Hlaupaskór blómasalans - er opið í Össuri?

Mér er ljúft og skylt að viðurkenna að ég er aumingi. Lappalaus aumingi sem réttast væri að gera fætinum styttri við öxl samkvæmt hefð. En maður ber lóminn og þraukar, mætir þó til Laugar í von um að mæta þar vingjarnlegu augntilliti og meðaumkun. Einna helzt er að vænta vingjarnlegs viðmóts hjá afgreiðslufólki, sem virðist ekki setja fyrir sig þótt einn og einn hlaupara vanti í hlaup. Er ritari mætti til Útiklefa varð hann steinhissa. Á gólfinu miðju klæðandi sig í garmana stóð sjálfur blómasalinn. Klukkan að verða sex og hópurinn löngu farinn af stað. Hvað var í gangi? Þegar gengið var á kappann hafði hann þá skýringu á reiðum höndum að konan hefði gleymt að pakka skónum með öðrum hlaupafatnaði í tösku dagsins. "Af hverju hljópstu ekki heim og náðir í skó?" spurði ritari. "Var of seinn - hafði ekki tíma. Fór bara í pott." Svona menn hafa engan sjálfsaga og spurning hvort þeir eiga nokkurt erindi í Laugaveginn.

Ritari, sem er meiddur, lét sér nægja heitan pott, gufu og kaldan pott á eftir. Sá hlaupara koma tilbaka eftir stutt hlaup, enda flestir á leið í Powerade á morgun. Félagar mínir létu sem þeir sæju mig ekki þar sem ég hvíldi í setlaug, en flykktust í barnapott. Þekkjandi vel uppeldisfræðin og hrekkjusvínafræðina gat ég vel greint eineltismynstrið í hegðun félaga minna og lét mig hverfa. Hitti fyrir Bjarna Benz í Útiklefa og vildi hann hafa eitt og annað um það að segja hvað færi í pistil dagsins, nú mætti alls ekki spara mönnum skammaryrðin, einkum bæri að fara hörðum orðum um framferði blómasalans. Bilaður fótur væri engin afsökun fyrir fjarveru ritara: "Er ekki opið í Össuri?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband