Gæsir í Útiklefa?

Ritara brá er hann nálgaðist Útiklefa í dag og heyrði rámt kvak þar fyrir innan, velti fyrir sér um stund hvort gæs hefði flogið inn í klefann og lent þar á gólfinu. Opnaði dyrnar varlega og ýtti henginu frá. Það fyrsta sem hann sér er allsber blómasali sem er að þurrka sér eftir sundferð, aðrir voru ekki í Útiklefa, engin gæs. Blómasalinn opnaði munninn og þá heyrðist aftur sama ráma kvakið. Sá illi grunur helltist yfir ritara að skýringin væri að blómasalinn hefði opnað Lagavulin flöskuna og gert sér innihaldið að góðu með tilheyrandi afleiðingum. Ég hvessti mig við blómasalann og sagði: "Varstu að drekka Lagavulínið, helv... þitt!?" Nei, nei, hann sór og sárt við lagði að hann væri ekki búinn að opna flöskuna. Hann ætlaði að selja hana til þess að geta fjármagnað Laugavegshlaupið. Svo kom löng upptalning á sjúkdómum sem herjuðu á fjölskylduna, en það góða við veikindin væri það að hann gæti sparað við sig matarinnkaup, það tæki því ekki að vera að kaupa mat þegar fólk hefði ýmist ekki lyst á honum eða skilaði honum aftur með það sama.

Það sló ritara þegar út í Pott var komið að allir sem eru nýskráðir í Laugaveg voru fjarverandi í hlaupi dagsins: Ragnar, blómasalinn, Flosi, ritari, Biggi, Helmut - allir meira eða minna á sjúkralista, og lýsingarnar oft ófagrar og ekki eftir hafandi. Jæja, það var hefðbundinn hringur um Heita pottinn, gufuna og endað í Barnapotti. Þangað komu dr. Jóhanna, Flosi, Björn og Benz. Já, og Melabúðar-Frikki. Það var fámennt í hlaupi dagsins og farið stutt, Hlífðarfótur í aðdraganda Powerade-hlaups í arfavitlausu veðri. Það mun hafa verið afar sleipt í hlaupinu og ekki öllum enzt erindi. Þorvaldur Gunnlaugsson mun víst mjög hafa reynt á taugar og nagladekk ökumanna og ekki sjaldnar en þrisvar lá við stórslysi, að því er ritara var tjáð. Meðal annarra hlaupara voru Magga, "þessi langa með hárið" (Þ. Gunnlaugsson), Dagný, próf. Fróði og líklega ein kona í viðbót sem Þorvaldur hafði ekki nafnið á.

Á endanum voru aðeins Flosi, Bjössi, Benzinn og ritari eftir í potti og voru fluttar langar frásögur af kokkamennsku, enskukennslu og stórreykingum. Þegar Bjössi kemst á flot halda honum engar gáttir og frásögnin flýtur áfram áreynslulaust og lipurt. Ritara var þvert um geð að yfirgefa Pott í miðri frásögn, en það þarf stundum að gera meira en gott þykir, gefa fjölskyldunni að borða og svona! Ritari orðinn langeygur eftir að geta reimað á sig skúana og runnið skeiðið austur Sólrúnarbraut. Altént þarf að halda áfram þjálfun fyrir Laugaveginn, sem minnir okkur á eftirfarandi: hvar er Jörundur? Ætlaði hann ekki að þjálfa okkur fóstbræður fyrir hlaupið í sumar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

HVAR ER ÞESSI POTTUR ??????????????

Erla Magna Alexandersdóttir, 9.2.2011 kl. 21:46

2 identicon

Vesturbæjarlauginn (Reykjavík)

birgir Jóakimsson (IP-tala skráð) 10.2.2011 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband