Niðurbrotin sál mætir til hlaupa

Ritari var mættur til hlaupa að nýju eftir nokkra fjarveru. Honum mættu strax hnýfilyrði: átt þú hnífasettið sem stendur út úr bakinu á blómasalanum? Konur, sem mættar voru til þess að hlaupa, voru varaðar við honum og sagt að halda sig fjarri ef þær vildu ekki lenda á bloggsíðum Moggans með sakleysislegar athugasemdir sínar. En þó mátti innan um heyra hlý orð, e-r gekk m.a.s. svo langt að fullyrða að ritara hefði verið saknað! Trúlegt það, eða hitt þó heldur!

Jæja, nóg af þessu. Töluverður fjöldi mættur til hlaups. Enn og aftur voru mættar konur sem enginn kannaðist við og hétu allar Helga. Margrét var mætt eftir helgi í London þar sem hún sá leik Fulham og Arsenal. Helztu hlauparar mættir: Ágúst, Magnús, Friðrik, Þorvaldur, og svo nokkrir minni spámenn. Færi slæmt, snjóslabb, hálka og austanstæður vindur, stormur í aðsigi. Leiðindaaðstæður á Ægisíðunni. Þjálfari fór með þuluna, rólega út, tempó eftir Skerjafjörð og helzt út að Kringlumýrarbraut. Ég hljóp lengst af með Helmut, en hann hélt áfram eftir Nauthólsvík, ég beitti skynseminni og fór Hlíðarfót. Lenti þar með Þorvaldi, Þorbjörgu og Margréti - en ekki lengi, þau hurfu á blússandi tempói. Rætt um bifreiðastöður í Vesturbæ og víðar, nánar tiltekið þá tilhneigingu bíleigenda að leggja bílum hvar sem þeim dettur í hug, upp á gangstéttum, og helzt inni í mjólkurkælinum í Melabúðinni sé þess nokkur kostur, þannig að gangandi og hjólandi fólk kemst ekki leiðar sinnar. Hvimleitt virðingarleysi sem er útbreitt, algengt og óþolandi. 

Ekki lagði ég á minnið hverjir fóru hvaða vegalengd, en það truflaði mig lítillega að sumir hlauparar leika þann ljóta leik að fara langt og hratt, skilja félaga sína eftir í reyk, tæta fram úr hlaupurum sem fóru styttra - og gera þetta allt "af því að ég get það", algjörlega hunzandi það hvaða áhrif þetta hefur á okkar minnstu bræður og systur. Við verðum að muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar, sumir kunna að taka það nærri sér að vera niðurlægðir á þennan hátt. Menn ættu altént ekki að gera þetta að gamni sínu. Ég las Benedikt pistilinn á tröppum Vesturbæjarlaugar, en hann hefur aftur og aftur skilið Ágúst eftir einan með e-m minniháttar hlaupurum.

Í potti sýndi Ágúst hins vegar hvílíkt karlmenni og keppnismaður hann er. Hann lét sér fátt um finnast og sagði bara: Ég er að þjálfa Benedikt! Og Eirík. Hvar er Eiríkur, annars? Téður Eiríkur lá í potti þegar við komum, kvaðst vera meiddur. Þeir Benedikt geisuðu yfir versta degi í Kauphöllinni til þessa, ofan á þetta bárust hryllingssögur úr Ráðhúsi Reykjavíkur sem gerðu menn aldeilis stúmm. Athyglisverðar samræður um mínus óendanleika, recursion, og fleira gáfulegt. Svo mætti Skerjafjarðarskáldið og hélt ádíens. En ritari varð að yfirgefa vegna föðurlegra skuldbindinga, áður hétu menn því að fara langt á miðvikudag, alla vega Stokk. Og það hratt.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband