Mýrin

Hlaupasamtök Lýðveldisins eru ekki eingöngu samtök miðaldra og vinalausra karlmanna, þar hlaupa einnig ungar konur. Hlaupadagurinn í dag staðfesti þessi sannindi, því að þá mættu þær Magga og Ósk til hlaups, en að öðru leyti voru þetta miðaldra karlmenn og flestir vinalausir. Þarna mátti þekkja Jörund, Flosa, próf. Fróða, Karl Gústaf, Benzinn, ritara, Magga, Melabúðar-Frikka, Hjálmar, René og Ragnar. Veður gott, hiti um fjegur stig, vindstilla og stígar hreinir og þurrir að mestu.

Ekki færri en fimm Garmin úr úti í glugga Laugar og leituðu árangurslaust flest hver að gervihnetti. Ritari horfir eins og naut á nývirki á þessa nútímagripi og skilur ekkert tilganginn með svona appírötum. Hlaup eru fyrir honum fyrst og fremst náttúruupplifun og skiptir þá ekki máli hversu fljótt upplifunina tekur af. Ritari er ekki hlaupanörd. Engu að síður er hann skráður í Laugaveginn, en það er mest til heiðurs Jörundi sjötugum, og við erum nokkrir í Hlaupasamtökunum sem munum þreyta þetta merka hlaup í sumar. Undirbúningur er hafinn, en þó eru sumir í vondum málum, eins og blómasalinn, sem liggur fyrir þessa dagana með sýkingu og kemst ekki til hlaupa. Vona bara að hann fari ekki að halla sér að Lagavulin-flöskunni í eymd sinni.

Jæja, Magga þjálfari var beinskeytt í fyrirmælum dagsins, Þrjár brýr vaxandi. Prófessorinn maldaði eitthvað í móinn og leitaði að syndaselum sem væru tilbúnir að fara aðeins lengra, 20 km eða svo. Fáir virtust vera á þeim buxunum að fara með Fróða, svo hann hefur trúlega upplifað einmanaleika langhlauparans í dag, fór rúma 18 km. Aðrir Þriggjabrúa, nema hvað við eymingjar fórum Hlífðarfót með Hringbrautarafbrigði, þ.e. Þrjár brýr á Hringbraut. Þetta voru ritari, Maggi, Benzinn, Flosi og Jörundur. Við urðum strax á eftir þeim hinum og kom ekki til álita að fara lengra.

Við sem erum að koma tilbaka eftir meiðsli erum algerlega rólegir og förum bara fetið, stoppum og göngum jafnvel inn á milli og tímajöfnum. Samt vorum við Maggi og Benzinn nokkuð jafnhraðir og þá kom sagan hans Kára um lykilinn og skráargatið sem er ekki hafandi eftir. Þetta var einmitt móts við Háskólann í Reykjavík, þar sem Kári starfaði hér fyrrum. Ekki vil ég meina að við höfum farið hratt, en samt mun þetta hafa verið rúmlega fimm mínútna tempó, en í lok hlaups var staðfest að tempóið var að jafnaði 6 mín., með gönguhléum.

Eftir síðustu brúna yfir Hringbraut brá Benzinn á það ráð að skella sér í Mýrina norðan við Norræna húsið og við þeyttumst þar yfir á trébrúm og komumst heilu og höldnu yfir að Nordisk hus, þaðan í Aragötuna og svo upp á Suðurgötu og niður á Ægisíðu. Menn veltu fyrir sér hvar dr. Baldur byggi, en voru ekki öruggir með adressuna og voru þó allan tímann vongóðir um að gardínurnar myndu veita okkur lausnina. Þessi hringur skilaði okkur réttum 10 km. og vorum við allsáttir við það, allir meira eða minna heilsulausir og tæpir.

Jæja, nú var farið að kólna og aðeins teknar helztu teygjur á Plani og svo farið í Pott. Barnapotturinn var vel heitur og þar var setið í hátt í klukkustund. Bjössi kom af sundi, hefur óþægindi í hné og lætur nægja að synda. Það voru dregnar nokkrar sögur af veitingamönnum og fasteignasölum, en leigubílstjórar og fasteignasalar eru einhverjar óvinsælastar stéttir hér á landi og mætti færa til margar frásögur því til stuðnings. Svo tíndust þeir hver af öðrum í Pott, Frikki, Ágúst, Benzinn, og blómasalinn dúkkaði upp kvakandi eins og önd, en Hjálmar og Ósk köru að setjast í Kratapott. Svo kom Biggi öllum að óvörum, óhlaupinn en uppfullur af góðum vilja til þess að liðsinna blómasalanum í veikindum hans. "Þarftu ekki að komast til læknis, Einar minn? Ég þekki góðan dýralækni úti á Nesi, á ég ekki að sækja þig á morgun?" Einar blómasali afþakkaði gott boð, harla vel munandi þegar Biggi sótti hann hér um árið þegar hann fékk þursabitið, hélt á honum út í bíl og keyrði til kuklara sem sá ekkert annað ráð en að slá hann af.

Jæja, nú verður Jörundur sjötugur 31. marz, en svo skemmtilega vill til að daginn eftir, 1. apríl, er Fyrsti Föstudagur. Ágætt að menn hafi þetta í huga.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband