Færsluflokkur: Pistill Ritara

Ég neita að láta stimpla mig aumingja!

Klukkan var kortér gengin níu þegar ritari stóð alklæddur í Brottfararsal. Að vísu hafði hann gleymt hlaupatreyju, en notaði það ekki sem átyllu til þess að fella niður hlaup eins og sumir hefðu gert, nei, ég fór bara í bolnum sem ég stóð í. En nú voru góð ráð dýr, átti maður að bíða í fimmtán mínútur eftir öðrum hlaupurum, sem koma ævinlega seint, og eru auk þess svo hraðir að við fylgjumst eitthvað að út á Hofsvallagötu og svo ekki söguna meir. Síðan gæti sú staða komið upp að maður færi með Möggu einni og það er svona álíka og að fara einn í göngufrí með frú Ólöfu Ben. dönskukennara við Reykjavíkur Lærða Skóla og ráfa þannig um miðbæinn, sjálfum sér til lítillar frægðar. Nei, allt talaði fyrir því að ritari færi einfaldlega einn af stað að hlaupa í dag. Hver veit nema ég hitti frænda minn og vin, Ólaf Þorsteinsson, Formann til Lífstíðar, eitthvert mesta prúðmenni og sjéntilmann sem Reykvíkingar hafa eignast. Hann er jafnan á ferðinni á laugardagsmorgnum.

Það var ágætisveður, fremur svalt, einhver vindur en þurrt á stígum. Góð tilfinning að vera aftur á ferðinni eftir að hafa misst af föstudagshlaupi í gær. Maður er allur að koma til, orðinn léttari og sprækari eftir nokkra fjarveru. Fáir á ferli og ég hitti fyrst hlaupara er komið var að Kringlumýrarbraut, líklega Laugaskokk. Bjóst alltaf við að okkar eigið fólk næði mér á leiðinni en ég slapp upp Boggabrekku án þess að verða þeirra var. Raunar sá ég þau aldrei því að þau munu hafa farið á Kársnesið í dag og lokið 18 km hlaupi.

Merkilegt hvað skilyrði eru öll önnur á Veðurstofuhálendi og hjá Útvarpshúsi, þar er snjór og klaki yfir öllu, en auð jörð í Vesturbæ. Svona er láni manna misskipt hér í bæ. Áfram niður Kringlumýrarbraut og á Sæbraut var mann farið að langa í eitthvað að drekka, en allir lindir eru uppþornaðar á leiðinni og ekkert vatn í boði. Fúlt! Ég áfram hjá Hörpu, um Miðbæ og Hljómskálagarð, lauk þannig 14 km á rólegu tempói, líklega um 6 mín/km. Teygði vel og lengi á Plani.

Sat lengi einn í Potti, en loks birtist Ragnar og hafði farið með hópnum um morguninn og hafði verið sleginn af þessum sömu hugrenningum og ritari við upphaf hlaups: til hvers er að fara með fólki sem skilur mann bara eftir?

 


Mýrin

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru ekki eingöngu samtök miðaldra og vinalausra karlmanna, þar hlaupa einnig ungar konur. Hlaupadagurinn í dag staðfesti þessi sannindi, því að þá mættu þær Magga og Ósk til hlaups, en að öðru leyti voru þetta miðaldra karlmenn og flestir vinalausir. Þarna mátti þekkja Jörund, Flosa, próf. Fróða, Karl Gústaf, Benzinn, ritara, Magga, Melabúðar-Frikka, Hjálmar, René og Ragnar. Veður gott, hiti um fjegur stig, vindstilla og stígar hreinir og þurrir að mestu.

Ekki færri en fimm Garmin úr úti í glugga Laugar og leituðu árangurslaust flest hver að gervihnetti. Ritari horfir eins og naut á nývirki á þessa nútímagripi og skilur ekkert tilganginn með svona appírötum. Hlaup eru fyrir honum fyrst og fremst náttúruupplifun og skiptir þá ekki máli hversu fljótt upplifunina tekur af. Ritari er ekki hlaupanörd. Engu að síður er hann skráður í Laugaveginn, en það er mest til heiðurs Jörundi sjötugum, og við erum nokkrir í Hlaupasamtökunum sem munum þreyta þetta merka hlaup í sumar. Undirbúningur er hafinn, en þó eru sumir í vondum málum, eins og blómasalinn, sem liggur fyrir þessa dagana með sýkingu og kemst ekki til hlaupa. Vona bara að hann fari ekki að halla sér að Lagavulin-flöskunni í eymd sinni.

Jæja, Magga þjálfari var beinskeytt í fyrirmælum dagsins, Þrjár brýr vaxandi. Prófessorinn maldaði eitthvað í móinn og leitaði að syndaselum sem væru tilbúnir að fara aðeins lengra, 20 km eða svo. Fáir virtust vera á þeim buxunum að fara með Fróða, svo hann hefur trúlega upplifað einmanaleika langhlauparans í dag, fór rúma 18 km. Aðrir Þriggjabrúa, nema hvað við eymingjar fórum Hlífðarfót með Hringbrautarafbrigði, þ.e. Þrjár brýr á Hringbraut. Þetta voru ritari, Maggi, Benzinn, Flosi og Jörundur. Við urðum strax á eftir þeim hinum og kom ekki til álita að fara lengra.

Við sem erum að koma tilbaka eftir meiðsli erum algerlega rólegir og förum bara fetið, stoppum og göngum jafnvel inn á milli og tímajöfnum. Samt vorum við Maggi og Benzinn nokkuð jafnhraðir og þá kom sagan hans Kára um lykilinn og skráargatið sem er ekki hafandi eftir. Þetta var einmitt móts við Háskólann í Reykjavík, þar sem Kári starfaði hér fyrrum. Ekki vil ég meina að við höfum farið hratt, en samt mun þetta hafa verið rúmlega fimm mínútna tempó, en í lok hlaups var staðfest að tempóið var að jafnaði 6 mín., með gönguhléum.

Eftir síðustu brúna yfir Hringbraut brá Benzinn á það ráð að skella sér í Mýrina norðan við Norræna húsið og við þeyttumst þar yfir á trébrúm og komumst heilu og höldnu yfir að Nordisk hus, þaðan í Aragötuna og svo upp á Suðurgötu og niður á Ægisíðu. Menn veltu fyrir sér hvar dr. Baldur byggi, en voru ekki öruggir með adressuna og voru þó allan tímann vongóðir um að gardínurnar myndu veita okkur lausnina. Þessi hringur skilaði okkur réttum 10 km. og vorum við allsáttir við það, allir meira eða minna heilsulausir og tæpir.

Jæja, nú var farið að kólna og aðeins teknar helztu teygjur á Plani og svo farið í Pott. Barnapotturinn var vel heitur og þar var setið í hátt í klukkustund. Bjössi kom af sundi, hefur óþægindi í hné og lætur nægja að synda. Það voru dregnar nokkrar sögur af veitingamönnum og fasteignasölum, en leigubílstjórar og fasteignasalar eru einhverjar óvinsælastar stéttir hér á landi og mætti færa til margar frásögur því til stuðnings. Svo tíndust þeir hver af öðrum í Pott, Frikki, Ágúst, Benzinn, og blómasalinn dúkkaði upp kvakandi eins og önd, en Hjálmar og Ósk köru að setjast í Kratapott. Svo kom Biggi öllum að óvörum, óhlaupinn en uppfullur af góðum vilja til þess að liðsinna blómasalanum í veikindum hans. "Þarftu ekki að komast til læknis, Einar minn? Ég þekki góðan dýralækni úti á Nesi, á ég ekki að sækja þig á morgun?" Einar blómasali afþakkaði gott boð, harla vel munandi þegar Biggi sótti hann hér um árið þegar hann fékk þursabitið, hélt á honum út í bíl og keyrði til kuklara sem sá ekkert annað ráð en að slá hann af.

Jæja, nú verður Jörundur sjötugur 31. marz, en svo skemmtilega vill til að daginn eftir, 1. apríl, er Fyrsti Föstudagur. Ágætt að menn hafi þetta í huga.  


Tvöföld upprisa

Á þessum sunnudagsmorgni urðu þau tíðindi að tveir skrópagemlingar frá hlaupum, Jörundur og ritari, mættu til hlaups í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar, höfðu verið fjarverandi um nokkurt skeið vegna meiðsla. Báðir báru sig illa og var ekki útséð um að þær kæmust lifandi í gegnum hlaup dagsins. Aðrir mættir: Ó. Þorsteinsson, Magnús tannlæknir og Þorvaldur. Mikil veikindi herja nú á hlaupara og vantaði af þeim sökum tvo aðra frambærilega hlaupara sem láta sig yfirleitt ekki vanta á sunnudögum: blómasala og Flosa. Utandyra var svalt í veðri og snjór á stígum, óttuðust sumir að hált væri undir. Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar, hlaupafæri var fínt í dag og örlaði varla á hálku.

Lagt upp á hægu nótunum og farið niður á Ægisíðu. Maggi að vísu farinn á undan okkur og var kominn með nokkurt forskot. Rætt um næstu jarðarfarir og seinasta Útsvar. Þótti skemmtilegt tilsvar sem Reykjanesbær gaf þegar hann sat uppi sem sigurvegari og spurður hvaða mótherjum þau vildu mæta næst. "Garðabæ" var svarið. En svo skiptu þau um skoðun og sögðu: "Nei, við viljum fá einhverja skemmtilega mótherja." Jörundur taldi sig geta lesið sérstaka merkingu í þetta svar og lét hana óspart uppi.

Það var góð tilfinning að vera kominn á ról aftur eftir allt of langa fjarveru frá hlaupum, enda þótt maður væri þungur og stirður, þá var þetta upphitunin sem maður þarf fyrir mánudagshlaup. Nú er um það að ræða að halda áfram þjálfun fyrir Laugaveginn. Um þetta stóra hlaup ársins var rætt á Ægisíðunni og fullyrti Jörundur að svo fáir hefðu sótt um að allir hefðu komist að. skýringin væri mikill þátttökukostnaður, samanlagt um 30 þús. kr. Slíkt er til þess fallið að fæla frá. Við þetta bætist síðan kostnaður við að koma sér á staðinn. En nú verður ekki aftur snúið, fjöldi hlaupara úr Hlaupasamtökunum skráðir í hlaupið og munu standa sína plikt.

Rætt um ástandið á Dödens avis og þær samfelldu hremmingar sem steðjuðu að þessum fjölmiðli síðustu vikurnar. Áttu menn bágt með að skilja hvernig stæði á því að vörður er staðinn um tiltekna einstaklinga þar sem hafa valdið blaðinu miklu tjóni með skrifum sínum. Þótti mönnum illa komið fyrir tíðndaritinu og litlar horfur væru á umbótum. Dokað við í Nauthólsvík þar sem Maggi beið eftir okkur og kvaðst hafa verið ósáttur þegar hann lagði upp, en við náðum að hressa hann við með fallegum sögum. Varð hann okkur samferða eftir þetta og allt til loka hlaups.

Næst stoppað í Kirkjugarði og rætt um hvernig við gætum glatt hann Villa okkar og hvatt hann áfram er hann mætir næst til leiks, hinn 4. marz n.k. Jafnframt leitt getum að því hvað yrði gefið ef svo fer sem menn ætla að Álftanes bíði lægri hlut, verður gefinn aðgöngumiði að sundlauginni dýru? Ekki var heldur hjá því komist að ræða sameiningarviðræður sveitarfélaganna, þó voru ekki nýjustu fréttir af gangi þeirra viðræðna.

Það var farið hefðbundið um Veðurstofuhálendið, Litluhlíð, Klambratún, Hlemm og niður á Sæbraut. Gengið á réttum stöðum, enda bárum við Jörundur okkur illa og varð að fara hægt okkar vegna. Hlaupið framhjá hinu nýja samkomuhúsi landsmanna við Höfnina þar sem ráðstefnur og árshátíðir framtíðarinnar verða haldnar. Komið tilbaka eftir ágætlega heppnað hlaup og teygt alllengi á Plani.

Nú brá svo við að Pottur var venju fremur kaldur og þar voru eingöngu dr. Einar Gunnar og dr. Baldur af hefðbundnu klíenteli. Varð af þeirri ástæðu fremur skömm vera í potti, en engu að síður tekinn hringur á viðburðum, menningu og bílnúmerum.


Gæsir í Útiklefa?

Ritara brá er hann nálgaðist Útiklefa í dag og heyrði rámt kvak þar fyrir innan, velti fyrir sér um stund hvort gæs hefði flogið inn í klefann og lent þar á gólfinu. Opnaði dyrnar varlega og ýtti henginu frá. Það fyrsta sem hann sér er allsber blómasali sem er að þurrka sér eftir sundferð, aðrir voru ekki í Útiklefa, engin gæs. Blómasalinn opnaði munninn og þá heyrðist aftur sama ráma kvakið. Sá illi grunur helltist yfir ritara að skýringin væri að blómasalinn hefði opnað Lagavulin flöskuna og gert sér innihaldið að góðu með tilheyrandi afleiðingum. Ég hvessti mig við blómasalann og sagði: "Varstu að drekka Lagavulínið, helv... þitt!?" Nei, nei, hann sór og sárt við lagði að hann væri ekki búinn að opna flöskuna. Hann ætlaði að selja hana til þess að geta fjármagnað Laugavegshlaupið. Svo kom löng upptalning á sjúkdómum sem herjuðu á fjölskylduna, en það góða við veikindin væri það að hann gæti sparað við sig matarinnkaup, það tæki því ekki að vera að kaupa mat þegar fólk hefði ýmist ekki lyst á honum eða skilaði honum aftur með það sama.

Það sló ritara þegar út í Pott var komið að allir sem eru nýskráðir í Laugaveg voru fjarverandi í hlaupi dagsins: Ragnar, blómasalinn, Flosi, ritari, Biggi, Helmut - allir meira eða minna á sjúkralista, og lýsingarnar oft ófagrar og ekki eftir hafandi. Jæja, það var hefðbundinn hringur um Heita pottinn, gufuna og endað í Barnapotti. Þangað komu dr. Jóhanna, Flosi, Björn og Benz. Já, og Melabúðar-Frikki. Það var fámennt í hlaupi dagsins og farið stutt, Hlífðarfótur í aðdraganda Powerade-hlaups í arfavitlausu veðri. Það mun hafa verið afar sleipt í hlaupinu og ekki öllum enzt erindi. Þorvaldur Gunnlaugsson mun víst mjög hafa reynt á taugar og nagladekk ökumanna og ekki sjaldnar en þrisvar lá við stórslysi, að því er ritara var tjáð. Meðal annarra hlaupara voru Magga, "þessi langa með hárið" (Þ. Gunnlaugsson), Dagný, próf. Fróði og líklega ein kona í viðbót sem Þorvaldur hafði ekki nafnið á.

Á endanum voru aðeins Flosi, Bjössi, Benzinn og ritari eftir í potti og voru fluttar langar frásögur af kokkamennsku, enskukennslu og stórreykingum. Þegar Bjössi kemst á flot halda honum engar gáttir og frásögnin flýtur áfram áreynslulaust og lipurt. Ritara var þvert um geð að yfirgefa Pott í miðri frásögn, en það þarf stundum að gera meira en gott þykir, gefa fjölskyldunni að borða og svona! Ritari orðinn langeygur eftir að geta reimað á sig skúana og runnið skeiðið austur Sólrúnarbraut. Altént þarf að halda áfram þjálfun fyrir Laugaveginn, sem minnir okkur á eftirfarandi: hvar er Jörundur? Ætlaði hann ekki að þjálfa okkur fóstbræður fyrir hlaupið í sumar?


Kvartað yfir pistlaskrifum ritara

Ekki vissi ég að félagar mínir læsu bloggpistla mína. Ég hef frétt af ónefndum hrekkjusvínafræðingi sem kann pistlana utanbókar og getur rakið þá í réttri tímaröð með persónum og viðburðum margar vikur aftur í tímann. En þegar félagarnir eru spurðir út í nýleg skrif koma þeir af fjöllum og verða flóttalegir í framan: ha, hvað? Einna helzt er ég á því að algjörlega vandalausir aðilar lesi pistlana og skemmti sér ágætlega. Ef til vill var hluti af skýringunni afhjúpaður í potti  í dag að loknu hlaupi. Þar sögðu menn að það vantaði allan brodd í frásagnir, kvikyndisskapur væri á brott og það læki mannúð og umburðarlyndi úr hverri setningu. Þessu þyrfti að breyta.

Sem fyrr var ritari forfallaður í hlaupi dagsins vegna meiðsla, en vildi tryggja að Fyrsti Föstudagur gæti farið fram með sómasamlegum hætti.  Þá var blómasalinn að mæta tilbaka eftir erfitt hlaup, en allir aðrir löngu komnir aftur, skransalinn m.a.s. kominn í pott. Blómasalinn ku hafa týnst í miðju hlaupi og töldu viðstaddir að líklega hefði hann grafið sig í skafl í Suðurhlíðinni og það mætti byrja að leita að honum í vor. Á hlaupinu var Þorvaldur einnig upplýstur um það að hann væri að flytja til Sauðárkróks, en það kom honum á óvart.

Það var setið góða stund í potti og tekin rispa á helztu málefnum. Þar voru próessorinn, Karl Gústaf, Helmut, dr. Jóhanna, Flosi, Frikki, Denni, blómasalinn og ritari. Bjössi seinn og einhvers staðar var Benzinn að skvera sig til. Meðal þess sem bar á góma var Lagavulin-flaskan sem blómasalinn á en ritari ágirnist, eðalviskí úr skozku eyjunum. Mun blómasalinn hafa gripið til sérstakra ráðstafana til að koma flöskunni í öruggt var. Svo tóku menn að tygja sig til brottferðar á Ljónið.

Þessi vísa var flutt:
Hundrað prósent hef ég þrótt,
hár og myndarlegur.
Ég ætla að búa til barn í nótt
og byrja klukkan fjegur.

Góður hópur samankominn á Ljóninu og var pantaður Benni og bjór. Bernaise-borgarinn bragðaðist vel. Pólitíkin greind og spáð í nýjustu viðburði og bröltið í Engeyjar-Bjarna, getum leitt að því að hann væri að brjótast út úr skugga Hádegismóra og marka sjálfum sér bás sem formaður í krafti eigin mannkosta. Rætt um líklega forsetaframbjóðendur (þ.e. ef núverandi forseti fer ekki fram aftur) og ýmsir kostir nefndir. Var loks ákveðið að Hlaupasamtökin myndu tefla fram eigin frambjóðanda, en viðstaddir gátu ekki gert upp á milli Ó. Þorsteinssonar og V. Bjarnasonar og kallar erindið því á frekari umfjöllun í hópnum. Einhverjir hugðu á samskokk í fyrramálið, en áhyggjur voru viðraðar af færinu. Þó mun öruggt að hlaupið verður n.k. sunnudag kl. 10:10.


Ofsögum sagt

Sumir hafa fullyrt að ritari fari með hreinar lygar í pistlum sínum, afflytji sannleikann um sómakæra einstaklinga og afskræmi skelfilega afrek þeirra á hlaupabrautinni. En hér vill ritari koma þeim vörnum við að um OFSAGNIR sé að ræða, fyrir misskilning eða misheyrn verði til ofsögn á hlaupum sem er þá ofsögð í pistli dagsins. Þetta er ekki beinlínis lygi, en ekki fyllilega farið rétt með og er þá réttlætingin sú að lögmál frásagnarinnar kalli á sveigjanleika í framsetningu helztu atriða og afstæðna vegna þessarar misheyrnar eða misgánings ritara. Fer hann hér með fram á afsökunarbeiðni frá þeim sem komið hafa þessum útbreidda kvitt á kreik. En þá að hlaupi dagsins.

Sökum viðvarandi meiðsla og örkumlunar var ritari ekki mættur í hlaup dagsins og kann að vera að menn spyrji: hvers vegna er þá verið að rita pistil? Ritari spyr á móti: er bannað að rita pistil óhlaupinn? Á maður bara að skammast sín, fara inn í skáp og draga eitthvað gamalt yfir sig, eins og Svíinn? Þessu hafnar ritari, hann lætur pennann rápa þegar innblásturinn kallar á slíkt.

Er komið var til Laugar um sexleytið var Rúnar að koma tilbaka og mun hafa farið stuttan skrepp að þessu sinni. Lítillega rætt um meiðsli og endurkomu til hlaupa eftir fjarveru, en upplýst að dagsskipunin hafi hljóðað upp á Þriggjabrúa.

Þessu næst er farið í Útiklefa, Heitasta, Gufu og svo í Örlygshöfn. Ekki hafði ritari legið lengi þar er hann sá blómasalann koma út á Laugarsvæðið og fara beint í Heitasta og hafði greinilega ekki farið langt að þessu sinni. Ekki var látið svo lítið að kíkja í pott til ritara og eru enn á ný staðfestir eineltistilburðir gagnvart veiku fólki. Ég lét þetta ekki á mig fá, enda nóg af gáfuðu og skemmtilegu fólki í potti að tala við. Segir ekki fleira af ferðum blómasala, nema hvað er komið var upp úr voru hlauparar komnir tilbaka úr spretthörðu Þriggjabrúa. Átti ritari erindi við Melabúðar-Frikka og settust þeir á rökstóla. Þar voru einnig Bjössi, Benzinn, Flosi, Hjálmar, dr. Jóhanna, Helmut, Ósk og líklega Jóhanna Ólafs í fettum á gólfinu. Síðan kom prófessorinn og sagði svakalega svallsögur af sér og bræðrum sínum, hálf- og semi-.

Er hér var komið minntust menn þess að næstkomandi föstudag er Fyrsti Föstudagur febrúarmánaðar. Af því tilefni er heimilt að hefja eins og hálfan bjór á loft og innbyrða bernaise-borgara á Ljóninu. Hvernig líst mönnum á það?  


Sunnudagur - síðustu leikir á HM í handbolta

Það ku hafa verið hlaupið á þessum morgni, enda falla hlaup ekki niður þótt annálaritari sé frá vegna þrálátra meiðsla. Veröldin heldur víst áfram og skapar sína sögu þótt maður eigi bágt með að trúa því. Þeir voru fimm sem hlupu: Ó. Þorsteinsson, Flosi, Þorvaldur, Einar blómasali og Magnús Júlíus. Hlaupinn hefðbundinn sunnudagshringur, en stytt um Laugaveg vegna eindreginnar vestanáttar. Magnús sneri að vísu við án þess að hafa lokið embættisverkum morginsins og mætti Mími á Ægisíðu sem tók létt skokk með honum síðustu metrana.

Ritari lét sig hafa það að mæta í pott, enda einvalalið þar fyrir. Fyrir utan hlaupara voru dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Helga Jónsdóttir Zoega og fyrrnefndur Mímir. Helstu mál voru rædd og greind í þaula. Rifjuð upp kosningaúrslit frá sjöunda áratugnum, en fáir eru fróðai um niðurstöður kosninga en dr. Baldur. Þá var rætt um handboltann, en síðustu leikir í heimsmeistarakeppninni eru í dag. Þótti mönnum synd að Ísland hefði ekki fengið tækifæri til að mæta Dönum eða Svíum á mótinu. Það eru oft skemmtilegir leikir. Sagðar sögur af fólki. Stutt umfjöllun um Hrepparnir keppa frá föstudegi þar sem hann Vilhjálmur okkar sigldi áfram önugur að vanda. Höfðu menn áhyggjur af heilsufari dómarans, sem veiktist á sl. vetri og einhvern rámaði í kvitt þess efnis að Ó. Þorsteinsson hefði verið nefndur sem líklegur arftaki hans í sæti spurningahöfundar og dómara.

Nú líður vonandi senn að því að ritari komist í hlaupaform á ný og geti haldið áfram undirbúningi að Laugavegshlaupi á sumri komanda. Þá er bara að halda áfram að horfa á úrslitakeppni HM á DR1. Áfram Danmörk og SvíÞjóð!


Langt og erfitt -brýrnar reyndust fjórar þegar upp var staðið

Rætt um handbolta í Útiklefa, nema hvað. Þar voru nokkrir Naglar mættir, fleiri bættust við í Brottfararsal. Veður gott til hlaupa, og því var hæðst að ritara fyrir að vera með balaklövu. Sú afstaða átti eftir að breytast. Nú brá svo við að prófessor Fróði lét svo lítið að mæta til hlaups með okkur dauðlegum og notuðu menn tækifærið til þess að óska honum gleðilegs árs. Þarna mátti bera kennsl á dr. Friðrik, Jörund, Magga, Möggu, dr. Jóhönnu, Ósk, Albert, blómasalann, Birgi Þ. Birgisson sem er nýr félagi, Flosa, Bjössa, Benzinn, Þorbjörgu Karlsd. og ritara. Og einhverja fleiri, Kalla og Frikka í Melabúðinni. Kári sást á reiðhjóli utandyra, en hann var of seinn, hvatti okkur til að tefja ekki hlaup, hann myndi hvort eð er ná okkur.

Þriggjabrúa vaxandi var dagsskipunin. Ég spurði Jörund hvort ekki yrði bara farið hægt. Hann horfði á mig fullur efasemda og vantrausts, en lét svo tilleiðast að fara rólega með mér. Við vorum með öftustu hlaupurum frá byrjun, en fljótlega duttu dr. Friðrik og Maggi aftur fyrir okkur, en skammt fyrir framan okkur var blómasalinn. Ekki leið á löngu áður en við vorum búnir að ná blómasalanum, sem kvartaði yfir verk í hné, baki og höfði, nema hvað? Það var dólað þetta á 6 mín. tempói. Í Skerjafirði brast á með hríðarbyl og þá hlógu ekki þeir sem höfðu gert grín að höfuðfatnaði ritara. Jörundur heimtaði að fá húfuna mína því að hann væri gamall maður á eftirlaunum. Ég sagði það ekki koma til greina.

Fljótlega fundum við til þess að blómasalinn var farinn að detta aftur úr. Við hittum Birgi sem virtist þungur á sér, hann var í leit að sálufélögum sem mætti spilla. Einn auðspilltan fann hann í blómasalanum. Saman drógust þeir meðvitað aftur úr okkur svo að þeir yrðu ekki beittir þrýstingi í Nauthólsvík að halda áfram á Flanir, en gætu snúið inn á Fótinn og farið stutt. Kalli virtist einnig vera í leit að slíkum félagsskap. Vonandi hafa þeir átt gefandi samfélag um legginn hjá Gvuðsmönnum.

Um þetta leyti vorum við orðin þrjú: Jörundur, ritari og Þorbjörg og héldum jöfnu tempói í krapafæri. Yfir brú á Kringlumýrarbraut og þar fórum við að mæta ÍR hlaupurum sem komu á mikilli ferð. Upp brekkuna og fórum bara rólega þar. Yfir á ljósum, fengum grænt og svo beið okkar Útvarpshæðin, síðasti farartálminn. Tókum þetta léttilega og runnum greiðlega yfir brú á Miklubraut og hjá Framheimili og svo yfir á Kringlumýrarbraut.

Á Sæbrautinni fór þessi hlaupari að verða þreyttur, enda með aukakíló í farteskinu. Maður saknar þess að geta ekki drukkið vatn við póstinn. Við fórum um Miðbæ og Hljómskálagarð og þar var vakin athygli á því að brú er á einum stað í garðinum, sem gerir það að verkum að þetta er í reynd Fjögurra brúa hlaup. Síðasti kaflinn farinn á þrjóskunni, en mikill léttir að ljúka þessu. Ekki vitað um afdrif annarra hlaupara, annað en að þeir ætluðu sömu leið aðeins hraðar en við. Hins vegar fór prófessor Fróði 69 og lýsti hann yfir í potti að héðan í frá og út árið myndi hann hlaupa nýja leið í hverju hlaupi.

Í potti var hefðbundin uppstilling, utan hvað menn röðuðu sér í hálfhring og skildu eftir svæði fyrir prófessorinn þar sem við hin gætum horft á hann og gagnrýnt hann. Hér áréttaði ritari boð um Árshátíð í Viðey, en fáir hafa tilkynnt áhuga á þátttöku. Eru áhugasamir hér með hvattir að láta vita í síðasta lagi á föstudag hvort þeir vilja vera með.


Hvað var EKKI að?

Hlaup í Vesturbænum geta verið ævintýri. Alltaf gerist eitthvað eftirminnilegt sem fært er í búning þjóðsögunnar og fest á blað. Veður var svona og svona þegar nokkur fjöldi hlaupara mætti í Brottfararsal, hiti við frostmark, snjófjúk og einhver vindur. Mættir: Jörundur, Flosi, Siggi Ingvars. Maggi, Bjössi, Benzinn, blómasalinn, Magga, Þorbjörg K., Ósk, Jóhanna, Helmut, ritari, Karl og svo var ný manneskja, Maki, og sýndi góða takta í hlaupi dagsins.

Það var farið lengri leiðina út á Nes og í Bakkavörina, farið um Lindarbraut. Menn missprækir, en ritari furðuléttur á sér eftir að hafa ekki hlaupið í 12 daga vegna meiðsla. Lenti einhvers staðar á milli hópa, hefðbundnir hraðafantar fremstir, og slugsarar á eftir. Þó fór svo að blómasalinn náði mér og við fórum hringinn. Er komið var í Bakkavör þraut okkur erindi, blómasalinn kominn með hjartaflökt og slæmsku í maga eftir rostbiff-samlokuna með remolaðinu sem hann borðaði kl. tvö í dag. Þannig að við ákváðum að fara beinustu leið tilbaka.

Ekki tók betra við þegar komið var á Nesveginn, þar gaf hnéð sig og urðum við að ganga það sem eftir var leiðar, reyndar þurfti blómasalinn að hökta hluta leiðar og virtist mér stefna í að ég þyrfti að halda á honum. Þetta var ekki fallegt! Hafðist þó á endanum. Í Brottfararsal hófum við að undirbúa Þorrablót/Árshátíð Hlaupasamtakanna og verður sagt fleira af þeim áformum er fram í sækir.

Setið lengi í potti og rætt um gömul afrek á hlaupabrautinni, m.a. í Mývatnsmaraþoni. Hópur hlaupara hyggur á landvinninga í Þingeyjarsýslum á vori komanda, svona til þess að undirbúa Laugaveginn síðar um sumarið. Slpurt var: "Hver er Birgir Þ. Birgisson?" Einnig var spurt hvort verið gæti að blómasalinn hafi ekki skráð sig í Powerade-hlaupið á fimmtudaginn eð var, en engu að síður náð að særa 3 flöskur af orkudrykknum út úr skipuleggjendum hlaupsins. Rætt um leikinn við Japan og spáði Bjössi fimm marka sigri Íslands, 33-28. Það þótti ritara bjartsýn spá.

Lokahnykkurinn kom svo í Útiklefa þegar blómasalinn beygði sig eftir einhverju á gólfinu og bakið gaf sig! Heppinn er hann að vera hvorki hestur né togari. Það eru til hugtök yfir afdrif slíkra gripa þegar þeir eru komnir með öll einkenni...                              


Hlaupaskór blómasalans - er opið í Össuri?

Mér er ljúft og skylt að viðurkenna að ég er aumingi. Lappalaus aumingi sem réttast væri að gera fætinum styttri við öxl samkvæmt hefð. En maður ber lóminn og þraukar, mætir þó til Laugar í von um að mæta þar vingjarnlegu augntilliti og meðaumkun. Einna helzt er að vænta vingjarnlegs viðmóts hjá afgreiðslufólki, sem virðist ekki setja fyrir sig þótt einn og einn hlaupara vanti í hlaup. Er ritari mætti til Útiklefa varð hann steinhissa. Á gólfinu miðju klæðandi sig í garmana stóð sjálfur blómasalinn. Klukkan að verða sex og hópurinn löngu farinn af stað. Hvað var í gangi? Þegar gengið var á kappann hafði hann þá skýringu á reiðum höndum að konan hefði gleymt að pakka skónum með öðrum hlaupafatnaði í tösku dagsins. "Af hverju hljópstu ekki heim og náðir í skó?" spurði ritari. "Var of seinn - hafði ekki tíma. Fór bara í pott." Svona menn hafa engan sjálfsaga og spurning hvort þeir eiga nokkurt erindi í Laugaveginn.

Ritari, sem er meiddur, lét sér nægja heitan pott, gufu og kaldan pott á eftir. Sá hlaupara koma tilbaka eftir stutt hlaup, enda flestir á leið í Powerade á morgun. Félagar mínir létu sem þeir sæju mig ekki þar sem ég hvíldi í setlaug, en flykktust í barnapott. Þekkjandi vel uppeldisfræðin og hrekkjusvínafræðina gat ég vel greint eineltismynstrið í hegðun félaga minna og lét mig hverfa. Hitti fyrir Bjarna Benz í Útiklefa og vildi hann hafa eitt og annað um það að segja hvað færi í pistil dagsins, nú mætti alls ekki spara mönnum skammaryrðin, einkum bæri að fara hörðum orðum um framferði blómasalans. Bilaður fótur væri engin afsökun fyrir fjarveru ritara: "Er ekki opið í Össuri?"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband