15.3.2008 | 20:08
Vorið kallaði á mig
Að þessu búnu var hægt að leggja í hann, niður Dunhaga og út á Ægisíðu, þaðan hjólað austur að Kringlumýrarbraut og svo upp Suðurhlíðar og hefðbundið til baka. Það vakti athygli hve fáir voru á ferli í þessu undurfagra veðri - enn er sandur á brautum sem gerir línuskautafólki erfitt um vik að athafna sig og finnst manni alveg tímabært að borgaryfirvöld fari að vakna og hefji vorhreingerningar, því að VORIÐ ER HÉR! Ég gizkaði á að þetta hefði verið ca. 10 km túr - en svona veit maður ekki fyrir víst nema maður eigi Garmin. Ég á ekki Garmin. Bjössi á Garmin. Hann er námfús hlaupari og kokkur, ég fylgdist með aðdáun í gær þegar hann hlýddi á útskýringar Benna. Og hugsaði sem svo: úr því Björn getur lært þetta, get ég þá ekki líka lært á Garmin? Eiginlega er þetta alveg ómissandi tæki. Annars veit maður ekki hversu langt er farið, hversu hratt, púls og annað sem máli skiptir. Kannski maður fari að horfa í kringum sig...
Þó verður að segjast eins og er að það var örlítið kalt í dag og hálfgert gluggaveður. En hjólið mælist þegar kemur að því að skrá í hlaupadagbókina, sem ég vona að allir muni eftir. Kveðjur eru sendar frá Kína, Birgir fór út að borða og var tekin mynd af honum við það tækifæri og send upp á skerið.
Bloggar | Breytt 16.3.2008 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2008 | 23:07
Óheiðarlegur blómasali tekur á rás
Föstudagur, veður fagurt, gerist ekki betra, himinn heiður, vindur hægur, hiti 5 gráður. Menn voru enn ýrir af gleði yfir afmæli félaga okkar, Gísla Ragnarssonar, rektors Ármúlaakademíunnar, en hann fyllir sjötta áratuginn um þessar mundir, en ber aldurinn vel, er vel ern, les sjálfur og hefur fótavist, en þarf aðstoð við að klæða sig. Mættir: Þorvaldur, Helmut, Einar blómasali (mættur 16:2o), Kári, Bjössi, Brynja, dr. Jóhanna, Rúna, Denni, ritari, - þannig að það vantaði lykilpersónur, Magnús, Villa, próf. Fróða o.fl.
Menn voru einbeittir (ég skil ekki af hverju ég gleymi að nefna Benedikt) - Benedikt var á plani og leiðbeindi Bjössa um notkun Garmin 305 - blómasalinn kom blaðskellandi og tranaði sér inn í umæðuna með sína 101 útgáfu af Garmin sem styðst ekki einu sinni við gervitungl. Þarna stóðum við meðan Bensi fræddi Bjössa um stillingar, og aðrir voru farnir af stað. Ég lagði í hann og horfði á eftir Helmut, Jóhönnu, Þorvaldi og Kára - en sú uppstilling átti eftir að breytast. Á Ægisíðu heyrði ég fnæs að baki mér og tipl fóta - það voru Benni og Bjössi þegar þeir tóku fram úr mér. Áfallið kom hins vegar við flugvöllinn - og var þó farið hratt tempó - þá heyrði ég gamalkunnugt tipl - nei þetta getur ekki verið að gerast! Jú, blómasalinn kom skeiðandi fram úr mér og slóst í för með fremstu hlalupurum, Benna, Bjössa, Helmut og dr. Jóhönnu, og hélt í við mannskapinn, þrátt fyrir að hafa "gleymt" að borða í hádeginu, aftur.
Ég fékk félagsskap af Þorvaldi, við fórum hefðbundið, um Öskjuhlíð, um Veðurstofuhálendið, Hlíðar, Klambra, Hlemm, Sæbraut og þannig tilbaka, nema hvað Þorvaldur stytti um Laugaveg, ég fór fulla 11,5 km. Þar var reynt ítrekað að keyra á okkur, en við lifðum af. Hitti Denna við Kristskirkju, hann var lerkaður eftir Poweradehlaup í gærkvöldi og saman skeiðuðum við niður Hofsvallagötu. Denni upplýsti að hann hefði borgað 200 kr. þátttökugjald í hlaupinu, en væri á móti með boð upp á snittur og drykki í boði Powerade um kvöldið. Blómasalinn varð dularfullur á svipinn er hann heyrði þetta.
Í Brottfararsal voru helztu hlauparar dagsins og teygðu - engar skýringar fengust á frammistöðu blómasala, hann át ekki í hádeginu, en teigaði í sig orkudrykk fyrir hlaup. Við söknuðum ýmissa góðra hlaupara, svo sem próf. Fróða, Magnúsar, dr. Friðriks o. fl. Síðar kom í ljós að próf. Fróði komst ekki til hlaupa vegna mikilvægra starfa í þágu Lýðveldisins.
Í potti var legið um stund og kom í ljós að flestir hlauparar eru á leið til Akureyris, sem er bær norðarllega á Íslandi og tapaði í kvöld keppni menntaskólanema um um þekkingu. Mættur Vilhjálmur eftir að hafa hlaupið kringum flugvöllinn, en missti af okkur hinum vegna seinnar komu. Hann var bara rólegur og staldraði við góða stund og hélt uppi vitrænum standard á samræðunum.
Í gvuðs friði, ritari.
Bloggar | Breytt 15.3.2008 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2008 | 22:05
Vor í lofti
Hálfur hópurinn stóð úti á stétt að ná tungli. Þjálfarinn hafði á orði að miðað við hlaupahóp sem tæki hvorki tíma né púls væri merkilegt að annar hver maður væri með mælitæki á handleggnum sem væri tíu sinnum dýrara en Hagkaupsúrið sem hann á. Ég sagðist mundu aldrei nenna að eiga Garmin, ég nennti ekki að lesa leiðbeiningar, gæti ekki lært á það og myndi aldrei nota það. Áfram rætt um kosti þess að eiga Garmin, Björn er búinn að setja sitt í hleðslu, sem er fyrsta skref.
Hver skilar sér þá á Brottfararplan í rauðum jakka ef ekki þögli hlauparinn sem bara hleypur og segir ekkert. Mönnum var brugðið, en létu þó ekki á neinu bera. Bækur bornar saman og lagðar línur. Lagt í hann rólega enda löng leið framundan. Það teygðist fljótlega á hópnum, en ekki kom til þess að neinn setti í hraðagírinn, Benni var bara rólegur í sínum rauða jakka.
Ég hélt mig við Sjúl, dr. Jóhönnu og Helmut framan af, á tempóinu 5:40 - en svo var það orðið of erfitt og við Helmut vorum skildir eftir. Þau hin héldu áfram fjaðurmögnuð í hreyfingum og höfðu ekkert fyrir að halda þessu tempói. Ég var þungur á mér og verkjaði í skrokkinnn svo að ég var að hugsa um að stytta og fara upp á Stokk við Bústaðakirkju, en lét Helmut telja mér hughvarf og það var haldið áfram um Fossvoginn og yfir Elliðaárnar, aftur undir Breiðholtsbraut og upp hjá Fáksheimilinu gamla. Við fórum hefðbundið eftir þetta þar til við komum gegnum Laugardalinn og að Kringlumýrarbraut - þá snerum við í norður og fórum yfir Sæbraut og á stíginn þar meðfram sjónum, þetta var lenging upp á allnokkra metra. Það skal þó viðurkennt að hlaupið reyndist mér slík raun að ég varð að ganga öðru hverju og Helmut gekk þá líka mér til samlætis.
Það tók ofurmannlegan viljastyrk og kraft að fara um Hafnarsvæðið og út á Ægisgötu, þar gekk ég upp en hljóp svo síðasta spölinn niður Hofsvallagötu. 18 km á að gizka. Ágúst kom stuttu á eftir mér og hafði farið bæði Goldfinger og upp að Stíbblu - yfir 20 km, hann ætlar að senda okkur leiðarlýsingu í powerpoint. Bjössi fór 69 og það hratt, en Benni bara stutt - ekki víst að það mælist. Teygt í Móttökusal og rætt um hlaup dagsins. Menn voru sammála um að hlaupið var yndislegt, og finna mátti á leiðinni að vorið er á leiðinni.
10.3.2008 | 21:26
Með blóðbragð í munni...
Það voru lagðar línur og gefin fyrirmæli, sem mig minnir að hafi hljómað upp á sama ofstopann og venjulega, nema hvað það átti að láta staðar numið í Öskjuhlíð. Að þessu sinni var þessi hlaupari í góðum gír, búinn að byggja upp fótinn um helgina, og gat nú fylgt fremstu hlaupurum fyrstu þrjá kílómetrana á vitlausu tempói, mig minnir Ágúst hafi talað um 4:45. Hann talaði líka um hlaupara sem ekki skilja hlaup eða vita hvað þau ganga út á. Menn sem hlaupa þegjandi, fara hratt yfir, en fara ekki langt, fara stutt og hratt og sprengja sig, og segja ekkert af viti á meðan, þó stutt sé farið. Svona menn vita ekki hvað gæði hlaupa eru, góð hlaup eru hlaup þegar menn fara langt, 30 km, hægt, í kvöldsólinni og andvarinn leikur um andlit manns, og við hlið manns hleypur annar gáfaður prófessor og samkjaftar ekki alla leiðina, heldur ræðir um mólikúl og efnafræðijöfnur. Það eru gæði, sagði prófessorinn.
Meira að segja blómasalinn var sprækur í dag, og mér leist eiginlega ekki á þetta, tempóið var hratt og ég ákveðinn í að fylgja fremstu hlaupurum, en vissi ekki hvort mér entist erindi. Þrátt fyrir allt hélt ég í við mannskapinn eina þrjá km - eða allt þar til kom að þessari stofnun í Skerjafirði sem menn kalla ýmist Dælustöðina eða Skítastöðina, en mér skilst að það gegni einu: stöðin dælir víst skít hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. En hér sprakk blómasalinn, hann sem hafði hlaupið eins og hann ætti lífið að leysa og talað um gengishrun og fermingarveizlur - hann hætti allt í einu og grunaði mig strax að það væri í einhverju sambandi við hádegisverðinn - meira um það seinna. Við Maggi héldum kompaní um þessar slóðir, og stutt undan voru Bjarni og Þorbjörg. Það er upplifun að hlaupa með Magga, hann æjar og kvíar alla leiðina, eins og hann sé að gefast upp: Æ, æ, æ! En svo gefur hann bara í og skilur mann eftir. Ég þurfti að stoppa öðru hverju til að fjarlægja steina úr skúum mínum og tafðist af þeim sökum.
Þrátt fyrir að rætt hefði verið um Öskjuhlíð héldu allir áfram um Flanir og Lúpínuvelli og þaðan austurúr, alla leið út að Suðurhlíðum. Þar beið þjálfarinn eftir mannskapnum og sá til þess að menn svindluðu ekki, færu áfram upp úr og sú leið var erfið, en hlauparar tóku á því og það var ekkert gefið eftir. Enginn stoppaði eða gekk - það var bara haldið áfram, þótt mótdrægt væri. Mikill léttir að komast upp að Perlu og þaðan niður Stokkinn. Maggi og Bjarni á undan mér og hélt ég í við þá, þótt þeir væru um 100 m á undan. Við Njarðargötu var beygt til vinstri og farið hjá Náttúrufræðihúsi, Norræna húsinu og sunnan við Árnagarð, hjá Háskólabíói, Ungdómsakademíunni við Hagatorg, Melaskóla og um Melhaga til Laugar. Skilst mér að leiðin sé um 10,7 km - og fórum við Þorbjörg lengra en aðrir hlauparar í dag, aðrir styttu um Hringbraut, 10,3 km. Fólk var í teygjum í Móttökusal er okkur bar að garði.
Hér féll sprengjan. Einar blómasali hafði lokið hlaupi og var á heimleið að elda ofan í mannskapinn. Hann var spurður hvað hefði gerst. Hann horfði merkingarþrungnu tilliti yfir hópinn og sagði: ég gleymdi að borða í hádeginu. Boba, segi og skrifa: BOBA. Einar blómasali gleymdi að borða! Hvað er um að ske? Glöggir menn töldu þetta vera fyrstu merki um Alzheimir hjá vini vorum, og vandséð hvað til bragðs væri að taka.
Nú bar það til tíðenda að Vilhjálmur var óvenjulengi í potti og héld ádíens. Hann sagði alla vega þrjár sögur af kaþólskum, lúterskum og gyðingum, sem verða ekki hafðar eftir hér, enda eru þær of langar, og ein þeirra þegar til bókar færð á spjöldum þessum. Meginatriðið er að gæði þessarar kvöldstundar voru slík að menn áttu í basli með að rífa sig upp og halda heim. Rætt um 100 km hlaup sem stendur fyrir dyrum næsta sumar og er skipulagt af Ágústi og fleiri ofurhlaupurum, hlaupið "loop" um Fossvogsdal og yfir í Bryggjuhverfi með Miðstöð á Stokknum, þar verður fjör og stuð og bjór ef marka má skipuleggjandann. Síðan var rætt um miðvikudaginn, þá er stemmning fyrir löngu hlaupi, Goldfinger, upp að Stíbblu, og 69 á eftir. Með mikið af orkudrykkjum spenntum um belginn. Klassi.
Við vigtun kom í ljós að ritari var búinn að léttast um ein 3 kg frá s.l. fimmtudegi og á réttri leið. Ágúst er víst eitthvað að þyngjast, en það er sjálfsagt bara tímabundið. Vel mætt n.k. miðvikudag, og vonandi fer Febrúarlöberinn að láta sjá sig, hans bíður viðurkenningarskjal og dós með gæsalifur í Brottfararsal. Í gvuðs friði, ritari.
9.3.2008 | 13:56
Ólafur Þorsteinsson sextugur - hlaupið á sunnudegi
Í veizlu haldinni til heiðurs Ólafi Þorsteinssyni sextugum var honum flutt þessi tala:
"Við, þessir vinalausu aumingjar, sem alltaf gerum allt eins, og líður bezt illa
Hlaupasamtök Lýðveldisins, elsti og virðulegasti hlaupahópur landsins, en jafnframt sá hógværasti hópur með yfir tuttugu ára sögu
Einhver glæsilegasti hópur íþróttamanna sem líður um götur Vesturbæjarins á sunnudagsmorgnum upp úr kl. 10
Þar sem aldrei eru sagðar nafnlausar sögur
Þar eru sagðar vísbendingaspurningar og þar fá fávitar ekki inngöngu, en menn dæmdir af frammistöðunni
Þar eru fréttirnar fyrst sagðar, enda sumir sem telja Ólaf Þorsteinsson sjálfan Reuter og Reuter sefur aldrei. Ólafur er líka örlátur á fréttir og frásagnir, jafnvel þær sem honum eru sagðar í aaaaalgjörum trúnaði, eins og Vilhjálmur Bjarnason hefur stundum rekið sig á
Þar eru ríkisstjórnir settar af og nýjar myndaðar
Þar eru engir tímar teknir, menn hirða ekki um að reikna vegalengdir né athuga púls eða tempó en hitt þó viðurkennt að hlaup eru að því marki nytsamleg að þau tefja fyrir innlögninni eða gera hana jafnvel óþarfa, og koma auk þess í veg fyrir alzheimer og gyllinæð
Svo miklar eru vinsældir hópsins að stofna hefur þurft auka-kategoríu, hlaupara án hlaupaskyldu, til þess að geta innlimað frambærilegt fólk í sunnudagsklúbbinn, menn eins og dr. Baldur Símonarson og dr. Einar Gunnar Pétursson.
Mér er það mikið gleðiefni að geta mært frænda minn og vin, Ólaf Þorsteinsson, Formann Vorn til Lífstíðar, sem nú stendur á sextugu. Það er heiður að geta talið til frændsemi við hann, en um ættir okkar er fjallað af mikilli innlifun og frásagnargleði í ritinu Víkingslækjarætt I, sem út kom 1939.
Ólafur er einhver persónufróðasti einstaklingur í hópnum og sögur hans af sérstæðum mönnum eða konum hefjast gjarnan á starfstitli og fæðingarári. Hann er eðal Reykvíkingur í húð og hár, Vesturbæingur, og veit fátt merkilegra en fólk með ættarnöfn, sérílagi konur með ættarnöfn, á þeim getur hann kjamsað eins og dýrustu veizlumáltíðum, (þ.e.a.s. ættarnöfnunum). En er þó séntílmaður fram í fingurgóma, háttprýðin uppmáluð þegar konur eru annars vegar.
Ekkert mannlegt er honum óviðkomandi, hvort sem það snertir þá sem enn eru hérna megin eða eru horfnir handan landamæra lífs og dauða. Mér er sagt að jarðarfarir séu honum sérstakar hátíðir, þar sem hátíðleikinn og gleðin er hvað mest ef kemur til kistuburðar eða svo segir VB altént.Af þessum sökum er jafnan staldrað við í Fossvogskirkjugarði á leið okkar um bæinn á sunnudagsmorgnum, þar sem við göngum virðulegir í fasi um stíga og segjum sögur af fólkinu sem þar hvílir.
Á þessum tímamótum lyftum við glösum og skálum fyrir afmælisbarninu, þessari fyrrverandi vonarstjörnu íslenzkrar knattspyrnu, og afþakkaði sæti í Reykjavíkurúrvali sem lék í grænum íþróttatreyjum. Þrátt fyrir þessa sex áratugi finnst manni Ólafur frændi búa yfir eilífri æsku, í honum blundar alltaf einhver tvítugur æringi.
Við í Hlaupasamtökunum þökkum farsæla leiðsögn hans um öll ár og væntum liðveizlu hans og félagsskapar enn næstu áratugina.
Megir þú enn eiga mörg, góð ár framundan, njóta heilsu og gæfu um ókomna framtíð."
Svo mörg voru þau orð. Og þrátt fyrir mikil hátíðahöld voru eftirtaldir mættir til hlaups á þessum sunnudegi: Ólafur Þorsteinsson, Vilhjálmur Bjarnason, Þorvaldur, Einar blómasali og Ólafur ritari. Það lá vel á mönnum og virtust flestir í góðu skikki þrátt fyrir skrall gærkvöldsins. Þó virðist sódavatnið eitthvað hafa farið illa í tannlækninn, menn leiddu að því getum að hann lægi heima í timburmönnum. Veður hið bezta til hlaupa og afar ljúft að vera laus við þá kviku menn sem spenna upp hraða hlaupa, finna sjávarloftið á Ægisíðu leika um andlitið. Sagðar sögur af katólskum í Nauthólsvík, þar sem við gengum spottakorn. Áfram í kirkjugarðinn og þannig upp úr. Töluvert rætt um mat og launajafnrétti kynjanna, en einnig svolítið um Framsóknarmenn. Ekki neita ég því að þyngsli gerðu vart við sig, en fóturinn er að verða góður, svo að maður ætti að geta tekið vel á því á morgun, mánudag. kv. ritari.
8.3.2008 | 12:11
Hvaða Benni?
Menn lögðu í hann, sífellt skimandi eftir Benna, verður þetta hratt hlaup, verður hlaupið af skynsemi? Þannig furðuðu menn sig á þessu merkilega hlaupi. Kona nokkur hafði samband við þáttinn og fullyrti að menn sem hlypu, og tilgreindi Ágúst Kvaran og Þórólf Matthíasson, væru einlægt með einhvern þjáningarsvip kringum munnvikin. Hún gat ekki skilið að menn hefðu gott af þessu.
Á Ægisíðu var enn skimað og hugað að hinum hraðfara hlaupara, en ekki bólaði á honum. Af þeirri ástæðu var hægt að fara rólega yfir og reyndist þetta því hið ánægjulegasta hlaup. Að vísu fór fljótlega að draga sundur með mönnum, enn og aftur kom það í hlut okkar Einars að hlaupa aftastir, en við létum okkur það vel líka. Rætt um stöðu efnahagsmála, gengisþróun og benzínverð. Ég fann fljótlega að síðasta utanlandsferð hafði slæm áhrif á hlauparann, 4 kíló höfðu bætzt við líkamsþyngdina og ökklinn tók það óstinnt upp, mér fannst sem ég heyrði hann segja: 4 kíló! Já, sæll! Kanntu annan? -- Við flugvöllinn var mig farið að verkja allnokkkuð í ökklann og varð að hvíla fótinn, fór að ganga. Blómasalinn áfram austur úr, fór á Flanir. Ég fór Hlíðarfót og gekk við fót, tölti inn á milli. Í lok hlaups var fóturinn hins vegar orðinn góður og ég gat hlaupið síðasta spölinn.
Mér skilst að þau hin hafi sprett úr spori, tekið fimm þéttinga og farið hratt. Við hittumst í potti og skröfuðum saman um stund. Hittum Kára óhlaupinn. Að því loknu var farið á Mimmann, enda Fyrsti Föstudagur. Þangað mætti dr. Jóhanna með Febrúarlöberinn, viðurkenningarskjal til handa hlaupara mánaðarins. Hann mætti hins vegar ekki á Mimmann og varð af verðlaununum - en mun geta nálgast þau í næstu hlaupum, sjái hann ástæðu til að mæta.
Í dag, laugardag, er hátíðisdagur. Ekki einasta er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, heldur á Formaður Vor til Lífstíðar sextugsafmæli. Er því ástæða til að bera höfuðið hátt og gleðjast. kv. ritari
2.3.2008 | 11:31
Ekki fyrir aumingja...
Ritari reis árla úr rekkju til þess að ná hlaupi áður en haldið verður úr landi eftir hádegið að gegna mikilvægum embættisverkum á erlendri grund. Farið frá Vesturbæjarlaug kl. 9:05 og haldið út á steppuna. Norðaustan blindöskubylur og skafrenningur á Sólrúnarvöllum, ökkladjúpur snjór framan af, en þegar kom að flugvelli sökk maður upp að knjám. Þetta var ekki fyrir aumingja, hérna komst maður vart áfram. Áfram var þó haldið, meira af þrjósku, en vilja eða getu. Fór um Hliðarfót og þá leið til baka. Hitti félaga mína, Ó. Þorsteinsson og Magnús, er þeir héldu til hlaupa á hefðbundnum tíma. Fleiri voru þeir nú ekki, hlaupararnir, þennan sunnudagsmorgininn.
Ég skráði hlaupið í Hlaupadagbókina og skaust upp fyrir Helmut, hvar endar þetta? Í gvuðs friði, ritari.
29.2.2008 | 21:59
Gamalkunnug andlit sáust í Vesturbænum
Þegar ég kom niður í unnskiptingaklefa sá ég Gísla og Vilhjálm. Vilhjálmur réðst að mér með skít og skætingi eins og venjulega, fór með ljóta vísu um Flosa bróður minn og lagði til að þeir Gísli færu með mig út og berðu mig. Allt að því er virtist til þess að bæta fyrir misgjörðir ráðuneytis míns gagnvart ýmsum aðilum. Gísli er hins vegar stilltur maður og sagði: Við erum góðmenni, við meiðum engan. Villi róaðist eitthvað við þetta, en mér stóð ekki á sama um þetta offors, þegar maðurinn loksins lét sjá sig að hlaupi. Annars voru fjölmargir mættir að hlaupum, m.a. mátti sjá þjálfarann Margréti, sem virtist aðeins mætt til þess eins að hlaupa með skemmtilegu fólki, og hafði engin orð um hvað fólk ætti að gera, hversu lengi eða hversu hratt. Ánægjuleg tilbreyting. Einnig mátti sjá Flosa, Bjössa kokk, próf. Fróða, og fleiri góða menn. Nokkrar konur voru og mættar, Rúna og Brynja. Mestur spenningur tengdist því að sjá hversu blómasalinn myndi standa sig, búinn að úða í sig KFC kjúklingi í hádeginu, með frönskum og kokkteilsósu. Ég var búinn að gera mikið grín að honum um morguninn og beið svo spenntur að sjá frammistöðuna í hlaupi.
Fjölmargir voru með Garminúr á handleggnum og tafði það brottför, en einkum þó kvittur um að Benedikt væri væntanlegur og vildi hlaupa með okkur. Ekki lét hann sjá sig, svo að við lögðum í hann, fórum afar hægt út og tókum strikið niður á Ægisíðu. Ég var hissa að þjálfarinn skyldi ekki hafa tillögur um leið eða tempó - hún hljóp bara með og var þæg. Þetta leit vel út og var góð byrjun á hlaupi. Menn sáu fram á að geta hlaupið á skynsamlegum hraða og enginn yrði til þess að spenna upp tempóið. En Adam var ekki lengi í Paradís, úti í firrðinni birtist óljós en þó kunnugleg mynd, Benedikt kom skeiðandi á trylltu tempói ótilkynntur og var ekki við neitt ráðið. Áður en vitað var af splundraðist hópurinn og menn ærðust eins og rollur í flokki - rásuðu af stað og menn gleymdu öllum ásetningi um að eiga rólegan föstudag á kyrrlátum hraða með menningarlegu ívafi. Upplýst um myndlistarsýningar á Gallerí Fold og Kirsuberjatrénu.
Sumir af okkar minnstu bræðrum fóru afar hægt, svo hægt að hraðinn myndi ekki registrerast á hraðamæli VB - um þá verður ekki fjallað frekar hér. En við sem hlaupum á eðlilegum hraða tókum eftir að blómasalanum lá eitthvað mikið á. Kom þetta viðstöddum á óvart. Og þar sem ég var staddur í Nauthólsvík með þeim Brynju, Rúnu og Hjörleifi varð einhverjum á orði: Mikið hefur kjúklingurinn farið vel í blómasalann. Mér var þetta hin mesta ráðgáta, því að ég veit hvaða áhrif kjöt í maga hefur á hlaupara. Ég stóð á gati.
Upp Hi-Lux, framhjá kirkjugarði, Veðurstofuhálendi, um Hlíðar, Klambra og þar bar ég kennsl á tvo hlaupara: Kára og VB. Með þessum herramönnum gekk ég inn á Gallerí Fold og kynntist listinni. Haldið áfram um Laugaveg og beinustu leið að Kirsuberjatrénu við Vesturgötu, þar sem okkur var fagnað og boðnar veitingar. Eftir þetta var stutt til Laugar.
Í Móttökusal mætti ég nokkrum félögum, Birni, Ágústi, Brynju, blómasalanum, menn skiptust á um að henda sér á fjóra fætur og taka armlyftur, ýmist með báðum höndum eða með annarri og helst á fingurgómunum. Þetta voru á bilinu 25-50 armlyftur og sáust menn lítt fyrir, allt þar til einhver tók eftir að Brynja var farin, þá hættu menn snarlega. Hér kom upp málefni Mimmans, þ.e. hátíðin þegar haldið er upp á Hlaupaföstudag, sem mun gerast á 28 ára fresti ef marka má Denna. Þá sagði einhver (og ég læt nafns ekki getið af virðingu fyrir fjölskyldu og atvinnuöryggi viðkomandi): Best ég fari heim og sæki bílinn, ég vil ekki labba heim fullur í þessari hálku! Og hér féll sprengjan, ég gekk á blómasalann um kjúklinginn í hádeginu. Hann brotnaði niður og viðurkenndi að hafa komið hvergi nærri neinu slíku fæði, þarafleiðandi gat hann hlaupið eins og vitlaus maður í dag. Það lá að.
Í potti rifjuðu menn upp minningar af velunnara Hlaupasamtakanna, Sigurði Svan Sveinssyni (Mohammad Shafi), baðverði, sem lést fyrir stuttu síðan, hægum og ljúfum manni af írönskum uppruna, sem kvaðst vera íslenzkur þegar hann var spurður að þjóðerni. Jarðsunginn frá bænhúsi í Fossvogi s.l. fimmtudag að viðstöddum fulltrúum Hlaupasamtakanna, Flosa og Ó. Þorsteinssyni.
Á Mimmann mættu Ágúst og Ólöf, Þorvaldur, Denni og ritari. Ánægjuleg og kyrrlát stund, bjórinn óvenjuþroskaður og djúpur. Andaktugt og gefandi. Næst hlaupið sunnudag.
Pistill Ritara | Breytt 1.3.2008 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2008 | 21:31
Ágúst? Ég sá aldrei Ágúst...
Það voru stillileg stríðmæli sem gengu út í Brottfararsal, hlaupa hægt framan af, síðan að auka hraðann til þess að fá sem mest úr hlaupinu, auka gæði þess - að vísu gleymdist að láta þess getið hvert ætti að hlaupa, en það kvisaðist út að stefnt yrði á Þriggjabrúahlaup. Lokaorð þjálfara voru þessi: Og þið, þessir vitleysingar, sem eigið Garmin - notið tækin, fíflin ykkar! Þau hjálpa ykkur að vita hvort þið séuð að gera eitthvað af viti (eða eitthvað í þessa veru, man ekki hvort þetta er alveg orðrétt haft eftir). Ég lagði fljótt og hratt af stað og var með fremsta fólki, hinir voru ýmist að kjafta saman á stétt eða ná tungli.
Var þreyttur og þungur eftir æfingu mánudagsins, sem tók á. Einnig seig steikin í sem ég fékk mér í hádeginu og hefði líklega betur sleppt. Endaði það með því að hlaupararnir tóku fram úr mér og ég sat uppi með þá Einar blómasala og Kára sem kompaní - ekki slæmur félagsskapur að vísu, en stöðug áminning um að maður sé ekki að bæta sig neitt í hlaupinu (ég sem var vanur að raða mér með fremstu og grennstu hlaupurum hér áður fyrr! Sic transit gloria mundi!) Nei, nú þarf að fara að snúa þessari þróun við og keppa að því að ritari tylli sér meðal fremstu og glæsilegustu hlaupara Samtakanna. Minn tími mun koma!
Ekki er eyðandi orðum að þeim sem á undan fóru, enda er maður í reynd hættur að hlaupa með þeim, þeir einfaldlega hverfa og fara á e-u 4:40 tempói alla leið. Mér skilst þeir hafi einhverjir farið 69, aðrir líklega eitthvað skemur. Nema hvað, við Einar týndum Kára við Kringlumýrarbraut, þar beið Rúnar eftir okkur til þess að tryggja að ekki yrði stytt. Við héldum áfram yfir brúna og fórum svo upp í hverfi. Leiðin var nýstárleg, ég hef aldrei áður farið þessa leið, milli húsa, hjá Útvarpshúsi, yfir Miklubraut (hér leið okkur Einari illa, við vorum á óvinasvæði), og svo vesturúr og út að Kringlumýrarbraut. Hér skildu leiðir, ég nennti ekki að fylgja þeim lengur eftir, orðið ómótt af steikinni í belgnum, þeir sneru norðurúr, niður Kringlumýrarbraut, alla leið niður í Borgartún og niður að sjó, þaðan vestur úr og til Laugar. Ég hélt hins vegar beint áfram eftir Miklubraut og beinustu leið til Laugar, gekk langar leiðir.
Sem fyrr var sagt var það Benedikt sem átti pottinn að hlaupi loknu. Hann kvartaði sáran yfir þjálfaranum sem tefði hlaup með kjaftagangi: Ég skil ekki fólk sem er síblaðrandi þegar það á bara að hlaupa. Ég skil ekki þessa miklu þörf fyrir að tjá sig um allar heimsins náttúrur! Það á bara að hlaupa, og hætta að kjafta. Þessi kjaftagangur allur hélt bara aftur af manni og það var ekkert hægt að spretta úr spori.
Við spurðum Benedikt hvort Ágúst hefði samt ekki haldið aðeins aftur af honum. "Ágúst? Ég sá aldrei Ágúst..." Svo spurðist að Sigurður Ingvarsson hefði verið á ferðinni og mætt hópnum. "´Já, þessi Sigurður Ingvarsson, hann er nú liðin tíð." Þannig flugu yfirlýsingarnar hver af annarri og var skáldið vígreift og orðdjarft. Einnig var kvartað yfir Bjarna í potti fyrir sakir hávaða.
Á föstudaginn er merkilegur dagur. Þá er Hlaupaföstudagur, en samkvæmt ævafornri hefð halda hlauparar upp á Hlaupaföstudag með því að koma saman í gleðskap og lyfta glösum og fagna lengingu ársins, því að þarna bætist við einn hlaupadagur sem ella hefði ekki boðist. Er því beint til hlaupara að þeir ryðji öðrum fyrirætlunum til hliðar og geri ráðstafanir til þess að geta mætt á Mimmann n.k. föstudag til þess að halda í þess fornu hefð Hlaupasamtakanna.
Í gvuðs friði, ritari.
25.2.2008 | 21:12
Hlaupari gleymir skóm
Þjálfarinn hélt ræðu og lagði línurnar, sem hljómuðu kunnuglega: út að Kringlumýrarbraut og þétting eftir dælustöðina. Upp Suðurhlíðarnar og þannig tilbaka. Ég setti mér það eitt markmið að komast aumingja og skila mér heilu og höldnu til Laugar, án þess að skaða ökklann meira en orðið var. Hafði mér til halds og trausts þá Ó. Þorsteinsson og Bjarna sem fóru sér hægt. Margt var skrafað enda hátíðir framundan og mættum við mörgum mætum Reykvíkingnum, komu ný bandalög okkur í opna skjöldu, ekki meira um það. Hér fór vindurinn aðeins að bíta okkur í andlitin og kom fyrir lítið að vera með balaklövur, en líklega hafa þær bjargað því sem bjargað varð.
Þegar til átti að taka treysti ég mér ágætlega til að halda áfram hlaupi og fara Suðurhlíðar, þótt oft á tíðum væri þetta eins og hlaupa með grjót í belgnum. Við Þorvaldur tókum strikið áfram austur Flanir og út að Suðurhlíðum, en ég veit ekki um afdrif annarra, hef suma grunaða um að hafa stytt um Hlíðarfót. Nema hvað við skeiðuðum þarna áfram, en þegar brekkan fór að taka í hægði ég ferðina og leyfði Þorvaldi að halda áfram. Ég þurfti að hvíla mig inn á milli, enda ekki búinn að hlaupa í tvær vikur, feitur og þungur eftir hóglífi undanfarinna vikna. En komst loks upp að Perlu eftir mikinn barning og var ánægður með það - hitti Þorvald þar aftur, en svo var hann horfinn og sást ekki aftur fyrr en að Laugu. Sjálfur tölti ég þetta í hægðum mínum, en var er hér var komið farinn að finna heldur betur fyrir frostinu á andliti mér.
Ég komst nokkuð ánægður tilbaka og hitti félaga mína, sem allir voru ánægðir eftir velheppnað hlaup í yndislegu veðri þótt kalt væri. Það var dokað við góða stund í potti og ýmsir fundu sig knúna til þess að tjá sig um ýmis bernskubrek, ræktanir ýmiss konar, tilraunir með sprengiefni og fleira uppbyggilegt. Það ríkti einskær gleði og ánægja í hjörtum okkar á þessu góða kvöldi, enda fátt sem jafnast á við það að gleðjast með góðum eftir að hafa tekið vel á því á góðum degi - varð mér hugsað til blómasala og tannlækna sem misstu af þessari miklu hátíð í dag og eru trúlega með böggum hildar yfir.
Næst: miðvikudagur, 69, hratt. Hver þorir? Aðalritari.