Langt og erfitt -brýrnar reyndust fjórar þegar upp var staðið

Rætt um handbolta í Útiklefa, nema hvað. Þar voru nokkrir Naglar mættir, fleiri bættust við í Brottfararsal. Veður gott til hlaupa, og því var hæðst að ritara fyrir að vera með balaklövu. Sú afstaða átti eftir að breytast. Nú brá svo við að prófessor Fróði lét svo lítið að mæta til hlaups með okkur dauðlegum og notuðu menn tækifærið til þess að óska honum gleðilegs árs. Þarna mátti bera kennsl á dr. Friðrik, Jörund, Magga, Möggu, dr. Jóhönnu, Ósk, Albert, blómasalann, Birgi Þ. Birgisson sem er nýr félagi, Flosa, Bjössa, Benzinn, Þorbjörgu Karlsd. og ritara. Og einhverja fleiri, Kalla og Frikka í Melabúðinni. Kári sást á reiðhjóli utandyra, en hann var of seinn, hvatti okkur til að tefja ekki hlaup, hann myndi hvort eð er ná okkur.

Þriggjabrúa vaxandi var dagsskipunin. Ég spurði Jörund hvort ekki yrði bara farið hægt. Hann horfði á mig fullur efasemda og vantrausts, en lét svo tilleiðast að fara rólega með mér. Við vorum með öftustu hlaupurum frá byrjun, en fljótlega duttu dr. Friðrik og Maggi aftur fyrir okkur, en skammt fyrir framan okkur var blómasalinn. Ekki leið á löngu áður en við vorum búnir að ná blómasalanum, sem kvartaði yfir verk í hné, baki og höfði, nema hvað? Það var dólað þetta á 6 mín. tempói. Í Skerjafirði brast á með hríðarbyl og þá hlógu ekki þeir sem höfðu gert grín að höfuðfatnaði ritara. Jörundur heimtaði að fá húfuna mína því að hann væri gamall maður á eftirlaunum. Ég sagði það ekki koma til greina.

Fljótlega fundum við til þess að blómasalinn var farinn að detta aftur úr. Við hittum Birgi sem virtist þungur á sér, hann var í leit að sálufélögum sem mætti spilla. Einn auðspilltan fann hann í blómasalanum. Saman drógust þeir meðvitað aftur úr okkur svo að þeir yrðu ekki beittir þrýstingi í Nauthólsvík að halda áfram á Flanir, en gætu snúið inn á Fótinn og farið stutt. Kalli virtist einnig vera í leit að slíkum félagsskap. Vonandi hafa þeir átt gefandi samfélag um legginn hjá Gvuðsmönnum.

Um þetta leyti vorum við orðin þrjú: Jörundur, ritari og Þorbjörg og héldum jöfnu tempói í krapafæri. Yfir brú á Kringlumýrarbraut og þar fórum við að mæta ÍR hlaupurum sem komu á mikilli ferð. Upp brekkuna og fórum bara rólega þar. Yfir á ljósum, fengum grænt og svo beið okkar Útvarpshæðin, síðasti farartálminn. Tókum þetta léttilega og runnum greiðlega yfir brú á Miklubraut og hjá Framheimili og svo yfir á Kringlumýrarbraut.

Á Sæbrautinni fór þessi hlaupari að verða þreyttur, enda með aukakíló í farteskinu. Maður saknar þess að geta ekki drukkið vatn við póstinn. Við fórum um Miðbæ og Hljómskálagarð og þar var vakin athygli á því að brú er á einum stað í garðinum, sem gerir það að verkum að þetta er í reynd Fjögurra brúa hlaup. Síðasti kaflinn farinn á þrjóskunni, en mikill léttir að ljúka þessu. Ekki vitað um afdrif annarra hlaupara, annað en að þeir ætluðu sömu leið aðeins hraðar en við. Hins vegar fór prófessor Fróði 69 og lýsti hann yfir í potti að héðan í frá og út árið myndi hann hlaupa nýja leið í hverju hlaupi.

Í potti var hefðbundin uppstilling, utan hvað menn röðuðu sér í hálfhring og skildu eftir svæði fyrir prófessorinn þar sem við hin gætum horft á hann og gagnrýnt hann. Hér áréttaði ritari boð um Árshátíð í Viðey, en fáir hafa tilkynnt áhuga á þátttöku. Eru áhugasamir hér með hvattir að láta vita í síðasta lagi á föstudag hvort þeir vilja vera með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband