Fámennt á vindasömum föstudegi

Sjö voru mættir til föstudagshlaups í dag: Kalli, Flosi, Magnús, Einar blómasali, dr. Jóhanna, Jörundur og Ólafur ritari. Kári var áttundi, en hljóp einn. Fremur kalt í veðri og nokkur vindur austanstæður, ekkert veður fyrir bera handleggi. Við þessir helztu vorum mættir á góðum tíma og búnir að hita upp þegar blómasalinn kemur æðandi og heimtaði að biðið yrði eftir sér. Ritari svaraði um hæl: "Hér verður ekkert beðið. Við erum búnir að vera í startholunum í hálftíma!" Þá sagði blómasalinn: "Hver setti upp nýju blöndunartækin fyrir þig?" Ritari þagði. Líklega verður minnst á blöndunartækin á heimili ritara eitthvað fram á sumarið.

Við Magnús fórum af stað á undan hinum, en fórum rólega svo að þau gætu náð okkur. Við dóluðum okkur þetta og rifjuðum upp nokkrar gamlar, fallegar sögur úr hlaupum Samtakanna. Það var ekki fyrr en við vorum komnir að Hi-Lux að við sáum aðra hlaupara, líklega voru einhverjir þreyttir eftir ÍR-hlaupið í gær, sem þó var aðeins 5 km. Rifjuð upp prýðileg frammistaða okkar bezta fólks: Möggu, Rúnars, Tuma, Óskar, Hjálmars og Sifjar. Einhverjir vildu vita í hvaða sæti Björn hefði lent, en enginn gat upplýst um árangur hans í hlaupinu, virðist sem hann hafi ekki skráðst.

Þegar upp var komið í Öskjuhlíðina fórum við Magnús að róa okkur, það var nauðsynleg losun líkamsvessa efra og á meðan náðu hin í hópnum okkur, eftir það var hlaupið í einum hópi, utan hvað Flosi kaus að vera einn. Umræður snerust eðlilega um pólitíkina og kosningarnar sem framundan eru. Sótt fast að Jörundi um skattamál og Evrópusambandið. Jörundur er hlynntur hruninu, á meðan fær náttúran að vera í friði og menn geta einbeitt sér að því að uppræta lúpínuna. Sandstígar fá að vera í friði og ekkert nýtt malbik bætist við.

Farið hefðbundið um Hlíðar, Klambratún og á Hlemm - þar var ákveðið að fara Laugaveg og telja tómu búðaplássin. Ritari taldi vinstra megin, blómasali hægra megin. Niðurstaðan: 31, þó ekki ljóst hvort telja bæri Óðal með. Jörundur taldi að með banni við nektardansi væri starfsemi þar fallin niður, ritari taldi að þar mætti kaupa sér eitthvað að drekka. Taldi Jörundur það ekki vera meginatriði í starfsemi staðarins og því bæri að líta svo á að grundvallarbreyting væri orðin á. Við horn Austurstrætis og Ingólfstorgs stóð útúrdrukkið ungmenni íklætt mörgæsarbúningi, gjörsamlega stjarfur og vissi hvorki í þennan heim né annan. Þetta er víst æska landsins, tákngervingur menntunar í landinu - það var dimmisjón í dag.

Við tókum Túngötuna á rólegu tempói, en létum eiga sig að vera að hrella garðeigendur í Vesturbænum með því að vera að rífa afleggjara af gróðri. Teygt þokkalega í Móttökusal. Anna Birna mætt.

Einar var óvenjulega prúður í potti, blandaði sér ekki í neina detox-umræðu, sem varð býsna nákvæm og detaljeruð hefð samkvæmt. Áður langt var liðið stóðu tvær ungar blómarósir upp og yfirgáfu pott, köstuðu kveðju á blómasalann. Kom þá í ljós að í potti höfðu setið vinkonur dótturinnar og hann af þeim sökum verið sérstaklega varkár í tali.

Næst hlaupið í fyrramálið kl. 9:30 og farið langt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband