20.5.2009 | 20:21
Fámennt á miðvikudegi fyrir Himnaferðardag
Það var ekkert sérstakt sagt í upphafi hlaups, bara lagt í hann. Ég hljóp með Bjössa og við ræddum um sameiginlegan kunningja sem oft á eftirminnilega spretti í mannlegu félagi. Björn og Eiríkur styttu í Nauthólsvík, það var haldið áfram út að Borgarspitala og ég sá enn fremstu hlaupara. Flosi hélt áfram í 69. Ritari hélt einn upp brekkuna og upp hjá Ríkisútvarpi. Skrýtið að maður skuli alltaf vera einn að puða þetta.
Ekkert frásagnarvert gerðist á leiðinni, en haldið góðu tempói. Mætti á Plan nokkru á eftir þeim hinum og hlaut að launum glósur um að ég væri reglulega snöggur í ferðum. Rifjuð upp næstu hlaup, m.a. langt á laugardag kl. 9:30. Enn fremur hefur verið ákveðið að skjóta inn einum ónýttum Fyrsta Föstudegi n.k. föstudag til þess að heiðra Ágúst stórhlaupara og stolt Samtaka Vorra. Í því sambandi var minnst á Rauða Ljónið, en verður til frekari skoðunar.
Þar sem við sitjum í potti og eigum náðuga stund kemur blómasalinn hlaupandi og kveðst hafa farið 11 km - engin vitni eru þó að þessu. Það var rætt um áfengi og mat.
18.5.2009 | 21:41
Helmut biður að heilsa
Þá var það hlaup dagsins. Fyrr um daginn kom óbein áskorun um að taka brekkuhlaup í Öskjuhlíð og hlaut sú hugmynd náð fyrir augum þjálfara. Fara hægt út í Nauthólsvík. Ekki þurfti að endurtaka þá skipun, hópurinn lagði rólega af stað í hreint ótrúlegri sumarblíðu, 16 stiga hita, heiðskíru og hægum andvara.
Það var haldið upp Hi-Lux-brekku og svo var sprett úr spori upp löngu brekkuna (veit ekki hvað hún heitir, kannski Wassily-brekkan). Við sáum Flosa á undan okkur og eltum hann upp að Perlu, það voru ritari, Friðrik kaupmaður, Birgir og blómasalinn. En þetta var einhver vitleysa, við sáum ekki þau hin. Svo var farið niður aftur á stíga milli trjáa og greinilegt að átti að taka spretti sem leiddu okkur í hringi. En við hættum ekki, heldur héldum áfram að fara stígana í Öskjuhlíðinni, slepptum lengingunni upp að Perlu og þá loks fórum við að eygja þau hin sem venjulega fara fremst: þjálfarar, Björn, Ósk og fleiri.
Það voru farnir fimm hringir af okkar hálfu, veit ekki um fremsta fólk. Góðir sprettir sem tóku í. Svo var lengt út í Suðurhlíð og þá leið tilbaka í Nauthólsvík. Nú gerðust hlutirnir. Í veðri sem þessu er ótækt annað en fara í sjóinn. Fjöldi manns í sjóböðum. Þarna mættum við á rampinn okkar góða og þessir böðuðu: Ólafur ritari, Flosi, Ósk, Friðrik kaupmaður, Björn, Eiríkur, Birgir, Rúnar (!), Georg þýzki, með öðrum orðum ALLIR NEMA ónefndur BLÓMASALI. Hann stóð innan um börn sem hentu sér í 7 gráðu heitan sjóinn og heyktist á sjóbaði. Ekkert minna en hneyksli. Einkum vakti það ánægju að þjálfarinn féllst á að njóta þessarar sjaldgæfu sælu að svala sér í Atlanzhafsöldunni, sem endurnærði og styrkti eftir hressandi sprettina í Hlíðinni.
Svo var haldið á hægu tölti til baka og til Laugar. Birgir tók hópinn í góða jógaæfingu sem vakti mikla athygli þeirra sem leið áttu um Plan. Við mættum nokkrum hlaupurum sem misst höfðu af sprettum í Öskjuhlíð, þeirra á meðal var Helmut. Maður vorkennir stundum hlaupurum sem missa af aksjóninni og hasarnum kringum spretti og sjóböð! Legið í potti og sagðar sögur.
Stefnan er á öfugan 69 á miðvikudag og sjóbað á ný ef veður leyfir.
17.5.2009 | 15:59
Á þjóðhátíðardegi Norðmanna
Af nógu var að taka í frásagnarefnum og hófst persónufræðin á hlaupara: hann er fæddur 1958 sagði Ó. Þorsteinsson, prófessor í bókmenntafræði. Móðir hans er einnig prófessor í bókmenntafræði, eiginkonan starfsmaður Háskólans í Reykjavík. Hér gat ritari vakið athygli að tveimur veikleikum í vísbendingum, maðurinn var að vísu fæddur 1959 og prófessor í sagnfræði, ekki bókmenntafræði. Már Jónsson. Þetta þótti frænda mínum minniiháttar ónákvæmni, bókmenntafræði, sagnfræði, hver er munurinn?
Næst var að segja frá merkilegri ferð fjörutíuárarstúdenta úr Reykjavíkur Lærða Skóla á Suðurland, sem tók menn alla leið að Gunnarssteini og Heklurótum, en endaði svo við Eyrarbakkafjöru. Þar kom einnig samsvarandi hópur úr Verzló og Ó. Þorsteinsson gerður út að athuga hverjir voru. Enginn með embætti eða ættarnafn var í hópnum.
Rætt var um sjónvarpsþátt í Kanakanalnum í kvöld með þekktum hlaupara. Ó. Þorsteinsson var beðinn um að vitna, en afþakkaði pent. Í kirkjugarði mættum við ónefndum blómasala sem hafði tekið daginn snemma og búinn að fara öfugan 69. Eftir þetta var farið hefðbundið um sólböðuð stræti höfuðborgarinnar á þessum fallega sunnudagsmorgni.
Sögurnar gengu áfram og persónufræðin. Mættum ónefndum starfsmanni utanríkisráðuneytisins og var varpað fram vísbendingaspurningu á staðnum. Ritari forðaði sér frá skömm með því að geta upp á nafni viðkomandi á síðustu stundu.
Valinn maður í hverju rúmi í potti. Nú er mjög farið að ræða dagskrá sumars og ýmis hlaup er þreyta má á landsbyggðinni. Gaman væri að skipuleggja þátttöku Hlaupasamtakanna í sosum eins og einu slíku. Meira seinna.
13.5.2009 | 21:35
Með storminn í fangið - og með vindinn í bakið
Þjálfarar hafa brennt sig á því að vera að ráðleggja hlaup út frá veðurspá, það hefur ekki gengið vel. Í dag var 14 m vindur/sek á sunnan og ekki gott að átta sig á því hvernig hann myndi snúa sér þegar búið væri að hlaupa í sosum eins og 50 mín. Þess vegna þorðu þau ekki að segja neitt, sögðu bara: "Þið ráðið! Hver þorir?" Niðurstaðan var sú að sá sem varð fyrstur upp á horn mátti ráða hvort farinn yrði öfugur Þriggjabrúahringur eða hefðbundinn - eiginlega skipti það ekki máli, en yrði náttúrlega álitshnekkir viðkomandi ef vindur tæki upp á því að snúast í millitíðinni. Flosi var fyrstur og fór um bakgarða 107 og var ágætlega til fundið. En þegar komið var út í Skerjafjörð varð ekki undan því vikist að taka móti storminum. Sem betur fer var hann ekki kaldur, en það tók á að berjast gegn honum.
Ritari segir það sjálfum sér til hróss að hann hékk í fremstu og beztu hlaupurum inn að Borgarspítala. Fyrir neðan kirkjugarð gerðist það helzt tíðinda að Margrét þjálfari brá fæti fyrir þann ágætishlaupara Eirík með þeim afleiðingum að hann tók ágústínzkan flugtíma, en hafði þó til að bera forsjálni og hugvit til þess að snúa sjálfum sér í loftinu og lenda á þeim líkamspörtum sem mjúkir eru og taka vel á móti malbiki. Hlutust ekki meiðsli af og óðara var Eiríkur rifinn á lappir og við héldum áfram eins og ekkert hefði í skorist.
En svo kom brekkan erfið upp hjá Borgarspítala og þá dró í sundur með okkur. Þegar hér var komið var farið að bæta í og ekki slegið af er upp var komið hjá Útvarpi. Yfir Miklubraut hjá Kringlu, vestur að Kringlumýrarbraut og svo niður úr og niður á Sæbraut. Þá voru hlauparar farnir að spretta úr spori. Eftir á kom í ljós að Eiríkur hafði farið á meðaltempóinu 5:05 og aðrir á e-u viðlíka. Ég sá fólkið á undan mér og hélt áfram á þokkalegum hraða, en brátt komu hinir skárri hlauparar og náðu mér, dr. Jóhanna og Birgir, svo einhverjir séu nefndir.
Ritari hélt áfram hefðbundið Mýrargötu og á horni Ægisgötu náðu loks þjálfarar að sigla fram úr, en létu þó vel valin orð um atgervi ritara falla, orð sem yljuðu þreyttu skari á stund örvæntingar. Þeim er einnig þakkað að fara ekki með fleipur um vindátt, spár stóðust í þetta skiptið.
Fólk var sumt hvað uppgefið að hlaupi loknu, Friðrik kaupmaður lá á grasflöt gersamlega búinn. Síðar fréttist af hlaupurum sem höfðu farið stutt, og vakti athygli slakt gengi blómasala nokkurs í hlaupi dagsins. Hann kvaðst einfaldlega hafa verið þreyttur. Teygt og farið í pott.
11.5.2009 | 20:59
Roknes
Fólk almennt vel klætt, sumt eins og það væri á leið til eyðimerkurdvalar. Hópurinn fór af stað og fór rólega upp á Víðimel og þaðan í vestur og út á Nes. Sumir þungir eftir átakahlaup síðustu viku. Sáum Rúnu og Brynju og fleiri Neshlaupara, þær virtust ráðvilltar, enda þegar blæs úr öllum áttum á Nesi er úr vöndu að ráða. Við áfram út að Bakkavör. Þá var gefin skipun um hlaup upp brekkuna, beygja svo til vinstri á Valhúsabraut og hlaupa þá götu á enda, niður tröppur sem þar eru og niður á Lindarbraut, hlaupa hana í suður og út á Suðurströnd, rólega tilbaka á Bakkavörina. Endurtaka nokkrum sinnum.
Við mættum allnokkrum mótvindi á Suðurströnd og var ekki skemmtilegt að hlaupa þá leið, annað var bærilegt í hlaupi kvöldsins. Það var talað um 2-5 sinnum þessa leið. Þessi hlaupari fór tvisvar og hálfu sinni, fór milliveginn, en til þess að forða því að deyja úr leiðindum beygði hann af og snöri skemmstu leið tilbaka. Ég veit að Kalli, Þorvaldur og Maggi slepptu þessum sprettum en fóru út á Lindarbraut og þaðan um húsagarða tilbaka. Aðrir tóku misjafnlega marga spretti af þessu tagi.
Það hellirigndi allan tímann og gerði hlaupara þyngri en ella. Það var þungt að fara Nesveginn í ausandi rigningu og mótvindi. Ritari hitti Kristján Skerjafjarðarskáld sem var kampakátur með nýja ríkisstjórn. Hann sagði skemmtilega sögu af Jóni Bjarnasyni, Ólafi Grími Björnssyni og Þorleifi dúklagningameistara.
Pottur fjölmennur og rætt um stjórnmál, mat og drykk. Upplýst að Hannes Hólmsteinn væri kominn með styrk úr sjóði Bjarna Ben til þess að eltast við kommónista. Mega menn í öllum hornum fara að vara sig.
9.5.2009 | 17:44
Tímar í Icelandair-hlaupi 7. maí 2009
Sögur af hetjum | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2009 | 22:13
Gamansögur á föstudegi - Fyrsti á Nesi
Hlaupasamtök Lýðveldisins eru menningarsamtök sem halda við þjóðararfinum, frásögum af skemmtilegu fólki og áhugaverðum afdrifum þess. Mætt til hlaupa að afloknu Flugleiðahlaupi voru dr. Jóhanna, Helmut, Kári, Þorvaldur, Birgir, Denni, Rúna, Ósk, Hjálmar, Brynja, Karl, Einar blómasali, Ólafur annálaritari, Kristján af Nesi, Bjarni Benz, Eiríkur og Benedikt. Svo var þýzkur félagi mættur sem ég man ekki nafnið á, e.t.v. Michael. Í útiklefa var hart sótt að Einari og hann spurður hvernig gæti staðið á því að hann hefði látið ritara grilla sig í hlaupi gærdagsins. Blómasali hafði engar haldbærar skýringar á þessu, en reyndi að leiða talið að mat.
Fólk ræður ekki fyllilega við þær aðstæður þegar þjálfarar eru ekki viðstaddir og kom fát á mannskapinn að vita ekki hvað bæri að gera. En á endanum var farið hægt af stað og víst voru allir sammála um að fara hægt og stutt. Ekki erfitt að halda það loforð enda flestir stirðir eftir átök gærdagsins. Benedikt hins vegar byrjaður að derra sig og farinn að æða áfram meir en góðu hófi gegnir. Einn nýbúinn að ljúka maraþoni.
Blómasalinn var ákveðinn í að standa sig í hlaupi dagsins eftir dembuna sem hann fékk yfir sig í útiklefa, leit vel út til að byrja með og var hann með fremstu mönnum. Við Bjarni héldum kompaní inn í Nauthólsvík og þá fór maður að velta fyrir sér: á að fara Hlíðarfót eða áfram? Ég hugsaði sem svo: Hlíðarfótur er fyrir lúsera, maður er rétt að byrja hlaup, á að fara að ljúka því? Þá var bara að halda áfram og taka vel á því.
Við sáum blómasalann ganga upp Hi-Lux, uppgefinn. Náðum honum og hann kvaðst vera búinn. Bjarni hvatti blómasalann til þess að gefast ekki upp, en halda áfram og gefa í upp brekkuna. Blómasalinn fór að tala um tvo 300 gr hamborgara sem hann hefði neyðst til að eta í hádeginu, auk hreindýrafilés sem hann hefði beðið ritara að hjálpa sér með, en ritari brugðist. Bjarni heimtaði að áfram yrði haldið upp brekkuna, ekki stoppað, gefið í.
Það var haldið áfram um kirkjugarð, Veðurstofu, Söng- og Skákskólann við Litluhlíð þar sem hann Biggi okkar lærði að þenja raddböndin, svo um Hlíðar, Rauðarárstíg og Laugaveginn tilbaka. Á þessum kafla fórum við Bjarni geyst, ógnuðum túristum og eldri konum. En einhvers staðar á þessari leið kom perlan: Það er hellingur af brúklegum kellíngum á Laugaveginum!
Stytzta leið um Miðbæ, Austurvöll, Túngötu og tilbaka á hröðu tempói. Bjarni hafnaði öllum tillögum um að slaka á og fara hægt, minnti á að minna en ár væri í næsta Flugleiðahlaup og ef einhvers árangurs væri að vænti þyrfti að gefa allt í brekkuna. Góður maður!
Teygt vel og lengi á Plani. Sem fyrr var Birgir í aðalhlutverki með leiðbeiningum sínum um jógaæfingar og heppilegar teygjur. Svo fóru menn inn sökum kulda og héldu áfram að teygja og beygja, Helmut með einkennilega teygju á vegg þar sem hann hékk sem köngurló fest á fingurbroddunum við dyraumgjörð. Birgir sá strax möguleikana á listrænni innsetningu og vildi fá aðstoð við að útfæra þemað í dansrænni tryllingu.
Svo var pottur. Ekki þarf að orðlengja að hann var kaldur og hlauparar orðnir bláir af kulda áður en yfir lauk. Denni bauð í Fyrsta Föstudag á Nesi af alkunnri rausn. Anna Birna átti afmæli og því varð að fresta gleði á Reynimel. Er komið var á Vallarbraut á Nesi hafði Denni kokkað yndæla fiskisúpu fyrir 20 manns, innihaldandi humar, skelfisk, krabbakjöt og annað góðgæti. Hins vegar létu aðeins þessir sjá sig: Bjarni, Helmut, Jóhanna, Birgir og Ólafur ritari. Miðað við rausnarskap bóndans á Nesi þá voru undirtektirnar ákveðin vonbrigði. Við áttum hins vegar ánægjulega stund á þessum vindasama stað og snörum þaðan betri menn (og konur).
7.5.2009 | 21:47
Icelandair-hlaupið 7. maí 2009 - þegar dr. Jóhanna vann!
Hvar á maður að byrja? Ég hitti Friðrik kaupmann í Melabúðinni í dag þegar ég fór að kaupa fiskinn minn. Hann tjáði mér að Biggi hefði komið óðamála fyrr um daginn og tilkynnt að hann ætlaði að melda sig og blómasalann til þátttöku í Icelandair-hlaupinu. Nú verða mér gleggri menn að útskýra fyrir mér af hverju Biggi þurfti að trufla Friðrik við dagleg störf sín í þágu heilbrigðra viðskiptahátta í Vesturbænum til þess að láta vita að þeir blómasalinn ætluðu að standa við það sem þeir hefðu verið löngu búnir að gefa út að þeir ætluðu að gera. Það leit út fyrir góða þátttöku Hlaupasamtakanna í hlaupinu.
Næst gerist það að ritari er mættur tímanlega í Vesturbæjarlaug og hringir í blómasalann til þess að heyra hvar hann sé staddur í tilverunni. Þá er hann djúpt sokkinn í viðskiptasamtöl, reynandi að telja mönnum trú um að kaupa járnplötur en láta prófílana eiga sig. Hann bauð mér far með þeim fóstrbræðrum, en það yrði minn sann enginn asi á þeim, þeir myndu ekki róta sér fyrr en 18:27, þegar Birgir kæmi að sækja hann. Ég minnti á kvöldtrafíkina. Ekki er ég frá því ég hafi heyrt svitann spretta fram í andliti járnhöndlarans og fann símalínuna rafmagnast af paníkk. Ég sagði blómasalanum að ég væri orðinn þreyttur á ævintýramennskunni sem umlyki ferðirnar með honum, og lyki ævinlega með því að maður missti af viðburðinum sem maður stefndi á.
Jæja, ég dóla mér í rólegheitunum út á Loftleiðir. Þar er múgur og margmenni farið að safnast saman, þótt blési og kalt væri í veðri. Sótti mitt númer og fékk melluband um hárið. Hitti Denna, settist hjá honum og átti við hann langt spjall um lífsins freistingar. Svo bara hrundi fólkið inn sem maður þekkti, Þorvaldur bróðir, Flosi, Dína duð frænka og ég veit ekki hvað og hvað. Ekki skulu félagar Hlaupasamtakanna sem tóku þátt í kvöld taldir upp hér, en vonandi getum við birt lista með nöfnum og tímum von bráðar.
Það var hitað upp með hlaupum ýmist fram og tilbaka eftir Flugvallarvegi eða upp í Hlíðina. Svo var hlaup ræst og ég ætla að ekki færri en 500 hlauparar hafi lagt í hann. Þetta var í lagi suður í Nauthólsvík, þá höfðum við vindinn í bakið. Ekki slæmt á leiðinni vestur úr út í Skerjafjörð, þá var hliðarvindur, en svo versnaði í því þegar þurfti að fara að kjaga á móti vindinum á Suðurgötu og svo aftur á Njarðargötu, það var erfitt. Tempó var hratt þegar í byrjun og var gott að vera búinn að hita upp og losna við að eyða orku í það við byrjun hlaups. Það er alltaf meiri metnaður í manni þegar maður þekkir hlaupara, bræður manns og vinir eru þarna einhvers staðar að baki og gætu tekið upp á þeim fjanda að fara að taka fram úr manni.
Svo virðist sem ritari sé í sæmilegu formi, hann náði að halda góðu og jöfnu tempói alla leiðina og lenti ekki í því að missa neinn fram úr sér sem máli skipti. Þegar komið var út á Flugvallarveg aftur var þó nokkur kraftur eftir í karlinum og hann átti góðan endasprett. Merkilegt hvílíkur sprengikraftur býr í líkam þessa útlifaða embættismanns! Endaði á tímanum 34:20 og var ánægður með það. Kom á óvart að sjá mér betri menn koma á eftir mér og kenni um of miklum fatnaði þeirra. Ég var nákvæmlega rétt klæddur í dag, hnésíðar buxur og langermatreyja, ekkert meira.
Þá var komið að bezta partinum: veitingunum. Ég var ekki þyrstur svo að ég fór beint í súpuna. Og HVÍLÍK SPRENGING BRAGÐLAUKANNA!!! Þótt ekki hefði annað komið til, þá hefði súpan verið mér næg réttlæting fyrir þátttöku í hlaupi dagsins. Þetta er með því bezta sem ég hef upplifað í almenningshlaupi á Íslandi frá því ég hóf þátttöku. Ég fékk aftur í dolluna og meira brauð með. Rakst á blómasalann þar sem hann var að reyna að kraka til sín tveimur pokum af sælgæti undir því yfirskini að hann ætlaði að gefa börnunum sínum litlu það heima. Stuttu síðar hitti ég blómasalann aftur og þá var hann búinn að rífa sælgætispokann sinn upp og búinn að gleyma því að hann ætti lítil börn heima í kotinu.
Jæja, aldrei hef ég nennt að bíða eftir vinningum, veit sem er að ég mun aldrei vinna neitt. Fór sem leið lá til Vesturbæjarlaugar og lá um stund í potti. Einn. Fór síðan heim til fjölskyldu minnar, harðla ánægður með frammistöðuna í kvöld. Þá er hringt. Á hinum endanum er blómasalinn og ekki langt undan heyrast skríkjurnar í Birgi. Þeir hrópa gegnum veðurgnýinn að dr. Jóhanna hafi unnið! Hún vann, hrópa þeir. Var hún í fyrsta sæti í sínum kvennaflokki? spyr ég. Nei, hún vann utanlandsferð fyrir tvo til áfangastaðar í Evrópu að eigin vali. Skilja mátti á þeim kumpánum að þeim þætti þetta merkilegra heldur en ef hún hefði unnið sinn kvennaflokk í hlaupinu sjálfu.
Í einu orði sagt: frábært hlaup! Við stóðum okkur öll vel!
Næst: Fyrsti Föstudagur, 8. maí, Vopnahlésdagurinn í Evrópu. Vel mætt: tilkynnt um venue í hlaupi.
6.5.2009 | 20:42
Sjóbað - og maður fer að þekkja sjálfan sig og félagana
Lagt upp á hægu tempói sem breyttist í hratt á svipstundu á Sólrúnarbraut þegar bræður tveir geystust áfram eins og um kapphlaup væri að ræða. Með þeim Birgir, Björn og Bjarni. Gekk þetta svo langt að Margrét hrópaði skipanir á okkur að fara hægar. Það var tempó út í Nauthólsvík. Þangað komin snerum við niður að sjó, ég og Biggi, stuttu síðar komu Helmut, Kári, Kalli og Anna Birna, sömuleiðis var blómasalinn að snövla í kringum okkur en fór ekki í sjóinn. Við hin skelltum okkur í sjóinn, utan hvað Kári fór ekki alveg oní og fær því ekki fullt Kvaransstig fyrir. Aðrir flottir og er maður farinn að þekkja sitt fólk aftur. Þarna var margt fólk og greinilegt að hér er komin mikil tízka og fín.
Við Biggi, Kalli og blómasalinn fórum um Hlíðarfót tilbaka, Helmut; Kári og Anna Birna sömu leið tilbaka aftur og átti að fara hluta leiðar berfætt. Segir fátt af hlaupurum, utan hvað sprett var úr spori á beina kaflanum við flugbrautarendann.
Löng seta í potti. Þarna gerðust hlutirnir. Fljótlega birtust hlauparar sem höfðu farið Þriggjabrúahlaup, Hjálmar, Jörundur og Friðrik kaupmaður. Þriggja ára verðandi Hagskælingur hélt saungskemtun í potti sem hefði verðskuldað að minnsta kosti 25 aura í þektu skáldverki. Uppskar mikið lófaklapp og húrrahróp fyrir og hvarf á braut bukkandi sig og beygjandi, þakkaði fyrir sig og kvaddi.
Næst: Fyrsti Föstudagur - meira á hlaupadegi.
4.5.2009 | 20:55
Mánudagur - Brekkusprettir
Sprett úr spori í Bakkavörinni og munu hafa verið teknar einar 11. Ritari nennti þessu ekki eftir fimmtu ferð, en hélt áfram um Kallabrekku og Lindarbraut og lét gamminn geisa á Norðurströndinni. Tel ég að þar hafi eigi verið farið yfir 5 mín. tempói. Aðrir hlauparar fóru stytztu leið til Laugar og enduðu á innan við 10 km - ritari fór rétt um 11. Magnús Júlíus mættur óhlaupinn, en uppfullur af glensi sem ekki er hafandi eftir. Þar var sjósundsfólk á ferð sem vakti mikla aðdáun Birgis, og þurftu viðstaddir að minna hann á að hann væri sjálfur sjósundsmaður og nagli.
Þegar komið var tilbaka hafði veður breytzt til hins betra og var dottin á góðviðrisblíða. Biggi tók jógastöðu sem er öndverð við það er gengur og gerist: á haus. Hélt henni dágóða stund. Teygt vel og lengi og gert góðlátlegt grín að einstökum félögum sem upp á slíkt bjóða. Margt fróðlegt úr fortíð einstakra hlaupara kom fram hér, en verður ekki tíundað af virðingu fyrir fjölskyldum þeirra. Áfram var haldið í potti í sama anda, en auk þess snerist umræðan um hagfræði og kvöldmat.
Í gvuðs friði, ritari.