara í hópinn og hélt hlaupi áfram.

Hitti Jörund og Jóa í Nauthólsvík, en áður hafði ég mætt frú Helgu Jónsdóttur frá Melum sem spurði hvort ég tæki þátt í "þessari vitleysu". Jörundur sagði að það væri álit Formanns Vors til Lífstíðar að 100 km hlauparar kæmu óorði á hlaupin. Ég áfram með æpodinn í eyranu og Kashmir á fullu.

Létt og gott hlaup, hlýtt í veðri og rigningarlegt, það eru beztu hlaupaskilyrðin að mínu mati. Mér varð hugsað til undirbúningsins fyrir Laugaveginn og næstu hlaupa, maður þarf að undirbúa þetta. Föstudaginn 17. júní er Hamarshlaup, 25 km fjallahlaup í Ölfusi, tilvalinn undirbúningur. Þá þarf væntanlega að stilla önnur hlaup vikunnar eitthvað inn á það.

Í Potti hitti ég Bigga og Ósk, heimkomin úr mikilli svaðilför á Vörðuskeggja í Hengli. Farið af stað kl. 9 í morgun um ís og hjarn, í þoku og óveðri, 2 stiga hita, yfir klappir,kletta og eggjar. Þau töldu sig heppin að hafa komizt þetta lifandi. Líka góður undirbúningur fyrir Laugaveg.

En í fyrramálið, Hvítasunnudag, verður haldið frá Laugu kl. 10:10, sumir kunna að vilja taka hefðbundið, en við Jörundur lengjum upp að Stíbblu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband