Fyrsti Föstudagur í grimmdarfrosti

Nú eru samskipti manna í Hlaupasamtökunum að færast í samt lag og maður er farinn að kannast við sig eftir nokkurra mánaða þíðu og kurteisi: það var ráðist að ritara með fúkyrðum og skætingi, að vísu var ég ekki kallaður Framsóknarmaður, en öll hin orðin úr fúkyrðasafni Vilhjálms Bjarnasonar komu við sögu: drullusokkur, aumingi, landeyða og þannig fram eftir götunum. Mikið var það gleðilegt að sjá að gamli, góði Villi er að komast í sitt forna skikk. Tilefni skammanna var það að auglýsing VB um fund fyrir fátæklinga hafði farið framhjá ritara, og hann því ekki farið á fundinn sem mun hafa fjallað um það hvernig maður brýst úr fátækt til auðlegðar. Af þeim sökum verður ritari alltaf fátæklingur að mati VB - við það verður að búa og ekki auðvelt að breyta þeim örlögum. Helzta huggunin er að flestir ef ekki allir aðrir hlauparar í Samtökum Vorum létu þetta tækifæri framhjá sér fara og bíða þeirra því sömu örlög.

Í dag, Fyrsta Föstudag febrúarmánaðar á því Drottins ári 2008, var grimmdarfrost og mátti þakka fyrir að bílar færu í gang. En bjart og fallegt veður, stilla var á og landfastur ís við Ægisíðu og í Nauthólsvík. Ekki verður sagt að margir hafi verið mættir til hlaupa, miðað við mætingar undanfarnar vikur þegar á þriðja tuginn hefur sprett úr spori í boði Hlaupasamtakanna. Þarna var Ágúst, Kári, Einar blómasali, Bjössi kokkur, Rúna, Brynja, Denni skransali og ritari. Og Villi Bjarna, önugur. Að þessu sinni þótti okkur tryggara að vera í inniklefa sökum kulda, blómasalinn rámur af kvefi, söng eða öðru sem ekki fékkst uppgefið. Með símann límdan við eyrað eins og kýli og í djúpum viðskiptasamræðum, uppljóstrandi viðskiptaleyndarmálum fyrir okkur Kára - en á sama tíma klæddi hann sig í hlaupagírið meðan við Kári stóðum og hneyksluðumst á aðförunum. Svo kom Ágúst og hafði þungar áhyggjur af áhrifum kuldans á hin ýmsu líffæri.

Föstudagar eru góðir hlaupadagar, þá er hlaupið skynsamlega, engir þjálfarar til þess að spenna tempóið upp, og Ágúst komst ekki upp með að vera með einhverjar gloríur. Hann fékk að þétta þegar svo bar undir, og gat tekið þríhyrninga á völdum stöðum, en annars héldu menn hópinn. Til umræðu voru m.a. nýjar upplýsingar um fjöllyndi Þórbergs Þórðarsonar, sem greindi samvizkusamlega frá rekkjubrögðum sínum og -nautum í dagbókum sínum, eins og sagt er frá í bók Péturs Gunnarssonar, Í fátæktarlandi. Hingað til hafa menn ávallt tekið Framhjágönguna sem óbrigðult teikn um óframfærni og aulaskap Þórbergs í kvennamálunum. Menn urðu fír og flamme er hér var komð og ákváðu að lesa rit Péturs við fyrsta tækifæri.

Ekki fer framhjá neinum að nýr meirihluti er kominn til valda í Reykjavík. Helzta merki þess má sjá á göngu- og hlaupastígum, þar eru sprottnir upp gamalkunnir íshryggir eins og svo gjarnan mynduðust á Laugaveginum á sjöunda áratugnum þegar snjó var mokað upp á gangstéttir og gamalt fólk var að lappabrjóta sig þar sem það var að brjótast áfram veginn til að sækja ellistyrkinn sinn. Já, íhaldið er samt við sig. Þar sem ritari stjáklaði áfram við Flugvallarendann verður honum á að misstíga sig á íshrygg sem þar var og hlaut af meiðsl mikil. Hægði ferðina, bar sig þó karlmannlega, og þegar í ljós kom að báðir fætur voru enn jafnlangir var ákveðið að halda áfram, þótt haltrandi væri. Raunar skal viðurkennt að í aðdraganda meiðsla heyrði ég að Brynja kom skeiðandi á eftir mér og andaði hátt, ekki ósvipað Jóni hlaupara. Mér er ekki ljóst hvort þessi mikla öndun truflaði mig, en trúlega hefur hún orðið til þess að mér fipaðist lítillega. Ekki hvarflaði að mér að fara Hlíðarfót, nei haldið áfram upp Hi-Lux og þannig um Veðurstofuhálendið.

Einhver heimtaði að farinn yrði Laugavegur með þeim rökum að þar væri snjólaust. Þá sagði Ágúst: "Nei, það er stytting. Við förum Sæbraut." Þar við sat, farin Sæbraut. Gerð sæmilega heppnuð sjálfsmorðstilraun á Sæbraut þegar einhver æddi út á götuna móti rauðu ljósi og sjálfur Þorvaldur hefði verið fullsæmdur af. Hér tók ritari í taumana og stoppaði hina jólasveinana frá að reyna eitthvað álíka. Beðið eftir grænu og svo haldið áfram. Bjössi kominn langt á undan og bar hratt yfir. Sumir þéttu, ritari og blómasali fóru rólega yfir, ræddu um Þorrablót og saltkjötsát sem framundan er og verður ekki til þess að gera menn pundinu léttari.

Þrátt fyrir kuldann var þetta gott hlaup, og Kári skilaði sér í pott. Þá rifjaðist upp hvernig þetta var á mánudaginn eð var. Villi sagði: Gvuð gefi yður góðan séns í kvöld! Við þessu brást Ágúst með svofelldri upphrópun: Á mánudegi!!! Og þannig áfram eins og menn muna. Ekki meira um það. Setið í potti um stund, en ekki lengi, framundan var stund á Mimmanum. Í inniklefa furðuðu menn sig á því að í fatakaup Framsóknarmanna hefðu ekki inngengið nærbuxur, spruttu af því vangaveltur um hvort Framsóknarmenn gengju yfirleitt ekki í nærbuxum, skiptust á að ganga í sömu buxunum, og þá áhyggjur heilbrigðisstarfsfólks af því að fá Framsóknarmenn til neyðarþjónustu. Hvaða úrræði yrðu til staðar til þess að þrífa viðkomandi. 

Á Mimmann mættu helztu hlauparar kvöldsins, og auk þess Magnús, sem kosið hafði að eyða eftirmiðdeginu, að því er menn sögðu, í að hagræða bókhaldinu hjá sér í stað þess að hlaupa með félögum sínum.  M.a.s. Vilhjálmur mætti og tók góða roku og veitti mönnum eftirminnilega yfirhalningu sem það verðskulduðu. Nú eru sumsé framundan Þorrablót og saltkjöt - og verður að koma í ljós hversu menn verða undir það búnir að þreyta hlaup á sunnudagsmorgun, auk þess sem meiðsli hafa gert vart við sig. Sjáum til.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband