Fyrsta Hamarshlaup

Jörundur, Biggi, Ósk og Ólafur ritari söfnuðust saman í jeppa og óku sem leið lá austur til Hveragerðis. Þar kom saman um fimmtíu manna hópur sem var staðráðinn í að þreyta fyrsta Hamarshlaupið, á að gizka 25 kílómetra leið. Okkur var lesinn pistillinn áður en lagt var í hann, leiðbeint um leiðina, hótað vondum afdrifum ef við skildum eftir okkur bréf utan af geli og fleira í þeim dúr. Svo vorum við ræst og hópurinn tók á rás.

Hlaupið upp með ánni, að Hamrinum, upp á hann og svo tilbaka niður að íþróttavelli. Þaðan inn dalinn í átt að hesthúsahverfi, yfir á og eftir það var lagt á fjallið. Aðrir kunna betur en ég að skýra frá örnefnum á leið okkur, Jörundur þekkir hverja þúfu á þessum slóðum enda var hann smali þarna á sínum sokkabandsárum. Brekkurnar urðu æ erfiðari, og sú síðasta erfiðust er komið var upp á Ölkelduháls, en þetta var mjög falleg leið með bullandi hverum og öðru sem heyrir til íslenzkri náttúru.

Gekk allar brekkur og því gott að geta hlaupið þegar leiðin fór að liggja niður á við. Þetta voru mest þröngar kindagötur og þær geta verið varasamar. Steinnibbur út um allt, ein kona rak tána í og datt, þá varð okkur hugsað til prófessors Fróða, líklega hefði hann dottið tuttugu sinnum fyrstu fimm kílómetrana.

Ritari tognaði eftir ca. 20 km. hlaup og varð að ganga spöl. Tókst loks að koma mér af stað aftur og gat lokið hlaupi með reisn. Þá voru þau hin þegar komin í mark, Ósk á 2:14, Biggi á 2:24, Jörundur á 3:05, ritari á 3:24. Frábært hlaup sem óhætt er að mæla með og góð innlögn fyrir Laugaveg. Fjölmennum á næsta ári!

Þegar síðustu hlauparar voru komnir í mark var haldin verðlaunaafhending. Öll fengum við eitthvað, Ósk og Jörundur fyrir sigra, en við Biggi fengum útdráttarverðlaun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband