Færsluflokkur: Pistill Ritara
5.1.2011 | 22:22
Skráning að baki - þjálfun tekur rífandi start
Nokkrir úr Hlaupasamtökum Lýðveldisins gengu frá skráningu sinni í Laugavegshlaupið í morgun. Hér ræðir um þá Einar blómasala, Jörund, Flosa og ritara. Fleiri hafa sýnt þessu málefni áhuga, svo sem Björn Nagli. Í byrjun febrúar kemur svo í ljós hvort við hljótum náð fyrir augum aðstandenda hlaupsins og verðum valdir til þátttöku. En við höldum ótrauðir áfram með undirbúninginn og göngum út frá því að við munum hlaupa á sumri komanda.
Menn minntust fallins félaga, dr. Jóns Braga Bjarnasonar, prófessors í lífefnafræði, eins af upphafsmönnum hlaupa frá Vesturbæjarlaug.
Fjöldi hlaupara mættur til hlaups í dag. Magga þjálfari, Magnús, dr. Friðrik, Melabúðar-Frikki, Jóhanna Ólafs, dr. Jóhanna, Tumi, Flosi, ritari, Einar blómasali, Þorvaldur, Jörundur, Hjálmar, René, Bjarni, Bjössi og Albert. Frost 6 stig, en stillt veður og þurrt. Sól að hníga til viðar í suðri og himinninn afar speisaður á að líta. Nú fer sól að hækka á lofti og við munum merkja mun í hverri viku hvað við njótum lengri sólargangs. Það verður ljúft. Þjálfari mælti fyrir um langt hlaup í dag (henni finnst Þriggjabrúa langt!), en fyrst rólega út að Skítastöð. Ég veit ekki hvort sumir hlauparar eru skilningssljóir, en svo virðist sem þeim sé hulin merking orðsins "rólega", menn æddu af stað þegar á Ægisíðu eins og þeir ættu lífið að leysa og skildu okkur hina eftir í frostreyk.
Við félagarnir, Jörundur, blómasali og ritari, sórumst í fóstbræðralag vegna þess að við ætlum að feta Laugaveginn saman í sumar og ákváðum að halda hópinn á rólegu nótunum, til þess að undirstrika mikilvægi þess að fara rólega í byrjun (bæði byrjun hlaups og við upphaf þjálfunartímabils). Það var þetta hefðbundna 6 mín. tempó sem er svo ágætt byrjunartempó. Það gekk vel, en blómasalinn var afar þungur á sér, 94,5 kg, og útlistaði hann fyrir okkur matseðlana sem lágu að baki þessari miklu þyngdaraukningu. Jörundur lýsti yfir furðu sinni og jafnvel vonbrigðum með að maður sem þættist ætla Laugaveginn í sumar gæti ekki reynt að hafa betur taumhald á matarlystinni, sínum versta óvin! Slíkar vangaveltur bíta ekki á blómasalanum, hann heldur bara áfram að gera grein fyrir því sem hann hyggst snæða á næstu dögum.
Einhvers staðar á leiðinni náði Bjarni okkur, en jafnframt var Þorvaldur að dóla með okkur. Við gerðum harða hríð að honum þar sem spurn hefur borizt af því að hann spili bridge vikulega og eigi fyrir makker ekki ómerkari mann en sjálfan Vilhjálm Bjarnason. Þessu hefur Þorvaldur haldið leyndu fyrir okkur þrátt fyrir að oftar en ekki sé rætt um Vilhjálm í löngu máli á sunnudagsmorgnum. Þorvaldur varðist fimlega og vildi gera sem minnst úr þessari spilamennsku V.B. Hann væri í bezta falli aukamaður.
Bjarni var ólmur eins og unghross og vildi keyra upp hraðann, en við þremenningar og vinir létum ekki spilla áður gefnum heitum og dóluðum þetta áfram rólega. "Á nokkuð að fara hratt í Brekkuna?" spurði Jörundur. Átti hann við Boggabrekkuna, sem er löng og erfið. "Nei, nei, við förum þetta rólega," svaraði ritari. Blómasalinn dróst smásaman aftur úr, en Bjarni reyndi sem fyrr að keyra upp tempóið. Er komið var í Brekku varð Jörundur viðskila við ritara, sem hélt jöfnum hraða upp brekku með Bjarna, og blómasalinn rak lestina. Er upp var komið höfðu þeir hinir dregist aftur úr, en við Bjarni gerðum stuttan stanz efra og héldum svo áfram, trúðum því að þessir ágætu hlauparar myndu ekki einasta hlaupa okkur uppi, heldur tæta fram úr okkur og skilja okkur eftir í fullkominni spælingu.
Áfram um Útvarpshæð, yfir Miklubraut og út á Kringlumýrarbraut. Er komið var niður hjá Fram-heimili stóðu þeir tveir uppi á brúnni og hrópuðu: "Ekki fara svona hratt!" Við hægðum lítillega á okkur og biðum þess að þeir skiluðu sér, en þegar það gerðist ekki var tempóið sett upp aftur og við stikuðum stórum niður Kringlumýrarbraut og yfir á Sæbraut. Þar var bara gler á stígnum og mátti fara varlega. Það var orðið anzi kalt og svitinn farinn að kæla skrokkinn niður. En við héldum okkar striki og væntum þess að senn skiluðu blómasalinn og Jörundur sér. Það gerðist ekki. Bjarni fór um Ægisgötuna, en ritari fór Hljómskálagarðinn til þess að ná 14 km. Var bara góður alla leið og lauk hlaupi í góðum gír.
Í Sal voru nokkrir hlauparar (þessir sem eiga erfitt með að skilja "rólega") og teygðu. Ég hóf að teygja. Að lítilli stundu liðinni komu Jörundur og blómasali tilbaka, horfðu í kringum sig með brjálæðisglampa í augum og gnístandi tönnum: "Hvar er hann? Hvar er svikarinn?" Ritari faldi sig á bakvið súlu. "Við erum sko búnir að hugsa upp margar leiðir til þess að refsa honum fyrir svikin. Það var talað um að halda hópinn, og svo svíkur hann." Fá svör voru við þessum ásökunum, önnur en að þetta væri allt Bjarna að kenna, hann væri svo alvitlaus þegar kæmi að hlaupum.
Setið í potti um stund og rætt um Kasakstan og Borat. Vildi þá ekki betur til en svo að það voru Kasakstanar fyrir í pottinum, en þeir virtust ekki taka það nærri sér að menn ræddu heimaland þeirra á léttum nótum.
Næst er það svo Fyrsti Föstudagur. Blómasalinn tók því ekki fjarri að hýsa viðburðinn að þessu sinni og verður nánar greint frá því síðar með hverjum hætti þátttakendur geta lagt sitt af mörkum til þess að gera kvöldið að vel heppnaðri skemmtun. Í gvuðs friði, ritari.
3.1.2011 | 21:13
Alvaran hefst
Glæsilegur hópur hlaupara mættur til hlaups frá Vesturbæjarlaug á fyrsta mánudegi á nýju ári. Það var farið að kólna utandyra og blása af norðri og hálka að myndast á stígum. Það er við aðstæður sem þessar að menn finna hjá sér hvöt til þess að fara í hlaupagírið og taka á sprett í hópi vaskra sveina og meyja. Eðlilega var byrjað á að hrista skítspaða og óska gleðilegs nýs árs með þökk fyrir þau liðnu. Þetta telst bara sjálfsögð kurteisi. Að því búnu gaf þjálfari út instrúx um hlaup á Nes, það skyldu teknar Bakkavarir. Nú er um að gera að taka hlaupum af ábyrgð og alvöru því að undirbúningur fyrir hlaup ársins er hafinn.
Hlaupið rösklega upp á Víðimel og þaðan vestur úr, fremst var Magga, Jóhanna Ólafs, Ósk, Flosi, Helmut og dr. Jóhanna - á eftir skeiðaði ritari. Helmut kvaðst hafa leitað dauðaleit að ritara eftir Gamlárshlaupið með kampavínsflösku í hendi - en ekki fundið. Ritari trúði þessu mátulega. Hlaupið með ströndinni alla leið vestur á Lindarbraut og yfir á Suðurströnd. Þaðan var stefnan sett á Bakkavör og ekki var staldrað lengi við heldur teknar 6-7 Bakkavarir á rífandi tempói. Þar bættust fleiri hlauparar í hópinn, Bjössi, Ágúst, Kalli og Siggi Ingvars, dr. Friðrik, en fremstur fór Melabúðar-Frikki á ægilegu tempói, tók hvern sprett af fullum krafti. Einnig var fagnað endurkomu Hjálmars eftir langa fjarveru.
Eftir sprettina var farið yfir Valhúsahæð og niður á Nesveg. Hér var ritari kominn í félagsskap blómasala og við hófum að ræða matreiðslu. Fórum á ágætum hraða síðustu leið tilbaka. Menn fóru inn og teygðu í Sal vegna þess að það var farið að kólna úti. Af því varð mikill hávaði í sal, enda skvaldraði hver í munn á öðrum og var þetta líkt og í fuglabjargi. Fór svo að afgreiðslustúlkan sá sig tilneydda að þagga niður í okkur þar eð hún heyrði ekki til að geta afgreitt fólk sem æskti þjónustu. Var orðið við því af ljúfmennsku. Hér minntust menn Ólafs G. Björnssonar sem flæmdist á brott úr Sal, þar sem hann sat við lestur á sumarkvöldum, fyrir hávaðasömum óróaseggjum sem virtu ekki þörf fræðimanna fyrir ró og næði.
Í þetta skiptið var barnapotturinn fullur af heitu vatni, en búið að loka Örlygshöfninni. Það var ekkert verra, það skapast alltaf góður andi í barnapottinum og var setið þar góða stund og rædd ýmis mál rekstrarlegs eðlis.
Á miðvikudag kemur í ljós hvernig tekst til með skráningu í Laugaveginn.
31.12.2010 | 16:13
Metþátttaka í velheppnuðu ÍR-hlaupi
Hlaupasamtök Lýðveldisins áttu glæsilegan hóp í Gamlárshlaupi ÍR þetta árið, ekki færri en 22 hlauparar úr okkar hópi þreyttu hlaupið og voru til fyrirmyndar. Veður var afbragðsgott, þurrt, stillt og hiti um frostmark. Þátttakendur voru yfir 1000 og var stemmningin sem aldrei fyrr. Lagt upp frá mótum Hólavallagötu og Túngötu, hlaupið ræst með flugeldi. Svo mikill var fjöldinn að maður hljóp í hópi alla leiðina og var aldrei einn.
Var til að byrja með í samfylgd við blómasalann, en fljótlega gaf hann í og hvarf. Stuttu síðar dúkkaði Helmut upp með hatt og bakpoka. Í bakpokanum geymdi hann kampavínsflösku og við belti dingluðu nokkur glös. Ég ákvað að hengja mig á hann. Það gekk nokkurn veginn fyrstu fimm kílómetrana, en svo seig hann fram úr og hvarf.
Það var hált á hlaupaleiðinni og því mátti fara varlega. Brautarvarsla var með ágætum og hressandi að fá kalt vatn að drekka á drykkjarstöð. Það var farið að draga af manni á Suðurgötu og árangurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir er komið var í mark, en samt bærileg lok á hlaupaárinu. Ég hóf þegar brjálæðislega leit að Helmut og kampavínsflöskunni, en fann ekki. Það var farið að kólna og ég drattaðiðst heim á leið.
Ritari óskar lesendum bloggs gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju hlaupaári.
29.12.2010 | 22:04
Rólegt fyrir Gamlárshlaup
Allnokkur fjöldi hlaupara mættur til hlaups á miðvikudegi fyrir Gamlárshlaup ÍR. Margrét þjálfari albrjáluð og vildi að menn tækju á því, en skynsamir menn gengu á milli og töldu hóflegt að fara Hlíðarfót á léttu nótunum í ljósi þess að framundan væri keppnishlaup. Prófessor Fróði skimaði of alla kima og króka í leit að bandamönnum til þess að fara langt og rökstuddi það með því að "keppnishlaupið" á föstudag væri svo stutt! Honum fannst algert lágmark að fara Stokk, þrátt fyrir það illa orð sem fór af honum fyrir að skilja barnakennarann eftir einsamlan við Elliðaár sl. mánudag. Hér hlakkaði í prófessornum og hann viðurkenndi að þetta væri eitt af þessum velheppnuðu hlaupum þegar hann nær að draga velmeinandi hlaupara með sér sem lengst í austurátt og svo þegar hann er við það að leka niður er gefið í og viðkomandi hlaupari skilinn einn eftir i myrkri, kulda og hálku.
Jæja, það komu fjórir nýir hlauparar til brottfarar í dag og höfðu greinilega haft veður af tilvist Samtaka Vorra. Var þeim vel tekið sem venja er og boðið að hlaupa með okkur. Það var lagt upp á hægu nótunum í sömu vetrarblíðunni og ríkt hefur undanfarið, en í ljós kom að launhált var á stígum og mátti því fara varlega. Alltaf sama myrkrið á Ægisíðunni, en Pollýönnur hópsins bentu upp í himininn og sögðu: "Sko, sjáið þið hvað það er að birta!" Come on! Það er 29. des. Talið við mig eftir mánuð.
Það var dólað í rólegheitum framan af, en svo var náttúrlega bara gefið í, og vakti athygli hvað blómasalinn var sprækur í dag, þrátt fyrir að hafa ekki slegið slöku við jólaborðhaldið. Ritari dróst aftur úr enda staðráðinn í að halda sig við upphaflegt prógramm um að fara rólega. Fyrir framan voru Helmut, nýbúinn að innbyrða hlaðborð á Vox, og Guðrún Harðardóttir, hlaupari á framfarabraut. Þau hin voru einhvers staðar þarna langt fyrir framan og héldu þéttu tempói.
Er komið var í Nauthólsvík sást hópurinn beygja upp Fótinn, en prófessorinn og Helmut héldu áfram út í óvissuna. Menn lýstu yfir furðu á því að maður með svona mikinn hádegisverð í belgnum skyldi treysta sér lengra. En hvað um það, Hlíðarfótur. Þar beið Guðrún eftir ritara og er greinilega smituð af ærlegheitum Helmuts og fl. að bíða eftir okkur lakari hlaupurum. Við héldum hópinn tilbaka um hornið hjá Gvuðsmönnum, Þrjár brýr á Hringbraut og hjá Háskóla. Þá leið tilbaka. Við ræddum m.a. um frönskunám við Reykjavíkur Lærða Skóla.
Nokkur hópur á Plani og sagðar bænir. Svo var pottur. Þar áttum við langt samtal við kínverskan vin okkar um núðlubúskap í Kína og mismunandi tegundir núðlna. Einnig rætt um fylliorð í mismunandi tungumálum. Svo kom Björn kokkur með Guðjón bróður sinn sem búsettur er á Kúbu og voru fluttar lofgjörðir um Fídel sem hefur ávallt verið boðinn og búinn að senda lækna til svæða þar sem þeirra er þörf, svo sem á Haíti eftir jarðskjálftann þar fyrr á árinu og til svæða í Bandaríkjunum sem urðu fyrir eyðileggingu Katarínu, New Orleans o.fl. staða.
Nú þurfa hlauparar að skrá sig í Gamlárshlaup ÍR - Hlaupasamtökin stefna að því að vera með myndarlega sveit þar. Hlaupið hefst kl. 12, en hægt er að skrá sig á Netinu. Næsta hefðbundna hlaup Hlaupasamtakanna sunnudaginn 2. jan. 2011 stundvíslega kl. 10:10 frá Vesturbæjarlaug.
27.12.2010 | 21:42
"I am from Roma..."
Gríðarlegur fjöldi hlaupara mættur á mánudegi milli jóla og nýárs. Þeirra á meðal er ástæða til að nefna sérstaklega blómasalann og próf. Fróða, sem hafa ekki sézt lengi að hlaupum. Svo mikill var fjöldinn að það væri að æra óstöðugan að nefna hvern og einn. Verða þeir því aðeins kynntir til sögu að lögmál frásagnarinnar kalli á slíkt. Veður hreint með eindæmum gott, þurrt, stillt og hiti yfir frostmarki.
Rólega út að Skítastöð og sprettir á Nesi, þetta var dagsskipunin frá þjálfurum, sem voru báðir mættir, annar á reiðhjóli. "Má hlaupa af stað?" spurði blómasalinn ráðvilltur og horfði í kringum sig, líkt og hann þyrfti leyfi þjálfara til að leggja upp. Það var farið upp á Víðimel og sú leið í Skerjafjörðinn. Á leiðinni kom í ljós að það voru hélublettir hér og þar og ástæða til þess að fara gætilega.
Er komið var í Skerjafjörðinn héldu Flosi og Fróði áfram austur úr, Maggi og dr. Friðrik sömuleiðis, en við hin fórum vestur úr á Nes. Þar af vorum við blómasalinn og Jörundur afgerandi slakastir í dag og fórum hægt yfir, á 6 mín. tempói. Við vorum búnir að taka vel til matar okkar um jólin og var það skýringin á hægaganginum, en við vorum ánægðir að vera komnir af stað aftur og farnir að hreyfa okkur. Fórum rólega á Ægisíðunni, um Skjólin og vestur að Hagkaupum, snerum þar við og fórum niður á Norðurströnd og þá leið tilbaka. Hér var farið að planera Laugaveginn, en skráning í hann verður opnuð 5. jan n.k. og þá verða menn að vera við tölvuna! Þessir þrír ætla að skrá sig og fara með tjöld og flottheit í Mörkina. Sömuleiðis hefur flogið fyrir að vilji sé til að fara í Mývatnsmaraþon. Hvað sem öllu líður er ljóst að menn þurfa að fara að undirbúa seríösar æfingar á næstu vikum.
Jæja, það var teygt á Plani eins og venjulega. Farið í pott. Barnapottur lokaður og því farið í Örlygshöfn. Þar voru erlendir einstaklingar fyrir á fleti. Ritari teygði úr sér eins og hann er vanur að gera. Snerti víst kálfa á útlendingi, sem brást hinn versti við og bað um að vera ekki snertur. Ritari benti á að það væri óhjákvæmilegt að snerting ætti sér stað í sundlaugum á Íslandi og menn kipptu sér ekki upp við slíkt. Gestir hér mættu til að átta sig á því. Hér bætti Kári við: "When in Rome, do as the Romans do." Hér sagði hinn viðkvæmi: "I am from Roma..." og áttaði sig um leið á því að hann gæti ekki setið í potti á Íslandi og frætt innfædda og Vesturbæinga á því hvernig menn hegðuðu sér í potti í Vesturbænum. Eftir því sem fjölgaði varð snerting enn meiri og því ekki annað að gera fyrir Rómverjann en hverfa á braut.
Er komið var úr potti voru Flosi og Fróði ekki enn komnir tilbaka og því fróðlegt að vita hversu langt var hlaupið og hvert.
Næst hlaupið á miðvikudag, og svo Gamlárshlaup á Gamlársdag.
Pistill Ritara | Breytt 29.12.2010 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.12.2010 | 20:55
Einn illyrmislegur sermón um sólskinshlaupara
Enn var spurt: hvar var blómasalinn? Hvar var prófessor Fróði? Getur verið að nístingskuldi og norðanátt hafi haldið þeim frá hlaupi í dag? Um þetta var rætt í Brottfararsal er safnast var saman til hlaupa á þessum kalda og vindasama mánudegi í versta vetrarmyrkrinu. Mætt voru: ritari, Bjarni, Bjössi, Flosi, Karl, Þorvaldur, Magnús, Melabúðar-Frikki, Rúnar, Dagný, Ósk og Jóhanna Ólafs. Ekkert plan lá fyrir um hlaup dagsins svo að menn æddu beinustu leið niður á Ægisíðu og þaðan inn í myrkrið þar sem ekki sá handa skil.
Fremstir fóru vaskleikamenn, þeir Flosi og Bjarni, og Þorvaldur blandaði sér í keppnina. Ritari náði að hanga í þeim inn að flugvelli, en þá hurfu þeir, við Þorvaldur héldum hópinn og stefndum á Hlíðarfót, þar sem Dagný náði okkur. Þau styttu síðan þvert yfir hjá Gvuðsmönnum, en við hinir fórum rétta leið fyrir hornið á Vodafone-höllinni. Síðan voru farnar Þrjár brýr á Hringbraut, að Háskóla, Háskólagöng, Háskólatorg, Aragata og svo aftur niður á Ægisíðu og þannig klárað 10 km hlaup á 55 mín, 5:30 tempó eða þar um bil.
Aldrei varð ég var við aðra hlaupara í hlaupinu og veit ekki hvað þeir gerðu, en sá þá koma tilbaka nokkru á eftir okkur slefandi af kulda og illri meðferð. Var greinilegt að Rúnar hafði pískað þá áfram og látið þá hafa fyrir hlutunum. Teygt í Sal áður en haldið var til Potts, þar sem setið var lengi og sagðar sögur og rifjaðir upp staðhættir á Snæfellsnesi. Þar sátu engir sólskinshlauparar, heldur hetjur sem láta ekki nístandi gadd og norðanátt tefja hlaup. Næst hlaupið á miðvikudag: þá verður það enn verra!
1.12.2010 | 21:52
Laumast úr landi - ævisaga embættismanns
Er von menn spyrji: hvar er blómasalinn? Hvar er Gústi gamli á Grund? Frétzt hefur að blómasalinn hafi laumað sér úr landi án þess að mikið bæri á og ættu menn að hafa meiri áhyggjur af ferðalögum ritara. Mættir fyrstir á svæðið Björn matreiðslulistamaður, Bjarni Benzfræðingur og Ólafur ritari. Aldrei þessu vant fór bara vel á með þeim köppum og vakti það vonir um góðan og farsælan hlaupadag. Það sást til Þorvaldar, svo kom Flosi og Helmut og þá var þetta farið að verða verulega lofandi. Menn ræddu eðlilega um kosningar til Stjórnlagaþings, en að þessu sinni fóru þær umræður fram af stillingu, varfærni og virðingu fyrir skoðunum viðmælenda. Slíkt er fátítt í hópi vorum.
Svo var gengið til Brottfararsalar og þar sáust Magga, S. Ingvarsson, Ragnar, Flóki (með hund), Ósk og René á stuttbuxum. Kári var einnig mættur, en hvorki blómasalinn né Ágúst. Veður var með ágætum, 6 stiga hiti, nánast logn og færð góð. Ekki var staldrað lengi við á Plani, þangað mætti Rúnar þjálfari og hugðist ferðast áfram án hjálpartækja eins og reiðhjóls.
Það var dimmt á Ægisíðu, svo dimmt að við lá að við rækjumst á aðra vegfarendur á stígnum. En það var farið rólega og enginn asi á mannskapnum. Fyrr en komið var fyrir Skerjafjörð, þá fóru þessir vanalegu að setja upp hraðann. Ritari dróst aftur úr hverjum hlauparanum á fætur öðrum, en hafði verið býsna lofandi í byrjun. Loks var svo komið að ég varð að láta mér nægja félagsskap þeirra Þorvaldar og Kára.
Þannig var kjagað áfram í Nauthólsvík. Þar biðu eftir mér þeir höfðingjar Helmut og Bjarni. Þetta líkaði mér vel. Ég hef í seinni tíð velt fyrir mér þessum æðibunugangi sem einkennir hlaupin okkar seinni misserin, þar sem við lakari hlauparar erum skildir eftir einir og megum una við eigin félagsskap langar leiðir. Það sem gefur hlaupunum gildi er félagsskapurinn og samtölin. Hérna sýndu þeir félagar að haldin eru í heiðri hin fornu gildi og enginn skilinn eftir. Því var það svo að við héldum hópinn saman Suðurhlíð og Þorvaldur bættist við.
Ritari var undarlega þungur og þreyttur í dag og eins og orkulaus. Varð að hvíla inn á milli, ganga. Upp Suðurhlíð, hjá Perlu og þar mætti ég þessum öðlingum aftur, nema Þorvaldi, sem sá greinilega ekki ástæðu til þess að taka þátt í þessu félagslega hlaupi. Við niður Stokkinn og hjá Gvuðsmönnum. Tókum Þrjár brýr til þess að lengja örlítið svo að þetta aumingjalega hlaup gæti staðið undir nafni. Hjá Háskóla og tilbaka til Laugar. Teygt á Plani og rætt um einkenni hópsins, sem eru hógværð, sérhæfing, efagirni, en jafnframt þekking á eigin takmörkunum.
Pottur hefðbundinn, utan hvað Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti. Hún vill gjarnan njóta hins bezta af báðum heimum, hleypur með afburðahlaupurum, en blandar geði við skemmtilegt fólk sem hún finnur í hópi vorum. Einhverra hluta vegna barst talið að bloggi. Gat Sif þá upplýst að hún hefði fyrir þremur árum verið að velta fyrir sér Garmin málefnum, en ekki munað hvar fyrirtækið væri að finna hér á landi. Hefði hún gert það sem allir gera: gúgglað. Hún gúgglaði "Garmin". Kom þá upp setningin: "...illa þefjandi blómasali lagði frá sér Garmin úrið á stétt..." - og þá rann það upp fyrir Sif að líklega mætti óska sér meiri grandvarleika þegar ritun pistla í Samtökum Vorum er annars vegar.
Fyrsti Föstudagur: hvað gerist? Verður það Ljónið? Verður það heimilisböl hjá einhverjum í hópnum?
29.11.2010 | 20:49
Glerhált!
Fámennur hópur hlaupara mættur á mánudegi í prýðisveðri - en glerhált á götum og stígum. Magga, Maggi, Flosi, Siggi Ingvars, Karl Gústaf, Björn, Bjarni Benz, ritari, Ósk og Biggi. Rekistefna í Útiklefa yfir Stjórnlagaþingi, Benzinn og Bjössi lentu upp á kant hvor við annan yfir ólíkum sjónarmiðum um kosninguna.
Lagt í hann á rólegu nótunum, en hraðinn settur upp á Suðurgötunni og skeiðað út að Skítastöð. Þar skipti hópurinn sér, sumir tóku spretti á Nesi, aðrir héldu áfram í Hlíðina. Þeirra á meðal voru ritari, Benzinn, Flosi og Kalli. Fórum á hröðu tempói og drógum Magnús uppi í Nauthólsvík, hann hafði svindlað og stytt hlaup sitt. Hér héldum við Flosi og Benzinn áfram á sama hraða tempói en Kalli kaus að dóla sér með Magga. Sem fyrr segir var nokkuð hált og máttu menn gæta sín víða á leiðinni.
Það fór svo að ég hægði ferðina og leyfði þeim að halda sínum hraða. Fór hjá Gvuðsmönnum, tók Þrjár brýr, hjá Háskóla, Háskólatorg, Aragötu og aftur niður á Ægisíðu, náði þannig 10,8 km í kvöld á alveg þokkalegum hraða, 59 mín. Teygt á Plani og aftur upphófust orðahnippingar yfir Þinginu, en nú æstust leikar og menn að hækka róminn. Svívirðingar gengu á báða bóga, atvinnurógur og persónulegt níð. Þau hin höfðu tekið 10 400 m spretti á Nesinu og farið út á Lindarbraut. Góður hlaupadagur, synd að svona margir skyldu missa af hlaupinu. Vakin athygli á Fyrsta Föstudegi næsta föstudag - ætli það verði ekki bara Ljónið?
26.11.2010 | 21:27
Fjórir fræknir á ferð á föstudegi
Þeir voru ekki margir sem sáu ástæðu til þess að hlaupa með Hlaupasamtökum Lýðveldisins frá Vesturbæjarlaug á þessum fagra vetrardegi þegar himinninn skartar sínu fegursta og sólin er við það að hníga til viðar um það er menn leggja í hann. Þessir fjórir voru Þorvaldur, Flosi, Bjarni og ritari. Þar sem þessir menn eru allir geðprúðir þá ríkti mikil eindrægni, samstaða og bræðralag í Brottfararsal fyrir hlaup. Eitthvað var rætt um jólahlaðborð, en einnig bar á að fjarverandi hlauparar væru bornir þungum sökum fyrir það að taka drykkjuskap og matarát fram yfir heilnæma útiveru og heilbrigt líferni í hópi glaðværra miðaldra hlaupara. Hvað um það, hér skyldi hlaupið.
Farið afar rólega af stað og voru Flosi og Bjarni aftastir til að byrja með. Þorvaldur æddi áfram á undan okkur í hugstola tryllingi, en tók svo eftir því að við náðum ekki að fylgja honum, varð því að snúa við og sameinast okkur. Við skildum ekki alveg hvað var í gangi og voru settar á flot kenningar um að þessi hraði félaga okkar myndi skila honum síðar í mark en okkur hinum. Hélt hann þó uppteknum hætti og hljóp á undan okkur og var ólmur að leggja sem flesta kílómetra að baki sér á sem skemmstum tíma.
Smásaman var hraðinn aukinn og var hann orðinn þolanlegur í Skerjafirði. Maður fór að velta fyrir sér hvort þetta gæti haldið áfram svona, við skiptumst á að hafa forystuna í hlaupinu, en þó hafa sumir okkar ekki hlaupið um nokkurt skeið vegna vinnu í þágu þjóðarinnar á erlendri grund. Nú eru hlutir að breytast í Öskjuhlíðinni, það er búið að gera dónamönnunum erfitt um vik að athafna sig, grjóti velt fyrir akstursleiðir svo að nú geta hlauparar um frjálst höfuð strokið og hlaupið hættulaust um stíga og götur. Við upp brekkuna samkvæmt venju og dokuðum við eftir öftustu hlaupurum. Svo var það bara áfram um Veðurstofu og Hlíðar.
Hér fóru þeir Flosi og Bjarni að derra sig og fór það svo að þeir skildu okkur Þorvald eftir. Raunar lenti ég á rauðum ljósum við umferðargötur oftar en mér þótti fyndið og tafði það fyrir hlaupi. Svo var það bara Sæbrautin og hér leið manni harla vel. Farin Svörtuloft og Geirsgata, mig grunar að þeir hafi lengt, því ég sá þá ekki. Þorvaldur trúlega stytt. Við sameinuðumst á Plani og teygðum.
Í potti var ungur sveinn 18 mánaða gamall sem hélt uppi skemmtun og hændist mjög að þeim Bjarna og Kára sem bættist í pott, enda eru þeir meir í ætt við tröllkarla en venjulegt fólk. Sá ungi hefur trúlega haldið að hann væri staddur í ævintýri þar sem honum væri ætlað mikilvægt hlutverk. Það urðu nokkrar umræður um hvernig menn geta yfirgefið persónu sína við erfiðar aðstæður og horft á sjálfan sig utan frá. Var Kári skárri en enginn í því að greina frá fólki sem farið í gegnum ýmisleg hamskipti í þessum skilningi.
Fámennt en vel heppnað hlaup að baki.
25.11.2010 | 21:29
Flosi hljóp í dag
Ritari mætti í dag til Laugar og fann þar Flosa barnaskólakennara í fullu hlaupagíri, kvaðst hann ætla að lulla stutt hafandi steikt hlaupara gærdagsins á geðveiku tempói í Þriggjabrúa. Ég spurði hann hvort blómasalinn hefði farið langt. "Tja, hann fór álíka og við hin." Var þetta vegna þess að blómasalinn hafði lýst því yfir í sms-skeyti að hann hefði farið langt. Þriggjabrúa er ekki langt. Þriggjabrúa er tempóhlaup. Hér var maður afhjúpaður. En stúlkurnar fóru hratt að sögn Flosa, náðu honum á Kringlumýrarbraut og skildu hann eftir.
Er nú ekki að orðlengja það nema þegar ritari kemur út úr Melabúðinni hafandi höndlað til kvöldverðar ræðst téður blómasali að honum, rífur upp innkaupapokann og heimtar útlistun á því sem keypt var. Þar sem ritari er góðmenni útskýrði hann fúslega hvað var keypt og hvernig til stæði að matreiða herlegheitin, en meiningin var að elda gúllassúpu, enda nautagúllas á afslætti í dag. "Þetta er ekki nautagúllas! Þetta er beljukjöt!" sagði blómasalinn. Ritari tók upp hanzkann fyrir vin sinn Frikka Meló og sagði að þetta væri fínasta nautakjöt, UN-1, það gerðist ekki betra.
Næst gerist það að hlaupið verður á föstudegi hefðbundið og verður gaman að sjá hverjir mæta og hverjir kjósa frekar að nýta tímann til þess að láta traktera sig á ókeypis mat og drykk í boði Samskipa. Heyrst hefur að framundan sé mikill frami á síðum Dödens avis. Hvað merkir það?