Hér verður sagt frá ævintýralegu hlaupi í Vesturbænum

Þetta leit nógu sakleysislega út til að byrja með. Veður gott og bauð upp á gott hlaup. Fjöldi góðra hlaupara sem voru með magann fullan af góðum ásetningi um afrek, harla vel hafandi í huga afrek hetju Samtaka Vorra, próf. dr. Fróða, í Sahara. Þarna voru Bjarni, ritari, Helmut, Kári, Jón Gauti, Denni, S. Ingvarsson, dr. Jóhanna, Rúna, Þorbjörg - svo drattaðist náttúrlega blómasalinn inn einni og hálfri mínútu í brottför.

Ritari sá Margréti þjálfara hlaupa eina síns liðs á Hringbrautinni um fjegurleytið sama dags og skildi ekki hví hún vildi ekki einfaldlega sameinast Hlaupasamtökunum sem þögulll þátttakandi og hlutlaus observant.

Nema hvað, menn leggja í hann. Helmut fljótur að snúa við og gera eitthvað annað. Aðrir frískir. Jón Gauti, S.Ing., Bjarni og blómasali fremstir. Ég spáði því að þeir myndu sprengja blómasalannn og skilja hann eftir. Spáin rættist við flugvallarenda, þar sem ritari náði gangandi blómasala. Aðspurður kvaðst blómasali hafa nærst á þrimur pylsum í hádeginu með miklu af remolaði. "Ég ætlaði fyrst bara að fá mér eina pylsu, og banana í eftirrétt. En svo, þegar ég sá að sex pylsur voru eftir, þá réð ég ekki við mig og bætti tvimur við fyrra skammt."

Þannig gekk umræðan á Sólrúnarbraut. Þegar hér var komið fór ég að segja blómasalanum frá samskiptum mínum við leigjendur í húsi mínu sem hafa verið mikil harmsaga. Hann gleymdi sorgum sínum og við hlupum um Nauthólsvík. Einhvers staðar um þetta leyti náði dr. Jóhanna okkur. Það var hvalreki.

Þegar komið var á Klambratún náðu okkur Denni og Brynja. Eftir það var hlaup bara yndislegt. Við fórum Sæbrautina á ljúfu skeiði. Denni kom með tillögu um að breyta til. Ekki kom til greina að fara Mýrargötu, farið hjá Stjórnarráði, Austurstræti, Austurvöllur, Túngata og yfir túnið, niður Blómvallagötu og athuguð kirsuberjatré á Sólvallagötu. Ekki meira um það í bili.

Tekin róleg stefna á Laug. Teygt utandyra. Teygt innandyra. Rætt um stjórnmál í útiklefa. Rætt um stjórnmál í Potti. Það stefnir í að Steingrímur J. verði næsti "Frost-roðra" og virtust menn sammála um það, auk evru.

Í útiklefa fór fram '''merkileg næringarfræðileg umræða og flutti Jón Gauti þá kenning að  manninum væri eðlilegt að hlaupa, drekka, matast, sofa, njóta ásta (not in so many words) - og ef allt þetta héldist í skynsamlegar hendur væri okkur borgið. Góður rómur var ger að málflutningi Jóns Gauta og hefur hann þegar vaxið að áliti í Samtökum Vorum.

Í fyrramálið er hlaup í boði, 10:00, langt, hægt. Ljúft. Vel mætt! Í gvuðs friði, ritari.


Limra um hetju

Ágúst Axelsson Kvaran
áður fyrr kallaður var'ann.
Það var sko þá
en það er nú frá.
Nú er hann nefndur Saharan.

höf. Þórarinn Eldjárn


Er ekki lífið yndislegt?

Nokkrir úrvalshlauparar voru saman komnir til hlaups frá Vesturbæjarlaug í dag, laugardaginn fyrir páska. Þar á meðal voru báðir þjálfarar, Rúnar og Margrét, Flosi, Þorvaldur, Ólafur ritari, Þorbjörg, kona Rúnars, Eiríkur (búinn þá þegar með 5 km) - og svo ungliðahreyfing Samtaka Vorra: Elínborg Ingunn Ólafsdóttir, dósent HÍ, stærðfræðingur, Pawel Bartosiak, Stefán Ingi Valdemarsson líka stærðfræðingur.

Mæting 10, einhver orð um að fara af stað 10.10 - en ákveðið að breyta til og leggja í hann 10:05. Hafi einhver mætt 10:08 og misst af okkur, þá er þetta skýringin: við vorum farin. Það er hlaupið langt á laugardögum og stefndi ritari á 69. Eiríkur ætlaði að taka hálfmaraþon, annað eftir því.

Að öllu samanteknu verður ekki annað sagt en hlaupið hafi gengið eins og bezt verður á kosið og merkilegt hvað maður kemur vel undan vetri. Hafði Powerade meðferðis og það bjargaði mér, enda eitthvað um vökvamissi hjá hlaupara eins og mér á svo langri leið. Það var bara vellíðan og kraftur alla leiðina, hlaupið samfellt, stanzað til að drekka, en svo haldið áfram. 

Er komið var á Hofsvallagötu varð manni hugsað: er ekki lífið yndislegt?! Formið er komið og nú bíða nýir áfangar: Goldfinger, Stíbbla, Sundlaug.

Næst hlaupið annan dag páska kl. 10:10.


Hlaup á páskum 2009

Nú eru páskar í aðsigi. Menn eru komnir í frí. Sumir komnir norður á Agureyri, sem er þorp við Eyjafjörð. Aðrir enn á mölinni og stefna á hlaup. Ritari lá uppi í sófa og svaf megnið úr degi, enda kominn í frí eins og aðrir og getur andað léttar eftir erfitt streð í þágu lands og lýðs í Lýðveldinu. Það breytti ekki því að það skyldi hlaupið í dag.

Nokkru færri mættir á miðvikudegi fyrir páska en alla jafna á venjulegum miðvikudegi. Þetta voru Flosi, Þorvaldur, Bjarni, Eiríkur, Ólafur ritari, Una, Sirrý, Kalli kokkur, báðir þjálfarar og svo longintes sem ég man ekki nafnið á, en mun geysiefnilegur hlaupari. Magnús sást skjótast eins og mús út úr húsi um það bil sem hann hefði átt að vera að mæta til hlaups og fékkst fátt skýringa á framferði hans.

Það var einkennilega létt yfir mannskapnum í kvöld, einhver óútskýranlegur léttleiki, sem sló jafnvel út í kæruleysi, og smitaði út frá sér. Þjálfarar kvörtuðu yfir því að þegar þeir beindu þeim tilmælum til hlaupara í fyrra að fara varlega í að lengja, þá fór enginn eftir þeim tilmælum. Nú væru þeir eilíft að hvetja menn til að fara að lengja - og hvað gerist? Enginn hlustar á þá! Hvað er að gerast?? Er aldrei hlustað á þjálfarana?

Fara hægt út að "Dælustöð".  Það var farið hægt af stað út að Dælu. Menn og konur voru róleg. Enginn hraðafantar, þó var Þorvaldur eitthvað að derra sig. Við Dælu var gefin út lína um aukinn hraða. Þessi tilmæli áttu einna helzt við um þjálfarana tvo og Eirík, Bjarni, Una og Flosi voru næst í röð, þar á eftir komu hlauparar eins og ritari sem er orðinn vanur því að vera aftastur og vera einn. Það er allt í lagi, svo lengi sem hann heyrir ekki tiplið í blómasalanum eða Jörundi á eftir sér. Það er vond tilfinning og veldur streitu. Streita er ekki góð tilfinning fyrir hlaupara sem er á millilöngu hlaupi eins og farið var í dag. Ég gleymdi að nefna að það var planið að fara Þriggjabrúahlaup.

Markmið ritara var að ná að fara Three Bridges Run með sóma án þess að springa eða togna á leiðinni. Með "springa" er átt við að gefast upp. Þess vegna var málið að fara hægt fyrstu fimm kílómetrana. Áður en maður vissi af var komið inn að Borgarspítala og brekkan þar upp var erfið eins og ávallt. Ég sá enn hlaupara á undan mér, Flosa, Unu og Bjarna. Í þetta skiptið þurfti ég ekki að stanza til að hvíla míg, hélt áfram yfir Útvarpsstöðvarhálendið og yfir hjá Kringlu. Yfir Brúna hjá ónefndu íþróttafélagi og þannig yfir á Kringlumýrarbraut.

Eftir þetta var hlaup eiginlega hefðbundið, með stoppum við ljós, og við brunn á Sæbraut. Ekki sá ég eða heyrði neinn að baki mér á stígnum, grennslaðist þó fyrir um þetta öðru hverju, enda vont að vita af einhverjum sem er hugsanlega að ná manni.

Komið til Laugar á forsvaranlegum tíma, þótt ég væri á eftir öðrum. Teygt í Móttökusal. Lítið um pottsamveru - líklega vegna þess að menn eru að detta í páskafrí. Nú er orðið albjart á kvöldin eftir hlaup og tilhlökkunarefni að fara að lengja hvað úr hverju.

Hvað gerðist í hlaupi kvöldsins?

Það var byrjað að rigna þegar ritari kom á hjólfáki sínum á Plan Vesturbæjarlaugar. Ritari Hlaupasamtakanna er umhverfisverndarsinnaður og nýtir því hið umhverfisvæna farartæki hjólfákinn til þess að flytja sig milli staða. Sama gerir bróðir hans, Flosi. Þeir eru Flóamenn. Flóamenn eru upp til hópa geðþekk góðmenni og annt um allt sem lífsanda dregur. Báðir lögðu hjólfákum sínum utan við Laug og gengu prúðmannlega í Salinn og þaðan þráðbeint í útiklefa.

Í Útiklefa er jafnan glatt á hjalla. Þar voru mættir og voru kátir, auk fyrrnefndra Flóamanna, Þorvaldur, Björn, Bjarni Benz og Eiríkur. Gamanyrði flugu, glensyrði um litaval manna þegar bolir eru annars vegar, Björn á grænni treyju, enginn á bleikri í þetta sinn, en allflestir í hefðbundnum svörtum lit Hlaupasamtakanna.

Í Brottfararsal voru allmargir hlauparar mættir, fjölmargir nýir eða nýlegir, ekki man ég nöfnin. Líklega hafa í allt verið um 20 mættir. Báðir þjálfarar mættir og voru kátir og frískir. Þá er að nefna Magnús, S. Ingvarsson, Jón Gauta, Þorbjörgu, Unu, og einhverja fleiri. Samþykkt að fara út að Dælustöð og ákveða í framhaldinu hvað yrði. Við vorum létt á okkur þegar við lögðum af stað í úrinu. Upp á Víðimel og þannig út í Skerjafjörð. Þar fór Margrét með heilmikla þulu sem var ofar skilningi okkar Máladeildarstúdenta, þetta var talnaruna svo margslungin og margræð að ekki var fyrir hvítan mann að skilja þetta. Menn horfðu hver á annan og spurðu: Hvað var atarna? Margrét horfði vorkunnfull á okkur og sagði: Æ, það er ekki eins og þið hafið ekki gert þetta áður!

Svo var lagt í hann. Menn fóru á spretti, en ritari fór með Bjarna og Þorbjörgu á hægri ferð. Upphaflega hafði hann hugsað sér að fara stuttan eymingja, svo lengri eymingja, loks Hlíðarfót. En með malandann úr Bjarna í eyranu er ómögulegt annað en gleyma vanlíðan sinni og halda áfram og út að Kringlumýrarbraut. Þar var ákveðið  að fara upp Suðurhlíðar í stað þess að mæta hinum spretthörðu. Við tókum brekkuna með látum og linntum ekki fyrr en upp við Perlu. Hér rigndi duglega, en það skipti engu máli, þetta var yndislegt! Nú var bara að fara niðurúr og klára hlaup með glans. Ritari var farinn að finna fyrir tognun í læri og ágerðist hún eftir því sem leið á hlaup.

Svo var tekið á því á Hringbrautinni hjá Flugvelli og ekkert gefið eftir. Mér skilst að aðrir hlauparar annars staðar hafi einnig tekið á því. Eiríkur var í sínu sóló prógrammi á Ægisíðu og má segja að prógrammið hans heiti Fram og aftur blindgötuna. 20 200 m sprettir. Þeim lauk nokkurn veginn á sama tíma og við Þorbjörg og Bjarni komum til Laugar. Mjög skemmtilegt hlaupaveður, rigning, en stilla.

Teygt lengi vel í Móttökusal. Í Potti fór fram umræða um persneska menningu og stjórnsýslu. Spurt hverjar atvinnuhorfur væru þar fyrir vel meinandi embættismenn af Íslandi. Einnig var rætt um afrek félaga okkar í Sahara, próf. dr. Ágústs Kvarans, og þann fagnað sem framundan er þegar hann snýr tilbaka úr Bjarmalandsför sinni.

Lærir maður aldrei?

Sahara-hetjan okkar var mönnum ofarlega í huga þegar safnast var saman til hlaups í dag í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar, og mörg skeyti flogið og lærðir pistlar í kamelfræðum birtir á póstlista. Í dag var lengsta hlaupið þreytt, 91 km, en svo hvílt á morgun, nema þeir sem þurfa að ljúka langa hlaupinu. Hingað til hefur þetta gengið vel, og vonuðu menn að góða gengið héldi áfram.

Allnokkur fjöldi hlaupara mættir og voru vel stemmndir fyrir langt. Þar á meðal Nestor Samtakanna, Jörundur, nýorðinn 68 ára gamall og slær ekkert af. Aðrir Flosi, Bjössi, Biggi, Ósk, Una, Dagný, Sirrý, Margrét, dr. Jóhanna, Þorvaldur, Helmut og ritari. Við tíndum Sigurð Ingvarsson upp á leið okkar út Sólrúnarbraut, hann kom hlaupandi úr Grafarvogi, kominn með 14 km á mælinn og tók ekki eftir okkur. Svo var Eiríkur líka með í för, en var í sínu eigin prógrammi, tók spretti fram og aftur Ægisíðuna. Jú, Einar blómasali kom líka, seinn að vanda.

Það mátti velja um Þriggjabrúahlaup eða Stokk fyrir þá sem þurfa að fara að lengja. Það átti að fara hægt út að Skítastöð, eftir brúna yfir Kringlumýrarbraut átti að auka hraðann. Þrátt fyrir tal um rólegheit var allt gleymt við flugvöll og sett á hratt tempó. Liðskönnun við Borgarspítala og beðið eftir eftirlegukindum. Hópurinn fór nokkuð samtímis upp brekkuna. Hún var óvenjuerfið í þetta skiptið. Það fór að draga af þessum hlaupara eftir brekkuna, en svo lagaðist það við Kringlu og ég átti ágætan sprett út að Kringlumýrarbraut og niðureftir. Við ljósin við Suðurlandsbraut náðu Dagný og Sirrý mér - stuttu síðar kom Jörundur skeiðandi framúr og virtist ekki við okkur vilja tala.

Á mótum Borgartúns og Sundlaugavegar fékk ég krampa í læri, varð að stöðva og teygja. Maður nokkur sem ég kannast við úr Útiklefa VBL stöðvaði bíl sinn og bauð mér far tilbaka, en ég afþakkaði og kvaðst geta hlaupið þetta eftir smáhvíld. Áfram um Sæbraut og drukkið kalt vatn á réttum stað. Eftir þetta fór að draga verulega af mér og ég þurfti að fara að ganga smáspeli inn á milli, m.a. upp Ægisgötuna. Skeiðaði svo niður Hofsvallagötuna og tilbaka til Laugar. Þetta var erfitt hlaup, vafalítið vegna þess að ég fór allt of hratt fyrstu 5 km og var búinn eftir 9-10.

Bjarni var í Útiklefa og hafði farið eina 9 km á eigin vegum. En nú er vorið komið og við förum að lengja smásaman, fara í Elliðaárdalinn, Goldfinger, Stíbblu o.s.frv.

Bakkavörin tekin með látum, aftur og aftur

Ekki færri en seytján hlauparar mættir til hlaups á mánudegi, þ. á m. Jón Gauti fjallaleiðsögumaður, nýkominn úr frægðarför þar sem lífi konu var bjargað með snarræði. Magnús sagði að Ágúst hefði gleymt öllum gagnlegustu hlutunum í Sahara: sundgleraugum, froskalöppum og vindsæng. Þjálfarar seinir og eitthvað utan við sig í dag. Við stóðum góða stund á Plani án þess að nokkuð virtist ætla að gerast. Kári tók af skarið og fór sína leið, sömuleiðis Helmut og Magnús. Loksins kom leiðarlýsing frá þjálfurum, stytzta leið út á Nes og Bakkavarir. Það var norðangarri á Hofsvallagötu og manni leist ekki meir en svo á þetta. En það voru sprækir hlauparar sem lögðu í hann og alltaf er maður jafnstoltur af hersingunni þegar hún leggur af stað og vekur undrun og aðdáun hvar sem hún kemur.

Farið upp á Hringbraut og þaðan vesturúr, hjá JL-húsi og út á Nes. Hraði nokkuð góður, mér heyrðist einhver nefna tempóið 5:20. Nú er svo komið að jafnvel lökustu hlauparar, eins og ritari, eru farnir að hanga í hinum betri hlaupurum og er þeim samferða alla leið. Það var farið út í Bakkavör og ekki verið að bíða neitt heldur farið beint í sprettina. Margrét, sem stýrði för í dag, lagði til 6-8 Bakkavarir, horfði svo á hlaupara í kringum sig og sagði: Mér sýnist nú menn alveg geta tekið 10.

Þetta endaði á 7 eða 8. Jörundur kvartaði yfir því að menn kynnu að hlaupa upp, en ekki niður. Það er ekki sama hvernig farið er niður brekku. Það er kúnst. Menn halda höndum með síðum, beygja sig eilítið fram á við og taka löng skref, svífa eða láta sig detta eins og sumir kalla það. Þetta kann fólk almennt ekki, sagði Jörundur. Sömuleiðis spurði hann um bílinn Magnúsar: Er búið að fjarlægja hann? Já, það er langt síðan, sagði ritari.

Það tók á að taka sprettina í Vörinni, enda í fyrsta skipti sem ritari tekur sprettina þetta árið. Yngra fólkið fór þetta létt, Eiríkur í sérstöku prógrammi fyrir London. Flosi sprækur og tók vel á því. Þegar þessu var lokið fóru menn sömu leið tilbaka og komið var, nema beygt var inn Grandaveginn og þá leið tilbaka. Farið á góðum spretti og ekkert slegið af. Teygt vel á eftir í Komusal. Helmut kom gangandi tilbaka og kunni frá því að segja að hann hefði tognað í kálfa í hlaupinu og þurft að ganga frá Nesi.

Rætt um ríkisstarfsmenn í potti. Ekki eru allir hrifnir af ríkisstarfsmönnum. Bjössi sagði af myrkvuðu kvöldi á Argentínu, þar sem hann þurfti að nota ljósið frá símanum til að sjá steikina sína, bein með smá tægjum utan á. Þetta minnti viðstadda á blindraveitingastaðinn í Berlín, þar sem allt er myrkvað og menn sjá ekki hvað þeir eta, blindir bera fram matinn.

Frábært hlaup að baki og bara bjartsýni um næstu hlaup. Í gvuðs friði, ritari.

Þekkt góðmenni í Vesturbænum hlaupa á sunnudagsmorgni

Fjögur þekkt góðmenni í Vesturbænum mættu til hlaups frá Vesturbæjarlaug að morgni sunnudagsins 29. marz. Þetta voru þeir Ólafur Þorsteinsson, Jörundur, Friðrik kaupmaður og Ólafur ritari. Eðlilega var ræða Davíðs á landsfundinum efst á Baugi og töldu menn  sig sjá merki um benjamín í uppsiglingu, einkennin væru ótvíræð.

Upplýst að brottför Sahara-hlaups hefur frestast vegna vatnavaxta! Í Sahara! Ákvörðun um brottför verður tekin að kveldi 29. marz.

Nýfallinn snjór var yfir öllu, en veður annars gott og hagstætt hlaupurum. Sem fyrr bar álitsgjafa í Garðabænum á góma og ritari inntur eftir því hvað hann hefði fyrir sér í því að álitsgjafinn færi að sýna sig á meðal vina og hlaupafélaga, en orðrómur í þessa veru hefur verið afar þrálátur. Í morgun spurði m.a. Bjarni Felixson um Villa, hvað þetta væri með hann, hvort hann væri alveg hættur að láta sjá sig.

Eins og menn þekkja er persónufræðin í aðalhlutverki á sunnudögum. Svo var og í dag. Einna bezt dugði okkur umfjöllun Ólafs Þorsteinssonar um nýskipaðan sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins, hún hófst við Hofsvallagötu og entist okkur langleiðina inn í kirkjugarð. Afi saksóknara var formaður stjórnmálaflokks og endaði sem sendiherra. Haraldur Guðmundsson formaður Alþýðuflokksins. Ólafur sýndi sig vera einkar fróður um alla hans ætt.

Fjölmargir góðborgarar voru á ferli og oftar en ekki þekkti Ólafur þá og þurfti að heilsa þeim, og helzt tala lítillega við þá. Staðnæmst á réttum stöðum og sagðar sögur. Allar fallegar. Rætt um New York maraþon, en þangað fara Friðrik og Rúna, auk Helmuts og dr. Jóhönnu. Jörundur hefur hlaupið í New York og segir það skemmtilegasta maraþonið, en brautin erfiðari en í Berlín.

Við bentum Frikka á tréð hans Magga við Óttars platz og sögðum honum af hverju það væri kallað tréð hans Magga. Fórum niður á Sæbraut og þá leið tilbaka. Að hlaupi loknu voru menn sammála um að sjaldan hefði hlaup verið öllu ánægjulegra, veður gott og félagsskapurinn góður. Gæðastund í potti með hefðbundinni áhöfn.

Er það satt? Getur það verið?

Horfur góðar framan af degi, en svo snerust veðurhorfur gegn okkur, það dimmdi yfir, kólnaði og fór jafnvel að bera á snjókomu. Mættir í Útiklefa Þorvaldur og Ólafur ritari. Eðlilega varð þeim fyrst hugsað til Vilhjálms Bjarnasonar og áttu saman langt spjall um þann mæta meðborgara og félaga. Við ræddum einna helzt um líkindi þess að hann mætti aftur, en ansi langt er orðið síðan hann sást síðast í kátra sveina og meyja hópi á Sólrúnarbraut. Flogið hefur fyrir að hann hyggi á hlaup á ný með félögum sínum í Hlaupasamtökunum og er víst að honum verður tekið fagnandi er hann birtist. Eina sem getur truflað eru óheppilegar athugasemdir frænda míns og vinar, Ó. Þorsteinssonar, Formanns til Lífstíðar, en hann á það til að segja hluti við Vilhjálm í vikulegum samtölum þeirra sem verða til þess að hleypa illu blóði í Álítsgjafann. En við bíðum spennt eftir að sjá þennan ljúfling í hópi okkar á ný.

Mættir nokkrir valinkunnir hlauparar þrátt fyrir leiðindaveður. Flosi, Helmut, dr. Jóhanna, Kalli, Magnús, Brynja, Friðrik kaupmaður, Jón Gauti, Kári, Bjarni Benz og fyrrnefndir tveir hlauparar. Kári fór á undan hópnum og var bara frískur fyrsta kílómetrann. Aðrir voru frískir aðeins lengur, sumir allt hlaupið. Ritari var aldrei frískur, byrjaði að kveinka sér og væla þegar í byrjun og leið illa allt hlaupið, sem þó var ekki langt, Hlíðarfótur, 8 km. Aðrir fóru lengra, Klambratún og Blóðbanki, jafnvel Sæbraut.

Nei, það var hlunkast þetta af stað, maður var þungur eftir utanlandsferð og ólifnað. Það situr í manni. Kalt. Blés á norðan. Bærilegt út Ægisíðuna, en svo skall norðankyljan á manni við flugvöll og það var erfitt. Ég ætlaði að láta það koma í ljós í Nauthólsvík hvað ég færi langt, útilokaði sosum ekki hefðbundið - en svo sá maður að það var ekkert vit annað en stytta.

Eðlilega voru menn með hugann við hlauparann í Sahara. Honum fylgja góðar óskir að heiman og verður hugur okkar hjá honum á sunnudag þegar hann sprettir úr spori og lætur gamminn geisa í sandinum. Þó er brýnt fyrir honum að hann gleymi ekki að nefna Hlaupasamtökin á nafn þegar hann kemur fram í fjölmiðlum (t.d. í Fréttablaðinu í morgun).  

Ólmir hestar – Heavy Horses

24 mættir – hið minnsta. Þegar Hlaupasamtökin söfnuðust til hlaups í dag stóð yfir myndataka af e-u óskilgreindu tagi og sætti það furðu að myndefnið var ekki hlauparar Samtaka Vorra, heldur einhverjir skringilegir karaktérar á Brottfararplani. Ágúst var mættur með eyðimerkurhúfu og var það hald manna að nú mættu bedúínakonur í eyðimörkinni fara að vara sig. Þjálfarar báðir mættir og lögðu til rólegt hlaup um Víðimel út að Dælustöð í Skerjafirði (og bíða þar). Þrátt fyrir þetta var tempóið út komið á gott ról þegar á Suðurgötu og greinilegt að það var hugur í mönnum. Við mættum Einari Baldvin þegar við komum í Skerjafjörð, hann hljóp í öfuga átt. Blómasalinn hætti fljótlega þar sem hann taldi sig þurfa að sinna fjölskylduerindum í stað þess að hlaupa. Einhver sagði að hann hefði snúið við af því Frikki sagði honum frá tilboðinu á ýsuflökunum í Melabúðinni, en ég held að það sé lygi.

Við komu út að Dælustöð var gefin út skipun um eftirfarandi: þrír 800 m sprettir í vesturátt, 1 mín. hvíld á milli, 2 mín. fyrir þá sem vildu taka fleiri en 3 spretti. Svo var bara gefið merki um brottför og menn sprettu úr spori. Menn eru náttúrlega misjafnlega staddir í þoli og hraða og það sýndi sig á þessum kafla, það gisnaði hópurinn á leiðinni vesturúr. Þá mættum við Benedikt sem hljóp öfugt eins og Einar Baldvin. Það tekur á að hlaupa 800 m á spretti og maður veltir því fyrir sér hvenær spretturinn taki enda. En þetta gekk vel, maður hélt nokkurn veginn í við hina og sá hvenær þeir hægðu á sér.

Svo kom að næsta spretti og hann náði út alla Ægisíðuna út að Hofsvallagötu. Á leiðinni mættum við Neshópi og voru þar nokkur þekkt andlit, þ. á m. nýbakaður doktor, Jóhanna Einarsdóttir, skólasystir ritara úr Reykjavíkur Lærða Skóla, svo að oss er vandi á höndum: hver er dr. Jóhanna? Hér var ritari orðinn einn, en hann grillti Sirrý á undan sér. Svo er bara að skella sér á Nesið, í Skjólum dúkkaði Helmut upp, og á Nesvegi fóru Ágúst og Rúnar fram úr mér. Hér var þriðji sprettur í gangi og engin leið að vita um hvenær honum lyki. Ég var í góðum gír og treysti mér áfram út á Lindarbraut (sem var uppnefnd Unter den Linden í potti).

Leiðin tilbaka var einföld og ritari hélt tempói til loka. Einn af þessum frábæru vordögum þegar allt gengur hlaupara í hag, veður, aðstæður, og annað. Það var teygt við Sundlaug og skrafað saman. Ég sagði Bigga brandara sem er vart hafandi eftir, en má samt fljóta. Íþróttafréttamenn segja stundum hluti án þess að hugsa, þetta er dæmi: „Dunga tekur Baggio aftanfrá, enda þekkjast þeir frá því þeir léku saman hjá Fiorentina.“

Pottur vel mannaður. Prófessor Fróði í aðalhlutverki, enda líður senn að brottför. Áfram flugu góð ráð honum til handa. Það væri að æra óstöðugan að tilgreina þau öll, en það laut að úlfaldahlandi, illa þefjandi hlaupurum, Bragakaffi í boði Magga á afmælisdaginn hans 2. apríl og hvað Ágúst ætti að gera á frídaginn (máttu ekki hlaupa? spurðu menn). Ekki var verra að Sif Jónsdóttir langhlaupari mætti í pott og gat miðlað góðum ráðum. Friðrik sagði sögu sem Biggi missti af sökum athyglisbrests, hann heimtaði að fá söguna sagða aftur, en Friðrik neitaði. Þá heimtaði Birgir að ritari segði söguna í pistli kvöldsins, en ég segi bara: BIRGIR! FYLGSTU MEÐ!

Að svo mæltu er ritari horfinn til mikilvægra embættisverka á suðlægari slóðum. Slóðin á hlaup Ágústs verður birt fljótlega á bloggi og vonandi berum við gæfu til þess að halda Fyrsta Föstudag 3. apríl n.k. og fylgjast þá með lokasprettinum í Hlaupinu Mikla. Í gvuðs friði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband