Færsluflokkur: Pistill Ritara
1.4.2011 | 22:21
Mannlíf á Nesi
Að þessu sinni var ákveðið að hlaupa á Nes. Mætt: Ágúst, Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Einar blómasali, Denni skransali, Ólafur ritari, Þorbjörg K., Rúna, Karl Gústaf, Helmut - og annað eftir því. Þegar Helmut kom í Útiklefa hóf hann að hrópa á Jóhönnu, en við hinir reyndum að róa hann niður. Þetta var Fyrsti Föstudagur og því eðlilega spenna í loftinu. Í Brottfararsal var ákveðið að fara á Nes, menn nefndu hafsund, nú væri komið vor og því eðlilegt að dýfa ótilgreindum líkamspörtum í kalt vatn. Jæja, kemur ekki Bjarni Benz, sá er hefur átt einhvern helztan þátt í að útbreiða falska mynd af félögum Hlaupasamtakanna í fjölmiðlum, með myndbirtingum þar sem hlauparinn er portretteraður sem blíðmælt góðmenni. Sópuðust enda menn að honum og kvörtuðu yfir því að hann væri með þessi falsheit í gangi.
Nes. Hlaupið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, rólega. Ánanaust og braut. Þetta var einkennilegt hlaup. Blómasalinn, sem skildi okkur eftir sl. sunnudag og fór 22 km með René, er búinn að vera eins og sprungin blaðra alla vikuna. Sama var upp á teningnum í dag, hann dróst fljótt aftur úr og var með hægasta fólki. Þar sem ritari hljóp með Bjössa ræddum við þetta vandamál okkar í millum og komumst að þeirri niðurstöðu að blómasalinn væri í röngu prógrammi, þýðir ekki að reyna að rífa sig upp með 20 km hlaupi, þegar hið eðlilega væri að fara 10-12 km með jöfnu millibili. Við vorum á þessu róli og þarna var líka Karl Gústaf. Fyrir framan okkur voru Ágúst, René og Flosi.
Veður var í dag frábært til hlaupa. Helmut komst aldrei af stað af því að hann þurfti að keyra Teit á æfingu. Við mættum dr. Jóhönnu á Nesi og hafði reiknað með að keyra Teit, en klósettferð tafði hana um þann tíma sem um munaði, svo að Helmut missti af hlaupi. En svona gerast hlutirnir stundum!
Nema hvað, við förum á Nesið. Það verður að segjast eins og er, að þrátt fyrir hokur á Nesi og að Nesið sé lítið og lágt, þá streymir vatn úr öllum brynningarstöðum. Á meðan allir brunnar eru þurrir í Reykjavík, þá streymir vatn á þremur stöðum á Nesi. Þetta er til fyrirmyndar! Og til háborinnar skammar Reykjavíkurborgar.
Þarna hlupum við og sveittumst. Farið út að Gróttu, og suður eftir braut. Ritari ákvað að fara fyrir golfvöll, annað væri ekki boðlegt. Sumir hættu þar og styttu, en Flosi kom með fyrir golf, og Þorbjörg kom tifandi á eftir. Á óskilgreindum stað dúkkaði skransalinn upp og hafði óljósar skýringar á leið sinni. Farin sú leið tilbaka. Ritari kannast við sig á Nesi, einkum á Lambastaðabraut. Þar var skemmt sér á menntaskólaárum. Þá var drukkið volgt Bianco og hlustað á Hurricane með Bob Dylan.
Áfram tilbaka, hér var ritari orðinn þreyttur og fór stytztu leið. Pottur stuttur. Það verður eiginlega að fylgja annál þessum að þegar ritari fór úr Laugu mætti loks blómasali. Hann kvaðst hafa hitt frænku sína og þurft að taka hana tali. Dapurlegri afsökun fyrir slakri frammistöðu í hlaupi hefur vart heyrst áður. Próf. dr. Svanur kvaðst taka eftir því að meðlimir Hlaupasamtakanna færu ekki ávallt lofsamlegum orðum hver um annan, það væri talað um aumingja, fitubollur, einelti o.s.frv. Þetta væri hugsanlega rannsóknarefni í akademíunni.
Nú var safnast saman á Ljóninu og komu þar 10 hlauparar. Skálað fyrir stórhlauparanum Jörundi.
30.3.2011 | 20:59
Klassík
Enn þráast borgaryfirvöld við og halda til streitu stefnu sinni um að opna Vesturbæjarlaug kl. 11 á sunnudagsmorgnum, en kl. 9 á laugardagsmorgnum. Afgreiðslutímar eru þá 9-17 á laugardögum, en 11-18 á sunnudögum. Af hverju ekki að hafa þetta bara samræmt, 9-17 báða daga? Það er eins og það sé beinlínis meiningin með þessari aðgerð að torvelda menningarstarf Hlaupasamtakanna á sunnudagsmorgnum. Það þarf greinilega að herða andófið gegn þessu andmenningarlega athæfi, þessum fjandskap gegn elztu menningarsamtökum Vesturbæjarins, ef frá er skilin sjálf akademían.
Mættur allstór hópur hlaupara á miðvikudegi í aldeilis glimrandi hlaupaveðri, tiltölulega stillt, uppstytta og hiti 7 stig. Ekki held ég sé tilefni til að telja upp einstaka hlaupara, við Magnús sammæltumst um að fara stutt rólega, Hlífðarfót. Þorvaldur dróst á að dóla þetta með okkur líka. Þó er ekki rétt að tala um dól, því að við vorum með fremstu mönnum lengi framan af, alveg inn að Skítastöð, þar sem aðrir hlauparar stoppuðu og biðu frekari fyrirmæla, en við áfram með Gústa fyrir framan okkur. Hann ætlaði langt. Við vorum rólegir fannst mér, en samt voru hlauparar eins og blómasalinn og Biggi langt fyrir aftan okkur og urðum við aldrei varir við þá. Tempóið hefur verið 5:20 til 5:30.
Maggi sagði söguna af framförum í læknavísindum, að vísu með afbrigðum, en þetta er góð saga. Stoppað í Nauthólsvík og öðrum hlaupurum gefinn kostur á að ná okkur, en það gerðist ekki. Við áfram í Öskjuhlíðina, Flugvallarveg og hjá Gvuðsmönnum. Hér var ritari orðinn heitur og fínn og hnéð var til friðs. Gefið í við flugvöll og tekinn sprettur. Rólega það sem eftir var. Teygt á Plani og Pottur. Þar sem setið var í Potti mátti greina þá blómasala og Bigga í Sal og virtust þeir bæði þjáðir og vonsviknir.
Þar sem ritari ók bifreið sinni um Geirsgötu löngu eftir hlaup sá hann Gústa koma hlaupandi, greinilega hafandi farið 69. Nú fer að líða að því að fleiri hlauparar fara að fylgja honum inn að Elliðaám, því eins og sagði í fyrra pistli, er vorið komið og þá förum við að lengja.
27.3.2011 | 14:24
Vorið er komið
Nú er mótmælt þeim fyrirætlunum ÍTR að Vesturbæjarlaug opni dyr sínar ekki fyrr en kl. 11 á sunnudagsmorgnum, en við það verður slíkt rof á hefðum og starfsemi Hlaupasamtaka Lýðveldisins að fráleitt er að una við það. Á sunnudögum er ávallt lagt upp kl. 10:10 og hafa menn nýtt búningsaðstöðu Laugar til að skipta um og fara í hlaupagallann. Undirskriftalisti liggur frammi í afgreiðslu þar sem þessum fyrirætlunum er mótmælt og eru allir hlauparar hvattir til að setja nöfn sín á hann. Alger óvissa ríkir um hlaup næsta laugardags þegar umræddar hömlur á aðgengi að Laug hafa tekið gildi.
Mættir á sunnudagsmorgni: Ó. Þorsteinsson, Þorvaldur, Magnús, Jörundur, Einar blómasali, Biggi jógi, René og ritari. Veður gott til hlaupa, hiti um 5 gráður, stillt og þurrt. Ritari að koma enn og aftur til hlaupa eftir meiðsli og er vonandi að þetta sé nú liðið hjá og eiginlegur undirbúningur fyrir Laugaveginn geti farið að hefjast. Jörundur dökkbrúnn á lit eftir þriggja vikna dvöl á Kanaríeyjum, hlaup í sandi og rölt um nektarnýlendur. Okkur var sagt frá merkilegu sextugsafmæli í Akademíunni sl. sunnudag og var að sögn frænda míns einhver mesta veizla sem hann hafði setið. Þar voru mættir allir helztu bógar hugvísindamála í landinu.
Við ákváðum í ljósi ástandsins að fara bara rólega í dag. Nú bregður svo við að þeir Einar og René taka á rás og fara á undan öðrum, Þorvaldur í humátt á eftir þeim. Á meðan tökum við hinir því rólega og förum fetið. Það var farið í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála varðandi ráðningu í starf í forsætisráðuneyti, þar sem Jóhanna hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ákvörðun sína. Málið var greint í persónufræðilegu perspektívi í formi vísbendingaspurninga þar sem viðstöddum reyndist harla torvelt að fikra sig í átt að niðurstöðu. Vorum við komnir alla leið inn í Nauthólsvík áður en gátan fékk lausn sína. Nú hélt Formaður skammaræðu yfir viðstöddum fyrir lélegan bakgrunn í persónuþekkingu og líklega yrði nauðsynlegt að halda kúrs í persónufræði fyrir Hlaupasamtökin.
Nú voru René og Einar blómasali löngu horfnir og Þorvaldur sneri tilbaka til þess að verða okkur samferða. Við fórum hefðbundið í Kirkjugarð þar sem staldrað var við stein vinar okkar, Brynleifs, og Jörundur sagði okkur frá bréfi sem Brynleifur skrifaði Oddi Björnssyni á Akureyri og falaðist eftir birtingu greinar í gamla Fálkanum, sérstakri Akureyrarútgáfu. Biggi og Jörundur rifjuðu upp minningar úr gömlum Laugavegshlaupum og vonda veðrinu sem þar geisaði 2006 þegar Jörundur særði pulsuna út úr Pétri Blöndal.
Maggi kom öllum á óvart með því að velja sér nýtt tré á óvæntum stað og vissu menn ekki alveg hvernig ætti að taka því. Og ég sem hélt ég þekkti manninn! Naglar hittust í gærkvöldi og stilltu saman strengi sína yfir Dirty Harry mynd, bjór og flatböku. Ritari dró fram Melaskólabókina og þar var legið yfir myndum, en margir af félögum Hlaupasamtakanna hafa farið um ganga og stofur Melaskóla. Þar mátti m.a. sjá Magga og Línu og fór ekkert á milli mála hver þau voru. Einnig voru Ólafur ritari og Einar blómasali á sínum stað, þá þegar farnir að sýna ákveðin drög að ytri ásýnd sem nú er þekkt í Vesturbænum.
Veðurstofuhálendið var á sínum stað og þaðan hallar undan fæti í átt að Hlemmi og eftir það liggur leið niður á Sæbraut. Vill þá svo skemmtilega til að þeir René og blómasalinn dúkka upp hafandi hlaupið Þriggjabrúahlaup og komu nú á fullri ferð og slógust í för með okkur á Sæbraut. Hér var örlítið farið að draga af mönnum og var þá bara farið hægar. Tónlistarhúsið að verða klárt, rammarnir skríða upp veggina og eru glerjaðir jafnóðum. Hópur Kínverja voru við ljósin þar sem við förum yfir og hentu gaman að fremstu hlaupurum, hlupu með þeim og hrópuðu og híuðu.
Geirsgata og Ægisgata, þaðan var stutt til Laugar. Teygt vel á Plani. Í Potti sátu Mímir, dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, þekktir hlauparar án hlaupaskyldu. Ég upplýsti þá um að Ó. Þorsteinsson stæði í Útiklefa og segði einhverju grunlausu manngreyi söguna af Brynleifi Tobíassyni með hefðbundnum en einnig nýjum staðreyndavillum. Þó væri sú samkvæmni að sagan gerðist enn á þriðju hæð í húsi Menntaskólans á Akureyri, en dr. Einar Gunnar var í MA á þessum tíma, man atburði og hefur greint frá þeim.
Stundum er erfitt að fylgjast með samtölum í Potti. Það er eins og í Íslendingasögum, að mörgum sögum vindur fram á sama tíma. Samtöl geta þess vegna verið krisskross og erfiðleikum háð að gera upp við sig í hvaða samtali maður er staddur. Þó má segja frá því að Ólafur Þorsteinsson ætlaði að prófa vísbendingaspurningar morgunsins er varða mannval forsætisráðuneytis á dr. Baldri, en Baldur svaraði strax rétt við fyrstu vísbendingu - og þar með var afgangurinn ónýtur. En menn voru sáttir við hlaup dagsins. Lítur vel út.
16.3.2011 | 22:30
Hvar er blómasalinn?
Er von menn spurji og séu áhyggjufullir: hvar er blómasalinn? Hann mætti ekki til hlaups á mánudaginn þegar sérstaki sánkaði að sér fólki til spurnínga, og enn lýsti hann með fjarveru sinni í dag, er hörðustu Naglarnir mættu til hlaups í afleitu veðri. Að vísu skal þess getið að ritari hitti hann í Morgunlaug og lék hann á als oddi og virtist ekki hafa áhyggjur af framvindu mála. Kvaðst hann þá vera á leið til Agureyris að renna sér á skíðum ásamt með fjölskyldu sinni. Hafði hann um það góð orð að renna sér fyrri part dags, en hlaupa seinni part dags. Já, einmitt, kanntu annan? Mun þurfa að bíða endurkomu Jörundar áður en hægt verður að koma skikki á þennan óviðráðanlega hlaupara sem á að heita að sé að búa sig undir Laugaveg.
Mætt: dr. Jóhanna, Ósk, Þorbjörg K., Rúnar, Þorvaldur, Flosi, Bjössi, Maggi, próf. dr. Fróði. Ritari. Prófessorinn leggur mikla vinnu í að hylja andlit sitt þessi missirin og gefur þá skýringu að vel græðandi bankar gætu orðið á hlaupaleið hans, en sá grunur kviknaði að hér væri verið að forðast óþef þann sem fylgir hlaupafatnaði hjálparlausra karla sem ekki fá notið nærveru kvenna sinna og annast þvotta. Um þetta leyti upphófst mikil þefun, þefaði hver af öðrum og var það þeygi fögur sýn.
Veður stillt og virtist bjóða til ágætishlaups. Lagt í hann án þess að fá fyrirsögn þjálfara, en eftir á voru höfð orð um að fara Suðurhlíð. Þar gefast ýmsir möguleikar, ýmist að halda áfram eftir Stokk og hjá Gvuðsmönnum og ljúka 10 km eða fara Flugvallarveg út í Nauthólsvík og tilbaka um Ströndina og ljúka 13 km. Hætta var á að okkar minnstu bræður myndu freistast til þess að fara Hlífðarfót. Af þeirri ástæðu stillti Rúnar þjálfari sér upp við Skítastöð og beið eftir eftirlegukindum til þess að leiðbeina þeim og hvetja áfram til góðra verka.
Færi sæmilegt á leið út í Nauthólsvík, og út að Kringlumýrarbraut, en upp Suðurhlíð var vonlaust færi. Hér var ritari orðinn einn og barðist þetta áfram af þrjóskunni. Upp að Perlu og svo niður stokk. Það skal viðurkennt að er hér var komið var kuldinn slíkur og mótvindur, að það hvarflaði ekki að ritara að fara út í Nauthólsvík, eins og fyrir hafði verið lagt. Vinstri hönd við það að detta af fyrir sakir kalskemmda. Nei, þá er ekki um annað að ræða en að halda áfram hjá Gvuðsmönnum og vestur úr til Laugar. Gekk bærilega, en ég varð að hafa vinstri hönd í jakkavasa til þess að forða henni frá kalskemmdum. Mikið dj... var kalt á þessum kafla!
Það vakti athygli viðstaddra í Potti að Björn mætti í pott með rauða sundhettu. Menn mátuðu þetta við aðildarskilyrði að Naglaklúbbnum og Clint Eastwood-klúbbnum, og voru í vafa. Spurt var: Björn, myndi Clint Eastwood nokkurn tíma ganga um með rauða sundhettu? Þá fylgdi langur kafli úr ævisögu Clints og í beinu framhaldi af því þekktustu díalógar úr Dirty Harry, sem Björn hafði á takteinum. Þetta var indæl stund sem ævinlega og aðeins trufluð af þeim verkefnum sem bíða félagsmanna í persónulega lífinu.
13.3.2011 | 16:49
Vísbendingaspurningar til hægri og vinstri
Félagar í Hlaupasamtökunum eru beðnir um að leggja 14. apríl á minnið, því að stundvíslega klukkan 16 þann dag verður runnið skeið í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Þar gefst okkur færi á að hlaupa 7 eða 3 km í félagi við háskólaakademíuna og getum miðlað mikilli yfirsýn og þekkingu á hlaupum. Að skipulagningu hlaups kemur Formaður til Lífstíðar, Ó. Þorsteinsson.
Annars var létt yfir mönnum á þessum sunnudegi, þeir sátu í Brottfararsal, Ó. Þorsteinsson og Þorvaldur er klukkuna vantaði 10 mín. í 10 í morgun og fengu vart hamið sig fyrir eftirvæntingu. Við bættust ritari, Flosi, Maggi, blómasalinn og Biggi. Góð þátttaka, þar af fjórir sem ætla Laugaveginn í sumar og því ekki seinna vænna að fara að gera eitthvað seríöst í þeim málum.
Veður ágætt, en færðin afleit, ekkert verið rutt lengi af stígum og er kom fyrir flugvöll var vart hægt að komast áfram. Það var því farið afar hægt yfir í dag, og það var líka allt í lagi. Eðlilega var mikið rætt um skólamál í borginni og ófarir fulltrúa hreppsnefndarinnar á fundum með fólkinu sem kaus hana. Nú þegar Biggi er farinn að hlaupa með okkur aftur er byrjaður venjubundinn hávaði á hlaupum. Í Nauthólsvík var sögð falleg saga af Halldóri Hansen lækni.
Sögð vísbendingaspurning: spurt er um mann og dóttur hans, frá fæðingu mannsins að dánardægri dótturinnar liðu 171 ár. Ó. Þorsteinsson hafði ekki svör við spurningunni, jafnvel þótt bætt væri við fleiri vísbendingum, en engum bílnúmerum. Minnir um margt á Ástu Þórbjörgu Beck sem lést fyrir fáeinum vikum, 173 árum eftir fæðingu föður hennar, Hans Jacobs Becks. Á endanum var ljóstrað upp að hér var spurt um Tryggva Gunnarsson og Maríu dóttur hans.
Það var farinn Laugavegur og menn voru að myndast við að telja tóm verzlunarrými, en ég held það hafi misfarist. Stöðvað iðulega til þess að skoða byggingar eða annað sem vakti áhuga. Farið um Miðbæ og Austurvöll. Í Potti voru auk hlaupara Mímir og dr. Baldur. Þar var haldið áfram með vísbendingaspurningar af ýmsu tagi.
Pistill Ritara | Breytt 14.3.2011 kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2011 | 20:49
Frost á Nesi
Fáir mættir í hlaup á föstudegi. Það voru próf. Fróði, Benzinn, Bjössi, Helmut, Ingi, Guðrún, Ólafur ritari, Denni og Rúna. Venju samkvæmt flugu ónot manna á milli, einkum vakti útbúnaður Fróða athygli, en hann var klæddur til Norðurpólsferðar, búið að pakka stuttbuxunum niður. Við ákváðum í ljósi vindáttar að taka hring á Nesi. Fórum rólega í leiðindafærð upp á Víðimel og vestur úr. Á brautinni við sjóinn skall á okkur norðankylja og fylgdi okkur alla leið út að Gróttu. Eitthvað dró sundur með mönnum, en við sameinuðumst á ný við Gróttu, þar sem fremstu menn biðu okkar. Saman var farið fyrir Nesið, Bjarni, Fróði og Bjössi settu kúrsinn fyrir golfvöll, en við Helmut og Denni snerum tilbaka. Ekki höfðum við farið langt þegar Bjössi náði okkur móður og másandi og sagði að "þessir menn" væru geðbilaðir, færið afleitt og von á norðanstrekkingi frá horni Ness og góðan spöl tilbaka.
Við dóluðum þetta tilbaka, og þeir Bjössi og Helmut sneru við öðru hverju til þess að sækja Denna, sem fór á hraða sem er eiginlega ekki til í Hlaupasamtökunum, ekki einu sinni þegar ónefndur íbúi við Reynimel hleypur með okkur. Það var farin hefðbundin leið um Nesið, Flosaskjól og þá leið tilbaka. Við vorum bara nokkuð góðir. Teygt og pottur. Kaupmaðurinn kom í pott og Björn hélt ádíens um sundþjálfarann Vadim. Spá ekki góð fyrir morgundaginn, óljóst með hlaup.
Ritara barst eftirfarandi skeyti frá Jörundi: "Ströndin í morgun, nítján gráður, þrjár naktar fyrirsætur. Jöri."
7.3.2011 | 21:49
Þvælst um á Nesi - "...viljið þið reyna að ákveða ykkur!"
Þetta varð ævintýralegur dagur í lífi Hlaupasamtaka Lýðveldisins. Albrjálað vetrarveður með suðvestanstormi og snjókomu öðru hverju. Er komið var í Útiklefa var ekki þurran blett að finna þar. Ritari hafði allt á hornum sér af þessu tilefni, en fyrir í Klefa var Benzinn. Hann var búinn að sölsa undir sig snaga ritara og var svo óforskammaður að hreyfa sig hvörgi þótt eftir því væri leitað. Síðan tíndust menn hver af öðrum til Klefa: Helmut, blómasalinn, Maggi kom til að létta á sér, og á þessu gekk þar til gengið var til Brottfararsalar. Það er jafnan líkast því að Clint Eastwood gangi inn á bæjarbúlluna þegar Naglar úr Útiklefa mæta til hlaups í Brottfararsal: afgreiðslustúlkur falla í stafi, aðsteðjandi gestir fyllast ógn, og aðrir hlauparar fá skjálfta í knén af aðdáun yfir mannvali og hetjuskap.
Magga þjálfari fjarri góðu gamni, einhver nefndi Algarve. En aðrir mættir: Ósk, dr. Jóhanna, Hjálmar, Bjössi, Friedrich Kaufmann og nýr hlaupari sem ritara vantar nafnið á. Dr. Jóhanna tók að sér forystu í hlaupi og mælti fyrir um fjölbreytt hlaup á norðanverðu Nesi, inklúsive brekkuspretti. Rúnar mætti um það bil er við héldum úr hlaði og fékk engu breytt um plan dagsins. Snjór á jörðu og víða hált, og við lentum í vetrarveðri á leiðinni. Fólk var létt á sér og góður hugur var í hlaupurum. Menn lýstu furðu á að menn eins og próf. Fróði lýsti með fráveru í dag, maður sem úthrópar aðra sem "sólskinshlaupara" jafnskjótt og tækifæri gefst. Einhver sagði að sennilega væri hann upptekinn við að festa skíðin á göngugrindina.
Farið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, ritari með fremsta fólki, en blómasali aftarlega. Yfir á stíg með sjónum þar sem sjórinn gekk yfir í mikilfenglegum ham. Stígurinn þræddur vestur á Nes, en á leiðinni var ákveðið að fara upp í hverfið að norðanverðu, fyrsti sprettur upp íbúðargötu. Svo farið með stígum milli húsa, og jafnvel farið út í móa, afleita torfæru, grjót, dý og annað. Aftur komið inn á hefðbundna götu og farið að Bakkavör. Farið þar niður og svo sprett úr spori upp aftur. "Eigum við ekki að taka einar þrjár fjórar?" sagði Jóhanna liðsstjóri. En er upp var komið var hún greinilega búin að skipta um skoðun og hélt áfram í norðurátt, ekki fleiri Bakkavarir. Hér vonaði ritari að sprettum upp íbúðargötur væri lokið - no such luck!
Það var farið út á Lindarbraut og svo snúið tilbaka. Hér kviknaði vonin um að heimferðin yrði þægileg og átakalítil, en ég þekki greinilega ekki hugarheim dr. Jóhönnu nægilega vel. Hún átti eftir að þvæla okkur fram og tilbaka um Nesið, upp og niður íbúðargötur í blóðspreng slíkum að eitt skiptið henti eiginmaður hennar, Helmut, sér í götuna og æpti: "Ekki meir! Ekki meir!" En hlustaði Jóhanna? Hvað heldur þú, hlustandi góður? Viðstaddir töldu sig heyra hana segja "þetta er síðasta brekkan" þrimur sinnum áður en kom að hinni eiginlegu síðustu brekku.
Blómasali dapur framan af hlaupi, en lifnaði við eftir að hann fór að hitna og var farinn að taka vel á því í síðustu brekkum. Hann hafði líka haldið aftur af sér í bolluáti dagsins, en hans biðu fjórar bollur í bílnum og við þær var hugur hans festur allt hlaupið. Honum leist verr á miðvikudagshlaup, "þú veizt hvaða dagur er morgun" sagði hann við ritara. Ritari varar við því að menn fái sér baunir í hádeginu á miðvikudag, það hefur sýnt sig vera vondan grunn fyrir árangursríkt hlaup að kveldi. Treystið einum sem hefur reynt það.
Við lentum vægast sagt í ævintýralegu veðri á Nesinu í dag, það skiptist á uppstytta og snjóstormur með hagléli, á lokakafla hlaups var meira að segja útlit fyrir að síðustu menn yrðu úti eða þyrftu að grafa sig í fönn. Þeir sem fremstir fóru virtust hins vegar hafa litlar áhyggjur af þeim og héldu áfram hlaupi án þess að svo mikið sem líta við. Vart þarf að hafa orð á hverjir þessir síðustu menn voru.
Er komið var í Móttökusal var það niðurstaða hlaupara að hlaupið hefði tekizt gizka vel, hlauparar í misjöfnu ástandi og ólíkum þyngdarflokkum hefðu að mestu haldið hópinn og þannig hefði skapazt góður andi í hópnum, sem er aðal Hlaupasamtakanna. Slíkt mætti vera oftar. Teygt vel og lengi í sal. Blómasalinn kenndi nýja teygju sem dr. Jóhanna vildi læra. Hann leiðbeindi, en hún kvartaði yfir skítalykt. Einhver misskilningur varð uppi, en varanleg vinslit urðu ekki. Löng stund í Potti með frásögnum af útivistarferðum og hættuspili í vetrardýrð Íslands.
6.3.2011 | 15:24
Hvassviðri hindrar ekki hlaup á sunnudegi - hetjur á ferð
Það voru þrátt fyrir allt fjórir mættir til hlaups í því hvassviðri er ríkti að morgni þessa sunnudags. Þetta voru til að byrja með Ólafur Þorsteinsson, Flosi og Ólafur Grétar ritari Hlaupasamtakanna - og svo bættist Ragnar við á Ægisíðunni. Í Útiklefa urðu þegar miklar umræður um þær spurningakeppnir sem boðið hefur verið upp á nýlega þar sem spurningahöfundar virðast vera að færa sig æ meira upp á skaftið og verða aðalmyndefnið, en ekki keppendur. Einnig var til þess tekið að ónefndur blómasali sendi þá um morguninn skeyti úr sumarhöll sinni þar sem hann kvaðst dvelja í góðu yfirlæti og kæmist ekki í hlaup. Var ákveðið að gefa höll blómasalans heitið Skálkaskjól - og er við hæfi. Upplýst um niðurstöðu úr uppgjöri á dánarbúi Sigurðar Svans baðvarðar í Laug Vorri sem lesa má um í Lögbirtingablaðinu.
Hlauparar lögðu í hann og voru bara brattir. Undruðumst það að Þorvaldur skyldi ekki vera mættur, en hann lætur sig sjaldan vanta á sunnudögum. Urðum eitthvað varir við vind framan af hlaupi, en seinna var þetta mest í bakið og ekki til vandræða. Áframhaldandi umræða um spurningakeppnir og var það samdóma álit að þær væru að verða harla leiðinlegar og ekki það skemmtiefni sem þær voru hér á árum áður.
Fáir voru á ferli á þessum tíma, fáeinir hlauparar og hundeigendur. Hugsað til Jörundar sem er á Kanaríeyjum og verður sjötugur í mánuðinum. Staldrað við í Nauthólsvík og gengið um stund. Svo var haldið áfram í Kirkjugarð og enn var stoppað eins og hefðin býður, rætt um stöðu mála hjá knattspyrnudeild Víkings. Áfram um Veðurstofu og Hlíðar, Klambratún og Hlemm. Í þetta skiptið létum við nægja að fara Laugaveginn, enda löngu orðið tímabært að telja tóm verzlunarrými við götuna. Þau reyndust 13 ef mig misminnir ekki. Teknar út framkvæmdir við horn Austurstrætis og Lækjargötu, sem og í Kirkjustræti.
Hafði frændi á orði í lok hlaups að svona hlaup væru til þess að lyfta andanum og entist mönnum langt fram í vikuna. Í Pott mættu auk hlaupara dr. Baldur og dr. Einar Gunnar. Sá fyrrnefndi hafði fengið það heimaverkefni um seinustu helgi að finna eigendur þriggja bílnúmera sem og gerð og lit bifreiðanna sem báru þessi númer: R-45, R-46 og R-47. Hann hafði ekkert gert í málinu og var snupraður fyrir. Var nú verkefninu breytt í vísbendingaspurningar og þannig leitað að réttum svörum. Gekk það nokkurn veginn með góðum stuðningi annarra í pottinum. Undir lokin mætti svo frú Helga í pottinn og átti við okkur stutt spjall um persónufræði.
4.3.2011 | 21:21
Eru það bara karlrembur sem hlaupa á föstudögum?
Sá misskilningur var uppi í hlaupi dagsins að þar hlypu bara karlrembur. Ekki er gott að geta sér til um hvernig sá misskilningur hefur orðið til, en hann þarf að leiðrétta. Þessir voru: Þorvaldur, Flosi, próf. Fróði, S. Ingvarsson, Maggi, Bjössi, Benzinn, ritari, Vala, Rúna, Denni og Frikki. Veður fagurt, sól, 5 stiga hiti og einhver gjóla.
Menn furðuðu sig á því að prófessorinn skyldi vera á stuttbuxum, því SVO hlýtt er nú ekki orðið enn. Hann lét sér fátt um finnast og lét viðvörunarorð félaga sinna sem vind um eyrun þjóta. Ekki var staldrað lengi við, heldur lagt í hann, ekki voru lögð nein sérstök drög að hægri ferð, en tempó látið ráðast af líðan og ástandi hversu hratt yrði farið. Það var undarlegt ferðalag á Þorvaldi, sem enginn skildi. Hann sást hraða sér út með hafurtask sitt stuttu fyrir hlaup og lét ekki svo lítið að tilkynna hvað væri í gangi. Getgátur voru uppi um að hann hefði gleymt einhverju.
Hersingin af stað og bara á þokkalegu tempói. Er komið var áleiðis í Skerjafjörð dúkkaði Þorvaldur upp utan úr fjarskanum. En talandi um Þorvald þá upplýsti próf. Fróði að hann hefði þegar haldið fyrirlestur sinn yfir gamalmennum í Neskirkju þar sem móðir Þorvaldar var meðal áhugasamra áheyrenda. Ekki voru þó allir jafnáhugasamir, því að gömul kona á fremsta bekk sofnaði undir annars áhugaverðum fyrirlestrinum. Athygli vakti að prófessorinn gleymdi að láta vini sína vita af fyrirlestrinum, trúlega haldandi það að við myndum mæta þarna og vera með frammíköll og truflanir.
Nema hvað það dró í sundur með þekktum aðilum, við Maggi vorum rólegir, drógum uppi Þorvald á leiðinni og tókum hefðbundinn föstudagshring. Á þessu róli lentum við með Frikka kaupmanni, nafna hans af Nesi og Rúnu. Það var farið fremur rólega, enda menn þungir og þreyttir. Einkum var til þess tekið er Denni sagðist hafa þyngst um tíu kíló, væri allur aflagaður í vextinum og farinn að minna á blómasala.
Er hér var komið vorum við á Klambratúni og bara á þokkalegu tempói. Ritari setti stefnuna á Sæbraut, en þar fór norðangjólan heldur betur að láta finna fyrir sér og hvarflaði að manni að hér hefði prófessornum orðið kalt á spóaleggjunum sínum. En hlaup var gott og ekkert sem gat stöðvað fyrirætlanir ritara. Hann var orðinn einn um þetta leyti, en kaupmaðurinn og frú hans einhvers staðar að baki.
Farið um Miðbæ og Hljómskálagarð og tilbaka til Laugar. Þá voru flestir hlauparar komnir tilbaka, sumir höfðu stytt um Laugaveg. Teygt vel og lengi í Móttökusal og spjallað. Lögð drög að kvölddagskrá á Ljóninu. Í Útiklefa varð á vegi okkar glottuleitur blómasali, en ekki vitund iðrunarfullur, gat þó engar skýringar gefið á fjarveru, einhver nefndi þó í Potti að hann hefði hlaupið þá um morguninn. Heitur Pottur og þéttur og setið um stund.
Það var Fyrsti Föstudagur og stefnan sett á Ljón. Þar safnaðist saman góður hópur, auk þess sem Helmut og dr. Jóhanna voru þegar mætt og byrjuð að þjóra. Það voru pantaðar veitingar og áttum við þarna saman góða kvöldstund helztu gleðimanneskjur samtaka vorra. Hér komu upp vangaveltur um hvers vegna við værum stimpluð karlrembur á föstudögum og prófessor Fróði tók mikla rispu um fyrirhuguð hlaup í óbyggðum í sumar og taldi sig finna fyrir miklum stuðningi félaga sinna til þess.
Í fyrramálið: Samskokk í Grafarvogi.
28.2.2011 | 21:34
Gústi gamli öðlast nýtt hlutverk
Það var einkennileg tilviljun að umræða í Útiklefa skyldi snúast um gamalmenni. Þarna voru mættir ritari, Björn kokkur, Flosi, Helmut, Bjarni Benz og loks kom blómasalinn undirfurðulegur. Eins og menn geta ímyndað sér spratt geysilega frjó umræða sem snerist öll um ellina og allt það góða sem hlaup gera gamalmennum. Tóku menn dæmi af próf. Fróða, sem enn er hleypt út af Grundinni þótt búið sé að koma öðrum gamalmennum í bælið og þau látin kyngja svefntöflunum. Þá leikur hann lausum hala og hleypur, kominn hátt á sjötugsaldur (að sögn Rúnars), mjög ern fyrir sinn aldur, hefur fótavist og fer hjálparlaust ferða sinna.
Nema hvað, téður prófessor er mættur í hlaup dagsins. Auk hans sáust Jörundur, dr. Jóhanna, Ósk, Magga þjálfari, Frikki kaupmaður, Kári, Þorbjörg K., Maggi tannlæknir og svo tveir hlauparar sem okkur vantar nafnið á. Það var stífur sunnanvindur og Magga vildi fá mannskapinn í Bakkavörina, lengri leiðina. Ekki þurfti að endurtaka þessa þulu, heldur þusti hópurinn af stað og var bara kraftur í mannskapnum.
Farið upp á Víðimel og þaðan vestur úr, út í Ánanaust og svo á Nesið. Sumum lá meira á en öðrum og voru í fararbroddi. Varla þarf að nefna nöfn hér, en þó skal því til haga haldið að ritari var bara ansi brattur þar sem hann dró Magga með sér á þokkalegu tempói. Benzinn náði okkur og fór fram úr, skammt undan var Flosi en þar fyrir framan voru þekktir aðilar sem óþarfi er að hampa sérstaklega.
Er kom að Lindarbraut fóru hraðafantar upp á Brautina, en próf. Fróði, Bjössi, Flosi og einhverjir fleiri settu stefnuna á Neshring. Við Maggi fórum Lindarbrautina, það virtist rökrétt í stöðunni, Maggi másandi og blásandi og kvartandi og kveinandi, en ritari eins og fjögurra vetra foli. Það var ekkert slegið af heldur stefnan sett á Bakkavörina. Er þangað var komið voru þau fremstu að leggja í hann og verður að teljast furðulegt seinlæti að vera að drolla svona lengi og bíða með að taka sprettina. En við Maggi ákváðum að vera skynsamir þar sem við fórum 11,8 í gær og héldum bara áfram og settum stefnuna á Vesturbæinn.
Það var farin hefðbundin leið hjá íþróttavelli þeirra Nesverja og svo inn í hverfið og Lambastaðabrautina, þar sem ritari djammaði í húsi á áttunda áratugnum, drukkið hlandvolgt Bianco ad nauseam. En slíkt var fjarri okkur Magnúsi á þessum kafla, við vorum í góðum gír og drifum okkur í Vesturbæinn, fórum Flosaskjólið tilbaka og vorum bara nokkuð sáttir við góðan túr á fínu tempói. Teygt á Plani og farið í Pott.
Maður man nú ekki alla hluti sem sagðir eru í potti, en þó skal þess getið (og hér kallast frásögnin á við upphaf sitt) að próf. Fróða hefur verið boðið að halda fyrirlestur í Félagi eldri borgara í Neskirkju einhvern tímann í óræðri framtíð, þar sem uppleggið er hlaup. Þetta fannst viðstöddum nokkurn veginn trúlegt. Mun Rúnar þjálfari standa á bak við þetta uppátæki og meiningin vera að véla prófessorinn inn í hóp gamalmenna í Vesturbæ, þar sem hann á augljóslega heima. Vonast menn að hann fari nú að sættast við aldur sinn og fara að haga líferni sínu í samræmi.
Jæja, ekki færri en þrír félagar Hlaupasamtakanna verða í Leifsstöð í fyrramálið, en það kemur ekki í veg fyrir að haldinn verði Fyrsti Föstudagur næstkomandi föstudag! Vel mætt!