Runnum þetta eins og fjallageitur

Jörundur, Flosi, Ólafur ritari, Helmut og dr. Jóhanna mætt í Esjuhlaup í fögru veðri og 14 stiga hita. Það var beðið eftir Bigga og blómasalanum, en sá fyrrnefndi þurfti að flytja mold fyrir hana Unni sína, en bíll þess síðarnefnda bilaði og hann fór með hann í viðgerð í Kópavogi, þar sem honum var sagt að viðgerðin kostaði 75 þús. kr. "Strákar, ég borga ykkur 25 þúsundkall fyrir viðgerðina og málið er dautt!" Næst man hann eftir sér úti á stétt og búið að ýta bílnum út, bifvélavirkjar að dusta hendurnar eins og eftir afstaðið óþrifaverk. Næst lá fyrir að finna bílskúrsfúskara í Grafarvogi sem tæki að sér verkið á viðráðanlegu verði.

Jæja, við lögðum í fjallið og ýmist hlupum eða gengum. Flosi eins og fjallageit og fór í fylkingarbrjósti, á eftir Helmut og Jóhanna, svo ritari, Jörundur rak lestina og kom ekki til af góðu. Jörundur er eins og Matthías Johannessen með það að hann má ekki fara 100 m öðruvísi en taka 25 manns sem hann þekkir tali. Svo var það í fjallinu í dag og því tafðist för hans.

Í Einarsmýri mætti sem bezt koma upp minnisvarða, sbr. orð skáldsins: "Á sumarbljúgum morgni magnast kraftur/í mýrinni þar sem Einar sneri aftur."

Ég sá til Jörundar langt fyrir neðan mig þegar komið var upp að steini. Þá voru þau hin þegar lögð af stað niður, en ég fór hægra megin eins og fyrra skiptið, núna var ég eilítið djarfari að hlaupa niður í grjótinu.

Það var sprett úr spori á sumarsólstöðum, bjart yfir og útsýni frábært af fjallinu. Maður hugsaði til þess hvað félagar okkar væru vitlausir að missa af þessu ágæta hlaupi. Svitnað vel á leiðinni niður. Ég svalaði björtu höfði í himinblámans fagurtærri lind á niðurleið. Hitti fyrir þau hin í teygjum, en eigi var staldrað lengi við. Haldið heim á leið. Í Útiklefa hékk uppi reyfi af blómasala. Slakað á í Potti. Hvað gerist á morgun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Harðarson

Vil bara taka fram að ég lagði af stað upp þegar aðrir voru komnir niður, fór upp að útsýnisskífu.

Kári Harðarson, 22.6.2011 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband