Seint sagðir veðurglöggir...

Seint verða þjálfarar taldir með veðurgleggri mönnum. Þannig var að nokkur hópur hlaupara safnaðist saman til hefðbundins miðvikudagshlaups í Brottfararsal Vesturbæjarlaugar í dag. Utandyra rigndi hressilega og blés. Menn fóru út og ráku trýnin út í loftið. Þjálfari stakk puttanum upp í sig og rak hann svo upp í loftið. "Jamm, hann blæs á austan. Þá er líklega skynsamlegast að taka öfugan Þriggjabrúahring svo að við losnum við mótvindinn, en höfum hann svo í bakið á heimleiðinni." Menn voru býsna ánægðir með þessa hernaðaráætlun og lögðu í hann harla glaðir í bragði.

Að vísu fengum við einhvern mótvind til að byrja með, en það var ekkert óvænt, og raunar við því að búast og eitthvað sem menn létu sig bara hafa, vitandi það að við fengjum síðan meðvind á heimleiðinni. Farið upp Hofsvallagötu, niður Túngötu, Ægisgötu, út Mýrargötu og inn í Borgartún (þar sem ritari sýndi þann karaktér að láta kokkteilboð Bandalags háskólamanna framhjá sér fara til þess að geta stundað hlaup) - áfram inn á Kringlumýrarbraut. Hér var hópurinn eitthvað farinn að sundrast og ég dólaði mér með Jörundi, Sirrý og Dagný skammt undan.

Einhver bið varð á að vindur snerist, því að við vorum enn í mótvindi. Við bættist haugarigning sem gerði hlaupið ívið þyngra en alla jafna. Þar á móti kom að við sluppum við að hlaupa upp brekkuna hjá Borgarspítala, en klifum hæðina hinum megin frá, og var það lengri kafli og meira aflíðandi. Fátt bar til tíðinda, maður kjagaði þetta svona áfram, og sá alltaf hópinn einhvers staðar á undan sér. Uppi á Bústaðavegi sáum við kunnuglegan hlaupara, Hjálmar á réttu róli, en þó röngu miðað við okkur. Hann fór réttan Þriggjabrúarhring og mætti okkur á miðri leið. Maður lét sig vaða niður brekku hjá Borgó, með hendur niður með líkama og slaka fótvöðva.

Mikið vorum við Jörundur hissa að koma niður í Fossvoginn. Var það ekki hér sem við áttum að fá meðvind? Töluðu þjálfararnir ekki um það? Nei, ekki stóðst það alveg, það var sami þræsingurinn í fangið þar sem við héldum áfram inn í Nauthólsvík, Skerjafjörð og Ægisíðu. Okkur til huggunar mættum við brosmildum konum sem horfðu á okkur fullar aðdáunar og spurðu: "Hvaða hlaupahópur er þetta eiginlega?" Við svöruðum því til að hér færu Hlaupasamtök Lýðveldisins, langflottasti hlaupahópur landsins.

Er komið var til Laugar stóð hópur hlaupara á Plani og hneykslaðist á því að hafa farið heilan hring og verið alltaf með storminn í fangið. Hvernig gat þetta gerst? Jörundur vildi láta setja vindhana á höfuð þjálfara til að hjálpa þeim að glöggva sig á vindáttinni.

Pottur stuttur, blómasali mættur svo og frambjóðandinn og skáldið úr Skerjafirði, Kristján Hreinsmögur. Kári og Bjarni lögðu saman fætur sína þannig að þeir mynduðu brú og þótti það ófögur sýn. Ekkert ákveðið um hlaup fimmtudag eða föstudag, en hins vegar stefnt á langt á laugardag kl. 9:30. NB - hálftíu! Hvað menn akti og taki tilhlýðilegt nótís af. Í gvuðs friði, ritari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband