Hvað var EKKI að?

Hlaup í Vesturbænum geta verið ævintýri. Alltaf gerist eitthvað eftirminnilegt sem fært er í búning þjóðsögunnar og fest á blað. Veður var svona og svona þegar nokkur fjöldi hlaupara mætti í Brottfararsal, hiti við frostmark, snjófjúk og einhver vindur. Mættir: Jörundur, Flosi, Siggi Ingvars. Maggi, Bjössi, Benzinn, blómasalinn, Magga, Þorbjörg K., Ósk, Jóhanna, Helmut, ritari, Karl og svo var ný manneskja, Maki, og sýndi góða takta í hlaupi dagsins.

Það var farið lengri leiðina út á Nes og í Bakkavörina, farið um Lindarbraut. Menn missprækir, en ritari furðuléttur á sér eftir að hafa ekki hlaupið í 12 daga vegna meiðsla. Lenti einhvers staðar á milli hópa, hefðbundnir hraðafantar fremstir, og slugsarar á eftir. Þó fór svo að blómasalinn náði mér og við fórum hringinn. Er komið var í Bakkavör þraut okkur erindi, blómasalinn kominn með hjartaflökt og slæmsku í maga eftir rostbiff-samlokuna með remolaðinu sem hann borðaði kl. tvö í dag. Þannig að við ákváðum að fara beinustu leið tilbaka.

Ekki tók betra við þegar komið var á Nesveginn, þar gaf hnéð sig og urðum við að ganga það sem eftir var leiðar, reyndar þurfti blómasalinn að hökta hluta leiðar og virtist mér stefna í að ég þyrfti að halda á honum. Þetta var ekki fallegt! Hafðist þó á endanum. Í Brottfararsal hófum við að undirbúa Þorrablót/Árshátíð Hlaupasamtakanna og verður sagt fleira af þeim áformum er fram í sækir.

Setið lengi í potti og rætt um gömul afrek á hlaupabrautinni, m.a. í Mývatnsmaraþoni. Hópur hlaupara hyggur á landvinninga í Þingeyjarsýslum á vori komanda, svona til þess að undirbúa Laugaveginn síðar um sumarið. Slpurt var: "Hver er Birgir Þ. Birgisson?" Einnig var spurt hvort verið gæti að blómasalinn hafi ekki skráð sig í Powerade-hlaupið á fimmtudaginn eð var, en engu að síður náð að særa 3 flöskur af orkudrykknum út úr skipuleggjendum hlaupsins. Rætt um leikinn við Japan og spáði Bjössi fimm marka sigri Íslands, 33-28. Það þótti ritara bjartsýn spá.

Lokahnykkurinn kom svo í Útiklefa þegar blómasalinn beygði sig eftir einhverju á gólfinu og bakið gaf sig! Heppinn er hann að vera hvorki hestur né togari. Það eru til hugtök yfir afdrif slíkra gripa þegar þeir eru komnir með öll einkenni...                              


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband