3.5.2009 | 13:31
Tala af tveimur hlaupum
Veður gott til hlaupa. Stefnt á 69 - en ritari heimtaði Stíbblu. Mættum dr. Jóhönnu sprækri á Ægisíðu. Þar næst mættum við Jörundi og Gísla og voru þeir einnig kátir eftir 20 km hlaup. Tempó allþétt inn í Nauthólsvík og Fossvog. Framan af var nokkur vindur á sunnan, en eftir flugvöll var dottin á rjómablíða og ríkti það er eftir lifði hlaups. Við Rúnar áttum samleið hjá Víkingsheimili og fundum fremstu hlaupara við brú yfir Elliðaár og virtist eitthvert ráðleysi á þeim. Ég benti upp í dal og gaf með því skýra línu um hvert leiðin lægi. Leiðin sú liggur upp á við og tekur á, en hvað er skemmtilegra eða meira viðeigandi en smá átök og fögur náttúra?
Margt fólk á ferð og flugi, gangandi eða hlaupandi. M.a. hlupu fjórar fallegar konur framhjá okkur og Biggi sagði: Flottur fossinn! Einhverjum heyrðist hann segja "flottur bossinn" - en líklega hefur það verið misheyrn. Þá var ég á ferð með Bigga og Rúnari, en þau hin voru fyrir framan okkur. Það var farið alla leið upp að Stíbblu og yfir árnar, aftur niður dalinn hinum megin hjá Rafveituheimili. Er komið var niður að Rafstöð héldu þau hin áfram en ég fór yfir Elliðaárnar og hefðbundið tilbaka um Laugardalinn.
Það var verið stund í potti. Einhvers staðar er biluð þvottavél í Grandahverfi. Þegar ritari fór upp úr og í Útiklefa stóð þar niðurlútur blómasali að klæða sig í hlaupagírið, kvaðst hafa farið með fornbíla til skoðunar þá um morguninn og ekki "komizt" í hlaup. Kvaðst hann ætla einn út að hlaupa í élinu og fara langt.
Jæja, segir nú ekki meira af því fyrr en menn mæta af nýju til hlaups að morgni sunnudags. Þá voru mættir: Þorvaldur, Jörundur, fyrrnefndur blómasali, annálaritari og lögfræðineminn Bjarki. Enn af nýju var veður hagstætt hlaupurum, jafnvel fegurra og betra en í gær. Menn söknuðu ekki einasta Formanns til Lífstíðar (spurðist til hans í Miðfirði), heldur einnig okkar kæra Vilhjálms Bjarnasonar sem enn þráast við að mæta og taka léttan sprett með félögum sínum á sunnudagsmorgni. Þrátt fyrir að menn fullyrði að tíminn lækni öll sár, verður söknuður Hlaupafélaga bara sárari og sárari eftir því sem frá líður.
Jæja, menn leggja í hann hefðinni trúir. Áður en langt var liðið voru menn dottnir niður í djúpar samræður um mat. Ritari með svínakjötsveizlu í gær, blómasalinn með haughoppara, en Þorvaldur sló öllum við: eldaði sel af Ströndum og var bæði laus við eiturefni og kvikasilfur. Ekki lélegt fæði það! Jörundur fékk bara skyr og rúgbrauðssneið í kvöldmat á laugardagskveldi, enda konan í vinnu!
Gert hefðbundið stanz í Nauthólsvík og umræðuefnin skyrti eigi, enda þótt engar vísbendingaspurningar birtust, né heldur ættfræði eða persónufræði. Í kirkjugarði var lagt lögfræðidæmi fyrir lögfræðinemann er hlaupið var framhjá leiði ónefnds menntaskólakennara og eiginkonu hans, en þau létust sama dag og varð að máli.
Síðan var hlaupið sem leið lá um Veðurstofuhálendi, Hlíðar, Hlemm og niður á Sæbraut. Er hér var komið snerist umræðan ekki lengur um mat, heldur um byggingar og þá hörmung ýmislega sem fyrir augu ber á þeirri leið. Menn voru furðu sprækir á þessum morgni, en oft hafa menn misst sig í mat og drykk á laugardagskvöldum og ætti það að sýna sig í afrekum sunnudags. Ekki hér. Menn tóku m.a.s. sprett undir lokin.
Pottur óvenjuvel mannaður, Valgerður fv. ráðherra, Mímir, dr. Baldur, dr. Einar Gunnar, Stefán verkfræðingur og Helga Jónsdóttir Zoega Gröndal, auk hlaupara. Umræður á þvílíku flugi að erfitt var að henda reiður á neinum ákveðnum þræði. Ekki auðvelt að flytja kenningu Geðlæknis Lýðveldisins, sem er á þá lund að hægrimönnum sé eiginlegt að þróast til vinstri, vinstrimenn geti færzt til hægri. En að hægrimenn verði Framsóknarmenn, það er merki um geðhvarfasýki. Í staðinn rætt um fjallgöngur.
Næst hlaup á morgun, mánudag, þá verður tekið á því.
Pistill Ritara | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2009 | 21:26
Seint sagðir veðurglöggir...
Að vísu fengum við einhvern mótvind til að byrja með, en það var ekkert óvænt, og raunar við því að búast og eitthvað sem menn létu sig bara hafa, vitandi það að við fengjum síðan meðvind á heimleiðinni. Farið upp Hofsvallagötu, niður Túngötu, Ægisgötu, út Mýrargötu og inn í Borgartún (þar sem ritari sýndi þann karaktér að láta kokkteilboð Bandalags háskólamanna framhjá sér fara til þess að geta stundað hlaup) - áfram inn á Kringlumýrarbraut. Hér var hópurinn eitthvað farinn að sundrast og ég dólaði mér með Jörundi, Sirrý og Dagný skammt undan.
Einhver bið varð á að vindur snerist, því að við vorum enn í mótvindi. Við bættist haugarigning sem gerði hlaupið ívið þyngra en alla jafna. Þar á móti kom að við sluppum við að hlaupa upp brekkuna hjá Borgarspítala, en klifum hæðina hinum megin frá, og var það lengri kafli og meira aflíðandi. Fátt bar til tíðinda, maður kjagaði þetta svona áfram, og sá alltaf hópinn einhvers staðar á undan sér. Uppi á Bústaðavegi sáum við kunnuglegan hlaupara, Hjálmar á réttu róli, en þó röngu miðað við okkur. Hann fór réttan Þriggjabrúarhring og mætti okkur á miðri leið. Maður lét sig vaða niður brekku hjá Borgó, með hendur niður með líkama og slaka fótvöðva.
Mikið vorum við Jörundur hissa að koma niður í Fossvoginn. Var það ekki hér sem við áttum að fá meðvind? Töluðu þjálfararnir ekki um það? Nei, ekki stóðst það alveg, það var sami þræsingurinn í fangið þar sem við héldum áfram inn í Nauthólsvík, Skerjafjörð og Ægisíðu. Okkur til huggunar mættum við brosmildum konum sem horfðu á okkur fullar aðdáunar og spurðu: "Hvaða hlaupahópur er þetta eiginlega?" Við svöruðum því til að hér færu Hlaupasamtök Lýðveldisins, langflottasti hlaupahópur landsins.
Er komið var til Laugar stóð hópur hlaupara á Plani og hneykslaðist á því að hafa farið heilan hring og verið alltaf með storminn í fangið. Hvernig gat þetta gerst? Jörundur vildi láta setja vindhana á höfuð þjálfara til að hjálpa þeim að glöggva sig á vindáttinni.
Pottur stuttur, blómasali mættur svo og frambjóðandinn og skáldið úr Skerjafirði, Kristján Hreinsmögur. Kári og Bjarni lögðu saman fætur sína þannig að þeir mynduðu brú og þótti það ófögur sýn. Ekkert ákveðið um hlaup fimmtudag eða föstudag, en hins vegar stefnt á langt á laugardag kl. 9:30. NB - hálftíu! Hvað menn akti og taki tilhlýðilegt nótís af. Í gvuðs friði, ritari.
Pistill Ritara | Breytt 30.4.2009 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 21:31
Sprettir
Þjálfarar ákváðu að farið skyldi út að Skítastöð á hægu tempói. Þangað komin var lagt fyrir hópinn að taka 1, 2, 3 mín. spretti með einnar mínútu hvíld á milli. Þetta var gert tvisvar og vorum við þá komin út á Nes - lokasprettur tekinn á Suðurströnd alla leið út að Lindarbraut. Eftir það á hægu tempói tilbaka. Það verður að segjast eins og er að flestallir fylgdust að megnið af leiðinni, altént var enginn áberandi aftar en aðrir. Nú eru hlauparar óðum að komast í sumarformið.
Er við teygðum á Plani mætti Eiríkur á svæðið, nýkominn frá London. Var honum vel fagnað að vonum. Svo kom Benedikt í pott og urðu ekki síður fagnaðarfundir þar. Umræðan snerist eðlilega um London-maraþonið og gengi manna þar. Stemmning var víst ekki síðri þar en í Berlín og e.t.v. eitthvað fyrir Hlaupasamtökin að íhuga þegar kemur að hlaupum á erlendri grund á næstu árum. Undir lokin var umræðan orðin svo nákvæm að ritara blöskraði og hann forðaði sér - ekkert af því sem þá var sagt er hafandi eftir og því verður það ekki heldur sett í annála.
Blómasalinn hefur tekið að sér að skipuleggja hlaup/hjólreiðar frá Þingvöllum til Laugarvatns með sundi og grilli á eftir - einhvern tímann í maí fyrir túristatímann. Nú er bara að fylgja þessu eftir.
Næst: miðvikudagur, verður farið langt?
26.4.2009 | 18:45
Tímar í London-maraþoni og vormaraþoni Reykjavík
Eiríkur Magnús Jensson 3:21:07
Benedikt Sigurðsson 3:32:44
Sigurður Ingvarsson 3:19:12 í vormaraþoni Reykjavík.
Sögur af hetjum | Breytt 27.4.2009 kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2009 | 13:25
Langur laugardagur í vorblíðunni
Lagt í hann kl. 9:30 í löðrandi blíðu, eiginlega var maður of mikið klæddur í ermasíðri treyju og þunnum jakka, þunn stuttermatreyja hefði dugað. Mætt: Margrét, Rúnar, Þorbjörg (kona Rúnars), Snorri, Bjössi kokkur, Einar blómasali (seinn að vanda) og Ólafur ritari. Stefnan sett á Stíbblu. Á horni Ægisíðu og Hofsvallagötu var búið að koma upp drykkjarstöð í tilefni af vormaraþoni. Við mættum dr. Jóhönnu sem var að ljúka 18 km og hafði farið af stað um áttaleytið. Stuttu síðar mættum við Jörundi sem var búinn að fara eitthvað álíka ef ekki meira. Þau voru bæði flott.
Hefðbundin skipting hlaupara í þá sem fremstir fara og hina sem hlaupa á eftir. Kom það í hlut okkar blómasalans að dóla okkur í humáttina á eftir hraðara fólki. Það var kominn þessi vorfílíngur í okkur og gróðurinn allur að koma til í kringum okkur, við sáum lóur, heyrðum í hrossagauk og þrastasöng. Mættum maraþonhlaupurum sem voru ekkert mjög margir, en þeirra á meðal fulltrúi Hlaupasamtakanna, próf. dr. S. Ingvarsson Keldensis.
Gekk ágætlega inn að Víkingsheimili. Blómasalinn með frábæra hugmynd um hjólaferð á Þingvöll og Laugarvatn, fara í laug þar og grilla á eftir. Hér með er þessari hugmynd komið á framfæri. Þá var það og rifjað upp að næstkomandi laugardag er merkisdagur í lífi Hlaupasamtakanna og mætti gera eithvað til hátíðabrigða eftir langt hlaup, t.d. bjóða upp á léttan bröns. Við upp að Stíbblu og yfir á brúnni. Niður dalinn á góðu stími og ræddum gengi krónunnar miðað við evru.
Við Rafstöð var miðstöð maraþons og var okkur boðinn drykkur þar. Hálfmaraþonhlauparar voru nýfarnir af stað. Við á eftir og tókum strikið í Laugardalinn. Þreyta farin að segja til sín, en aðeins stoppað til þess að drekka, t.d. við vatnsfontinn á Sæbraut. Gegnum miðbæinn, hjá Tjörn, gegnum Hljómskálagarðinn, hjá Þjóðminjasafni, Háskóla og svo vestur úr. Við hittum Gísla við Melaskóla og hann lofaði að fara að koma aftur til hlaupa í Samtökum Vorum, hefðbundið á mánudag og svo sjóbað á miðvikudag. Blómasalinn orðinn lúinn hér og farinn að ganga, ég hvatti hann áfram og til að ljúka hlaupi. Formið er að koma og tilhlökkunarefni að halda áfram að bæta sig.
Næst hlaupið sunnudag 10:10 - fróðlegt verður að fá greiningu á niðurstöðum Alþingiskosninga.
24.4.2009 | 20:02
Fámennt á vindasömum föstudegi
Við Magnús fórum af stað á undan hinum, en fórum rólega svo að þau gætu náð okkur. Við dóluðum okkur þetta og rifjuðum upp nokkrar gamlar, fallegar sögur úr hlaupum Samtakanna. Það var ekki fyrr en við vorum komnir að Hi-Lux að við sáum aðra hlaupara, líklega voru einhverjir þreyttir eftir ÍR-hlaupið í gær, sem þó var aðeins 5 km. Rifjuð upp prýðileg frammistaða okkar bezta fólks: Möggu, Rúnars, Tuma, Óskar, Hjálmars og Sifjar. Einhverjir vildu vita í hvaða sæti Björn hefði lent, en enginn gat upplýst um árangur hans í hlaupinu, virðist sem hann hafi ekki skráðst.
Þegar upp var komið í Öskjuhlíðina fórum við Magnús að róa okkur, það var nauðsynleg losun líkamsvessa efra og á meðan náðu hin í hópnum okkur, eftir það var hlaupið í einum hópi, utan hvað Flosi kaus að vera einn. Umræður snerust eðlilega um pólitíkina og kosningarnar sem framundan eru. Sótt fast að Jörundi um skattamál og Evrópusambandið. Jörundur er hlynntur hruninu, á meðan fær náttúran að vera í friði og menn geta einbeitt sér að því að uppræta lúpínuna. Sandstígar fá að vera í friði og ekkert nýtt malbik bætist við.
Farið hefðbundið um Hlíðar, Klambratún og á Hlemm - þar var ákveðið að fara Laugaveg og telja tómu búðaplássin. Ritari taldi vinstra megin, blómasali hægra megin. Niðurstaðan: 31, þó ekki ljóst hvort telja bæri Óðal með. Jörundur taldi að með banni við nektardansi væri starfsemi þar fallin niður, ritari taldi að þar mætti kaupa sér eitthvað að drekka. Taldi Jörundur það ekki vera meginatriði í starfsemi staðarins og því bæri að líta svo á að grundvallarbreyting væri orðin á. Við horn Austurstrætis og Ingólfstorgs stóð útúrdrukkið ungmenni íklætt mörgæsarbúningi, gjörsamlega stjarfur og vissi hvorki í þennan heim né annan. Þetta er víst æska landsins, tákngervingur menntunar í landinu - það var dimmisjón í dag.
Við tókum Túngötuna á rólegu tempói, en létum eiga sig að vera að hrella garðeigendur í Vesturbænum með því að vera að rífa afleggjara af gróðri. Teygt þokkalega í Móttökusal. Anna Birna mætt.
Einar var óvenjulega prúður í potti, blandaði sér ekki í neina detox-umræðu, sem varð býsna nákvæm og detaljeruð hefð samkvæmt. Áður langt var liðið stóðu tvær ungar blómarósir upp og yfirgáfu pott, köstuðu kveðju á blómasalann. Kom þá í ljós að í potti höfðu setið vinkonur dótturinnar og hann af þeim sökum verið sérstaklega varkár í tali.
Næst hlaupið í fyrramálið kl. 9:30 og farið langt.
22.4.2009 | 22:42
Menn hoggnir, halda framhjá, menn flytja
Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök. Þar fer fram upplýst umræða um allt það er til framfara horfir um sögu og menningu Þjóðar Vorrar. Af þeirri ástæðu fer fram skipuleg skráning viðburða sem á dagskrá Samtakanna eru og tengjast hlaupum í Vesturbænum. Nú var Seinasti Vetrardagur og horfðu menn björtum augum til Framtíðar. Töluverður fjöldi hlaupara mættur til hlaupa og ekki ástæða til að nefna neina öðrum fremur. (Seinasti merkir að það koma fleiri dagar af þessu tagi - hefði ég sagt "Síðasti" - hefði það verið definitívt - ekki væri von fleiri slíkra daga).
Nema Jörund, sem er mikill hlaupari og mikill frumkvöðull, frumlegur náttúruunnandi og nýskapandi hlaupa, sem sést hvað bezt á hinu nýja hlaupi hans, Goldfinger-Shorter. Lúpínu-andstæðingur. Einhver frumlegasti og skemmtilegasti hlaupari sem ritari hleypur með. Það er jafnan fagnaðarefni að fá fylgd Jörundar um Sólrúnarbrautina.
Þjálfarar hafa tekið saman lítið hefti um Hlaupasamtökin sem dreift verður á morgun, Sumardaginn Fyrsta, í Vesturbæjarlaug. Þar eru sett fram fáein grundvallaratriði um hlaup og upplýst um starfsemi Samtaka Vorra. Eiga þjálfarar þakkir skildar fyrir framtakið og má vona að það skili enn fleiri þátttakendum í starfsemi vorri.
Þjálfari átti í mesta basli með að fá fólk til að þegja og hlusta á fyrirmæli. Honum var bent á að stilla sér uppi á tröppu Laugar Vorrar og beina röddu sinni þaðan og yfir mannskapinn. Það breytti litlu, hver kjaftaði í munn á öðrum og var eins og saman væri kominn klúbbur ótilgreindrar gerðar þar sem mas er helzta viðfangsefnið.
Nema hvað, stefnan var á stutt og rólegt vegna hlaupa ýmissrar tegundar á morgun. Í boði er ÍR-hlaup, 5 km, en jafnframt Víkingshlaup í tilefni af 100 ára afmæli félagsins, 8,5 km. Sérstaklega skal vakin athygli á því að þátttökugjald í ÍR hlaupi er 1500 spesíur og fær fólk ekkert fyrir nema ánægjuna En í Víkingshlaupi er ekkert gjald, og fá menn bol, drykki í gnægðum og auk þess mikla veizlu að hlaupi loknu. Ekki svo að skilja að ritari sé að mæla með einu eða neinu, en vissulega er hann hallur undir sitt gamla félag og frænda sinn og vin, Ó. Þorsteinsson Víking, formann afmælisnefndar Víikings.
Jæja, hlaup fór af stað. Rólega. Ekki þarf að fjölyrða um hreyfingu af þessu tagi, lagt til að farinn yrði Hlíðarfótur, og fóru vissulega sumir hlauparar þá leið. Ritari var hins vegar í kompaníi við Jörund og Bjarna - og þar var ekki tekið í mál að stytta með þessum hætti. Bjarni og ritari fóru Hi-Lux og að Perlu, en Jörundur hélt áfram og stefndi á Þrjárbrýr. Við sáum hópinn á undan okkur, flestir beygðu, en Flosi hélt ótrauður áfram og endaði með að taka 69.
Þegar upp er staðið vekur furðu að blómasalinn skuli ítrekað láta sig vanta frá hlaupum og voru margir sem lýstu áhyggjum af heilsufari hans. En ritari var sem sagt á ferð með Jörundi og Bjarna og var það ótrúlega gefandi lífsreynsla að hlaupa með þessum gæfu og vel gerðu mönnum. Við ræddum um ýmisleg þarfleg málefni, og var ekki að sjá að í brýnu slægi með þeim tveimur þótt aðhylltust ólíkar stjórnmálastefnur svona stuttu fyrir kosningar.
Jörundur hélt áfram, við Bjarni um Öskjuhlíð þar sem ku vera perrar og kanínur. Upp að Perlu og svo vestur úr. Á Hringbraut upphófst mikil umræða um Sturlungu og Íslendingasögur og kvartaði ritari yfir því að listræn brögð vantaði í Sturlungu, en Bjarni taldi að ýmislegt mætti finna í Íslendingasögum sem mætti útskýra sem betrumbætur á samtímasögunni. Í Sturlungu er sagt frá bæjum, fólki, kvennafari, flutningum milli bæja, bændum sem flugust á, og tilefnislausum (að því er virðist) mannvígum. Þó eru perlur innanum. Um þetta ræddum við félagar Bjarni á stíg meðfram Hringbraut á meðan við tókum tempóhlaup undir 5 mín.
Maður skammast sín að segja frá svona hlaupi - þetta var sosum ekki neitt neitt. Enda miðast allt núna við undirbúning þeirra bræðra Eiríks og Benna fyrir Lundúnamaraþon - þeir fara utan á morgun og óskum við þeim alls hins bezta. Munum fylgjast með tímum hér á bloggi. Fólk var eitthvað að myndast við að teygja á Plani - en það var bara til málamynda. Allir voru spenntir að fara í pott.
Þar var góð umræða um hjól, um lyfjafræði, um menningarvita, um þann mannauð sem Hlaupasamtökin búa að á sunnudögum og voru þar engar nafnlausar sögur. Uppskriftir að góðum rækjusalödum, m.a. : rækjur, egg, sýrður rjómi í bland við létt majones, reyktur lax, brakandi fersk steinselja frá Frikka, öllu hrært saman - sett á heppilegt rúgbrauð og sneið af sítrónu með berki stillt ofan á. Delicious! Thailensk fiskisúpa og útskýring með henni á lá Björn.
Svona eru Hlaupasamtökin, aldrei komið að tómum kofanum - ávallt horft til framtíðar.
20.4.2009 | 21:48
Átakahlaup á afmælisdegi
Til aðgreiningar frá Sólskinshlaupurum skulu þeir taldir upp er voru mættir í dag, en það voru Margrét og Rúnar, Flosi, Björn, Birgir, Una, Ósk, Hjálmar, Friðrik kaupmaður, Ólafur ritari, Eiríkur, Benedikt, Snorri og Helmut. Þetta eru naglar!
Bollalagt var um heppilega hlaupaleið, en ætlunin var að taka spretti í Bakkavör. Á endanum var ákveðið að fara upp á Hringbraut og þaðan út á Nes. Tíðindalítið framan af, en farið á nokkuð þéttu tempói vestur úr. Ekkert hlé á rigningu og hlauparar orðnir holdvotir.
Flosi og Friðrik fóru áfram á Nes, Lindarbraut, og eitthvað svipað hafa Benedikt og Eiríkur farið, en þeir eru að fara í Lundúnamaraþon um hæstu helgi og því komnir í hvíld. Aðrir tóku spretti í Bakkavörinni. Þeir urðu á endanum 9. Ansi hressandi. Eftir það var haldið tilbaka og var hlaup dagsins um 10 km.
Teygt við komu. Magnús sást lauma sér úr Laug. Rífandi stemmning í Potti þar sem Kári var mættur ásamt Kjartani syni sínum. Þeir skiptust á að halda ádíens, Kári, Birgir og Björn. Það var hávaði, það var öskrað. Svona á að ljúka vel heppnuðu hlaupi.
19.4.2009 | 13:58
Þá hlupu hetjur um héruð...
Veður alvitlaust á suðaustan en þó hlýtt. Svo hvasst var sums staðar í Skerjafirði og við flugbraut að við stóðum nánast kyrrir og þurfti að beita afli til þess að hnika sér eitthvað áleiðis. Við létum vindinn sem ... vind um eyru þjóta og héldum uppi samfelldri samræðu um allt það sem mannlegt má teljast, ættir manna, stöðuna í stjórnmálunum og fleira. Ó. Þorsteinsson með kosningaspá sem fróðlegt verður að sjá hvort rætist, 35%, 25%, 15%, 10% og Auður með afganginn og 7 þingsæti. Það var stirðleiki í beinum eftir langt hlaup í gær. Við mættum frú Helgu Jónsdóttur af Kvisthaga í Nauthólsvík og vorum búnir að svissa yfir í göngutempó - þar flugu hefðbundnar glósur um hvort þetta væri orðið að gönguklúbbi.
Sáum Sjúl inni í bifreið á Flókagötunni - mikið hlýtur þeim manni að líða illa svona óhlaupnum. Farið niður á Sæbraut og eftir það var þetta aðeins formsatriði, þar höfðum við vindinn í bakið og þurfti lítið að hafa fyrir því að komast leiðar sinnar.
Við söknuðum vinar í stað í potti: B. Símonarson var fjarstaddur. Aðrir mættir, auk þess mættu blómasalinn og Benni óhlaupnir. Blómasalinn spjaldaður á staðnum fyrir að vanrækja hlaup á sunnudegi. Hann reyndi að bera fyrir sig skyldur heimafyrir og ráðríkt yfirvald, en það var ekki hlustað á slíkt. Setið í potti í klukkutíma í hávaðaroki og fauk allt lauslegt á sundlaugarsvæðinu. Mikil umræða um nöfn og auk- og viðurnefni. Lagt á ráðin um löng hlaup sumars, m.a. Vesturgötuna í júlí.
18.4.2009 | 17:11