Minningarhlaup í slyddu

Þriðjudaginn 7. júní 2011 var hlaupið Minningarhlaup í minningu Guðmundar Karls Gíslasonar sem féll frá á þessum degi fyrir 7 árum. Af þessu tilefni höfðu Hlaupasamtökin loks gengið í það verk að láta merkja Guðmundarbikarinn með nöfnum hlaupara á þrítugsaldri (eða undir þrítugu) sem náðu beztum tíma í Reykjavíkurmaraþoni áranna 2006-2010. Að auki voru útbúnir verðlaunapeningar fyrir hvern vinningshafa, en bikarinn er farandbikar.

Nokkur fjöldi hlaupara mættur við Hrafnhóla-afleggjarann stundvíslega kl. 17:30, nema hvað blómasalinn var seinn eins og venjulega, mætti 6 mín. of seint og átti þó eftir að klæða sig í hlaupagallann. Jörundur stóð fyrir verðlaunaafhendingu og myndatöku. Þessir voru verðlaunaðir:

Þórólfur Ingi Þórsson, bikarhafi 2006
Reynir Bjarni Egilsson, bikarhafi 2008,
Arnar Pétursson, bikarhafi 2009,
Garðar Hauksson, bikarhafi 2010.

Af þessum hlupu Garðar og Þórólfur með hópnum. Aðrir mættir: Kári Steinn Karlsson, Helmut Hinrichsen, Jóhanna Arnórsdóttir, Friðrík Ármann Guðmundsson, Rúna Hvannberg Hauksdóttir, Ragnar Hólm Gunnarsson, Ólafur Grétar Kristjánsson, Jörundur S. Guðmundsson, Einar Þór Jónsson, Ágúst Kvaran, Vöggur Magnússon, Sigurður Gunnsteinsson og Birgir Þorsteinn Jóakimsson. Sigurður Ingvarsson á hjóli.

Kalt í veðri, snjór á fjöllum og slydda í upphafi hlaups. Það var hlaupið í norðaustur og á fótinn fyrsta spölinn. Beygt til hægri í áttina að Tröllafossi. Dæmigert utanvegahlaup með brekkum, vöðum, kindagötum, möl og grjóti. Nokkuð erfitt fyrir hlaupara sem var að hlaupa fjórða daginn í röð. Svipað ástatt með suma aðra, sem fóru fetið og gengu jafnvel langa speli.

Veðrið lagaðist smásaman og var orðið þolanlegt hjá Tröllafossi, þar settist ritari niður og orti náttúruljóð. Á meðan tókst öðrum hlaupurum að skjótast fram úr honum og ná forskoti. Kom í ljós að þetta var ekki félagshlaup þrátt fyrir yfirlýsingar þar að lútandi við upphaf hlaups. Mönnum var hlaupið kapp í kinn.

Hefðbundinn hringur og mínútu þögn við Skálafells-afleggjarann. Síðan sprett úr spori tilbaka 5 km leið. Myndataka og vatn í boði Melabúðar. Hlauparar orðnir kaldir og var staldrað stutt við hér, brunað í bæinn. Myndir birtar á facebook-síðu Hlaupasamtakanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einnig hljóp Þórhallur Jóhannesson.

Jörundur (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband