Á mánudegi!!!!?

Já, mánudegi. Það var hlaupið í dag, mánudag, frá Vesturbæjarlaug. Sem endranær var það hinn knái hópur úrvalshlaupara í Hlaupasamtökum Lýðveldisins sem safnaðist saman í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar og skemmti þar gestum og gangandi með hnyttilegum athugasemdum og gamansömu glensi. Það hefur færst í aukana að konur hlaupi með okkur þessi missirin, og ritari getur státað af því að þar sem hann sat við borðið út við norðurgluggann var hann um tíma umvafinn kvenfólki (það get ég svarið) og hefur slíkt aldrei áður gerst í þessum hópi. Ekki kom ég tölu á konurnar, og allt í allt vorum við líklega um tuttugu talsins, þar á meðal Vilhjálmur Bjarnason í góðum gír. Engir voru þjálfararnir í þetta skiptið, og var ekki laust við að ráðleysis gætti vegna þess. Því að þótt Ágúst sé tekinn til við þjálfun á ný, þá sér hann bara um þá ofurhlaupara Benna og Eirík, og blómasalann og ritarann í hjáverkum - aðrir njóta ekki góðs af reynslu hans. Hér voru góð ráð dýr. Veður hið albesta sem hugsast getur til hlaupa, stillt, svalt og ekki mjög hált.

Einhvern veginn komst hreyfing á hópinn og smásaman silaðist fólk af stað. Rætt um hvort við hæfi væri að kalla blómasalann blómasala öllu lengur þar eð hann hefur haft endaskipti á hlutunum, orðinn sjálfstæður atvinnurekandi (auðvaldsbulla, kapítalistasvín sagði einhver) - nú hlýtur að verða að fella niður starfsheitið blómasali og taka um virðingarheitið framkvæmdastjóri. Ekki fékk þessi tillaga miklar undirtektir, menn töldu óþarft að vera að breyta ágætu nafni sem auðvelt væri að muna.

Ákveðið að fara út að Kringlumýrarbraut á tempói sem hefði líklega orðið fyrir valinu hefðum við haft þjálfara með. Ónefndir Kaupþingsmenn fóru fyrir hópnum og settu á fullt, aumingja Ágúst reyndi að ná þeim en það var náttúrlega vita vonlaust. Einhverjar konur aumkuðu sig yfir hann og leyfðu honum að fara með sér. Það voru teknir sprettir öðru hverju, en hvílt á milli. Við Suðurhlíðar myndaðist svolítill kjarni: Helmut, dr. Jóhanna, Björn, Ágúst, Þorbjörg, ritari og blómasali og saman skeiðuðum við upp að Perlu. Niður stórhættulegan stokkinn og svo vesturúr. Menn fóru þetta mishratt eins og gengur og gerist, en komu þó nokkuð jafnsnemma til Laugar.

Rætt um hlýðna eiginmenn og óhlýðna, muninn þar á og mikilvægi þess að halda þeim aðgreindum svo að hlýðni smitist ekki á milli.

Fullur pottur og mikið rætt um hlutabréf og stöðu einstakra banka. Einhver (ég man ekki hver) lét drýgindalega og ýjaði að því að hann gæti orðið heppinn í kvöld. "Á mánudegi!?" hrópaði Ágúst, en sá sig svo um hönd og horfði skömmustulega í kringum sig, það gat varla verið gjaldgengt sjónarmið í þessu samhengi hvaða dagur vikunnar varð fyrir valinu.

Nema hvað: menn eru fullir kapps og stefna á að fara langt á miðvikudaginn, 18 km hægt. Og á föstudag er Fyrsti Föstudagur. Þá er skyldumæting á Mimmanum. Í gvuðs friði, ritari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband