Týndur fannst, en fundinn hvarf...

Ritari hefur verið  fjarverandi Fósturjarðar ströndum undanfarna viku, og ekkert hlaupið sökum eymsla í ökkla, sem versnuðu við það að hann reyndi að hlaupa við erfiðar aðstæður og tognaði enn meir. Hlaupasamtökin stóðu fyrir vikulegu Föstudagshlaupi sínu í dag og var farið hefðbundið við erfiðar aðstæður og það allstíft. Ég mætti í pott á tilskildum tíma og sat þar þunglyndur þegar Kári og Anna Birna komu og léttu geð mitt. Áður en langt um leið komu fleiri hlauparar: Benedikt, Helmut, Einar óheiðarlegi, próf. Fróði, Sigurður Ingvars, dr. Jóhanna, Jörundur og Brynja. Þarna blaðraði hver í munn á öðrum og heyrðist ekki mannsins mál fyrir hávaða. Menn sögðu miklar frægðarsögur af hlaupi dagsins, og hlaupum undangenginna daga, sem hafa verið hvert öðru betra, þar sem menn hlaupa í blóðspreng með blóðbragð í munninum og við það að missa meðvitund sökum áreynslu.

Rætt um þjálfunarprógrammið og áformin framundan: hvað ætlar þú að gera? Hér hófu menn að greina frá væntanlegum afrekum sumars: Laugavegi, Mývatni, Reykjavík. Hvernig getum við bezt mannað Kommúnistana? Jörundur, vilt þú ekki koma inn í hópinn? Jörundur vill hins vegar ekki láta stimpla sig kommúnista, þykir nóg um að vera formaður Lúpínuhatarafélags Lýðveldisins. Og svo toppurinn: Berlín. Sigurður , ætlar þú ekki í Berín? Ha, ég, neeei, ætlar þú? Í ljósi þess að æ fleiri eru farnir að höndla fjaðurstafinn frásagnar í hópi vorum kom fram ábending um nauðsynlega aðgreiningu höfunda, og að rétt væri að titla ritara Aðalritara hér eftir, og hafin leit að heppilegri þýðingu á erlendum tungum: General Secretary á engilsaxnesku, Hauptschreiber á þýzku eða eitthvað annað viðeigandi sem Helmut finnur.

Setið lengi unz menn voru orðnir vel þyrstir og ekkert komst að hjá þeim annað en bjór, bjór, bjór. Rætt um nýtt hlaup: food and run, hvernig heppilegt væri að haga því. Ein hugmynd að menn hlypu einn kílómetra, drykkju einn bjór, annan kílómetra, ætu einn lifrarpylsukepp, o.s.frv. og sá sem ælir mest og oftast vinnur hlaupið (hugmynd frá Brynju). Önnur hugmynd frá dr. Jóhönnu var að efna til hlaups á vordögum upp í Mosfellssveit, hlusta ekki á veðurspá á hlaupadegi, efna í sveitinni til veizlu með mat og drykk, en sem kunnugt er eiga þau skötuhjúin sveitaróðal þar efra. Ekki slæm hugmynd.

Aðalritari er óðum að skána í fótnum og býst við að geta hlaupið á sunnudagsmorgun, ef það sé gott veður og farið hægt. En fyrst verður djammað! Í gvuðs friði.

Nafnlausar sögur af hlaupum

Svofelldlega hefur um verið rætt á rafrausi í tilefni hlaupa:

Enn er hlaupið.

Bezti hlaupadagur ársins í gær. Hægur sunnan, hlýtt. Mæting ágæt, en menn litu hver á annan, þegar í ljós kom, að suma hávaðasama félagsmenn vantaði til hlaups. Svo sem ekkert sérstakir hlauparar, en ágætir í félagslegu tilliti. Einhverjum varð á orði, að hópferð til Kanarí á vegum Félags eldir borgara í Reykjavík, kynni að skýra fjarveru sumra. Athugasemdin vakti undrunarsvip, en enginn virtist hafa neitt við þetta að bæta. Aðrir kunna að vera uppteknir í dómsal við þingfestingar.

Ágúst er að komast í fyrra horf, og hljóp all duglega, var í fararbroddi ásamt lærisveini. Þorvaldur og tannlæknir Magnús styttu um Bogahlíð og þóttust góðir, komust fremst, en Ágúst urraði upp úr eins manns hljóði; "þarna er Magnúsi rétt lýst, og hann hefur platað Þorvald með sér, þetta hefði hann ekki átt að reyna". Ég skeiðaði hljóður með Meistara mínum, enda ekki mitt að hugsa, heldur að hlaupa. Að sjálfsögðu náðum við þeim á miðjum Rauðarárstíg. Magnús reyndi að slá á létta strengi, til að þynna aðeins skap Ágústar. Það misfórst algjörlega. Hlupu menn þó sæmilega sáttir, hver á sínu tempói það sem eftir lifði, en hljóður var hópurinn. (Um hlaup 16.2. 2008).

Og enn þetta mánudaginn 19. feb. 2008:

Mánudagssprettur og Den forsvundne fulmægtig.

Nú háttar þannig til í Vesturbænum að vindurinn fer aðeins í eina átt í einu, svona oftast. Svo háttaði til í kvöld, þegar afar þéttur hópur var saman komin í anddyri VBL. Vil ég geta þess sérstaklega í upphafi að blik í augum stefnanda vakti strax athygli mína. Það var í þeim fastur ásetningur. Eitthvað stórt í uppsiglingu. Djarfur maður í hópnum mætti til hlaupa í stuttbrókum. Hugsuðu ýmsir sitt, en enginn sagði neitt. Hann var ekki með fyrstu mönnum aftur til laugar, og þótti víst einhverjum Snorrabúð stekkur. Norsk kona var sögð hafa slæðst í hópinn, lyfjafræðingur. Engum sögum fer af henni.  

Tungli náð á tröppum og skemmst frá að segja að karlar og konur, sem eigi voru ófáar, hlupu með bros á vör mót suðaustan. Sem fyrr óhlýðnuðustu sumir ströngum fyrirmælum þjálfara; settu í yfirgír strax á Suðurgötu og sást sá ágæti maður vart meir. Framhaldsskólakennari sagðist hafa orðið var við það þegar sá óhlýðni geystist fram úr honum. Ekki það að hann hefði séð hann, heldur heyrði hann þytinn. Menn í potti, eftir hlaup, settu upp spurnarsvip við þessi tíðindi.  

En kona ein ágæt, þýðversk að þjóðerni, gerði hvað hún gat að halda í við manninn þann. Tókst það bærilega. Hún dró hann uppi á miðri Ægisíðu, en hann hafði þá reyndar staðið þar og beðið, og var orðinn hálfkaldur þegar hún kom. Mátti hann síðan elta hana á "tiempo forte" út að Lindarbraut. Þau skiptust ekki á orðum fyrr en þangað var komið, enda taka þau hlaupin alvarlega, sem ekki verður þó sagt um alla. Eftir að yfir ásinn var komið og hillti undir Rekagranda, sést létthlaupandi maður framundan. Fjaðurmagnaður stíll, afslappaður. Nú, það er ekkert með það að utansveitarmaður reyndist þarna á ferð, ekki sérlega hraður í skrefinu, og alls ekki eins hranalegur og margur hefur fram haldið. En hann hljóp á táberginu, og slíkt er náttúrulega ekki boðlegt langhlaupara. Var honum bent á það. Eftir hlaup spurðust menn fyrir um skipakomur frá Kanarí, þaðan hefur ekki komið svo mikið sem eitt einasta bréf. Ég mun senda fyrirspurn á Klörubar, á morgun, hvort þar hafi nokkuð sést til "Den forsvundne fulmægtig".

Ritari meiddur. Í gvuðs friði.


Stóratáin stóðst prófið

Frost var tekið að herða um það er menn streymdu til Laugar að klæðast hlaupagíri á þessum afdrifaríka degi í sögu Borgarinnar. Ég rakst á Björn matreiðslumann, og Magnús hafði laumast í sturtu. Svo tíndust þeir (hlaupararnir) inn hver af öðrum: próf Fróði, Þorvaldur, Kári, Anna Birna, Einar blómasali (mjög stundvís, mætti stundvíslega kl. 17:30), Una, Þorbjörg, Margrét þjálfari, Helmut og Benedikt. Menn höfðu áhyggjur af færðinni nú þegar var farið að frysta ofan í hlákuna sem lofaði svo góðu í morgun. Ekki hindraði það þjálfarann í að gefa ordrur um hratt hlaup, langt og tempó! Ég held þessi manneskja sé enginn mannvinur, trúi því henni sé í nöp við miðaldra háskólaborgara eins og okkur, feita, vambsíða, einmana og þunglynda. Já, hér var enga miskunn að fá.

Nú skyldi reyna á Stórutá, sem hafði bilað í Helsinki. Byrjunin lofaði góðu,  engir verkir gerðu vart við sig, en eymsli í ökkla. Strax á fyrstu metrunum gerðum við okkur grein fyrir hvílíkt hættuspil hlaup var við þær aðstæður sem ríktu í dag: glerhálka. Ljóst var að menn myndu ekki taka neina spretti á degi sem þessum. Ja, nema náttúrlega Benedikt, sem leiddist þófið þegar menn biðu á Brottfararplani eftir að blómasalanum þóknaðist að láta sjá sig: Á ekki að fara að hlaupa? Svo var hann horfinn og sást ekki aftur fyrr en hann tók fram úr okkur aumingjunum á Hringbraut, meira um það seinna.

En það var sumsé haldið í hann. Ekki man ég til þess að neitt hafi verið sagt af viti, nema hvað Kári var að yrkja upp Sonatorrek og hafði nýstárlega útfærslu á kvæðinu. Prófessorinn og Björn voru beittir og héldu uppi nokkrum hraða - eftir á skilst mér að prófessorinn hafi ekki ráðið við hraðann, þ.e.a.s hann gat ekki stoppað og flaug bara áfram í hálkunni og óttaðist það eitt hvað gerðist ef hann reyndi að stoppa sig. Björn hins vegar var á fullu stími eins og eimreið og leit hvorki til hægri né vinstri. Við á eftir, Magnús, Þorvaldur, Helmut, Kári og ritari, og blómasalinn skammt undan. Beygðum af braut í Nauthólsvík og fórum Hlíðarfót, það virtist skynsamlegt miðað við aðstæður.

Ekki bötnuðu skilyrði þarna, því klakahella var yfir öllu. Þarna náði blómasalinn okkur og fór að fjasa. Það varð að fara varlega og því var ekki farið hratt yfir, enda menn komnir á miðjan aldur og hræddir við að brjóta útlimi. Af þessum sökum þarf ekki að koma á óvart að þegar við vorum komnir að höll Gvuðsmanna kom títtnefndur Benni skeiðandi utan úr fjarskanum og tætti fram úr okkur, eins og hann væri staddur mitt í vitstola tryllingu, fjarri allri meðvitund um nærveru annarra, sá aðeins fjarskann nálgast í óræðri firð. Við vikum til hliðar svo Benni kæmist áfram óhindraður. Svo var bara haldið áfram á hægum takti. Við óttuðumst það eitt að próf. Fróði og Björn næðu okkur - til þess kom þó ekki, gudskelov.

Fæturnir brugðust ekki þessum feita og þunga hlaupara sem er að koma út úr þremur Þorrablótum og 1,5 kg af saltkjöti og baunum. Með bólgna ferðatá. Hann skilaði sér hlaupandi á Móttökuplan. Fljótlega komu þeir einn af öðrum hlaupararnir, sveittir, móðir, en yfirmáta ánægðir með vel heppnað hlaup þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Teygt og beygt. Í potti var Vilhjálmur aðal umræðuefnið.

Það rifjaðist upp fyrir ritara nokkuð sem prófessorinn sagði um daginn þegar gengið var til klæðningar: Hvar væri maður án ykkar?

Nú heldur ritari til hlaupa á eyju við strendur Afríku og kemur næst til hlaupa föstudaginn 22. feb. Í gvuðs friði, ritari.   

Reuter sefur aldrei, hann er alltaf á vakt, og alls staðar

Hlauparar dagsins voru þessir: Ólafur Þorsteinsson, Einar blómasali, Magnús og Jörundur. Er spurt var um ástæður þess að landskunnur álitsgjafi var fjarverandi kom fjarrænt blik í auga Ó. Þorsteinssonar og einkennileg glýja færðist yfir andlitið. Jú, þá sagði hann það í óspurðum fréttum að V. Bjarnason ætti að mæta í Silfur Egils að ræða um hlutabréfakaup og ofurlaun. "Hvaðan er þér komin þessi vitneskja?" Nú varð okkar maður enn dularfyllri á svip og sagði: "Reuter sefur aldrei, hann er með upplýsingarnar."

Brunahringing um níuleytið í morgun. Ó. Þorsteinssyni er annt um að menn viti hversu vel tengdur og upplýstur hann er um það sem gerist innan borgarmarkanna. Hann spyr VB um Silfur Egils, en Vilhjálmur brást svo reiður við að hann skellti á Ólaf, eða þannig var sagan alla vega þegar hún var sögð í potti. Fjölmennt var í pottinum, ekki allir hlaupnir, auk ofannefndra: dr. Baldur og dr. Einar Gunnar, Kári og Anna Birna, og ritari. Viðstaddir heimtuðu að fá að sjá títtnefnda Stórutá ritara og var hún skoðuð í krók og kring. Jörundur kvað upp úr með að það væri aumingjaskapur að hlaupa ekki þótt lítilsháttar meiðsli gerðu vart við sig. Þegar ég fór úr potti til að fara að horfa á Vilhjálm var hrópað á eftir mér: Þú ert feitur og þungur, farðu að drullast til að mæta í hlaup! Kannski það verði af því á morgun. Í gvuðs friði, ritari.

Stórstreymt og hásjávað - veður fyrir hetjur

Það var ekki heiglum hent að hlaupa í dag, í arfavitlausu veðri, suðaustansnarvitlausum vindbelgingi svo stífum að 90 kg skrokki ritara var ekki óhætt á Brottfararplani þegar hann barðist þangað, laungu eftir að hlaup hófst. 6 stiga hiti, leysingar, bleyta, hálka, og annað eftir því. Um tíma stóð ritari kyrr og komst ekki lengra og hugsaði sem svo: hvaða vitleysingar skyldu hafa mætt til hlaups í dag? Inn kominn ræddi hann málið við Steinunni, og sér til mikillar furðu komst hann að því að tveir hefðu mætt til hlaups. Eftir mikið um og men gat hann togað upp úr Steinunni að það hefði verið Þorvaldur, og einhver annar sem hún hafði ekki nafnið á.

Nema hvað, þegar ég er kominn niður í klefa dúkka þeir upp Þorvaldur og Denni skransali af Nesi, blautir og illa til hafðir, en ákaflega stoltir. Þeir nánast lásu fyrir mér hvað standa skyldi í pistli dagisns, hetjur hefðu hlaupið 6,2 km og barist gegn öllum líkum (against all odds). Einkum var óskað eftir því að þeir sem það verðskulduðu fengju viðeigandi starfsheiti: Sólskinshlaupari, nánar tiltekið þeir sem ekki hlupu, öðrum fremur nefndur próf Fróði. Undanþegnir slíkri nafngift voru náttúrlega slasaðir menn og veikir eins og ég og blómasalinn.

Í potti sátu ritari og Denni, og svo birtist blómasalinn, og þarna sátum við í alvitlausu veðri sem bara færðist í aukana, og við hugsuðum um það eitt hvernig við ættum að koma okkur upp úr pottinum á ný. Staðfest að ritari væri undanþeginn hlaupum sökum meiðsla á Stóru tá. Svo bættist Skerjafjarðarskáld við og flutt vísan um Flosa:

Sagður er fróður séra Geir,
síst ég þessu hnekki,
en Flosi hann veit miklu meir
en man það bara ekki.

Svo barst talið að Jóni og séra Jóni - og rifjað upp samtal úr morgunpotti þar sem rætt var um Rússland, Pútín og Raspútín, og þá varð þetta gullkorn til: það er sitt hvað, Pútín og Raspútín, eða Rasspútín eins og séra Pétur var fljótur að finna út. En nú hverfur hann á slóðir Ármanns á Indlandi, næstu tvær vikur, hvílíkur léttir!

Næst morgunhlaup, sunnudag.  Í gvuðs friði, ritari.


Fallegt hlaup

Svo allrar sanngirni sé gætt skal fært til bókar að eftirtaldir, a.m.k., hlupu þennan sunnudagsmorgun: Vilhjálmur, Ólafur Þorsteinsson og Þorvaldur, auk þess var vitað af hlaupi Öl-hóps þar sem kennsl voru borin á Jörund og Gísla. Hlaup mun hafa verið fallegt sökum hins ákjósanlega veðurs og félagsskapar. Ýmsir voru mættir í pott, hvar af þessir eru nefndir: dr. Einar Gunnar, dr. Baldur, Mímir, Einar blómasali og ritari, og tveir þeir síðastnefndu kallaðir aumingjar fyrir að mæta ekki í hlaup. Annar meiddur á fæti, hinn kvefaður, báðir grunaðir um að hafa haldið sig fjarri hlaupi sökum óreglu.

Ó. Þorsteinsson upplýsti að hann mætti eyða tveimur klukkustundum daglega eftir framkomu Vilhjálms í fjölmiðlum til þess að útskýra fyrir fólki það sem þar var sagt. Á móti fullyrti VB að Ólafur læsi mjög gaumgæfilega öll blöð, og fylgdist með ljósvakamiðlum í þeirri von að reka augun í nafn sitt eða heyra það nefnt. Á þessu gekk um sinn.

Mér telst til að um 15 séu skráðir til þátttöku af okkar hálfu í Berlínarmaraþon, ýmist sem beinir þátttakendur, eða aðstoðarfólk. Ritari vonast til þess að vera orðinn góður í fótnum á miðvikudag, svo mjög að geta hlaupið, þótt ekki sé nema Aumingja. Í gvuðs friði, ritari.

Fyrsti Föstudagur í grimmdarfrosti

Nú eru samskipti manna í Hlaupasamtökunum að færast í samt lag og maður er farinn að kannast við sig eftir nokkurra mánaða þíðu og kurteisi: það var ráðist að ritara með fúkyrðum og skætingi, að vísu var ég ekki kallaður Framsóknarmaður, en öll hin orðin úr fúkyrðasafni Vilhjálms Bjarnasonar komu við sögu: drullusokkur, aumingi, landeyða og þannig fram eftir götunum. Mikið var það gleðilegt að sjá að gamli, góði Villi er að komast í sitt forna skikk. Tilefni skammanna var það að auglýsing VB um fund fyrir fátæklinga hafði farið framhjá ritara, og hann því ekki farið á fundinn sem mun hafa fjallað um það hvernig maður brýst úr fátækt til auðlegðar. Af þeim sökum verður ritari alltaf fátæklingur að mati VB - við það verður að búa og ekki auðvelt að breyta þeim örlögum. Helzta huggunin er að flestir ef ekki allir aðrir hlauparar í Samtökum Vorum létu þetta tækifæri framhjá sér fara og bíða þeirra því sömu örlög.

Í dag, Fyrsta Föstudag febrúarmánaðar á því Drottins ári 2008, var grimmdarfrost og mátti þakka fyrir að bílar færu í gang. En bjart og fallegt veður, stilla var á og landfastur ís við Ægisíðu og í Nauthólsvík. Ekki verður sagt að margir hafi verið mættir til hlaupa, miðað við mætingar undanfarnar vikur þegar á þriðja tuginn hefur sprett úr spori í boði Hlaupasamtakanna. Þarna var Ágúst, Kári, Einar blómasali, Bjössi kokkur, Rúna, Brynja, Denni skransali og ritari. Og Villi Bjarna, önugur. Að þessu sinni þótti okkur tryggara að vera í inniklefa sökum kulda, blómasalinn rámur af kvefi, söng eða öðru sem ekki fékkst uppgefið. Með símann límdan við eyrað eins og kýli og í djúpum viðskiptasamræðum, uppljóstrandi viðskiptaleyndarmálum fyrir okkur Kára - en á sama tíma klæddi hann sig í hlaupagírið meðan við Kári stóðum og hneyksluðumst á aðförunum. Svo kom Ágúst og hafði þungar áhyggjur af áhrifum kuldans á hin ýmsu líffæri.

Föstudagar eru góðir hlaupadagar, þá er hlaupið skynsamlega, engir þjálfarar til þess að spenna tempóið upp, og Ágúst komst ekki upp með að vera með einhverjar gloríur. Hann fékk að þétta þegar svo bar undir, og gat tekið þríhyrninga á völdum stöðum, en annars héldu menn hópinn. Til umræðu voru m.a. nýjar upplýsingar um fjöllyndi Þórbergs Þórðarsonar, sem greindi samvizkusamlega frá rekkjubrögðum sínum og -nautum í dagbókum sínum, eins og sagt er frá í bók Péturs Gunnarssonar, Í fátæktarlandi. Hingað til hafa menn ávallt tekið Framhjágönguna sem óbrigðult teikn um óframfærni og aulaskap Þórbergs í kvennamálunum. Menn urðu fír og flamme er hér var komð og ákváðu að lesa rit Péturs við fyrsta tækifæri.

Ekki fer framhjá neinum að nýr meirihluti er kominn til valda í Reykjavík. Helzta merki þess má sjá á göngu- og hlaupastígum, þar eru sprottnir upp gamalkunnir íshryggir eins og svo gjarnan mynduðust á Laugaveginum á sjöunda áratugnum þegar snjó var mokað upp á gangstéttir og gamalt fólk var að lappabrjóta sig þar sem það var að brjótast áfram veginn til að sækja ellistyrkinn sinn. Já, íhaldið er samt við sig. Þar sem ritari stjáklaði áfram við Flugvallarendann verður honum á að misstíga sig á íshrygg sem þar var og hlaut af meiðsl mikil. Hægði ferðina, bar sig þó karlmannlega, og þegar í ljós kom að báðir fætur voru enn jafnlangir var ákveðið að halda áfram, þótt haltrandi væri. Raunar skal viðurkennt að í aðdraganda meiðsla heyrði ég að Brynja kom skeiðandi á eftir mér og andaði hátt, ekki ósvipað Jóni hlaupara. Mér er ekki ljóst hvort þessi mikla öndun truflaði mig, en trúlega hefur hún orðið til þess að mér fipaðist lítillega. Ekki hvarflaði að mér að fara Hlíðarfót, nei haldið áfram upp Hi-Lux og þannig um Veðurstofuhálendið.

Einhver heimtaði að farinn yrði Laugavegur með þeim rökum að þar væri snjólaust. Þá sagði Ágúst: "Nei, það er stytting. Við förum Sæbraut." Þar við sat, farin Sæbraut. Gerð sæmilega heppnuð sjálfsmorðstilraun á Sæbraut þegar einhver æddi út á götuna móti rauðu ljósi og sjálfur Þorvaldur hefði verið fullsæmdur af. Hér tók ritari í taumana og stoppaði hina jólasveinana frá að reyna eitthvað álíka. Beðið eftir grænu og svo haldið áfram. Bjössi kominn langt á undan og bar hratt yfir. Sumir þéttu, ritari og blómasali fóru rólega yfir, ræddu um Þorrablót og saltkjötsát sem framundan er og verður ekki til þess að gera menn pundinu léttari.

Þrátt fyrir kuldann var þetta gott hlaup, og Kári skilaði sér í pott. Þá rifjaðist upp hvernig þetta var á mánudaginn eð var. Villi sagði: Gvuð gefi yður góðan séns í kvöld! Við þessu brást Ágúst með svofelldri upphrópun: Á mánudegi!!! Og þannig áfram eins og menn muna. Ekki meira um það. Setið í potti um stund, en ekki lengi, framundan var stund á Mimmanum. Í inniklefa furðuðu menn sig á því að í fatakaup Framsóknarmanna hefðu ekki inngengið nærbuxur, spruttu af því vangaveltur um hvort Framsóknarmenn gengju yfirleitt ekki í nærbuxum, skiptust á að ganga í sömu buxunum, og þá áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks af því að fá Framsóknarmenn til neyðarþjónustu. Hvaða úrræði yrðu til staðar til þess að þrífa viðkomandi. 

Á Mimmann mættu helztu hlauparar kvöldsins, og auk þess Magnús, sem kosið hafði að eyða eftirmiðdeginu, að því er menn sögðu, í að hagræða bókhaldinu hjá sér í stað þess að hlaupa með félögum sínum.  M.a.s. Vilhjálmur mætti og tók góða roku og veitti mönnum eftirminnilega yfirhalningu sem það verðskulduðu. Nú eru sumsé framundan Þorrablót og saltkjöt - og verður að koma í ljós hversu menn verða undir það búnir að þreyta hlaup á sunnudagsmorgun, auk þess sem meiðsli hafa gert vart við sig. Sjáum til.  

Á mánudegi!!!!?

Já, mánudegi. Það var hlaupið í dag, mánudag, frá Vesturbæjarlaug. Sem endranær var það hinn knái hópur úrvalshlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem safnaðist saman í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar og skemmti þar gestum og gangandi með hnyttilegum athugasemdum og gamansömu glensi. Það hefur færst í aukana að konur hlaupi með okkur þessi missirin, og ritari getur státað af því að þar sem hann sat við borðið út við norðurgluggann var hann um tíma umvafinn kvenfólki (það get ég svarið) og hefur slíkt aldrei áður gerst í þessum hópi. Ekki kom ég tölu á konurnar, og allt í allt vorum við líklega um tuttugu talsins, þar á meðal Vilhjálmur Bjarnason í góðum gír. Engir voru þjálfararnir í þetta skiptið, og var ekki laust við að ráðleysis gætti vegna þess. Því að þótt Ágúst sé tekinn til við þjálfun á ný, þá sér hann bara um þá ofurhlaupara Benna og Eirík, og blómasalann og ritarann í hjáverkum - aðrir njóta ekki góðs af reynslu hans. Hér voru góð ráð dýr. Veður hið albesta sem hugsast getur til hlaupa, stillt, svalt og ekki mjög hált.

Einhvern veginn komst hreyfing á hópinn og smásaman silaðist fólk af stað. Rætt um hvort við hæfi væri að kalla blómasalann blómasala öllu lengur þar eð hann hefur haft endaskipti á hlutunum, orðinn sjálfstæður atvinnurekandi (auðvaldsbulla, kapítalistasvín sagði einhver) - nú hlýtur að verða að fella niður starfsheitið blómasali og taka um virðingarheitið framkvæmdastjóri. Ekki fékk þessi tillaga miklar undirtektir, menn töldu óþarft að vera að breyta ágætu nafni sem auðvelt væri að muna.

Ákveðið að fara út að Kringlumýrarbraut á tempói sem hefði líklega orðið fyrir valinu hefðum við haft þjálfara með. Ónefndir Kaupþingsmenn fóru fyrir hópnum og settu á fullt, aumingja Ágúst reyndi að ná þeim en það var náttúrlega vita vonlaust. Einhverjar konur aumkuðu sig yfir hann og leyfðu honum að fara með sér. Það voru teknir sprettir öðru hverju, en hvílt á milli. Við Suðurhlíðar myndaðist svolítill kjarni: Helmut, dr. Jóhanna, Björn, Ágúst, Þorbjörg, ritari og blómasali og saman skeiðuðum við upp að Perlu. Niður stórhættulegan stokkinn og svo vesturúr. Menn fóru þetta mishratt eins og gengur og gerist, en komu þó nokkuð jafnsnemma til Laugar.

Rætt um hlýðna eiginmenn og óhlýðna, muninn þar á og mikilvægi þess að halda þeim aðgreindum svo að hlýðni smitist ekki á milli.

Fullur pottur og mikið rætt um hlutabréf og stöðu einstakra banka. Einhver (ég man ekki hver) lét drýgindalega og ýjaði að því að hann gæti orðið heppinn í kvöld. "Á mánudegi!?" hrópaði Ágúst, en sá sig svo um hönd og horfði skömmustulega í kringum sig, það gat varla verið gjaldgengt sjónarmið í þessu samhengi hvaða dagur vikunnar varð fyrir valinu.

Nema hvað: menn eru fullir kapps og stefna á að fara langt á miðvikudaginn, 18 km hægt. Og á föstudag er Fyrsti Föstudagur. Þá er skyldumæting á Mimmanum. Í gvuðs friði, ritari.


Hvernig rekur maður ketti á fjall?

Ritari ákvað að umstabbla forgangsröðinni hjá sér þennan daginn, sleppa hlaupi en gefa fjölskyldu tímann í staðinn. Af þeirri ástæðu átti hann þess ekki kost að fara með félögum sínum í hlaupi dagsins, sem var að sögn viðstaddra bæði fagurt og gjöfult. Þeir sem fóru stytzt fóru út að Suðurhlíð og þann legg, 10,1 km - aðrir létu sér ekki duga minna en Stockel (brautarstöð í Brussel, æ mig auman, ég er kominn með fráhvarfseinkenni!), 16 km.

Sjálfur sat ég í potti og vorkenndi sjálfum mér þegar fyrstu hlauparar komu tilbaka, Gísli, Þorvaldur, Jörundur, Einar blómasali, Kári, Anna Birna og Benni. Loks Sigurður Ingvarsson stórhlaupari, fleiri munu hafa verið í för, Helmut hitti ég í útiklefa og svo voru dr. Jóhanna og sjálfur Ágúst skammt undan. Áfram haldið umfjöllun um Berlín og hvort þar yrði hótel að hafa - e.t.v. yrði að fara að finna íbúð að vera í, leita á háskólavef einhverjum að Íslendingum sem tækju okkur inn.

Rúnar og Margrét voru einnig að hlaupi. Menn dáðust að úthaldi þeirra og þrautseigju að fást við þennan óstýriláta hóp. Jörundur upplýsti að hann hefði þegar í upphafi varað Rúnar við og sagt að hann myndi aldrei áður hafa fengist við svo erfiðan hóp einstaklinga sem Hlaupasamtökin. "Já," sagði Kári, "ég myndi frekar vilja reka ketti á fjall en reyna að hafa hemil á meðlimum Hlaupasamtakanna og fá þá til þess að fylgja settum fyrirmælum."

Góður rómur ger að orðum Kára og talið líklegt að hér væri komið gullkorn kvöldsins. Í potti rætt um hinn nýja Framsóknarflokk: Alfatah (jakkar að vísu með götum eftir hnífa í bakinu).

Tilveran er falleg! Í gvuðs friði, ritari.


Niðurbrotin sál mætir til hlaupa

Ritari var mættur til hlaupa að nýju eftir nokkra fjarveru. Honum mættu strax hnýfilyrði: átt þú hnífasettið sem stendur út úr bakinu á blómasalanum? Konur, sem mættar voru til þess að hlaupa, voru varaðar við honum og sagt að halda sig fjarri ef þær vildu ekki lenda á bloggsíðum Moggans með sakleysislegar athugasemdir sínar. En þó mátti innan um heyra hlý orð, e-r gekk m.a.s. svo langt að fullyrða að ritara hefði verið saknað! Trúlegt það, eða hitt þó heldur!

Jæja, nóg af þessu. Töluverður fjöldi mættur til hlaups. Enn og aftur voru mættar konur sem enginn kannaðist við og hétu allar Helga. Margrét var mætt eftir helgi í London þar sem hún sá leik Fulham og Arsenal. Helztu hlauparar mættir: Ágúst, Magnús, Friðrik, Þorvaldur, og svo nokkrir minni spámenn. Færi slæmt, snjóslabb, hálka og austanstæður vindur, stormur í aðsigi. Leiðindaaðstæður á Ægisíðunni. Þjálfari fór með þuluna, rólega út, tempó eftir Skerjafjörð og helzt út að Kringlumýrarbraut. Ég hljóp lengst af með Helmut, en hann hélt áfram eftir Nauthólsvík, ég beitti skynseminni og fór Hlíðarfót. Lenti þar með Þorvaldi, Þorbjörgu og Margréti - en ekki lengi, þau hurfu á blússandi tempói. Rætt um bifreiðastöður í Vesturbæ og víðar, nánar tiltekið þá tilhneigingu bíleigenda að leggja bílum hvar sem þeim dettur í hug, upp á gangstéttum, og helzt inni í mjólkurkælinum í Melabúðinni sé þess nokkur kostur, þannig að gangandi og hjólandi fólk kemst ekki leiðar sinnar. Hvimleitt virðingarleysi sem er útbreitt, algengt og óþolandi. 

Ekki lagði ég á minnið hverjir fóru hvaða vegalengd, en það truflaði mig lítillega að sumir hlauparar leika þann ljóta leik að fara langt og hratt, skilja félaga sína eftir í reyk, tæta fram úr hlaupurum sem fóru styttra - og gera þetta allt "af því að ég get það", algjörlega hunzandi það hvaða áhrif þetta hefur á okkar minnstu bræður og systur. Við verðum að muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar, sumir kunna að taka það nærri sér að vera niðurlægðir á þennan hátt. Menn ættu altént ekki að gera þetta að gamni sínu. Ég las Benedikt pistilinn á tröppum Vesturbæjarlaugar, en hann hefur aftur og aftur skilið Ágúst eftir einan með e-m minniháttar hlaupurum.

Í potti sýndi Ágúst hins vegar hvílíkt karlmenni og keppnismaður hann er. Hann lét sér fátt um finnast og sagði bara: Ég er að þjálfa Benedikt! Og Eirík. Hvar er Eiríkur, annars? Téður Eiríkur lá í potti þegar við komum, kvaðst vera meiddur. Þeir Benedikt geisuðu yfir versta degi í Kauphöllinni til þessa, ofan á þetta bárust hryllingssögur úr Ráðhúsi Reykjavíkur sem gerðu menn aldeilis stúmm. Athyglisverðar samræður um mínus óendanleika, recursion, og fleira gáfulegt. Svo mætti Skerjafjarðarskáldið og hélt ádíens. En ritari varð að yfirgefa vegna föðurlegra skuldbindinga, áður hétu menn því að fara langt á miðvikudag, alla vega Stokk. Og það hratt.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband